18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

330. mál, símaafgreiðsla vegna brunavarna, læknisþjónustu og löggæslu

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans. Ég heyrði að hann hafði ekki að fullu gengið frá því hvernig hann mundi taka á þessu máli, en ekki var þó hægt að skilja hann öðruvísi en að hann væri mjög jákvæður til málsins. Hann sagði, að hann mundi fela undirmönnum sínum að undirbúa þetta mál, og gleður mig mjög að heyra að úrbætur í þessum efnum kunni að vera í vændum. Ég vil taka það fram, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, eru búnir að bíða æðilengi eftir úrbótum á þessu sviði, búnir að bera fram umkvartanir sínar á mörg undanfarin ár og ég reikna með að þeir hafi þolinmæði til að biða eftir því í kannske nokkrar vikur eða svo að ráðh. athugi þetta mál frekar og undirbúi till. um það efni. En ég geri ráð fyrir því að mönnum þætti verr ef spursmálið yrði um árabil, eins og mátti skilja á seinustu orðum hans. Vil ég eindregið vænta þess að biðin verði ekki svo löng, heldur komi þetta til framkvæmda hið allra fyrsta.

Eins og fram kom í svari hans hafði útreikningur á kostnaði við þetta verið miðaður við símstöðina á Sauðárkróki, enda má vera að þaðan hafi borist meiri kvartanir en annars staðar frá, þó að fsp. mín væri ekki endilega tengd Skagafirði eða Sauðárkróki. En ég tel alveg sjálfsagt mál ef leiðrétting fæst fyrir skagfirðinga í þessum efnum, að þá fylgi aðrir í kjölfarið og ekki verði um neina mismunun að ræða.

Ég vil að lokum þakka hæstv. ráðh. fyrir jákvæð svör og bera fram þá eindregnu ósk að ekki verði um langa bið að ræða eftir því að þessum málum verði kippt í lag.