18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því máli, sem hér er til umr., vil ég aðeins láta það koma fram í fyllstu kurteisi og í fullri vinsemd við hæstv. forseta, að ég er ekki í fyllsta máta ánægður með það hvernig fundartíum Sþ. er varið, þ. e. a. s. að fsp, skuli alltaf hafa forgang umfram þáltill., eins og gerst hefur nú undanfarið. Mér er það fyllilega ljóst að fsp. fluttar í Sþ. eiga fyllsta rétt á sér, eru eðlilegur vettvangur fyrir Alþ. að sinna og eru nauðsynlegar, en ég dreg það mjög í efa að þær séu mikilvægari en þáltill., eins og virðist koma í ljós hjá hæstv. forsetum þingsins, þar sem þeir velja fsp, ávallt fyrsta fundartíma á fundardögum Sþ. Ég vil eindregið leggja til að reynt sé að hafa þann háttinn á því að öðrum af fundardögum Sþ, í viku hverri sé tekin undir fsp, og þá annar dagur tekinn til að ræða þáltill., svo að það gerist ekki æ og aftur að þáltill. hálfgert dagi uppi í dagskrá þingsins. Og ekki fleiri orð um það.

Það urðu nokkrar umr. um þessa þáltill., sem við þm. Alþfl. flytjum nú enn einu sinni, á fundi Sþ. fyrir nokkru og kom þar yfirleitt fram nokkur gagnrýni á þessa þáltill. frá þeim sem töluðu þar öðrum en 1. flm, hennar, hv. þm. Benedikt Gröndal. Ég vil víkja nokkrum orðum að þeirri gagnrýni, sem þar kom fram, og þá fyrst að því sem hv. 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, sagði við þá umr., en hann stóð upp til þess raunverulega að verja, ef svo má að orði komast, rétt þeirra þéttbýlismanna, fjársterkra þéttbýlismanna, sem kaupa jarðir úr búskap, grisja land með því að kaupa bændur upp af búum sínum og taka jarðirnar til annarra nota. Hann viðhafði þau orð að þeir gerðu þetta af því að þeir tryðu á að landið væri verðmætt. Það er nú svo um þá trú.

Bóndinn, sem ræktar sína jörð, trúir á landið þannig að hann trúir á gróðurmátt þess. Hann trúir á að hann geti nytjað það til þess að framfleyta heimili sínu og sjálfum sér. Hann trúir á það að hann geti hagnast á ræktun og byggingu landsins. Sá fjársterki íbúi í þéttbýli, sem kaupir bónda upp af bújörð sinni til þess að taka jörðina úr byggð og nýta hana til annarra nota, trúir ekki á gróðurmátt landsins, hans trú er annan veg farið en trú bóndans, sem yrkir sína jörð. Trú hans er sú að hann geti hagnast á þörfum annars fólks til þess að njóta náttúrugæða, svo sem veiðiréttar, svo sem lóða undir byggingar, svo sem jarðhita eða annars slíks. Þegar bóndinn trúir á gróðurmátt jarðarinnar, þá trúir peningamaðurinn í þéttbýli, sem kaupir bóndann upp af bújörð sinni, ekki á gróðurmátt jarðarinnar heldur á æxlunarmátt lausra aura.

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli segir einhvers staðar í einu kvæða sinna um bóndann og hans líf : „Tíu krónur og trúin á landið er allt sem ég á.“ Eigum við ekki að segja að trú þeirra fjársterku þéttbýlismanna, sem kaupa bónda upp af bújörð sinni til þess að taka hana til annarra nytja en búskapar, sé talsvert á aðra lund farið heldur en Guðmundur Ingi lýsir í þessu kvæði sínu, að þeir hafi öllu fleiri krónur en 10, en öllu minni trú á landið.

