19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er mikilvægt, bæði út frá horfum og stefnu í orkumálum og eins í sambandi við hugmyndir okkar um það, hvernig við kunnum að nýta orkulindir okkar til iðnaðarframleiðslu nú um langa framtíð þegar almennum þörfum þjóðfélagsins hefur verið fullnægt.

Það hefur lengi verið ljóst fyrir íslendingum að orka sú sem við eigum í vatnsföllum okkar og hverum, er ákaflega mikilvæg. Það var þegar í upphafi þessarar aldar sem við urðum varir við áhuga útlendinga á þessu sviði. Þeir ásældust þegar á fyrstu áratugum þessarar aldar vatnsréttindi hér á landi, bæði til að eignast þau og að fá þau á leigu, og 1923 var svo komið að útlendingar höfðu ýmist keypt eða leigt öll mikilvægustu fallvötn landsins, þegar undan var skilinn hluti landssjóðs og Reykjavíkurborgar í vatnsréttindum Sogsins.

Þetta var á þeim árum mikið deilumál hér á þingi. Um það var fjallað á þingum frá 1917–1923. Það voru hinar frægu fossadeilur. En þeim deilum lauk með því að Alþ. ákvað að tryggja íslenska ríkinu virkjunarvaldið svo að hin erlendu auðfélög gátu ekki hagnýtt eignarrétt sinn eða leigumála. Margir merkir þm. áttu aðild að þessari lausn mála, en ég hygg að sá, sem einna harðast beitti sér og hafði einna mest áhrif, hafi verið Jón Þorláksson og má það vera nokkurt íhugunarefni fyrir ýmsa þm. Sjálfstfl.

Það hafa stundum heyrst um það raddir að sú afstaða, sem íslendingar tóku á þessum árum, hafi verið röng. Árið 1919 sótti t. d. Títan um leyfi til stórvirkjunar í Þjórsá sem var hafnað. Þegar ákveðið var að virkja við Búrfell, þá las ég margar greinar í Morgunblaðinu þess efnis að þróunin hefði orðið önnur og betri á Íslandi ef fallist hefði verið á þessa beiðni Títans árið 1919. Þá væru íslendingar betur settir nú, þá hefði þróunin orðið örari en hún hefur reynst. Hér er að sjálfsögðu um algerlega fráleita afstöðu að ræða. Ef farið hefði verið inn á þessa braut, þá væri Ísland núna efnahagsleg nýlenda annarra þjóða. Af þessu hafa norðmenn t. d. mikla reynslu. Þeir gerðu slíka samninga við ýmis fyrirtæki í upphafi þessarar aldar og sumir samningar gilda enn og munu gilda fram yfir næstu aldamót. Reynsla norðmanna af því er að sjálfsögðu orðin sú, að af þessu hafa þeir haft ómælt efnahagslegt tjón.

Við skulum í þessu sambandi einnig gera okkur það ljóst, að þó að stundum sé sagt að við íslendingar séum fáir, fátækir og smáir, þá hefur þróunin á sviði orkumála verið ákaflega ör hér á Íslandi. Um þetta kemur mér oft í hug persónulegt dæmi. Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði sem drengur og unglingur, þá kynntist ég þar allmiklu eldri manni sem var þekktur hafnfirðingur og hét Jóhannes Reykdal. Ég var oft að sniglast í kringum hann á verkstæðinu sem hann rak í Hafnarfirði, og ég minnist á þetta vegna þess að það var Jóhannes Reykdal sem kom upp fyrstu rafvirkjun á Íslandi í Hafnarfirði 1904. Svona ör hefur þessi þróun orðið að ég þekkti persónulega árum saman manninn sem kom upp fyrstu vatnsvirkjun á Íslandi. Og á þessum tiltölulega stutta tíma hefur okkur tekist að ná því marki að raforkuframleiðsla á mann er hérlendis einhver sú hæsta í heimi. Ég hygg að við séum í 3.–4. sæti að því er varðar orkuframleiðslu á einstakling.

Ég minntist áðan á það að vatnsréttindi hefðu verið látin af hendi í upphafi þessarar aldar. Þegar reistar voru skorður við því að þau yrðu hagnýtt, þá eignuðumst við þau aftur smátt og smátt. Virkjunarréttindin í Þjórsá voru keypt eftir síðasta stríð, svo lengi stóðu hin erlendu áhrif á þessu sviði. Þeir erlendu menn, sem vildu reisa hér stór orkuver, ætluðu að tengja þetta við orkufrekan iðnað. Og hugmyndin um að nýta raforku hér til orkufreks iðnaðar kemur aftur upp hér í tíð viðreisnarstjórnarinnar um miðjan síðasta áratug. Viðreisnarstjórnin var þá að vísu þeirrar skoðunar að íslendingar ættu að eiga vatnsréttindi og orkuver, en þeir töldu að það bæri að eftirláta erlendum auðfélögum að nýta orkuna til vöruframleiðslu. Alþ. samþykkti á sínum tíma einróma að ráðast í stórvirkjun á íslenska n mælikvarða við Búrfell. En viðreisnarstjórnin hagnýtti þá heimild til þess að taka upp samninga við svissneska auðhringinn Alusuisse og tengja lánsumsóknir um þessa virkjun við þá samninga. Afleiðingin varð sú að Alþjóðabankinn gerði það að skilyrði fyrir lánveitingum til Búrfellsvirkjunar, að samið yrði við svissneska auðhringinn. Ríkisstj. Íslands komst í sjálfheldu af þessum sökum, hún gat ekki virkjað við Búrfell án þess að fá lánin og lánin fékk hún ekki án þess að semja við auðhringinn. Í þessari aðstöðu var samningsaðstaða íslensku ríkisstj. að sjálfsögðu mjög erfið og aðstaða Alusuisse nánast óviðráðanleg.

Ég lýsti því á sínum tíma að ég væri mjög andvígur þessum samningum sem gerðir voru við Alusuisse. Ástæður mínar voru í meginatriðum þessar:

Ég er algerlega andvígur því að útlendingar eigi atvinnurekstur hérlendis. Það er að vísu e. t. v. ekki mikið hættuspil þótt útlendingar eigi eina slíka verksmiðju. En það var yfirlýst stefna viðreisnarstjórnarinnar að þetta ætti að vera upphafið. Einn af forustumönnum ríkisstj., sem á sæti á þingi núna, talaði einmitt í sjónvarpið um þá hugsjón sína að hér risu 20 álbræðslur af svipaðri stærð. Það átti að fela útlendingum forustu á fleiri sviðum atvinnumála, m. a. í léttum iðnaði, og aðildin að EFTA var á sínum tíma rökstudd með því að hún mundi auðvelda íslendingum að hleypa hér inn erlendum fyrirtækjum. Ég tel að stefna af þessu tagi sé hættuleg efnahagslegu sjálfstæði íslendinga. Ef verulegur hluti atvinnulífsins er kominn í hendur útlendinga, þá erum við að flytja úr landi efnahagslegt fullveldi okkar og afhenda það öðrum.

