19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í framsöguræðu hæstv. iðnrh. fyrir þessa frv. sagði hann að höfuðástæður þess að ríkisstj. flytti þetta frv. um járnblendiverksmiðju væri að æskilegt og raunar nauðsynlegt væri að selja verulegan hluta af raforku Sigölduvirkjunar til annars en venjulegra raforkuþarfa landsmanna. Hæstv. ráðh. bætti síðan því við að hér væri um að ræða mjög hagkvæman raforkusölusamning sem mjög mundi, eftir hans máli, skilja, styrkja raforkuframleiðsluna í landinu. Þá nefndi hæstv. ráðh. aðra ástæðu fyrir því að rétt væri að ráðast, í byggingu þessarar verksmiðju, og hún var sú að með tilkomu verksmiðjunnar opnaðist nýr vinnumarkaður fyrir allmarga menn, einkum og sérstaklega meðan á byggingu hennar stæði, og væri með þessari verksmiðju verið að gera atvinnulíf þjóðarinnar fjölbreyttara og traustara en það væri nú. Þá minntist hæstv. ráðh. á þá möguleika, sem opnuðust með þessari verksmiðju fyrir ýmis þjónustufyrirtæki að eiga viðskipti við hana. Einnig minntist hann síðan á það, að verksmiðjan mundi greiða talsverða skatta og opinber gjöld og einnig væntanlega skila álitlegum arði.

Þetta var það sem helst var fram fært, eftir því sem ég skildi hæstv. iðnrh., til rökstuðnings því að það ætti að ráðast í byggingu þessarar verksmiðju og rekstur hennar. Það var sem sagt ljóst af máli hans að höfuðröksemdin fyrir byggingu verksmiðjunnar er raforkusalan. Það er að dómi hæstv. ríkisstj. þörf á því að geta selt allverulegan hluta af raforkuframleiðslu Sigölduvirkjunar til einhvers annars en hinnar almennu notkunar landsmanna sjálfra. Af þessum ástæðum tel ég sérstaka nauðsyn á því að íhuga einmitt raforkusölusamninginn, sem gert er ráð fyrir að gera í sambandi við byggingu þessarar verksmiðju, að íhuga vandlega hversu hagstæður sá samningur m:uni vera og hvað hann þýði í raun og veru fyrir okkur.

Samkv. þeim drögum að raforkusamningi, sem gerð hafa verið, er gert ráð fyrir að Landsvirkjun selji þessari verksmiðju svonefnda forgangsorku sem nemur 244 gwst. á ári og til viðbótar raforku sem nemur 304 gwst., svonefnda afgangsorku. Járnblendiverksmiðjan við Grundartanga verður byggð á þeim grundvelli, að í henni eiga að vera tveir miklir bræðsluofnar sem eru af stærðinni 30 mw. hvor, en síðan er gert ráð fyrir að verksmiðjan þurfi á viðbótarorku að halda sem samsvarar 8 mw. Það má því í rauninni tala um það, að ætla verði þessari verksmiðju raforkuafl sem nemur í kringum 60 mw., en það jafngildir rúmlega 1/3 hluta af Sigölduvirkjun. Það er því verið með þessum raforkusölusamningi við væntanlega járnblendiverksmiðju að ráðstafa á þennan hátt rúmlega 1/3 af raforkuframleiðslu Sigölduvirkjunar.

Samkv. þessum samningsdrögum um raforkusölu er gert ráð fyrir því að hin svonefnda forgangsorka verði fyrst um sinn seld á 9.5 mill. Sé miðað við það gengi íslenskrar krónu sem grg, frv. byggir á, en það var fyrir síðustu gengislækkun yrði forgangsorkan seld á 1.12 kr. kwst. En síðar er gert ráð fyrir því að afgangsorkan verði seld á 0.5 mill kwst. sem nemur í kringum 6 aurum, einnig miðað við gamla gengi íslensku krónunnar. Síðan er gerð grein fyrir því í grg. frv. að meðaltalsverð á raforku til verksmiðjunnar verði í kringum 59 aurar kwst. eða 5 mill.