Hingað til hefur þetta mál verið aðallega og fyrst og fremst rætt út frá þeirri forsendu að það væri eingöngu fjallað í þessari þáltill. um eignarráð á gróðurlandi, þ. e, a. s. eignarráð á landi sem er í ræktun eða er ræktanlegt eða nytjanlegt til búskapar. Þetta er hin mesta firra. Þetta er aðeins einn þáttur af málinu öllu. Við flm. þessarar þáltill. erum sammála þeim, sem töluðu við fyrri umr. þessa máls, um að bændur, sem vilja nytja sínar bújarðir til búskapar, eigi að eiga þær jarðir og hafa fullan umráða- og eignarrétt á þeim ef þeir kjósa það fremur en hafa þau lönd á erfðafestu. Þetta kemur raunar beint fram í tillgr. sjálfri eins og vitnað hefur verið til. Við deilum ekki um það við þá, sem hér töluðu við fyrri umr. málsins, að þetta skuli rétt vera svona, að bóndinn eigi það land sjálfur sem hann byggir og nytjar ef hann kýs það fremur. En þessi þáltill. víkur að ýmsu öðru sem þeir, sem töluðu hér áður, viku ekki í löngu máli að. Hún víkur m. a. að því að tryggja almenningi frjálsan aðgang að náttúru landsins sér til upplyftingar og heilsubótar. Hún fjallar m. a. um það, hvernig á að nytja ýmis náttúrugæði, svo sem, veiðirétt, jarðvarma, orku fallvatna og annað slíkt. Á að nytja það í þágu þjóðarheildarinnar, eiga þessi náttúrugæði landsins að vera þjóðareign eða eiga þau að vera í eign örfárra íslendinga, sem því miður eru alls ekki allir bændur, heldur í síauknum mæli fjársterkir peningamenn úr þéttbýli sem hafa verið undanfarin ár að grisja byggðina í landinu í því augnamiði að geta síðar auðgast á þörfum almennings í þéttbýli með einum eða öðrum hætti ? Ég vík e. t. v. að þessu máli síðar í minni ræðu og geri því þá frekari skil. En ég vil benda á að það er þessi þáttur málsins, sem að sjálfsögðu er veigamesti þáttur þess, en varla að það væri vikið að honum orði af þeim sem töluðu hér áður.

Hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, spurði m. a. að því hér í ræðustól hvers vegna slík till. væri flutt. Svarið er að sjálfsögðu það, að hún er flutt vegna þess að það er þörf á því að gera þær ráðstafanir, sem hún leggur til að gerðar verði. Hv. þm. spurði einnig: Nýtur þessi till. fylgis? Nýtur það fylgis sem með henni er verið að leggja til að gera? Hann svaraði því sjálfur, hv. þm., vegna þess að hann hvatti mjög til þess að þáltill. yrði nú afgreidd frá Alþ. í eitt skipti fyrir öll og þá væntanlega felld, vegna þess að sú hætta blasti við, sagði þm., að með hverju árinu sem liði án þess að till. þessi yrði felld, þá væru fleiri og fleiri í hópi almennings sem með hans orðavali „glæptust“ til fylgis við málið. Þetta sýnir að hv. þm. metur það rétt að eftir því sem reynslan sker gleggra úr um að þörf sé á svipuðum ráðstöfunum og lagðar eru til í þessari þáltill., eftir því eykst fylgi almennings við hana. Það er t. d. ólíku saman að jafna hve miklu meira hefur verið talað um þetta mál nú á síðari árum og hve miklu fleiri hafa lýst fylgi sínu við þá stefnu, sem þar er mörkuð, nú á síðari árum heldur en fyrst þegar þáltill. þessi kom fram. Það er auðvitað vegna þess að sífellt fleiri gera sér ljóst, sjá af reynslunni að nauðsynlegt er að gripa til aðgerða eins og þeirra sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir, og þeir lýsa yfir fylgi sínu við það meginstefnumál. Það er þetta sem hv. 2. þm. Norðurl. v. óttast svo mjög. Það er þetta sem hann vill koma í veg fyrir með því að skora á þm. að koma þessu máli nú fyrir í eitt skipti fyrir öll hér á Alþ.

