20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Undir lok þessara umr. langar mig til að færa þakkir þeim mörgu þm. sem hér hafa tekið til máls og ég hygg að mér sé óhætt að segja að allir hafi mælt með máli þessu að meginefni til a.m.k. Fyrir það hljótum við flm. að sjálfsögðu að vera mjög þakklátir. Ég hygg að þeir séu ekki færri en 12 sem hér hafa talað auk mín, þ. á m. raunar tveir hæstv. ráðh., og vil ég sérstaklega færa hæstv. samgrh. þakkir fyrir hans góðu og eindregnu undirtektir við þetta mál, sem ég raunar átti von á. Aðeins held ég að einn eða tveir hv. þm. hafi dregið úr því að þessa upphæð þyrfti alla. Ég hygg að hv. 2. þm. Austf. hafi talað um að eðlilegt væri að stærsti hlutinn af þessu fé færi til Norðurlandsvegar og notaði orðið „aðalfjármagnið“, það færi til þess vegar, en einhver hluti e.t.v. til annarra hluta hringvegarins. Og hv. 1. þm. Sunnl. kvaðst vilja huga að því hvort hækka ætti þessa upphæð þannig að eitthvert aukafé yrði til annarra vegaframkvæmda en þeirra sem hér er sérstaklega um rætt.

Mér finnst það ekki furðulegt þó að við umr. eins og þessar skuli þm. úr hinum ýmsu kjördæmum koma fram með þau sjónarmið sem þar eru sérstaklega ríkjandi. Þvert á móti er það ánægjulegt að menn skuli ræða öll þessi mál í samhengi, og auðvitað höfum við flm. ekkert á móti því að afgreiðslan fari fram með hliðsjón af afgreiðslu vegáætlunar og annarra mála. Þessi fjáröflun er að vísu aðeins hluti þess heildarfjár sem þarf til að framkvæma þetta mikla verkefni, veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þess vegna má segja að það má afgreiða þetta mál einangrað. En við höfum ekkert á móti því að allt verði þetta skoðað í heild. En við hugsum okkur að fjáröflun verði auk vegalaga með þeim hætti að allstórt erlent lán yrði tekið til að hrinda þessu mikla verkefni í framkvæmd.

Ég hafði sérstaka ánægju af því að heyra hv. 8. landsk. þm. ræða um tengingu Vestfjarða við þennan veg, vegna þess að vissulega höfum við haft af því hliðsjón að Vestfirðir og raunar líka Austfirðir nytu góðs af þessu verkefni ekki síður en aðrir landshlutar. Hann gat réttilega um það hver þörf væri að tengja Vestfirðina þessum nýja, væntanlega vegi.

Hv. 4. þm. Austf. gat um það að hér væri kannske farið inn á nýja braut, að um nýmæli væri að ræða að nú yrði fjár aflað með happdrættisskuldabréfaútgáfu til almennrar vegagerðar. Hér hygg ég að sé kannske um minni háttar misskilning að ræða. Það er varla hægt að tala um þetta verkefni sem almenna vegagerð. Þetta er vissulega stórverkefni, meira að segja stærsta verkefnið í vegamálum íslendinga frá hinu fyrsta. Það var stórverkefni þegar ráðist var í Keflavíkurveginn þó að vegur væri þar fyrir. Það var stórverkefni þegar ráðist var í veginn austur fyrir fjall þótt vegur væri þar fyrir. Það var líka stórverkefni þegar ráðist var í veginn yfir Skeiðarársand þótt þar væri að vísu veglaust. Og hér er um að ræða stórverkefni sem við erum að gera okkur vonir um að þm. geti sameinast um að afgreiða og hrinda í framkvæmd. Síðan koma auðvitað önnur stórverkefni á eftir. En mín skoðun er sú, að það sé heppilegt fyrir okkar litlu þjóð að vera sífellt að fást við einhver slík stórverkefni og einmitt þá að leita beint til almennings um fé til þeirra framkvæmda. Og ég hygg að fólk muni frekar vilja láta féð af höndum rakna ef það veit að það fer til þessara ákveðnu framkvæmda en það ella mundi gera.

Það er aftur á móti rétt, sem þessi hv. þm., Tómas Árnason, benti á, að þessi vegagerð er hin arðvænlegasta. Það beinlínis borgar sig að leggja þennan veg, a.m.k. svo til alla kafla hans, bundnu slitlagi. Það borgar sig beinlínis fjárhagslega vegna slits á bifreiðum o.s.frv. og betur en aðra vegi. Það má vera að vísu, að það geti verið rétt að skilja einhverja hluta þessa vegar eftir án þess að leggja þá bundnu slitlagi, en hins vegar þarf að byggja þá vegi upp. Á ég þar t.d. við Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Það kann að vera að vegna ísingar og slíks muni menn hlífast við því eitthvert árabil að leggja þessa kafla, sem eru tiltölulega stuttir, bundnu slitlagi. Er raunar ekkert við því að segja vegna þess að það þreytist enginn maður á því að aka örstutta kafla á góðum upphleyptum vegum þó að einhverjar holur séu, enda tiltölulega auðvelt að halda við slíkum litlum köflum með góðum tækjum ef umferð er þá ekki orðin því meiri. Og auðvitað yrðu þessir kaflar með einna minnstri umferð næstu árin, en aftur innanhéraðsvegirnir, t.d. allur Borgarfjörðurinn, Húnavatnssýslurnar, Skagafjörðurinn og ég tala nú ekki um nágrenni Akureyrar er auðvitað með mjög mikla umferð og brýn þörf á að fullgera þann veg sem allra fyrst og hefjast handa á næsta ári.

En ég skal ekki tefja þessar umr. Ég endurtek þakkir til þdm. sem til máls hafa tekið og vona að við getum sameinast um að hrinda þessu máli í framkvæmd.