18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar sem ég er einn af flm. þessarar till. tel ég rétt að þessari merkilegu umr, ljúki ekki án þess að ég láti í ljós með örfáum orðum hvað ég tel þessar umr. hafa leitt í ljós.

Ég hygg að um það geti enginn ágreiningur verið að hér er stórmál á ferðinni, og þær umr., sem um málið hafa farið fram, hafa leitt ótvírætt í ljós hvar afturhaldsöfl er að finna hér á hinu háa Alþ. og hvar framfaraöfl. En það hefur komið í ljós að það fer ekki eftir flokkum. Það fer ekki eftir hinni áratuga hefðbundnu flokkaskiptingu á Íslandi né heldur á Alþ. íslendinga.

Flest orð, sem sögð hafa verið gegn þessari till., eru byggð á algerum misskilningi, — ég vil ekki segja rangfærslum, ég vil ekki ætla því ágæta fólki, þótt íhaldssamt sé, sem andmælt hefur till. að það rangtúlki hana vísvitandi, en það misskilur grundvallaratriði hennar. Það er grundvallaratriði till. að ekki skuli skertur réttur bænda til þess að búa á jörðum sínum ef þeir kjósa að eiga þær frekar en hafa þær í erfðafestu. Það er sagt skýrum orðum í fyrstu setningu till. að bújarðir verði í eigu bænda þegar þeir kjósa þann hátt fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Hvert einasta orð, sem sagt hefur verið gegn þessari till. á þeim grundvelli að henni sé stefnt gegn réttmætum og eðlilegum hagsmunum bænda, er sagt út í bláinn, er sagt á röngum grundvelli. Það eru röng rök gegn till. Hún snertir bændur og þeirra eignarrétt að landi sínu að engu leyti. Þetta er ekki hægt að misskilja ef till. er lesin með eðlilegum og venjulegum hætti.

En um hvað fjallar till. þá? Hún fjallar um þann vanda sem hugsandi menn í öllum nágrannalöndum og hugsandi menn á Íslandi hafa nú í áratugi og þó sérstaklega á allra síðustu árum gert sér ljósan, að því fylgir mikill þjóðfélagslegur vandi að eignarréttur að mikilvægum verðmætum á Íslandi er umdeildur. Það er umdeilt hvort tiltekin landverðmæti séu eign alþjóðar eða einkaeign. Þetta á við um almenninga, eins og kom fram hjá einum ágætum ræðumanni áðan, Pétri Sigurðssyni, sem var till. frekar hlynntur eða beinlínis hlynntur, sérstaklega af þessari algerlega réttmætu og skynsamlegu ástæðu. Það ber til þess brýna nauðsyn að skera úr um það hver á almenninga á Íslandi, alþjóð eða ákveðinn bóndi eða ákveðinn hópur bænda. En almenningar eru að sjálfsögðu vaxandi verðmæti í þjóðfélagi sem er í stækkun og eflist að almennum auði, m. a. í kjölfar vaxandi fólksfjölgunar, þótt fólki kunni að fækka í sveitum.

Þá er líka spurning um fjölmörg verðmæt fallvötn, en verðgildi fallvatna fer vaxandi ár frá ári. Hver á fallvötnin? Á þjóðin þau? Eða eiga einstaklingar þau, ákveðinn einstaklingur eða hópur einstaklinga? Og hvað um jarðhitann? Jarðhiti er tiltölulega nýtt verðmæti á Íslandi, en er orðinn milljarðaverðmæti. Það er milljarðaverðmæti, sem fólgið er í iðrum jarðar í formi heits vatns og jarðgufu. Hver á þessi verðmæti? Hvaða stefnu á að hafa varðandi það hver skuli eiga þau? Og hvað er að segja um stöðuvötnin sem líkt gildir um og líkt stendur á um og almenningana? Það er um það ágreiningur hver eigi fjölmörg stöðuvötn á Íslandi. En öllum er ljóst að verðgildi þeirra fer vaxandi með ári hverju og hefur gert á undanförnum árum og áratugum.