Hv. þm. sagði einnig að í till. þessari fælist einhver sú mesta aðför að eignarréttinum sem gerð hefði verið. Þetta er allsendis rangt. Þessi till. gerir ekki ráð fyrir neinni slíkri aðför að eignarrétti manna. Hún gerir þvert á móti ráð fyrir því að sé um einhverja eignaupptöku að ræða samkv. gildandi l., þá komi fullt gjald fyrir og er það raunar skýrt tekið fram, bæði í tillgr. sjálfri, síðustu mgr. hennar, og eins í þeim orðum sem þm. Alþfl. hafa látið falla þegar þeir hafa mælt fyrir þessu máli, þannig að það er allsendis rangt að þessi till. feli í sér aðför að eignarrétti manna. Það er svo aftur á móti annað mál og þessari þáltill. gersamlega óskylt að það er e. t. v. tímabært að taka nú upp nýja skilgreiningu á eignarréttinum í landinu, þ. e. a. s. hvernig menn komist að eignum og hvernig menn og hversu lengi menn geta talið sig hafa eignarhald á ákveðnum. hlutum. Við vitum það t. d. íslendingar, að það eru einkenni fyrir íslensk fyrirtæki hversu óvenjulítið eigið fé er bundið í rekstri þeirra. Til eru dæmi um það að þegar menn kaupa sér stórvirk vinnutæki, þá fái þeir allt að 85–90% af kaupverðinu að láni af almannafé. Gangi þeim erfiðlega að reka þessi fyrirtæki fá þeir rekstrarstyrki með einu eða öðru móti, einnig úr almannasjóðum. Og það er spurning: Á þessi litli hlutur, sem þessi svokallaði eigandi leggur frem, að geta gert honum kleift að teljast eigandi að lögum að þessu atvinnufyrirtæki, geta haldið því með styrk af almannafé e. t. v. í 3–4 verðbólguár, selt svo þessa eign sína með miklum ágóða vegna rýrnandi verðgildis krónunnar og geta svo, ef hann kærir sig um að hætta atvinnurekstri sínum og selja þessar eignir, verið búinn að hagnast um talsvert miklar fjárfúlgur fyrir það sem almenningur með einu eða öðru móti hefur látið honum í té? Það kann að vera ástæða til þess í ljósi þessarar reynslu, sem er á allra manna vitorði, að taka eignarréttarhugtakið til endurskoðunar í íslenskri löggjöf. En það er allt annað mál en hér er fjallað um og þessari þáltill. allsendis óskylt. Vík ég þá að henni aftur.

Meginatriðið í þessari þáltill. er að færa eign þeirra náttúruauðlinda, sem tvímælalaust í hugum manna og samkv. almennri réttlætiskennd í landinu eru þjóðareign, úr eigu einstaklinga í eigu þjóðarinnar sem byggir þetta land. Ég tek það enn og aftur fram að till. gerir ráð fyrir því að þarna komi fullar bætur fyrir þannig að ekki er verið að fremja þarna neina glæpsamlega aðför að eignarréttinum. Gert hefur verið tilkall til þess, eins og menn vita, af mjög fámennum hópi manna og það er langt í frá að í þeim hópi séu eintómir bændur, síður en svo, — þessi hópur manna hefur gert tilkall til þess að geta talið sig eiga allt nytjanlegt land á Ísland, öll hlunnindi, allan veiðirétt, allan jarðvarma sem ekki er skýlaust í eigu ríkisins eða sveitarfélaga eða almannasamtaka. Það er meira að segja mjög vafasamt, hversu langt þessi einkaeignarréttur á landi og landgæðum nær, eins og menn vita, því að það hefur farið fram og mun sjálfsagt á næstu árum í enn auknum mæli fara fram málarekstur fyrir dómstólum í sambandi við eignarhald á landi. En hitt er alveg gefið mál, að eins og málin standa núna, þá liggur það engan veginn hreint fyrir hvaða landssvæði t. d, geta talist í eigu einstaklings og hvaða landssvæði getur talist í eigu almennings, ríkis eða sveitarfélaga. Það má segja að þessar deilur um, hvað einstaklingarnir eigi og hvað almenningur í landinu eigi, hafi ekki skipt sköpum um afkomu þjóðarinnar þar til þá fyrst nú, og dæmi höfum við mörg fyrir okkur sem eru að gerast á Íslandi í dag og gera það að verkum að það verður æ meira knýjandi að skera úr um þetta deilumál. Það eru aðstæður eins og t. d. veiðiréttur og veiðinytjar, það eru aðstæður eins og t. d. nýting á jarðvarma, hitaorku, orku fallvatna o. fl.