Í öðru lagi var ég andvígur samningum þeim sem gerðir voru við Alusuisse vegna þess að raforkuverðið, sem um var samið, var ákaflega lágt. Það var tvímælalaust undir kostnaðarverði eins og mál stóðu þá, og síðan hefur þessi skakki enn sannast mjög greinilega vegna þess að við íslendingar höfum orðið að leggja í stórfelldan kostnað til að tryggja rekstur orkuversins við Búrfell. Við höfum orðið að ráðast í stórfelld miðlunarmannvirki í Þórisvatni, við höfum orðið að leggja nýja stofnlínu til Reykjavíkur og ekkert af þessu var reiknað inn í hinn upphaflega tilkostnað. Auk þess var um það samið að þetta afar lága raforkuverð ætti að haldast óbreytt til ársins 1997, hvernig svo sem orkuverð kynni að breytast á alþjóðlegum markaði. Dæmi um það, hversu óhagkvæmt þetta orkuverð er orðið okkur íslendingum, er það að á árinu 1973 greiddi álbræðslan fyrir alla raforku, sem hún notaði, milli 300 og 400 millj. kr. Væri þessi orka hins vegar verðlögð á sama verði og nú er talað um í sambandi við járnblendiverksmiðju, þá ætti greiðslan að vera 1300–1400 millj. kr. Munurinn er hvorki meira né minna en einn milljarður eins og nú er ástatt. Og þessi munur mun halda áfram að vaxa, því að allir eru sammála um að orkuverð muni fara hækkandi á ókomnum árum.

Þriðja atriðið, sem ég taldi algerlega fráleitt í sambandi við þann samning, var að fyrirtækið var undanþegið íslenskri lögsögu. Deilumál, sem upp komu á milli íslenska ríkisins og þessa fyrirtækis sem starfar á Íslandi, átti ekki að leggja fyrir íslenska dómstóla, heldur skyldi fjallað um þau af erlendum gerðardómi. Slík ákvæði eru að sjálfsögðu alger niðurlæging fyrir hvert þjóðfélag og ósæmilegt að fallast á þau.

Í fjórða lagi var svo það atriði að ekki var gengið frá neinum mengunarvörnum í sambandi við þennan iðnað. Reynslan hefur sýnt að þótt settar hafi verið reglugerðir og gefin fyrirmæli af íslenskum stjórnvöldum, þá hefur þetta fyrirtæki í eigu útlendinga beitt öllum brögðum til þess að tregðast við að taka upp óhjákvæmilegar mengunarvarnir, vegna þess að það var ekki gengið frá þessu í upphafi.

Þessi stefna, sem ég hef nú verið að lýsa, það var ætlun viðreisnarstjórnarinnar að halda henni áfram. Þegar Alþ. samþykkti á sínum tíma einróma heimild til tveggja virkjana í Tungnaá, við Sigöldu og Hrauneyjarfoss, þá tilkynnti ríkisstj. að hún mundi einnig nota þessar heimildir til þess að leyfa fleiri erlendum fyrirtækjum að hefja starfsemi á Íslandi. Og þessi yfirlýsing var endurtekin rétt fyrir kosningarnar 1971. Það var sagt að þetta væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í virkjun, við fengjum ekki lán til virkjunar án þess og við gætum ekki hagnýtt orkuna án þess.

Árið 1971 féll viðreisnarstjórnin og mynduð var vinstri stjórn. Eitt fyrsta málið, sem kom til mín eftir að mér var falið að gegna störfum iðnrh., var till. frá landsvirkjunarstjórn um ákvörðun um virkjun við Sigöldu. Ég lagði til við ríkisstj. að þessi till. yrði samþ., en án þess að hún væri á nokkurn hátt tengd hugmyndum um orkufrekan iðnað. Í staðinn lagði ég til að ákveðið yrði að tengja saman Suðurland og Norðurland og lögð yrði áhersla á að nýta Sigöldu fyrst og fremst til þess að fullnægja almennri eftirspurn og leggja allt kapp á að nýta raforku til húshitunar. Þessi till. mín var samþ. af þáv. ríkisstj. og tilkynnt Landsvirkjun. Landsvirkjun gekk síðan frá áætlunum sínum um virkjun á þessum forsendum og sótti um lán til Alþjóðabankans og fleiri aðila. Þessi lán fengust, og mér þótti það nokkuð fróðlegt, að þegar sérfræðingar Alþjóðabankans komu hingað til að kanna þessar hugmyndir, þá létu þeir í ljós að þeir teldu áformin um samtengingu orkuveitusvæða og um rafhitun húsa sérstaklega skynsamlega.

Þegar tekið var að gera orkuspár um hagnýtingu orkunnar frá Sigöldu kom hins vegar í ljós að rafhitunarmarkaðurinn mundi opnast tiltölulega hægt eins og þá var ástatt. Olíuverð var þá svo lágt að að því var enginn fjárhagslegur ávinningur, heldur aukin útgjöld að taka upp rafhitun í húsum þar sem þegar hafði verið komið upp olíuhitun. Hins vegar var sparnaður og annað hagræði að því að hafa rafhitun í nýjum húsum sem væru sérstaklega hönnuð fyrir slíka hitun. Því töldu sérfræðingar að um alllangt árabil tæki innlendi markaðurinn ekki við orku Sigölduvirkjunar ef hún tæki til starfa í einum áfanga.

Eins og menn vita er gert ráð fyrir þremur vélasamstæðum í Sigöldu og er hægt að láta þær hefja störf á mismunandi tímum, en allur stofnkostnaðurinn leggst í rauninni á fyrsta áfangann, þ. e. a. s. ef aðeins einn áfangi væri látinn framleiða orku, þá yrði sú orka mjög dýr. En ef virkjað væri í einum áfanga, eins og hagkvæmast var miðað við einingarverð, þá voru horfur á því að um væri að ræða verulegt orkumagn sem ekkert verð fengist fyrir nema gerðar yrðu ráðstafanir til þess að framleiða iðnvarning til útflutnings. Ég setti þá á laggirnar nefnd til þess að kanna hvort stofnun slíks orkufreks iðnaðar væri hagkvæm fyrir íslendinga. Ég setti n. ákveðnar og ófrávíkjanlegar pólitískar reglur og voru þær þessar í meginatriðum:

1. Fyrirtækið yrði að vera íslenskt, verulegur meiri hluti þess í höndum íslenska ríkisins og yfirráð ríkisstj. afdráttarlaus.