Það hefur nokkuð verið gert úr því að hafa bæri í huga að hér væri um tvenns konar raforkusölu að ræða: annars vegar svonefnda forgangsorku, en varðandi hana hvílir afhendingarskylda á Landsvirkjun að skila þessari orku til fyrirtækisins á hverjum tíma, og hins vegar afgangsorku sem ekki hvíldi á fullkomin afhendingarskylda og væri nokkuð í valdi Landsvirkjunar hvernig yrði um afhendingu á. Ég tel að í þessum efnum hafi ekki allur sannleikurinn verið sagður. Sannleikurinn er sá að þau drög að raforkusölusamningi, sem hér liggja fyrir, fela í sér ýmiss konar skilyrði varðandi afhendinguna á svonefndri afgangsorku. Í fyrsta lagi er ákveðið í raforkusölusamningi að Landsvirkjun sé skylt að afhenda sem afgangsorku a. m. k. 163 gwst. á hverju ári, neðar megi þessi afgangsorka ekki fara. Enn fremur segir í þessu m samningsdrögum að sé miðað við fjögurra ára tímabil, þá sé Landsvirkjun skylt að afgreiða sem nemur 734 gwst., sem er sem sagt nokkru meira en skyldan varðandi eitt einstakt ár. Enn segir í þessum samningsdrögum að Landsvirkjun sé skylt að afhenda sem afgangsorku á öllu samningstímabilinu, yfir 20 ára tímabil, 4880 gwst. sem afgangsorku, en það jafngildir því að afgangsorkan verði að vera á hverju ári um sig 244 gwst. Það er því ljóst mál að sú skylda hvílir á samkv. þessum raforkusölusamningi að afhenda til verksmiðjunnar jafnmikið af afgangsorku eins og forgangsorku, sem sagt jafnmikið magn af raforku, sem selst á 6 aura kwst., eins og af þeirri orku, sem selst á 1.12 kr. kwst. Þegar þess er einnig gætt að hér er um það að ræða að reka verksmiðju sem er byggð upp þannig að hún hefur tvo ofna af stærðinni 30 mw., þá gefur augað leið að það verður að afhenda bæði forgangsorku og afgangsorku nokkurn veginn óslitið, þ. e. a. s. nýtingartíminn er í kringum 8000 stundir á hverju ári í báðum tilfellum. Það er því ekki rétt að gera mikið úr því að fram fari samkv. þessum sölusamningi sérstaklega hagkvæm afhending á raforku í formi afgangsorku. Önnur skilyrði, sem fylgja með varðandi þessa orkuafhendingu, eru þannig, að Landsvirkjun verður að afhenda þetta orkumagn á samningstímanum og á hverju einstöku ári. Þar geta ekki orðið nein meiri háttar frávik. Sé síðan gengið út frá því að þetta verði meðaltalsverðið á raforku, í kringum 5 mill eða sem nemur 59 aurum á kwst., miðað við það gengi sem þetta frv. byggir á, eins og ég hef minnst á áður, þá jafngildir þetta því að verksmiðjan kaupi raforku frá Landsvirkjun fyrir í kringum 285 millj. kr. að meðaltali á ári.

En þá er rétt að hugleiða eitt atríði nokkru nánar. Hvað er þá að segja um framleiðslukostnað þeirrar raforku sem á að selja samkv. þessum samningsdrögum? Í grg. frv. segja sérfræðingar Landsvirkjunar að þeir hafi reiknað út svokallað kostnaðarverð á þessari raforku. Þeir hafa gert grein fyrir því að til þess að reikna út kostnaðarverð þessarar raforku verði að leggja til grundvallar stofnkostnað Sigölduvirkjunar og einnig Hrauneyjarfossvirkjunar og óhjákvæmilegar stofnlinur til verksmiðjustaðarins. Þeim er ljóst að það er ekki hægt að standa að þessari orkusölu án þess að til komi ný virkjun á borð við Hrauneyjarfossvirkjun tiltölulega mjög fljótlega. Þessir sérfræðingar Landsvirkjunar segjast hafa fengið út úr sínu dæmi að telja megi að kostnaðarverð þessarar raforku sé 9.4 mill miðað við forgangsorku og þá gangi þeir út frá 40 ára rekstrartímabili orkuveranna, reikni með 9.1% reiknivöxtum, 0.5% rekstrarkostnaði á ári og 12% vöxtum á byggingartíma. Þá er sem sagt útkoman 9.4 mill, kostnaðarverð forgangsorkunnar frá þessum orkuverum. Ef síðan er reiknað með afhendingu afgangsorku á því verði sem gert er ráð fyrir í drögunum að orkusölusamningi, þ. e. a. s. 0.5 mill fyrir afgangsorkuna, megi telja að beint kostnaðarverð þessarar raforku á þessum grundvelli sé 4.95 mill. Hins vegar er gert ráð fyrir því í öllum þeim útreikningum sem hér liggja fyrir að meðaltalsverðið verði 5 mill. Það er því alveg augljóst að miðað við þær forsendur, sem sérfræðingar Landsvirkjunar hafa lagt til grundvallar, þá viðurkenna þeir að það verð, sem á að fást fyrir raforkuna frá járnblendiverksmiðjunni liggi rétt við útreiknað kostnaðarverð.