Það var upplýst hér fyrr, þegar var verið að ræða um þetta mál af 1. flm. þess, hv. þm. Benedikt Gröndal, að lögfræðingar ákveðins jarðeiganda hér á Íslandi, sem stendur nú í samningum um hitaréttindi við sveitarfélag, hafi gert tilkall til þess að heita vatnið, sem á að verja í sveitarfélagsins þágu til þess að hita upp íbúðarhús manna, yrði verðlagt á við olíu. Ég vil bæta við þessar upplýsingar því, að þetta er ekki alveg nýtt mál, því miður. Nú þegar hafa tvö sveitarfélög á Íslandi gert samninga við jarðeigendur sem teljast eiga jarðvarma, að verðið á heita vatninu, sem þessi sveitarfélög fá, skuli metið eftir ákveðnu hlutfalli til jafns við olíuverð. Mér er ekki kunnugt um hversu hátt þetta verðmiðunarhlutfall er, en mér er aftur á móti kunnugt um að þetta hefur valdið þessum sveitarfélögum talsvert þungum búsifjum og nú standa yfir samningar milli annars þessara sveitarfálaga og þeirra, sem jarðhitann telja sig eiga, um að reyna að greiða eitthvað úr þessu máli. Það er því orðið augljóst að ef eins og nú standa sakir örfáir menn geta talið sig eiga náttúruauðlindir, sem allur almenningur á Íslandi hefur talið og telur að hljóti að vera eign alþjóðar, að ákveðnir örfáir jarðeigendur geta talið sig eiga þessar auðlindir og talið sig geta sett fram kröfur um að almenningur á Íslandi, sem einn getur nytjað þessar auðlindir og hefur þörf fyrir að nytja þær, eigi að gjalda fyrir þær álíka verð eða eitthvert hlutfallslegt verð á við það sem arabar ákveða á sinni olíu, þá held ég að tími sé kominn til að sporna við fótum.

Það eru mál af þessum toga spunnin sem eru þungamiðjan í þessari þáltill., en ekki deila um hvort bændur, sem yrkja sínar jarðir, eigi að fá að eiga þær og nota þær frjálst og óháð til búskapar eða ekki. Um það er ekki deila af okkar hálfu, og mér finnst það satt að segja vera nokkur ábyrgðarhluti að reyna að kasta því ryki í augu almennings að þessi þáltill. snúist fyrst og fremst um að taka bújarðir af bændum, sem yrkja sínar jarðir, en reyna að fela hitt, sem er meginkjarni málsins, að ýmsar náttúruauðlindir, sem allur almenningur telur samkv. sinni réttlætiskennd að hljóti að vera þjóðareign, skuli geta verið taldar í eigu örfárra manna sem hugsa fyrst og fremst um að hagnast á þeim, að hagnast á því að almenningur þarf á þessum auðlindum að halda. Ég hlakka satt að segja ekki til þess, ef Ísland ætlar að vera eitthvert smávegis módel eða minitúrmynd af þeim orkuvanda sem uppi er í heiminum, þ. e. a. s. að deila fari annars vegar þéttbýlissveitarfélög og hins vegar örfáir jarðeigendur um jarðvarma og virkjunarrétt með svipuðum hætti og almenningur í útlöndum deilir nú við olíufursta í arabalöndum um verðlag á olíu og öðru slíku brennsluefni. Ég held, að það sé ekki fögur framtíðarsýn sem þá mundi blasa við okkur íslendingum ef slíkt færi að gerast hér á landi, eins og raunar þegar er byrjað að votta fyrir.

Eins og öllum er kunnugt hefur talsvert borið á því undanfarin ár og raunar undanfarnar aldir, sem íslendingar hafa byggt sitt land, að mikil rányrkja hefur verið stunduð á grónu landi og þá e. t. v. fyrst og fremst, hin síðari ár a. m. k., á afréttarlöndum. Það hafa verið gerðar talsverðar tilraunir til þess að bæta úr þessu. Árið 1969 var settur lagabálkur þar sem m. a. voru ákvæði um itölu. Hér er um heimildarákvæði að ræða sem upprekstarfélög, að mig minnir frekar upprekstrarfélög en hreppsfélög, geta tekið upp og beitt, — þ. e. a. s. ef þau telja að um ofbeit sé að ræða á afréttarlöndum, þá veita þessi lög þeim heimildir til þess að beita ítölu til þess að koma í veg fyrir ofbeit á afréttarlöndum. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur því miður verið mjög lítið að því gert að beita þessum heimildarákvæðum og ef marka má blaðafregnir af þessu, sem eru kannske ekki alltaf fulláreiðanlegar, en gefa þó oft mjög raunsanna mynd, þá blasir það ástand við nú og hefur blasað við lengi að á flestum stöðum á íslandi er um ofbeit að ræða á afréttarlöndum samkv. könnun á gróðurfari sem gerð hefur verið af sérfróðum mönnum, þannig að þrátt fyrir þessi heimildarákvæði frá 1969 hefur ekki tekist að stemma stigu við þeirri rányrkju sem stunduð hefur verið á upprekstrarlöndum.

