18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

185. mál, vinnutími sjómanna

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um spyrst hann fyrir um hvort n. sú, sem þál. samþ. á Alþ. 16. maí 1972, um vinnutíma sjómanna, gerði ráð fyrir að skipa, hafi starfað, og ef svo er, hvenær megi vænta niðurstöðu af störfum hennar. Þál. sú, sem hv. þm. nefnir í fsp. sinni, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta.

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa n., sem í eiga sæti m. a. fulltrúar sjómanna og útvegsmanna, til að athuga möguleika á lagasetningu um vinnutíma og orlof fiskimanna.“

23. nóv. 1972 skipaði þáv. félmrh. eftirtalda menn í n. í samræmi við umrædda þál. Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, form. Gunnar Hafsteinsson útgerðarmaður, tilnefndur af LÍÚ.

Ingólfur Stefánsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands.

Tryggvi Helgason sjómaður, tilnefndur af ASÍ.

Valtýr Hákonarson skrifstofustjóri, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands.

Formaður n., Hjálmar Vilhjálmsson fyrrv. ráðuneytisstjóri, hefur tjáð rn. að n. hafi ekki komist að samkomulagi um umrædda lagasetningu og telur hann þýðingarlaust að halda starfi n. áfram. Í bréfi 14. mars — 14. þ. m. gerir hann eftirfarandi grein fyrir starfi nefndarinnar:

N. hefur nú setið 9 fundi. Á fundum þessum hefur spurningin um möguleika á breyt. l. um vinnutíma og orlof fiskimanna verið rædd allmikið. Þrátt fyrir þessi nefndarstörf hefur n. enn ekki komist að samkomulagi varðandi umrædda lagasetningu um vinnutíma og orlof fiskimanna.

Hugmyndir, sem form. samdi sem drög að frv. um vinnutíma og orlof, voru lagðar fyrir n. í des. 1973, en hafa verið lítið ræddar. Fulltrúar undirmanna hafa óskað lagasetningar um þessi efni og hafa lagt fram till. senn eru í meginatriðum í samræmi við gildandi samninga, en geta þess jafnframt að till. þessar hafi verið bornar fram í trausti þess að samkomulag næðist. Fulltrúi yfirmanna lætur óátalið lagasetningu um þessi efni, en er mótfallinn refsiákvæðum eldri laga. Fulltrúar útgerðarmanna lýsa sig andvíga lagasetningu, en telja málum þessum betur borgið eingöngu í kjarasamningum vegna hinna breytilegu aðstæðna á hinum ýmsu stærðum fiskiskipa og breytilegra veiðiaðferða þeirra.

Samkvæmt framansögðu telur n, útilokað að hún geti komist að sameiginlegri niðurstöðu um verkefni sitt.“

Þetta er skýrsla n. sem skipuð var til þess að athuga möguleika á lagasetningu um vinnutíma og orlof fiskimanna.