Nú hefur verið dregið í efa af ýmsum að þær kostnaðaráætlanir, sem gerðar hafa verið, bæði um Sigölduvirkjun og eins um Hrauneyjarfossvirkjun og línulögn til verksmiðjunnar, fái staðist, enda kemur það einnig greinilega fram í grg. frv. hjá sérfræðingum Landsvirkjunar að þeir gera ráð fyrir því, að svo geti farið, og telja það reyndar mjög líklegt. En þeir hugga sig við það að vegna ráðgerðrar endurskoðunar á verðlagningunni á öllum samningstímanum geti orðið um nokkra verðhækkun að ræða frá þessum tölum, sem byggt hefur verið á, og að sú hækkun á raforkunni gæti þá staðið á móti þeim hækkunum sem yrðu umfram áætlanir á byggingarkostnaði.

Ég tel samkv. því, sem ég hef greint frá, að það sé enginn vafi á því að það verð á raforkunni, sem hér er verið að ræða um til járnblendiverksmiðjunnar, liggi alveg fast við hreint kostnaðarverð samkv. þessum útreikningum, að ekki sé meira sagt. Mér þykir hins vegar miklu líklegra að það fari svo í þessu tilfelli eins og í öðrum áður, að kostnaðarverðið reynist í reyndinni mun hærra og við seljum því samkv. þessum orkusölusamningi beinlínis orkuna á undirverði. Hér er því ekki um nein hagkvæm skipti að ræða, því getur enginn maður haldið fram sem vill skýra rétt frá. Það hefur aldrei verið draumur okkar í sambandi við virkjanir á okkar fallvötnum að drifa okkur í að virkja fallvötnin og afhenda öðrum aðilum að meira eða minna leyti orkuna frá fallvötnunum á beinu kostnaðarverði. Því aðeins eru þetta einhver verðmæti fyrir okkur að við kunnum að hagnýta okkur þessa orku og fá út úr henni það verðgildi sem mögulegt er.

En þá er spurningin: Áttum við þá aðra möguleika til þess að ráðstafa þessari orku frá Sigöldu sem var umfram okkar almennu notkun, eða stóðu málin kannske þannig að við ættum ekki neinn annan kost en að láta útlendinga fá þessa umframorku fyrir svo gott sem ekkert? Það hafa verið lagðar fram áætlanir hér á Alþ. sem sýna að við höfðum fulla þörf fyrir alla þá umframorku, sem hér gat verið um að ræða, til þess m. a. að útrýma þeirri miklu notkun á olíu sem við notum nú til húsahitunar í landinu. Það hefur lengi verið talað um þetta verkefni, en það hefur lítið miðað áfram.