En nú hefur einnig verið gripið til annars ráðs. Nú hefur verið gripið til þess ráðs að þjóðin eða réttara sagt Alþ. hefur samþ. að þjóðin skuli verja miklum fjárfúlgum, 1 000 millj. kr., til þess að græða sár landsins, til þess að reyna að gjalda fyrir það sem illa hefur verið við vort land gert af gengnum kynslóðum og þeirri sem enn lifir. Ég vil benda sérstaklega á að þegar þetta mál var á dagskrá, þegar þjóðinni var tilkynnt um þá afmælisgjöf sem hv. Alþ. lagði fyrir hana að gefa sjálfri sér á 1100 ára afmæli byggðar í landinu, þá var þjóðinni sagt: Þið eigið að gera þetta, mín ágæta þjóð, til þess að bæta ykkar land. En óski þessi sama þjóð eftir því að fá frjálsan og óhindraðan aðgang að þessu landi, að fá að nýta náttúrugæði þess sér til þarfa án þess að gjalda of mikið fé fyrir, þá er þetta ekki lengur í munni margra ykkar land, þjóðarinnar land, heldur okkar land, landeigendanna land. Þegar þjóðin þurfti að leggja mikið fé fram til þess að græða sár landsins, þá var þetta land þjóðarinnar. En þegar þjóðin þarf að fá að nytja þetta land, þegar þjóðin biður um að fá frjálsan aðgang að þessu landi, þegar þjóðin fer fram á að fá að nýta náttúrugæði þess til eigin þarfa, þá rísa menn upp og segja: Þetta er ekki land þjóðarinnar, þetta er land örfárra einstaklinga sem teljast geta haft á því full eignarráð og geta nýtt það eins og þeir vilja og geta gert þjóðinni að borga stórfé fyrir.

Við viljum líta á landið sem sameign þjóðarinnar allrar. Þannig verður einnig að vera um hnútana búið og þeim mun meiri ástæða að svo sé þegar það gerist í fyrsta lagi að fámennur hópur manna noti landgæði til þess að hagnast stórlega á þeim á kostnað almennings og í öðru lagi að þróunin er sú í auknum mæli að landssvæði eru notuð í öðrum tilgangi en þeim að stunda á þeim búskap, þ, e. a. s. þegar fjársterkir menn í þéttbýli leika sér að því að grisja byggðina í landinu með því að kaupa bændur upp af búum sínum, leggja þessi býli svo í eyði í þeirri von að þeir geti hagnast — ekki á nýtingu landsins, ekki á gróðurmætti þess, ekki á að stunda þar búskap, heldur á því að selja almenningi annaðhvort byggingarlóðir, hitarétt, jarðvarma, hugsanlega orku fallvatna, veiðiréttindi og annað eftir því. Það er mjög mikið — og það vil ég, taka sérstaklega fram og leggja áherslu á — það er mjög mikið sem skilur á milli landeigendanna. bændanna annars vegar, sem yrkja sínar jarðir, og hins vegar þeirra fjármagnsmanna úr þéttbýli, sem kaupa bóndann upp af jörð sinni, hrekja hann þaðan í burtu, grisja byggðina. leggja hugsanlega eða a. m. k. gætu lagt heilar sveitir í eyði í þeirri von að þeir gætu hagnast. ekki á landinu sjálfu, ekki á þeirri trú, sem Guðmundur Ingi Kristjánsson lýsti í kvæði sínu, heldur trúnni á að þeir kynnu að geta gert sér aura úr þeim hlunnindum, sem jörðunum fylgja.