Það eru þessi mál sem þessi till. fjallar um, en ekki um bújarðir bænda. Og það er sú stefna sem mörkuð er í þessari till. að þessi verðmæti skuli smám saman verða þjóðareign, almenningarnir og stöðuvötnin, fallvötnin og jarðhitinn. Jafnframt er að því stefnt með till. að það skuli vera frambúðarstefna að smám saman eignist ríki og sveitarfélög þær lóðir og þær lendur sem þau eiga ekki nú þegar, en smám saman vaxa mjög að verðmæti vegna þjóðfélagslegra aðstæðna, m. ö o.: ef verðmætisaukning lóða eða lendna verður vegna skipulagsbreytinga eða vegna vaxtar bæja, flutnings byggðar í landinu, þá sé það ekki rétt — sú hugsun er að baki till. að sú verðhækkun falli í hlut einstaklinga, heldur skuli hún vera þjóðareign. Það að almenningar og stöðuvötn, að fallvötn og jarðhiti og það að verðhækkun lóða og lendna af þjóðfélagsástæðum skuli smám saman verða þjóðareign, en ekki eign einstaklinga, og hagnaður af verðhækkun slíkra verðmæta skuli vera eign alþjóðar, en ekki einstaklinga, það er kjarni nútíma jafnaðarstefnu í iðnríkjum 20. aldar. Og það er í þessari till. sem alda þessarar alþjóðlegu jafnaðarstefnu iðnríkjanna berst hingað til Íslands.

Okkur dettur ekki í hug, flm. þessarar till., að við séum höfundar að þeim hugmyndum sem hér liggja til grundvallar. Því fer víðs fjarri. Svo miklir menn erum við ekki, Hrólfur minn. Okkur er algerlega ljóst að þær hugmyndir, sem liggja að baki þessari till., eru áratugagamlar hugmyndir jafnaðarmanna í vestrænum iðnríkjum sem í raun og veru valdhafar í austrænum iðnríkjum hafa talið svo sjálfsagðar, að þeir hafa fyrir löngu gert þær að veruleika í sínum ríkjum þótt með aðferðum sé sem okkur vestrænum jafnaðarmönnum geðjast ekki að.

Þau orð hafa verið látin falla að hér sé um þjóðnýtingu að ræða, víðtækustu þjóðnýtingu sem till. hafi verið flutt um á Alþ. íslendinga, og það gefið í skyn og þau orð látin fylgja, að vísu óskýrð og óbeint, en þó þannig að vart verður misskilið, að fyrir tillögumönnum vaki einhvers konar eignarán gagnvart þeim sem nú eiga þessi verðmæti, með henni eigi að svipta þá einhverju verðmæti, svipta þá eignum, þegar hugsunin er sú að þessi verðmæti, sem ég hef gert að umtalsefni, skuli smám saman verða alþjóðareign Hér er einnig algerlega rangt með farið. Hvert orð, sem sagt hefur verið gegn till. í þessum anda og á þessum grundvelli, er rangt því að till. lýkur með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Glöggt verði kveðið á um (þ. e. í hinni fyrirhuguðu löggjöf) hvernig landeign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkisins og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.“

Það hefur aldrei vakað fyrir nokkrum af flm. þessarar till. að krónuverðmæti verði flutt frá réttmætum eiganda að lögum yfir í þjóðareign eða til ríkis eða sveitarfélags nema fullar bætur komi fyrir. Það hefur aldrei að okkur hvarflað, þannig að allt tal um eignaupptöku, um eignarán og því um líkt er algerlega út í bláinn mælt. Flest orðin, sem sögð hafa verið gegn till., þ. e. a. s. að hún snerti hagsmuni bænda, hugsanlega eignaraðild bænda að jörðum sínum annars vegar og hún tákni einhvers konar eignaupptöku hins vegar, eru algerlega úr lausu lofti gripin, fullkomlega út í bláinn. Hins vegar hef ég engin skynsamleg rök heyrt gegn því, sem er kjarni till., að það verði stefnt að því smám saman og gegn fullum bótum að almenningar og stöðuvötn, að fallvötn og jarðhiti og lóð og lendur í nágrenni þéttbýlis, sem stöðugt vaxa að verðmæti, verði smám saman alþjóðareign. Okkur dettur ekki í hug að þetta geti orðið í einu vetfangi, ekki á einu ári, ekki einu sinni á 10 árum. Okkur er ljóst að það þarf áratugi til eins og reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt hefur verið þar sem þessi stefna hefur verið tekin upp fyrir forustu lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna víða í Vestur-Evrópu.

