19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst taka undir með hv. flm. þessarar þáltill. að vissulega er hér um að ræða eitt af þeim málum sem flokkast undir byggðamál. Ég efast ekkert um að verksmiðja af þeirri smærri gerð, sem hann hugsar sér örugglega að verði á þessum stað, gæti orðið lyftistöng fyrir þennan landshluta. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, að við vonum einnig að Austurland komi hér til greina, þ. e. a. s. í sambandi við smærri verksmiðju af þessu tagi. Hann benti á að það lægju fyrir ýmsar fullyrðingar um að það væri ekki hagkvæmt að byggja slíkar smærri verksmiðjur, — fullyrðingar sem ekki væru sannaðar og ég vona sannarlega að séu vafasamar í þessu sem ýmsu öðru sem fram kemur í fullyrðingum ýmissa sérfræðinga varðandi ýmis mál. En því kem ég inn á þetta, að í hitaumræðum hér á dögunum kom ég víst inn á það, að það eina, sem ég gæti sætt mig við varðandi eitthvað í átt við stóriðju við Reyðarfjörð, væri áburðarverksmiðja af einmitt smærri gerð. Ég gerði það vegna þess, að ég taldi að það væri kleift, það gæti verið hagkvæmt. Þá reiknaði ég auðvitað með því að allar mengunarvarnir yrðu til staðar. Það þyrfti að vísu að nota mikla orku, en fyrst og fremst yrði starfskraftarnir miklu minni en við aðrar gerðir verksmiðja þar eystra, því að ég óttast ekki síður risafyrirtæki af þeirri stærð sem þar hefur verið um talað vegna mannfjöldans, sem vinnur í kringum þau, og vegna þeirrar röskunar á öllu mannlífi á þessum stöðum, þessum fámennu stöðum, sem af fólksfjölguninni verður.

Ég vona sem sagt að ef eitthvað verður í þeim málum gert þar eystra, þá verði þó a. m. k. hugað að þessu í leiðinni og athugað um hagkvæmni þess, ef mikil orkuframleiðsla verður þar í framtíðinni, og ekki farið út á þá braut sem nú virðist áætlað og mann grunar jafnvel að hafi verið farið út til Sviss á dögunum til að semja að einhverju leyti um, að hve miklu leyti sem það hefur nú við rök að styðjast.

Ég vil taka undir það með hv. flm. og þeim öðrum, sem hér hafa að því vikið, að við þurfum sannarlega að auka framleiðslu okkar í landbúnaði. Við þurfum að vísu að koma þessari framleiðslu í verð. Við þurfum að vinna þessari framleiðslu okkar markaði. Einn þeirra manna, sem hefur haft hvað mestan metnað f. h. bændastéttarinnar á Íslandi og má það svo sannarlega, Sveinn Jónsson á Egilsstöðum, hefur ævinlega haldið því fram að allt of lítið væri að því gert að vinna landbúnaðarframleiðslu okkar markaði erlendis. Það væri raunar allt af handahófi og allt of lítið að því gert. Hann er sannfærður um það og hefur sannfært mig um það einnig að við eigum gífurlega möguleika á þessum sviðum ef þar er myndarlega tekið til hendi. Hann hefur einnig bent á það, að ýmis aukin verksvið biði íslensks landbúnaðar ef menn hafi hug og djörfung til að takast á við ýmsan vanda sem þeim fylgir.

Menn hafa deilt á útflutning okkar landbúnaðarframleiðslu. Það hefur oft verið helsti ásteitingarsteinninn þegar steinum hefur verið kastað að landbúnaðinum að menn þyrftu að greiða svo og svo miklar útflutningsuppbætur með þessum afurðum. En þegar ég fór að kanna það hér á dögunum að hve miklu leyti þessar útflutningsuppbætur væru bændum sjálfum að kenna, þá kom í ljós, sem mig reyndar grunaði, að aukabúskapur, þ. e. hliðargrein manna í þorpum og kaupstöðum, framleiðsla þeirra jafngildir í raun nokkuð svipaðri prósentu og út er flutt af landbúnaðarvörum — nokkuð svipaðri, þannig að það er nú eiginlega mál til komið að fara að taka þennan kaleik frá íslensku bændastéttinni. Þar veldur annað, án þess að ég vilji fara að setja beinar hömlur á það að menn fái að stunda þennan smábúskap sinn eða setja við því einhverjar skorður. En það er rétt að þetta komi fram hér vegna þess að að þessu var sérstaklega vikið hér áðan.

Hv. þm. Ingi Tryggvason vék að því hve samtengingin væri rík milli kjara launþegans, hins almenna launþega, og kjara bóndans. Það er rétt, og því á það að vera keppikefli bæði verkamanna og bænda að samstarf þessara aðila sé sem allra best. Samstarf og samvinna þessara aðila eru líka forsenda góðrar afkomu bændastéttarinnar í landinu. Hann þarf ekki að hvetja mig til liðsinnis við þá hugmynd að þær stéttir hafi sem nánasta og besta samvinnu sín á milli. Til þeirrar hugmyndar er ég reiðubúinn að ljá allt mitt fylgi, einnig til þess, að bændur geti fengið réttmætt verð fyrir sína framleiðsluvöru og þeim verði tryggt það á margan annan veg en nú er gert, með mörgum öðrum leiðum en nú eru farnar og ég ætla ekki að fara að rekja hér, þar sem þetta er svo einangrað mál. Hann minnti á litlu búin og stóru búin og tók samanburð þeirra á milli. Sannleikurinn er sá, að varðandi þá þróun mála stjórna lánamálin í landbúnaðinum þeirri þróun meira en allt annað, og þau lánamál, sem ég á nokkurn hlut að reyndar í dag, eru í sannkölluðum ólestri hvað þetta snertir. Stóru búin fara sístækkandi, gleypa æ meira af lánsfjármagninu, á meðan litlu búin standa í stað, vegna þess að lánakjörin til hinna minni búa eru hin sömu og til stóru búanna. Stórbændurnir fá enga skerðingu á sínum lánakjörum eins og þó ætti að vera. Það ætti að vera þannig einmitt að minni búin njóti þar betri kjara, a. m. k. þangað til þau hafa náð þeirri stærð að bændurnir þar geti lifað nokkurn veginn mannsæmandi lífi.

Á það vil ég svo minna að lokum að það er fleira varðandi vandamál landbúnaðarins í dag en áburðarverðið eitt sem að kreppir. Lánamál landbúnaðarins í heild eru nú í meiri sjálfheldu en nokkru sinni. Þar þarf stórátak til af hálfu stjórnvalda, ef ekki á að koma til algerrar stöðvunar í öllum framkvæmdum bænda á þessu ári.

Þær tölur, sem fyrir okkur liggja í dag, eru hreinlega þær að ekki verði hægt að veita lán til neinna nýrra framkvæmda í íslenskum landbúnaði, ekki til íbúðarhúsa, ekki til útihúsa eða neinna framkvæmda í íslenskum landbúnaði. Þetta eru þær alvarlegu staðreyndir sem við blasa við Stofnlánadeild landbúnaðarins í dag. Því skal treyst að landbrh. og stjórnvöld yfirleitt sjái til þess, að svo verði að þessum málum staðið að hér verði ekki sú algera stöðvun sem nú blasir við allra augum að óbreyttu ástandi.