Það hefur komið fram og kemur m. a. fram í grg. þessarar þáltill., að jafnvel í löndum eins og Bandaríkjunum og Kanada, sem eru forustulönd kapítalismans í okkar ágætu veröld. sé ekki jafnlangt gengið í þessum efnum og hér á Íslandi. Ég get t. d. skýrt frá því að öll veiðivötn í Kanada, og þau eru mörg, eru í eigu ríkisins eða réttara sagt eru í eigu þjóðarinnar. Þar er málum þannig fyrir komið að þeir, sem t. d. hafa áhuga á veiðiskap, geta keypt sér árskort fyrir 3 dali. 3 kanadiska dali, og stundað veiði í hvaða vatni sem þeir vilja með fjölskyldu sína allt árið um kring. Mönnum finnst e. t. v. fjarstæða að tala um slíkt hér á Íslandi því að við erum svo vanir því að hér sé eftirspurnin eftir veiði miklum mun meiri en framboðið. En menn skyldu athuga annað í því sambandi. Ungur maður, sérfræðingur í fiskræktarmálum. sem starfar hjá Veiðimálastofnuninni og heitir Jón Kristjánsson, hefur undanfarin ár verið að gera rannsóknir á veiðivötnum sem ekki hafa áður verið gerðar hér. Þær rannsóknir hafa verið ákaflega athyglisverðar vegna þess að þær hafa leitt í ljós að það, sem er að íslenskum veiðivötnum, er að þar er ekki veitt nándar nærri nógu mikið. Hann hefur framkvæmt mjög yfirgripsmiklar athuganir á ýmsum fiskivötnum, þessi ungi maður, hefur m. a. verið þar með net af ýmsum möskvastærðum og hefur komist að raun um að það, sem standi veiði í fiskivötnum einna helst fyrir þrifum, sé að þar sé allt of mikið af smáum fiski, þ. e. að þau séu ofsetin. Hann hefur gefið út ýmsar skýrslur um þetta sem hafa verið sérprentaðar og ég veit að þm. gefst áreiðanlega kostur á að fá, og ég vil hvetja menn, sem hafa áhuga á þessum málum, veiðibúskap og veiðiræktarmálum, til að kynna sér þessar skýrslur vegna þess að niðurstöður þessa sérfræðings brjóta gersamlega í bága við þá skoðun sem almenn hefur verið á Íslandi.

Hann hefur t. d. skýrt frá því, að til þess að Þingvallavatn gæti borið þann ávöxt, sem það ætti að geta borið, þyrfti að veiða þar á ári 120–130 tonn af murtu. Þar eru nú veidd aðeins á milli 20 og 30 tonn af murtu, eftir því sem hann segir, þannig að það þarf þarna að fimm- eða sexfalda veiðina til þess eins að vatnið geti gefið mestan arð. Sömu sögu segir hann um flest okkar fjallavötn, þar sem veiði er, að vandi þessara vatna sé sá að þar sé ekki nógu mikið veitt. Og hefðu þeir veiðibændur, sem eiga aðgang að þessum vötnum, hug á því að nota þau til hins ítrasta, þá ættu þeir ekki að takmarka veiði í þessum vötnum, ekki að koma í veg fyrir að vegfarendur, sem þarna eiga leið um, veiði í þeim, heldur þvert á móti að hvetja hvern einasta vegfaranda, sem þarna á leið um, að taka toll úr vatninu vegna þess að þá fái þeir fyrst bestan arðinn af. Ég veit að þetta kemur mönnum kannske spánskt fyrir sjónir, Þetta eru niðurstöður rannsókna sem fyrst byrjuðu fyrir þremur áum. Þessar niðurstöður hafa verið prófaðar á örfáum stöðum, m. a. á vatni rétt við Kleifarvatn sem mun heita Djúpavatn. Þar hefur fiskifræðingurinn fengið að ráða um það hvernig að veiðimálum væri staðið og þar er nú eins og svart og hvítt miðað við það sem áður var um fiskgegnd og afla úr þessu vatni.