2. Fyrirtækið heyrði í einu og öllu undir íslenska lögsögu. Starfsemi þess og fjárreiður lytu íslenskum lögum og dómstólum, þ. á m. auðvitað deilur við minni hlutaaðila.

3. Fyrirtækið yrði í einu og öllu að lúta íslenskum stöðlum um mengunarvarnir. Yrðu þeir staðlar settir af algerlega óháðum íslenskum aðilum án samninga við einn eða neinn. Slíkar mengunarvarnir yrðu liður í hönnun verksmiðjunnar þegar í upphafi og reiknaðar með í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði hennar.

4. Að því er varðar skatta og alla aðstöðu yrði fyrirtækið eins sett og önnur fyrirtæki í landinu.

5. Enginn hagnaður af rekstri fyrirtækisins yrði fluttur úr landi nema arður af hlutabréfum í eigu erlendra aðila.

6. Raforkusamningurinn fæli í sér sjálfkrafa hækkanir í samræmi við hækkanir í öðrum löndum og fullt vald íslendinga til þess að breyta raforkuverði ef óvæntar sveiflur yrðu.

7. Fyrirtækinu yrði tryggt sem mest sjálfstætt svigrúm á alþjóðamarkaði með því að hugsanlegur viðsemjandi seldi hvorki hráefni til verksmiðjunnar né keypti framleiðslu hennar.

Í sambandi við þetta síðasta atriði er ástæða til þess að minnast á það, að auðhringir eins og t. d. álhringurinn eru skipulagðir, eins og sagt hefur verið, á lóðréttan hátt, þ. e. a. s. þeir ráða yfir öllum framleiðsluferlinum frá námunni og til hinnar endanlegu vöru sem birtist á markaði. Þar er um að ræða 4 stig, þ. e. a. s. báxít, síðan framleiðslu á súráli, þá framleiðslu á hrááli sem hér fer fram og loks framleiðslu á endanlegri vöru. Þetta gerir það að verkum að auðhringurinn getur ráðið því sjálfur, á hvaða stigi slíkrar framleiðslu ágóðinn kemur fram. Það hefur stundum verið sagt hér á undanförnum árum að við íslendingar mættum hrósa happi að hafa ekki átt álbræðsluna í Straumsvík, því að við hefðum trúlega orðið gjaldþrota ef við hefðum átt hana, eins og verðlagi á hrááll hefði verið háttað. Samt er það staðreynd að auðhringurinn Alusuisse hagnaðist öll þessi ár. Auðhringurinn tapaði ekki, hann hagnaðist. Hagnaður hans kom aðeins fram á öðrum framleiðslustigum. Þess vegna er það algert grundvallaratriði ef íslendingar ætla að leggja í slíka framleiðslu og reyna að hafa vald yfir henni, að málum sé þannig háttað að það sé ekki hægt að setja íslendingum skorður, hvorki að því er varðar hráefnissölu né sölu á afurðinni.

Þetta var það pólitíska veganesti sem ég gaf viðræðunefndinni um orkufrekan iðnað. Því hefur verið haldið fram, ekki síst í Morgunblaðinu, að hér hafi verið tekin upp gamla viðreisnarstefnan. En að mínu mati er hér um að ræða algerlega andstæða stefnu. Með viðreisnarstefnunni var verið að setja íslendinga á stig nýlendu eða hálfnýlendu að því er varðar iðnþróun á þessu sviði. Okkar hlutskipti var að selja hráorku á sama hátt og ýmis önnur ríki selja hráefni, en eins og menn vita, þá er iðnaði okkar tíma þannig háttað að arðurinn kemur fram í sambandi við fullvinnsluna, en bæði orka og hráefni hafa verið verðlögð ákaflega lágt.

Með þessum reglum, sem ég nefndi hér áðan, taldi ég mig vera að setja reglur um íslenska iðnþróun, um iðnþróun sem íslendingar sjálfir réðu yfir og gætu hagað í samræmi við hagsmuni sína og í samræmi við rétt sinn. Þessar reglur eru að sjálfsögðu engin uppfinning mín. Þetta eru reglur sem allar nýfrjálsar þjóðir, sem hafa tekið upp iðnþróun í löndum sínum, hafa beitt ef þeim hefur verið annt um efnahagslegt sjálfstæði sitt. Að sjálfsögðu er slík samvinna, eins og þarna var áformað við erlendan auðhring, ákaflega mikið vandamál. Við vitum að orkufrekur iðnaður í heiminum er annars vegar í höndum alþjóðlegra auðhringa, hins vegar ríkisfyrirtækja í sósíalísku löndunum. Þessir aðilar einoka bæði framleiðsluna og markaðinn. Og takmark einokunarhringa er ævinlega hámarksgróði, en enginn mannleg sjónarmið. Þess vegna er mikill vandi og mikil áhætta að semja við slíka aðila. Ég skil tortryggni manna á því sviði mjög vel, enda á ég hana í mjög ríkum mæli sjálfur. En ég er þeirrar skoðunar að við komumst ekki hjá því að takast á við þennan vanda og reyna að leysa hann á þann hátt að okkur sé tryggt hámarksöryggi og hámarkssjálfstæði á sviði efnahagsmála, að við verðum að glíma við vandamálin eins og heimurinn er, en ekki eins og við kunnum að óska að hann væri. Þess vegna taldi ég og tel grundvallaratriði ef unnt væri að ná samstöðu um stefnumörkun af þessu tagi, ef hægt væri að tryggja samstöðu meiri hl. Alþ. og meiri hl. þjóðarinnar um það að hér yrði aldrei hleypt inn erlendum fyrirtækjum framar, en að íslendingar reyndu að tryggja sér sívaxandi efnahagslegt sjálfstæði í sambandi við þessa iðnþróun.

Ég fer ekki að rekja störf n. um orkufrekan iðnað. Hún ræddi við ákaflega marga aðila og það, sem hún gerði, var ævinlega könnunarstarf, og þess var vandlega gætt að binda hendur okkar ekki á neinu stigi málsins.