Ég hirði ekki á lokastigi málsins að endurtaka þau almennu rök, sem fyrir því er mjög auðvelt að flytja, að það sé eingöngu réttlætissjónarmið, að það séu raunverulegir alþjóðarhagsmunir að almenningar og stöðuvötn, að jarðhiti og fallvötn og að lóðir og lendur, sem stöðugt vaxa í verðmæti, verði smám saman ríkiseign. Þess gerist ekki þörf að endurtaka þau rök. En ég er í sjálfu sér ekki hissa á því að afturhaldsöfl í Sjálfstfl. og Framsfl. snúist gegn þessum hugmyndum. Það er í samræmi við það sem gerðist í Bretlandi. Það er í samræmi við það sem gerst hefur á Norðurlöndum og annars staðar þar sem þessar hugmyndir hafa verið uppi. Þar hafa svört afturhaldsöfl í hægri sinnuðum flokkum snúist gegn þessum hugmyndum. Þau eru trú 200 ára gömlum hugmyndum um gildi einkaeignarréttarins og hafa þá trú á honum og gildi hans, finnst hann svo heilagur að hagsmunir alþjóðar verði þar að víkja. Ég er ekki hissa á því þó að slíkar afturhaldsraddir heyrist úr hópi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Hins vegar er mér það fagnaðarefni að það skuli hafa heyrst raddir gegn þessum hugmyndum, bæði úr herbúðum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, hér á þingi, bæði þegar þessi till. hefur áður verið rædd hér og einnig núna, sbr. síðustu ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar, sem greinilega var fylgjandi því, sem ég hef lýst sem grundvallarhugmynd till.

Hitt aftur á móti finnst mér mikilli furðu gegna, að þeir tveir hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað, hv. þm. Helgi F. Seljan og Stefán Jónsson, skuli hafa lýst sig andvíga till. Slíkum afturhaldsröddum átti ég satt að segja ekki von á úr herbúðum Alþb. þó að ég eigi yfirleitt ekki von á neinu góðu þaðan. En svona andfélagslegum sjónarmiðum bjóst ég ekki við úr þeirra hópi, af vörum þessara tveggja hv. þm. Þeir meira að segja töluðu þannig að það er ómögulegt eftir þeirra ræður að titla þá öðruvísi en íhaldskurfa með kotungshugsunarhátt, — íhaldskurfa með kotungshugsunarhátt, ég endurtek það. Það finnst mér þeim mun furðulegra þar sem um er að ræða flokksmenn í flokki sem kennir sig við jafnaðarstefnu, sem kennir sig við sósíalisma. Afstaða þeirra sýnir að annað hvort vita þeir ekki hvað sósíalismi er, að þeir skilja ekki þá grundvallarhugsun sem í sósíalisma felst, eða þeir eru undanvillingar í sínum eigin flokki og er mér raunar alveg sama hvort á sér stað, gildir það nákvæmlega einu.

Ég vil enda ræðu mína á því, sem ég byrjaði að segja, að þessar umr. hafa leitt í ljós hvar íhaldssjónarmið er að finna hér á hv. Alþ. og hvar frjálslyndu sjónarmiðin er að finna. Það var við því að búast að íhaldssjónarmiðin kæmu af vörum ýmissa sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Það var ekki við því að búast að þau kæmu af vörum Alþb.-manna. Það hefur samt sem áður skeð. En frjálslyndu raddirnar hafa heyrst við þessar umr. og fyrri umr. frá ýmsum þm. úr hópi framsóknarmanna, sjálfstæðismanna, SF, auðvitað að okkur flm. ógleymdum sem erum þm. Alþfl. En hér hefur komið í ljós einu sinni sem oftar að það er ekki nóg að kalla sig vinstri mann og það er ekki heldur nóg að einhverjir aðrir kalli menn hægri menn. Menn reynast oft annað en þeir kalla sjálfa sig eða eru kallaðir. Hafa þessar umr. leitt í ljós að það eru orð að sönnu.