Samkv. skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um þetta efni, sem lögð var fram hér á Alþ. fyrir um það bil einu ári, kemur í ljós að Verkfræðistofan telur að til þess að útrýma algerlega olíunotkun úr húsakyndingu í landinu miðað við árið 1980 — en þar er gert ráð fyrir að við leysum þetta verkefni á 4–5 árum — þurfum við á orku að halda, sem nemur 927 gwst., og sé þá búið að reikna með því að við notfærum okkur jarðhita í stað olíunotkunar á öllum þeim stöðum á landinu þar sem hægt er að koma slíku við. Ef við ætlum að fullu að losa okkur við olíukyndingu til húsahitunar í landinu, þá þurfum við eigi að síður á orku að halda sem nemi 927 gwst. Þar er um verkefni að ræða, sem augljóslega er mun stærra hvað orkuþörf viðvíkur heldur en það sem ráðgert er til járnblendiverksmiðjunnar við Grundartanga. Það leikur því enginn vafi á því að þarna var um að ræða viðbótarverkefni við þá almennu raforkunotkun sem við þurfum á að halda í okkar landi með eðlilegri aukningu raforkunnar frá ári til árs. Þarna var um að ræða verkefni sem við áttum að leysa og þurftum að leysa.

Það hefur verið bent á að miðað við núverandi verðlag á olíu munum við eyða milli 2 og 3 þús. millj. kr. á ári í kyndingu íbúðarhúsa og sé öll húsakynding talin, ekki aðeins í íbúðarhúsum, þá mun þetta fara nokkuð yfir 5000 millj. kr. Í skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens kemur fram að talið er, miðað við olíuverð þegar skýrslan er gerð, það olíuverð sem húsakyndingin byggist á, 11.50 kr. fyrir hvern lítra af olíu, þá megi raforka til húsahitunar kosta til jafns við það verð 2.50 kr. kwst. Nú kostar olía til húsakyndingar ekki 11.50 kr. hver lítri, nú kostar hún 20.20 kr. hver lítri. Það jafngildir því að kaupa mætti raforku á 4.50 kr. hverja kwst. og hagnast þó nokkuð hver einstakur aðili sem keypti þá orku. Hér er um gífurlega miklar fjárhæðir að ræða sem liggur fyrir okkur vitanlega að reyna að spara.

Í þessari skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens kemur fram, að meira að segja hér á svæði Landsvirkjunar, hér á Suðvesturlandi, er um að ræða allmikla olíunotkun til húsakyndingar á ýmsum stöðum sem enga aðstöðu hafa á komandi árum til að geta notfært sér jarðhita. Er gert ráð fyrir því að árið 1980 þurfi á þessu svæði 342 gwst. í raforku til þess að leysa olíuna af hólmi í húsakyndingu. Nú gefur auga leið að þó að aðeins það verkefni væri leyst í þessum efnum að selja á Suðvesturlandi, á orkusvæði Landsvirkjunar, 250 gwst. fyrir t. d. 4 kr. kwst., þá jafngildir það sölu upp á 1000 millj. kr. á ári. En það er verið að tala um að selja enn þá meiri orku en þetta, miklu meiri orku en þetta, til járnblendiverksmiðju fyrir 285 millj. kr. á ári.

Það er ekkert um að villast að þjóðhagslega hefði verið margfalt hagstæðara fyrir okkur íslendinga að beina þessari orku í það verkefni að útrýma olíunotkuninni til húsakyndingar, í stað þess að selja orkuna á þessu verði til járnblendiverksmiðjunnar. Á því leikur enginn vafi.

En þá hefur annað gerst í þessum málum nú í seinni tíð. Þegar þeir, sem mest berjast fyrir byggingu þessarar járnblendiverksmiðju, sjá að þeir standa frammi fyrir þessum staðreyndum, þeir geta ekki vikið sér undan þeim, að hér er um óhagstæða ráðstöfun á raforkunni frá Sigöldu að ræða, við höfum möguleika á að ráðstafa henni á miklu hagstæðari hátt þá hafa þeir gripið til þess ráðs að segja: Við getum hvort tveggja, við getum útrýmt olíunni úr húsakyndingu, losað okkur við þann mikla kostnað, og við getum einnig selt þessa raforku til járnblendiverksmiðju. Við getum gert hvort tveggja. Þetta er ný kenning í málínu, það er rétt að undirstrika það.