Ég minntist áðan á mengun í þessu sambandi og hana hefur borið mjög á góma, svo að ég vit gjarnan fara um hana nokkrum orðum. Þar lét ég mér ekki nægja að setja n. einhverjar almennar reglur, heldur fól ég sérfróðum mönnum að semja sérstaka reglugerð um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna og var hún gefin út 15. júní 1972. Þar er Heilbrigðiseftirliti ríkisins og heilbrrn. falin óskoruð völd að því er varðar þetta atriði. Í 4. gr. reglugerðarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef reisa á verksmiðju eða iðjuver sem ætla má að falli undir ákvæði 1. gr., má eigi ákveða staðsetningu hennar, gerð né búnað fyrr en að fengnu leyfi heilbrrh.“

Í 9. gr. segir svo :

„Heilbrigðiseftirlit ríkisins skal senda eiturefnanefnd, Náttúruverndarráði, Siglingamálastofnun ríkisins og Öryggiseftirliti ríkisins umsóknir um starfsleyfi til umsagnar ef ástæða telst til. Heilbrigðiseftirlit ríkisins getur kannað sjálft eða látið aðra aðila kanna hver þau atriði er það telur þörf á og aflað hverra þeirra gagna er það telur nauðsynlegt. Þá getur það krafið umsækjanda um hver þau gögn og upplýsingar sem það telur nauðsynlegt og hægt er með sanngirni að krefjast.“

Og í 10. gr. reglugerðarinnar segir svo: „Þegar Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur fengið þau gögn um starfsleyfisumsókn, er það telur þurfa, og kannað þau, skal það gera tillögur sínar um afgreiðslu hvers máls. Skal þess sérstaklega gætt að eiturefni og hættuleg efni frá verksmiðjum og iðjuverum valdi ekki tjóni á mönnum, dýrum eða plöntum né mengi loft, láð eða lög. Leggja má til að ákveðin starfræksla verði alls ekki leyfð eða einungis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem um hreinsunar- eða varnarbúnað eða sérmenntun tæknilegra stjórnenda. Í till. skal greina hæfilegan frest til úrbóta og fyrirmæli um, á hvern hátt úrbætur skulu gerðar. Till. skulu rækilega rökstuddar og fram tekin mengunarmörk. Till. sínar skal Heilbrigðiseftirlitið senda heilbrrh. sem skal endanlega úrskurða málið.“

Samkv. reglugerðinni á þannig að meta þessi vandamál einvörðungu frá heilsuverndar, hreinlætis- og náttúruverndarsjónarmiðum, en hvorki frá sjónarmiðum iðnþróunar, arðsemi né öðrum hagfræðilegum eða fjármálalegum viðhorfum.

Ég hefði aldrei léð máls á því að mengunarvarnir eða náttúruvernd yrðu eitthvert samningsatriði við erlent fyrirtæki. Því var umræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem skipuð var mönnum sem sérfróðir voru um peningamál, að sjálfsögðu ekki falið að semja um eitt eða neitt annað en að tilkynna að íslenskar reglur yrðu algildar. Það er sem sé á valdi Heilbrigðiseftirlits ríkisins að kveða á um þessar reglur út frá þessum forsendum sem ég minntist á áðan, og vissulega er Heilbrigðiseftirliti ríkisins þar ákaflega mikill vandi á höndum. Okkur skortir að sjálfsögðu reynslu á þessu sviði, okkur skortir nægan mannafla, þessi stofnun er ekki nægilega öflug eins og hún er o. s. frv. Þess vegna hef ég lagt til og komið inn á fjárlög í allmörg ár sérstakri upphæð til ráðstafana í sambandi við þessa reglugerð um iðjumengun, og hún var þannig hugsuð að Heilbrigðiseftirlit ríkisins gæti orðið sér úti um óháða erlenda sérfræðinga sér til halds og trausts í sambandi við slík mál.

Mengunarvandamál af þessu tagi er hægt að leysa. Það er hins vegar spurning um peninga og það er spurning um þekkingu og það er spurning um það, að heilbrigðis- og náttúruverndarsjónarmið verði ríkjandi, en ekki arðsemissjónarmið.

Þegar ég setti viðræðunefnd um orkufrekan iðnað þær reglur sem ég minntist á áðan, þá töldu margir þeir sem rætt höfðu við erlenda aðila, að þær væru fráleitar, þær jafngiltu því að slíkir samningar væru útilokaðir með öllu, enda drógu ýmsir aðilar, sem hafið höfðu viðræður, sig í hlé þegar þeir kynntust þessari afstöðu, þ. á m. bandaríski auðhringurinn Union Carbide, en hann taldi 51% eignaraðild af sinni hálfu algert skilyrði. Það var ekki fyrr en 1973, í ársbyrjun, sem Union Carbide tilkynnti að fyrirtækið væri reiðubúið til að fallast á pólitísk skilyrði ríkisstj. Síðan var unnið að samningsgerð á þessum forsendum og um haustið lágu fyrir drög sem ég taldi fullnægja þessum pólitísku hugmyndum mínum, á þeim forsendum þó sem ég gat um áðan, að við sætum uppi með verulegt orkumagn sem ekki væri unnt að koma í verð án þess að til kæmi orkufrekur iðnaður. En þessar forsendur, sem allt starfið hafði byggst á, gerbreyttust einmitt haustið 1973. Þá snarhækkaði verð á olíu, ferfaldaðist eða fimmfaldaðist á skömmum tíma, og um leið gerbreyttust allar hugmyndir um það hvenær húshitunarmarkaðurinn kæmi til. Það var ljóst að það var ekki aðeins þjóðhagslega hagkvæmt, heldur sparnaður fyrir einstaklinga að taka fyrst upp rafhitun í stað olíukyndingar. Ég fól þá þegar Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens í samvinnu við Orkustofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, Hitaveitu Reykjavíkur og aðra opinbera aðila að framkvæma könnun á því hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Jafnframt fór ég þess á leit við Seðlabankann að hann hæfi gerð fjármögnunaráætlunar í sama tilgangi.

Fyrir svo sem ári lagði ég síðan fram hér á þingi framvinduskýrslu um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens og frá Seðlabankanum. Ég mun ekki rekja efni þeirrar skýrslu hér í einstökum atriðum, eldri þm. þekkja hana og nýjum þm. vil ég benda á að kynna sér hana. Hún var þskj. 562 í Sþ. í fyrra. Þar var rakið á ótvíræðan hátt hversu stórlega hagkvæmt það væri, bæði fyrir einstaklinga og þjóðarheildina, að nýta innlenda orkugjafa og hversu mikið átak þyrfti til þess að framkvæma þau umskipti á skömmum tíma. Það kom fram, að til þess að koma á rafhitun í stað olíu, þar sem hitaveitur væru ekki tiltækar, þyrfti 800 gwst. umfram það sem nú er notað. Öll framleiðsla Sigölduvirkjunar til almennra þarfa og til húshitunar nemur 700 gwst. á ári. Hún nægir sem sé ekki til að fullnægja húshitunarmarkaðnum á Íslandi. Þannig reyndust að fullu brostnar þær forsendur sem upphaflega var miðað við, að við hefðum verulegt magn af orku sem við gætum ekki komið í verð um nokkurt árabil.