Þessi maður hefur einnig tjáð mér það að t. d. að nefna ef þyrfti að nytja Kleifarvatn og fá úr því þann arð sem mestur gæti orðið, þá þyrfti að leggja svo mikla fjármuni og svo mikla vinnu í að taka undirmálsfiskinn úr vatninu að það væri raunar ekki hægt. Það er því ekki út í loftið að segja að það væri ekki bara almenningi til skemmtunar og upplyftingar að fá frjálsari rétt til þess að stunda veiðar í fiskivötnum á Íslandi heldur við óbreyttar aðstæður, jafnvel þó að veiðibændur eða einstaklingar í þéttbýli ættu þessi vötn eins og nú standa sakir, þá mundi þeim sjálfum vera mikill hagur í því.

Ég veit að þetta kemur, eins og ég hef margoft tekið fram, mönnum mjög spánskt fyrir sjónir og þá sérstaklega fiskræktarbændum eða öðrum þeim sem átt hafa og eiga veiðivötn. En þessi fiskifræðingur sem ég þekki og treysti vel, enda vel metinn maður af fræðimönnum í sinni starfsgrein, gefur þessum mönnum eitt ráð og það ráð er að prófa sjálfir með því að fara í þessi vötn sín með helmingi smágerðari net heldur en þeir hafa til þessa notað. Þá munu þeir komast að raun um að þeir fá þau net eiginlega full af smáum fiski, allur þessi smái fiskur sé gamall fiskur, fiskur sem bæði er smár og gamall. Hann er það vegna þess að það er um offjölgun að ræða í vatninu, vatnið er ekki nógu mikið nytjað, fiskurinn fær ekki nógu góð skilyrði til þess að vaxa og verða stór. Einnig á þessu sviði væri því hagkvæmt, jafnvel að óbreyttum þeim reglum sem gilda um eignarráð á hlunnindum eins og veiðivötnum og fleiru, að almenningur fengi þar aukinn aðgang.

Að lokum þetta, og ég ætla ekki að lengja þetta mál frekar: Það er alveg fyrirsjáanlegt að þróunin stefnir í þá átt sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Spurningin er aðeims sú hversu lengi verður á móti staðið. Og það er erfiðara að standa á móti, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, hefur glögglega sagt, — það er erfiðara að standa á móti eftir því sem árin líða vegna þess að fleiri og fleiri glepjast, eins og hann segir, hv. þm., til fylgis við þetta mál. Almenningur á Íslandi, hinn landlausi almenningur, eins og við gjarnan köllum hann, hefur e. t. v. ekki orðið þess var enn þá hvað kann að gerast ef örfáir einstaklingar geta talið sig hafa eignarhald á ýmsum verðmætustu náttúrugæðum landsins. En íbúar þeirra sveitarfélaga, sem nú eru að semja við jarðeigendur um hitarétt og nú á að gera að borga fyrir þessa varmaorku í svipuðum mæli og þeir þurfa nú að borga fyrir innflutta brennsluolíu, þeir munu áður en langt um líður sjá í hvert horf stefnir ef ekki er hér spyrnt við fótum.

Ég vil að endingu einnig vekja athygli manna á því, að frá því að þessi þáltill. kom fyrst fram hér á Alþ. og var af mjög mörgum mönnum talin algerlega óalandi og óferjandi í öllum greinum, þá hefur það gerst að bæði stjórnvöld og einstakir þm. hafa tekið upp mál hér á Alþ. sem eru inni í þessu, sem eru einn anginn og einn þátturinn af þessu máli, eins og t. d. frv. bað til jarðalaga sem hér hefur verið sýnt og stefnir að því að koma í veg fyrir að fjársterkir þéttbýlismenn kaupi bændur upp af bújörðum sínum. Þetta frv. er nú á döfinni og var flutt nokkru eftir að sama máli var hreyft í þáltill. Alþfl. og það þá talið óalandi og óferjandi. Einnig er hv. þm. Magnús Kjartansson hér á ferðinni með annað mál. frv. til l. um breyt. á orkulögum, sem stefnir að því að gera háhitasvæði á Íslandi að almenningseign, sem einnig er þáttur í þessu máli. Þess verður því vart ekki síður hér á Alþ. en utan þess að þeim sjónarmiðum, sem skil eru gerð í till. þeirri til þál. sem hér er á dagskrá, vex stöðugt fylgi.