Þegar þetta mál var lagt fyrir fyrrv. ríkisstj. á sérstökum fundi með þeirri n. sem hafði unnið að rannsóknum á þessu máli, varðandi járnblendiverksmiðjuna, — þegar það var lagt fyrir ríkisstj. á sérstökum viðræðufundi, ég hygg um miðjan mars 1974, þá viðurkenndu allir þeir sem höfðu fjallað um þetta mál og þar með formaður í stjórn Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal, að á því léki enginn vafi að það yrði ekki hægt að anna báðum þessum verkefnum nema þegar í stað yrði tekin ákvörðun um að ráðast í nýja virkjun, t. d. í Hrauneyjarfossi, því að ella væri ekki mögulegt að leysa bæði verkefnin. En ég hef veitt því athygli að hv. þm. Steingrímur Hermannsson, einn af þeim sem unnið hafa að undirbúningi þessa verksmiðjumáls frá upphafi og formaður iðnn. Ed. sem hefur haft málið til meðferðar, — ég hef veitt því athygli að hann hefur í málflutningi sínum um þetta atriði verið nokkuð órólegur. Hann tekur t. d. fram í alllangri grein sem hann skrifar um nálið fyrir stuttu í Tímann, að það sé afstaða sín til þessa máls að ef nokkur hætta væri á því að ekki væri hægt að vinna af fullum krafti að rafhitunarmálum húsa, þá yrði hann á móti því að selja þessa raforku til járnblendiverksmiðju. Hv. þm. sagði orðrétt um þetta atriði í grein sinni með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lít svo á,“ sagði Steingrímur Hermannsson, „að ekki kæmi til greina að samþykkja slíka verksmiðju ef bygging hennar yrði til þess að orkuskortur yrði til nauðsynlegra eigin nota landsmanna.“ Hann bætir síðan við: „En ég hef sannfærst um að svo þarf ekki að verða.“

Ég ætla að víkja að því nokkrum orðum á hverju hann byggir þessa sannfæringu sína, en mér sýnist að hann byggi hana á harla veikum rökum. Hann hefur hins vegar fengið þessa skoðun að mínum dómi vegna mikils áhuga síns á því að koma upp þessari verksmiðju hvað sem tautar og raular. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson birtir í þessari Tímagrein, sem ég hef minnst á, töflur um útreikninga á orkuframleiðslu raforkuvera okkar og einnig um spádóma varðandi orkuþörf okkar á nokkrum komandi árum. Í þessari töflu kemur það fram hjá Steingrími Hermannssyni að árið 1977, vegna þess að þá verður járnblendiverksmiðjan ekki komin í gang nema að sáralitlu leyti, muni verða umframorka hjá okkur í öllu kerfinu sem nemur 513 gwst., en árið 1978 telur hann að enn verði umframorka upp á 135 gwst. En þá ber líka þess að gæta að hv. þm. Steingrímur Hermannsson ætlar Járnblendiverksmiðjunni ekki nema 261 gwst., hann ætlar henni aðeins forgangsorkuna sem við erum skyldugir að afhenda, 244 gwst., og aðra alveg nauðsynlega orku handa verksmiðjunni fyrir utan hinn stóra ofn. En ef hann hefði áætlað verksmiðjunni jafnmikla orku og við erum skyldugir að afhenda henni að meðaltali á hverju ári á samningstímanum, þ. e. a. s. 488 gwst., ef hann hefði ætlað henni jafnmikla orku og við erum samningslega bundnir af, þá hefði farið á annan veg. Þá hefði beinlínis vantað orku upp á 92 gwst. árið 1978 og þá hefði einnig samkv. útreikningum Steingríms Hermannssonar vantað 142 gwst árið 1979 og 172 gwst. árið 1980. Þess ber þó að gæta að Steingrímur tekur það fram í sínum útreikningum að hann sé búinn að setja í sínu dæmi inn í orkuframleiðsluna í landinu Kröfluvirkjun og reyndar Bessastaðaárvirkjun á Austurlandi líka sem ekki er búið að taka neina ákvörðun um að ráðast í, aðeins veita lagalega heimild til þess.