Ég gerði ríkisstj. grein fyrir þessum gerbreyttu viðhorfum fyrir ári eða svo og benti á að forsendur fyrir stofnun járnblendiverksmiðju væru þær og þær einar að þegar yrði ráðist í nýja virkjun vegna verksmiðjunnar. Ég teldi að almenni markaðurinn og húshitunarmarkaðurinn ættu að hafa algeran forgang og þar mætti ekki koma til neinna árekstra. Vinstri stjórnin reyndist sammála um að hraða bæri nýtingu innlendra orkugjafa og beita til þess öllum tiltækum ráðum, og þar af leiðandi var mér falið að leggja fyrir síðasta þing svo hljóðandi þáltill. sem ég tel stuðningsflokka fyrrv. ríkisstj. vera skuldbundna af. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar eftirfarandi:

Gerð skal ítarleg framkvæmdaáætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Skal áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdahraða og fela í sér eftirtalin atriði:

1. Hitaveituframkvæmdir hvarvetna þar sem jarðvarmi er tiltækur og nýting hans talin hagkvæm. Verði miðað við að hitaveituframkvæmdum verði í meginatriðum lokið fyrir árslok 1976.

2. Samtenging allra orkuveitusvæða landsins og breyting á dreifikerfum svo að landsmenn allir geti átt kost á nægri raforku. Ráðist verði í nýjar virkjanir sem tryggi næga orkuframleiðslu og auknar rannsóknir á nýtanlegum virkjunarstöðum. Verði að því stefnt að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, geti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981.

3. Fjármögnunarráðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lántökum svo að nægilegt fé verði jafnan tiltækt til þessara framkvæmda.

Framkvæmdaáætlun þessi skal lögð fyrir næsta þing.“

Ætlun mín var sú að áætlun af þessu tagi lægi fyrir sem fullfrágenginn kostur á þessu þingi nú, menn gætu síðan borið saman á hlutlægan hátt, hvort þeir vildu heldur nýta orkuna til húshitunar og annarra þarfa eða til þess að reisa járnblendiverksmiðju, eða metið hvort þjóðin hefði fjárhagslegt bolmagn, mannafla og getu til þess að bæta nýrri virkjun við í kjölfar Sigölduvirkjunar og gera hvort tveggja í senn. Sjálfur komst ég að þeirri niðurstöðu að við hefðum ekki bolmagn til þess að gera hvort tveggja í senn og þá yrði almenni markaðurinn að ganga fyrir.

Því hefur verið haldið fram að hér sé um að ræða stefnubreytingu af minni hálfu, en sú er ekki raunin. Þetta er nákvæmlega sama stefnan og mótuð var 1971, þegar Sigölduvirkjun var ákveðin og sú stefna mótuð að tengja saman orkuveitusvæði og fullnægja húshitunarmarkaði jafnört og hann opnaðist. Það eru aðstæðurnar sem hafa breyst, en ekki skoðanir mínar.

Ég hef hér vikið lauslega að gangi þessa máls þann tíma sem ég gegndi störfum iðnrh. Málið lá síðan niðri í kosningabaráttunni í fyrra og í stjórnarmyndunarviðræðunum, en með myndun nýrrar ríkisstj. urðu skjót umskipti. Hæstv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, lét það verða sitt fyrsta verk að stöðva öll störf að gerð áætlunar um nýtingu innlendra orkugjafa. Þeir aðilar, sem ég nefndi áðan, hafa ekki verið látnir halda áfram störfum sínum og engin áætlun verið lögð fyrir þetta þing. Hæstv. iðnrh. hefur tafið um hálft ár lagningu stofnlínu milli Suðurlands og Norðurlands, og það er nú ljóst að sú lína getur ekki flutt fullt magn af raforku norður um leið og Sigalda kemur í gagnið. Ekkert er enn unnið að undirbúningi stofnlinu frá Kröflu til Austurlands, og allir, sem leita til hæstv. ráðh. um fyrirgreiðslu í sambandi við nýtingu innlendra orkugjafa, hvort sem um er að ræða hitaveitu eða raforku, kvarta undan hiki, óvissu og loðnum svörum.

Hér á þingi í gær svaraði hæstv. ráðh. fsp. um hitaveituframkvæmdir á Suðurnesjum. Í skýrslu þeirri, sem ég gat um áðan, var ráðgert að sú hitaveita yrði fullgerð á árinu 1976. Nú kemur í ljós að hæstv. iðnrh. hefur ákveðið að tefja þessa framkvæmd um 2 ár í viðbót, hún á ekki að verða tilbúin fyrr en 1978, og þetta enda þótt ljóst sé að sparnaður við að taka upp hitaveitu í stað olíunotkunar er svo mikill að stofnkostnaður borgast upp með sparnaðinum á örfáum árum.

Það er ljóst að hæstv. iðnrh. og núv. ríkisstj. hafa algerlega fallið frá stefnu fyrrv. ríkisstj. um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu. Þeir hafa ákveðið að ráðstafa raforkunni frá Sigölduvirkjun til járnblendiframleiðslu, en láta þarfir almennings í öllum landshlutum sitja á hakanum, einnig þörf þjóðarheildarinnar á gjaldeyrissparnaði og auknu sjálfstæði á sviði orkumála. Allt er þetta þeim mun fróðlegra sem frv. gerir ráð fyrir því að verksmiðjan taki ekki til starfa fyrr en hálfu öðru ári eftir að Sigölduvirkjun kemur í gagnið. Þannig stenst ekki einu sinni sú röksemd að verksmiðjan eigi að brúa bilið þegar stökk kemur í orkuframleiðslu og erfiðleikar verða á markaði. Engar skýringar hafa heyrst frá hæstv. ríkisstj. eða hæstv. iðnrh. um það, hvernig eigi að brúa þetta bil sem að mati ríkisstj. verður hálft annað ár.

