18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

332. mál, hitaveita á Hólastað og í nágrannasveitarfélögum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 350 er fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. v. um hitaveitu á Hólastað og stuðning landbrn. við þá framkvæmd. Í sambandi við þetta mál þykir mér rétt að rekja í örfáum orðum þær aðgerðir sem hafa verið gerðar í sambandi við athugun á heitu vatni í Hjaltadal.

Árið 1966 gekkst þáv. skólastjóri á Hólum, Haukur Jörundsson, fyrir því að sérfræðingar í jarðhitadeild Orkustofnunar, Jón Jónsson jarðfræðingur, kannaði möguleika á því að afla jarðhita til upphitunar og annarra nota á Hólastað. Fyrsta athugun Jóns náði yfir Hjaltadal frá Reykjum niður fyrir Kálfsstaði. Að þessari frumathugun lokinni voru gerðar mælingar umhverfis Hólastað og í landi Kálfsstaða. Þær mælingar gáfu það jákvæða raun, að ráðist var í að framkvæma jarðboranir til frekari könnunar. Fyrst var boruð hola á Hólatúni árið 1966. Var hún rúmlega 100 m djúp. Þegar hér var komið sögu þótti álitlegra að reyna aðra borun. Var það gert árið 1967. Nú var borað við volga uppsprettu í Kálfsstaðalandi. Mælingar gerðar veturinn 1966–67 á nefndri volgru sýndu mesta hita 14 stig þegar minnst var vatnið í lindinni. Í upphafi borunar kólnaði holan, en tók síðan að hitna aftur og þegar var komið í ca. 240 m dýpt var hitinn kominn í um 20 gráðu hita. Með sama framhaldi var talið að bora þyrfti í ca. 800 m dýpt áður en nægilegur hiti fengist á vatni til væntanlegra nota á Hólum.

Á þessum árum var olíuverð svo hagstætt að þá var horfið frá frekari borun. Einnig kom annað til. Bæði Kálfsstaðir og Reykir voru vestan Hjaltastaðaár, en Hólar austan. Brú fyrir heitavatnspípu hefði orðið dýr. Kálfsstaðir eru í tæpra 2 km fjarlægð, en Reykir í 8 km fjarlægð frá Hólum. Einnig má geta um laug í Hofsdal, í 4–5 km fjarlægð frá Hólum.

Mjög er staðan breytt frá árinu 1967 hvað snertir horfur á hagkvæmni hitaveltu fyrir Hóla. Brú er komin á Hjaltastaðaá skammt frá Hlíð. Olíuverð hefur margfaldast. Hvað líður hækkun á stofnkostnaði skal ósagt látið. Full ástæða er til að láta fram fara nýja könnun á möguleikum á því að gera hitaveitu fyrir Hóla og ekki aðeins þá, heldur og fyrir þá hreppa, sem nefndir eru í fsp., og a. m. k. einhvern hluta líka af Viðvíkursveit.

Í sambandi við þetta mál vil ég geta þess, að hliðstæðar framkvæmdir standa fyrir dyrum á Hvanneyri. Nú er hafið samstarf um virkjun Deildartunguhvers. Að því standa Borgarneshreppur, Hvanneyrarstaður, Reykholtshreppur að nokkru, Andakílshreppur og e. t. v. síðar meir Akranes og fleiri sveitarfélög sunnan Skarðsheiðar. Af hálfu landbrn. er talið mikils virði að af þessum framkvæmdum verði og Hvanneyri eigi þar fulla aðild að. Sama máli gegnir um Hóla. Ef málið reynist hagkvæmt og samstaða næst um framkvæmd þess mun landbrn. styðja Hólastað í hitaveituframkvæmdum.

Þetta svar vona ég að nægi hv. fyrirspyrjanda um þetta efni.