Þessar tölur, sem teknar eru upp úr grein Steingríms Hermannssonar, sýna alveg ótvírætt að það er ekki hægt að leysa þessi verkefni bæði. Hann er að vísu búinn að setja inn í sína útreikninga allmikla orkusölu til þess að koma upp rafhitun húsa, en þó engan veginn í þeim mæli sem þarf að gera. Þessar tölur, eins og ég sagði, sýna greinilega að það er ekki hægt að óbreyttum aðstæðum að leysa hvort tveggja verkefnið að selja járnblendiverksmiðju þá orku frá Sigöldu sem gert er ráð fyrir í þeim samningsdrögum sem hér liggja fyrir og að leysa vanda húsakyndingarinnar eða útrýma olíunni úr kyndingu húsa í landinu.

Það er að vísu rétt, að enn hafa menn verið að bæta við þessar spár. Menn hafa verið að bæta því við að Kröfluvirkjun gæti komist fljótlega upp í 60 mw. virkjun og ef tækist að nýta hana til fulls, svo stóra, þá mundi þó ekki skorta á orku, segir í sérstakri skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um málið, nema eitt þessara ára en þá mundi þó skorta á.

Það er skoðun mín að á því leiki enginn vafi að raforkusala, sem ráðgerð er til járnblendiverksmiðjunnar samkv. þessu frv., sé óhagkvæm. Það séu mestar líkur til þess að við seljum raforkuna beinlínis undir kostnaðarverði, en þar verði ekki um neinn beinan hagnað að ræða. Það er einnig skoðun mín að við gætum ráðstafað þessari orku á miklu hagkvæmari hátt fyrir okkar þjóðarbú. Við gætum sparað margfalda fjárhæð á við það, sem inn á að koma frá járnblendiverksmiðjunni, með því að nota þessa orku til húsahitunar í landinu. Og þá þyrftum við ekki að hraða virkjunarframkvæmdum okkar sérstaklega, eins og gert er nú ráð fyrir, umfram það sem áætlað hafði verið og okkur verður að teljast hagkvæmt á hverjum tíma.

Annars er það býsna athyglisvert í sambandi við þessa raforkusölu til járnblendiverksmiðjunnar, að það er alltaf á þennan veg þegar rætt er um að selja raforku til stóriðjurekstrar í okkar landi. Þá er alltaf farið þannig að að reiknað er út beinlínis framleiðslukostnaðarverð raforkunnar, hvað það kostar á 40 ára tímabili að framleiða orkuna, og stóriðjuaðilarnir vilja gjarnan gefa kost á því að kaupa þessa orku á beinu framleiðslukostnaðarverði. Svona lágu þessi mál fyrir á sínum tíma þegar samið var við Alusuisse varðandi álverið í Straumsvík. Þá voru menn að reikna út hvað væri framleiðslukostnaðarverð, og í rauninni játuðu allir á sínum tíma að það raforkuverð, sem þá var ákveðið, lægi a. m. k. alveg fast við mörkin að teljast framleiðslukostnaðarverð. Við margir héldum því þá fram, að það væri miklu líklegra að reynslan yrði sú að framleiðslukostnaðurinn yrði mun meiri á raforkunni frá Búrfelli en þá var gert ráð fyrir, og það er enginn vafi á því, að reynslan hefur sýnt að framleiðslukostnaður á orkunni þaðan varð og er nú í dag miklu mun meiri en samið var um við álhringinn. Við erum að selja álverinu mikla raforku langt undir verði, það vita allir íslendingar í dag.

Eins og hefur komið fram í þessum umr. og útvarp og sjónvarp hafa m. a. skýrt frá nú síðustu daga, þá er býsna athyglisvert að árið 1973 var útkoman sú að álverið í Straumsvík keypti um það bil 60% af allri raforku Landsvirkjunar fyrir 314 millj. kr., en Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti hins vegar tæp 16% af allri orkunni fyrir 346 millj. kr. M. ö. o.: raforkuverðið, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur sem raunverulegum heildsöludreifingaraðili í þessum efnum varð að borga, var um fimmfalt verð á við það sem álverið varð að borga fyrir raforku sína. Og þetta hlutfall fer sífellt versnandi.