Ég tel þetta alranga stefnu í orkumálum, hvort sem á hana er lítið frá sjónarmiði efnahagsmála eða félagsmála. Út af fyrir sig nægir þetta til þess að ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því. En fleira kemur vissulega til.

Þau drög, sem unnin voru meðan ég gegndi störfum iðnrh., eru nú gerbreytt. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Þetta stafar að verulegu leyti af óviðráðanlegum ytri breytingum en einnig af breytingum sem hæstv. iðnrh. hefur beitt sér fyrir og ég tel vera okkur mjög í óhag. Frá fyrri drögum hefur stofnkostnaður verksmiðjunnar hækkað úr um 30 millj. dollara eða 2 600 millj. kr., miðað við þáv. gengi, í 68 millj. dollara eða 10 800 millj. kr., miðað við núv. gengi. Stofnkostnaður hefur þannig meira en tvöfaldast í dollurum og fjórfaldast reiknað í íslenskum krónum. Því þarf að sjálfsögðu að meta allar hugmyndir um fjárhagsgetu á nýjan leik, einnig í samanburði við fjármagnsþörf okkar á fleiri sviðum.

Á móti kemur svo hitt, að meðalarðsemi hefur samkv. skýrslum sérfræðinga ríkisstj. nærri tvöfaldast, hækkað úr 10.3% í liðlega 20%, og er þá átt við fjárfestingu fyrir skatta. Fyrirtækið er sem sé orðið mjög arðbært eins og nú horfir, og það ætti að sjálfsögðu að gera okkur auðveldara að afla fjármagns til þess. Viðbrögð hæstv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens við þessum breytingum hafa orðið þau að hann hefur lagt að Union Carbide að auka eignarhluta sinn í þessu arðbæra fyrirtæki úr 35%, eins og áður hafði verið fallist á, í 45%. Þetta jafngildir aukningu á hlutafé Union Carbide um 2.4 millj. kr. Iðnrh. ber fram þá röksemd að fjármögnunarvandinn sé orðinn stærri og hann sé nú að tryggja það að hann leggist ekki á okkur íslendinga á jafnþungbæran hátt og ella hefði orðið.

En hæstv. iðnrh. féllst á fleiri breytingar. Tækniþekking, einkaleyfi og önnur slík þekking er innifalið í hlutafjárframlagi Union Carbide og var í fyrri drögum verðlagt á 2.3 millj. dollara. Nú er þessi upphæð hækkuð með einu pennastriki í 3.2 millj. dollara án nokkurs rökstuðnings. Hv. þm. Jón G. Sólnes spurði um þetta atriði í umr. í Ed. og spurði þá um það, hvort Union Carbide hefði metið það svo háu verði að þurfa að semja við kommúnískan iðnrh., eins og hv. þm. komst að orði. Sé þetta skýringin ætti það alla vega að liggja ljóst fyrir að ég hafi getað unnið fyrir kaupinu mínu meðan ég gegndi störfum ráðh.

En það eru fleiri breytingar sem gerðar hafa verið. Önnur breyting, sem hæstv. iðnrh. hefur gert, er að hækka söluþóknun úr 3%, eins og áður var gert ráð fyrir, í 3.9% að meðaltali. Söluþóknunin á nú að hækka í stigum, verða þeim mun hærri sem meira er selt, og hef ég ekki fengið neinar skýringar á því fyrirkomulagi, aðra en þá að hæstv. ríkisstj. telji að Union Carbide geti haft einhverjar annarlegar ástæður til þess að selja aðeins hluta af þessari framleiðslu, og ef svo er vildi ég gjarnan fá skýringar á því viðhorfi. En meðalhækkunin er sem sé úr 3% í 3.9% og þessi hækkun er samþykkt enda þótt framleiðsla verksmiðjunnar, kísiljárnið, hafi hækkað um 150% og þar með söluþóknunin í dollurum. Þessi hækkun til Union Carbide frá fyrri drögum nemur 783 þús. dollurum á ári.

Tækniþjónusta Union Carbide er 3% af söluverði og hefur hækkað frá fyrri drögum um 521 þú s. dollara á ári.

Árlegur arður Union Carbide vegna aukinnar arðsemi og aukinnar eignaraðildar hefur hækkað frá fyrri drögum um hvorki meira né minna en 2 millj. 102 þús. dollara.

Þessir 4 þættir, sem ég hef nefnt, tækniþekking, söluþóknun, tækniþjónusta og arður, hafa þannig hækkað um 4 millj. 306 þús. dollara frá fyrri drögum, aðeins á fyrstu 12 mánuðum sem verksmiðjan starfar. Union Carbide er því ekki að leggja fram 2.4 millj. dollara í viðbót sem hlutafé. Við erum að leggja fram þá upphæð á, silfurbakka handa Union Carbide — með verulegri uppbót þó — vegna þess eins hvernig hæstv. iðnrh. hefur haldið á málinu. Mér er það gersamlega óskiljanlegt eins og hv. þm. Jón G. Sólnes hvernig þarna hefur verið að verki staðið. Ég vil minna á það að þrír þessara þátta, þ. e. a. s. söluþóknunin, tækniþjónustan og arðurinn, eru árlegir þættir — tækniþekkingin er borguð í eitt skipti fyrir öll, en hinir þættirnir koma fram árlega, og standist þær áætlanir sem gerðar hafa verið um verksmiðjuna, þá verður hlutur Union Carbide þessu meiri en áður var reiknað með.

Hin upphaflegu drög um járnblendiverksmiðju voru m. a. gagnrýnd á þeirri forsendu að raforkuverðið væri of lágt og mátti færa viss rök að því. Í því sambandi ber þó að minnast þess að um var að ræða orku sem ekki var fyrirsjáanlegur markaður fyrir um nokkurra ára skeið, að um væri að ræða að meiri hluta til orku sem ekki átti að koma frá Sigölduvirkjun nema að litlum hluta, heldur er nú þegar í kerfi Landsvirkjunar, án þess að unnt sé að koma henni í verð, og að um væri að ræða orkusölu til íslensks fyrirtækis sem væri að miklum meiri hluta til í eigu íslenska ríkisins. Það var hins vegar ein meginafleiðing olíukreppunnar haustið 1973 að orkuverð snarhækkaði um allan heim. Að sjálfsögðu bar að leggja megináherslu á það atriði við endurskoðun hinna upphaflegu draga. Hæstv. iðnrh. hefur samið um það að raforkuverð hækki.

Ef tekið er meðalverð fyrir forgangsorku og afgangsorku á 8 árum, þá er hækkunin úr 4.2 mill á kwst. í 5.7 mill eða um rúmlega 35%. Orkuverðið hækkar sem sé miklu minna en allir aðrir kostnaðarliðir hinnar fyrirhuguðu verksmiðju. Stofnkostnaðurinn hefur, eins og ég rakti áðan, hækkað um meira en helming, byggingarkostnaðurinn um 150%. Þarna virtist þó hæstv. iðnrh. hafa kjörið tækifæri til þess að halda fast á íslenskum hagsmunum. Í fyrri drögum hafði Union Carbide fallist á arðsemi sem næmi 10.3%, eins og áður var rakið. Ef hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen hefði staðið á þessari arðsemi, 10.3%, sem búið var að samþykkja, en krafist þess að orkuverð hækkaði í samræmi við breyttar aðstæður, hefði verið hægt að krefjast 10.4 mill fyrir kwst. og halda samt óbreyttri arðsemi sem hlutfalli af fjárfestingu. Þeim mun meiri ástæða var til að halda fast á þessu máli sem eignarhlutur Union Carbide í verksmiðjunni hefur verið aukinn um nærri þriðjung og þar með arður fyrirtækisins af orkunni. En hæstv. iðnrh. hefur lotið ákaflega lágt að sætta sig við 5.7 mill miðað við þessar gerbreyttu aðstæður, þegar 10.4 mill áttu að vera innan seilingar á rökréttan hátt, miðað við þau fyrri drög um arðsemi sem Union Carbide hafði fallist á.

Fyrri samningsdrög og þau, sem nú liggja fyrir okkur, eru ekki sambærileg vegna þess hversu mjög ytri aðstæður hafa breyst á þessum tíma. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hæstv. iðnrh. hafi haldið ákaflega illa á okkar hlut miðað við þessar breyttu aðstæður og síður en svo náð þeim árangri sem unnt hefði verið að ná miðað við grundvallaratriði sem áður lágu fyrir. Ég er því andvígur frv. einnig af þessari ástæðu.

Ég á sæti í þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, og mun að sjálfsögðu fjalla um það þar og því eru ýmsir þættir sem ég mun ekki gera hér að umtalsefni. Ég tel þó rétt að gera hér grein fyrir brtt. sem ég hafði hugsað mér að flytja í n. Ég mun þar í fyrsta lagi flytja frávísunartill., svo hljóðandi:

„Þar sem íslendingar þurfa á næstu árum að hagnýta alla tiltæka orku, fjármagn og vinnuafl til þess að fullnægja þörfum hins almenna orkumarkaðar, m. a. með rafhitun húsa, telur Alþ. allar forsendur skorta til þess að koma upp orkufrekum iðnaði meðan svo er ástatt og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þessi till. verður ekki samþ. mót von minni í hv. iðnn., þá mun ég einnig freista þess að flytja tilteknar brtt. við frv. og ég vil gjarnan gera grein fyrir þeim eða nokkrum þeirra í stuttu máli við þessa 1. umr.

1. gr. frv. hljóðar svo:

Ríkisstj. skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði til framleiðslu á 75% ferrosilikoni og hafi með höndum þá framleiðslu og skyldan atvinnurekstur.“

Ég legg til, að við þessa setningu bætist: „Staðarvalið skal þó háð því að uppfyllt sé ákvæði 29. gr. l. um náttúruvernd, nr. 47/1971, og ákvæði 4., 9. og 10. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, nr. 164/1972.“

Eins og ég rakti áðan er það eitt af meginatriðum þessarar reglugerðar að það má ekki ákveða staðarval nema þetta formlega samþykki, sem á að ná til allra þátta verksmiðjurekstrarins, liggi fyrir. Þessu ákvæði hefur þegar verið beitt. Því var m. a. beitt við að stöðva framkvæmdir við svo kallaða kíttisverksmiðju sem reisa átti í Hveragerði, vegna þess að ekki hafði verið sótt um staðarleyfi fyrir hana á eðlilegan hátt. Framkvæmdir voru stöðvaðar þar. Og ég á dálítið erfitt með að skilja að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. eða hv. Alþ. að komast hjá því að lúta ákvæðum þessarar reglugerðar. Mér virðist þó af ýmsum orðum, sem fallið hafa, að þessi sé ætlunin og því tel ég rétt að þetta sé tekið ótvírætt fram í frv.

Ég mun fyrir mitt leyti leggja til að eignarhlutur íslendinga haldist 65%, eins og um hafði verið rætt í hinum fyrri drögum.

Í sambandi við 3. gr., þar sem rætt er um jarðnæði við Grundartanga, höfn við Grundartanga, veg að hinni fyrirhuguðu verksmiðju og raflínu að hinni fyrirhuguðu verksmiðju, þar legg ég til að við bætist nýr tölul.:

„6. Að gera samning við verksmiðjuna sem tryggi að hún greiði allan kostnað við framkvæmdir þær sem um getur í 2. og 5. lið.“

Nýlega barst ríkisstj. álitsgerð frá Þjóðhagsstofnun um þetta frv. og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru. Er bent á ýmis athyglisverð atriði í þessari tiltölulega nýkomnu skýrslu og m. a. er fjallað þar um höfnina. Í þessari skýrslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst er að hafnargerðin er alger forsenda fyrirtækisins. Hins vegar er alls óvíst, hver önnur not verða af höfninni, og má telja líklegt að hún muni um fyrirsjáanlega framtíð þjóna málmblendiverksmiðjunni því nær eingöngu. Nálægð annarra hafna í Reykjavík og Akranesi skiptir hér meginmáli fyrir þörf og hugsanleg not annarra fyrirtækja af höfninni. Eðlilegt virðist einnig að líta svipuðum augum á kostnað við vegalagningu, en hér mun um að ræða endurbætur vegarins frá þjóðveginum til verksmiðjulóðarinnar. Samkv. upplýsingum starfsmanns viðræðunefndar um orkufrekan iðnað var fjárfesting í Grundartangahöfn áætluð nema um 450 millj. kr. fyrir gengisbreytinguna 13. febr. s. l. og kostnaður við vegagerðina lauslega áætlaður geta numið um 25 millj. kr. Þjóðhagsstofnun hefur reiknað arðgjöf fyrirtækisins að meðtalinni þessari fjárfestingu á gengi og verðlagi sambærilegu við fjárfestingaráætlanir viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Jafnframt hefur rekstraráætlunin verið leiðrétt vegna áætlaðrar greiðslu hafnargjalda, en í stað hafnargjalda hefur lauslega verið gert ráð fyrir rekstrarkostnaði hafnarinnar. Þessi leiðrétting veldur lækkun hafnar- og lóðargjalda um 66 þús. dollara og samsvarandi hækkun rekstrarhagnaðar. Á þessum grunni verður niðurstaðan sú, að afkastavextir nemi 12.8% í stað 13.6%, þegar ekki er tekið tillit til nauðsynlegrar fjárfestingar í höfn og vegi. Það er álit Þjóðhagsstofnunar að þótt deila megi um að hve miklu leyti eigi að skrifa hafnar- og vegareikning þennan á kostnað málmblendiverksmiðjunnar einnar, fæst naumast rétt mynd af arðgjöf fyrirtækisins nema að teknu einhverju tilliti til þessa kostnaðar.“

Ég fæ ekki betur séð en þessar aths. séu algerlega réttar, og mér er ekki alveg ljóst hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að rekstrarhalli þessarar hafnar verði bættur. Varla getur verið til þess ætlast að þau sveitarfélög, sem eiga að verða formlegur eigandi hafnarinnar, eigi að standa undir þeim rekstrarhalla, en sá halli er fyrirsjáanlegur um alllangt árabil. Verksmiðjunni verður aðeins gert að greiða hafnargjöld, sömu hafnargjöld og í Reykjavík, og það liggur fyrir að þau nægja ekki til þess að standa undir tilkostnaði þessarar hafnar, þannig að ég tel að Alþ. þurfi að gera það alveg ljóst hvernig ætlunin er að jafna þennan mun. Því flyt ég þá brtt. sem ég nefndi áðan.

Í sambandi við 5. gr. um stjórn fyrirtækisins mun ég flytja brtt. þar sem segir:

„Fulltrúar íslenska ríkisins í stjórn fyrirtækisins skulu vera 5 og kjörnir hlutfallskosningu í Sþ. til árs í senn svo og varamenn þeirra.“

Og við 6. gr., þar sem ríkisstj. er heimilað að gera tiltekna samninga við Union Carbide, legg ég til að verði bætt svofelldri setningu:

„Þó skal greiðsla fyrir tækniþjónustu Union Carbide í formi hlutabréfa ekki vera hærri en 2.3 millj. dollarar, meðalsölulaun ekki hærri en 3% og meðalraforkuverð fyrstu 8 árin ekki lægra en 8 mill á kwst.“

Ég rakti áðan að hin breytta arðsemi gerir kleift að greiða 14.4 mill fyrir kwst. ef maður reiknar með sömu arðsemi og áður var reiknað með, þannig að þarna er farið bil beggja og hæstv. ráðh. gefið svigrúm sem ætti að geta nægt honum.

Ég vil svo undir lokin láta þess getið að ég sé þrátt fyrir allt ástæðu til þess að fagna því að ekki hefur að fullu verið horfið frá því grundvallaratriði að fyrirtækið verði að meiri hluta í eigu íslenska ríkisins, þótt nú sé miklu verr gengið frá eignarhlut íslenska ríkisins en áður var fyrirhugað. Ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki hvika frá þeirri meginreglu, hvorki á sviði orkufreks iðnaðar né annarra atvinnumála, ef við ætlum að halda efnahagslegu sjálfstæði okkar, að við eigum sjálfir allan atvinnurekstur í landinu. Ég tel steðja að okkur miklar hættur á þessu sviði, ekki síst í sambandi við nýtingu íslenskrar orku. Það er vitað að öflugir erlendir aðilar horfa nú miklum löngunaraugum á þá orku. Því tel ég miklu skipta í sambandi við afgreiðslu þessa máls að flokkarnir geri grein fyrir meginstefnu sinni á þessu sviði í sambandi við afgreiðslu málsins.

Hæstv. iðnrh. lýsti yfir því í sjónvarpi í viðræðum við mig fyrir nokkru, að hann væri þeirrar skoðunar að fyrirtæki í orkufrekum iðnaði, sem rísa kunni á Íslandi, eigi eftirleiðis að vera að meiri hluta til í eigu íslendinga. Sumir flokksbræður hans eru hins vegar greinilega á annarri skoðun. Hv. þm. Jón G. Sólnes sagði í ræðu sem hann flutti í Ed., að hann hefði viljað að Union Carbide ætti verksmiðjuna einn eða með einhverjum hérlendum einstaklingum, og hann lauk máli sínu með þessum afar fróðlegu orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ung var ég gefin Njáli, sagði mikil hetja þegar hún fylgdi manni sínum í bálið. Ég hef frá unga aldri verið hrifinn af stefnu Sjálfstfl. og reynt að vinna flokknum allt það gagn sem ég hef getað. En á þessu fyrsta þingi, sem ég sit sem kjörinn fulltrúi fyrir Sjálfstfl., er mér boðið upp á að styðja frv. sem stuðlar að meiri eflingu ríkisrekstrar í þjóðfélaginu en nokkru sinni hefur átt sér stað fyrr. Þetta finnst mér erfiður biti að kyngja. Og ég hef ekki hetjulund hinnar merku konu Bergþóru. Ég held að ég láti það ógert. Ég lýsi andstöðu minni við þetta frv. eins og það liggur fyrir og mun greiða atkv. gegn því.“

Þannig telur hv. þm. Jón G. Sólnes að meiri hluti íslenska ríkisins sé stóra hættumerkið í sambandi við þetta frv., og það er þessi meirihlutaréttur íslenska ríkisins sem veldur því að hann leggst gegn því. Við höfum hér í Nd. hlýtt á orðræður hv. þm. Sverris Hermannssonar um áhuga hans á því að eftirláta erlendum auðhring bæði rannsóknir og stórvirkjanir á Austfjörðum, og slík dæmi mætti nefna mörg fleiri. Ég tel að þarna vofi yfir okkur ákaflega mikil hætta og það sé nauðsynlegt, eins og ég gat um áðan, að reyna að tryggja næga samstöðu, bæði hér á Alþ. og meðal þjóðarinnar, til þess að hlaða varnarmúr gegn þessari þróun. Ég tel að það sé ákaflega æskilegt í sambandi við þetta mál að hæstv. forsrh., sem því miður er ekki staddur hér, lýsi yfir því, hver er stefna núv. hæstv. ríkisstj. á þessu sviði, hvernig hún hugsar sér að staðið verði að áætlunum um þróun iðnaðar af þessu tagi á næstu árum, hver er sameiginleg afstaða hæstv. ríkisstj., og raunar væri fróðlegt að heyra þá líka um afstöðu Sjálfstfl. sem hefur birst í gagnstæðum viðhorfum eins og ég gat um áðan.