Þá er rétt að víkja að því sem hæstv. iðnrh. sagði varðandi rök fyrir því að ráðast í byggingu þessarar verksmiðju, að hún væri ekki aðeins nauðsynleg, þessi verksmiðja, til þess að taka við raforkunni frá Sigölduvirkjun, heldur væri verksmiðjan einnig þýðingarmikil fyrir þjóðarbúskap okkar almennt séð, treysti efnahag okkar og skapaði nýjan vinnumarkað. Það er rétt að víkja nokkuð að því hvaða gildi þessi verksmiðja hefur fyrir efnahagslíf okkar almennt séð.

Í grg. frv. er talið að svonefndar gjaldeyristekjur af rekstri þessarar verksmiðju geti numið í kringum 10.8 millj. dollara á ári eða miðað við það gengi, sem frv. byggist á, í kringum 1200 millj. kr. Er gerð grein fyrir því að það megi í rauninni skipta þessari fjárhæð á 4 aðalliði mikið til að jöfnu: Þar sé um að ræða í fyrsta lagi greiðslu fyrir raforku til verksmiðjunnar. Í öðru lagi sé þar um að ræða greiðslu verksmiðjunnar á vinnulaun, greiðslu hennar til skipafélaga fyrir flutningsgjöld og greiðslu til ýmiss konar þjónustuaðila. Í þriðja lagi komi svo skattar og ýmiss konar opinber gjöld og þar með leiga fyrir höfnina. Og í fjórða lagi er svo um beinan hagnað af verksmiðjunni að ræða. Það má segja að þarna geti verið um að ræða í grófum tölum, eins og frv. byggir á, greiðslu fyrir hvern þessara liða í kringum 300 millj. kr. eða þar um bil, miðað við þær áætlanir sem byggt er á í frv. Nú er að mínum dómi alrangt að tala um að þessi verksmiðja þýði raunverulega það fyrir okkar þjóðarbúskap að hún leggi í okkar gjaldeyrissjóð á hverju ári í kringum 1 200 millj. kr. Fyrsti liðurinn af þessum, sem ég nefndi, þ. e. a, s. raforkusalan, við fáum raunverulega engan gjaldeyri í okkar kassa fyrir þessa raforkusölu. Að vísu fáum við 285 millj. kr. fyrir raforkusöluna, en við verðum að nota alla þá upphæð til þess að greiða af því raforkuveri, sem veitir þessa orku. Við fáum ekki út úr þessum lið gjaldeyri fyrir okkar almenna búskap. Þessi liður gengur út og inn.

Þá komum við að lið nr. 2, en það er greiðsla fyrir vinnulaun, fragtir og þjónustugjöld til ýmissa aðila. Það er alveg rétt, verksmiðjan mun greiða þessi vinnulaun í gjaldeyri og það er fullkomin gjaldeyrisöflum fyrir okkur þarna upp á 300–350 millj. kr. á ári. Þetta er nákvæmlega sama aðstaðan og við hófum núna við álverið og í rauninni nákvæmlega sama aðstaðan og við höfum á Keflavíkurflugvelli. Þeim íslendingum, sem vinna á Keflavíkurflugvelli, hjá verktökunum þar, er greitt kaup og við fáum raunverulega gjaldeyri fyrir þeirra kaup. Þarna er í þessu tilfelli um raunverulegar gjaldeyristekjur að ræða.

Það má einnig segja um 3. liðinn, sem eru skattgreiðslur og greiðsla á ýmiss konar opinberum gjöldum. En ég leyfi mér að draga það mjög í efa, að skattgreiðslurnar samkv. grg. frv. muni standast í raun, enda kemur strax í ljós, að þegar Þjóðhagsstofnun gerir skyndiathugun sína á þessum áætlunum; sem liggja fyrir, þá kemst hún strax að raun um að það verði að lækka þessa áætlun, það sé ekki líklegt að hún standist og uppsetningin sé ekki heldur að öllu leyti rétt, Þessi arður byggist líka á því, að atgert hámarksverð, sem orðið hefur á framleiðslu verksmiðjunnar, á járnblendi, nú á tímabili, það háa verð haldist. Reynslan sýnir hins vegar að verð á járnblendi hefur gert ýmist að hækka eða lækka. Það fylgir mjög á eftir verði á járni og stáli og nú hefur járn og stál tekið upp á því að lækka verulega í verði. Það mætti segja mér það, að verð á járnblendi væri þegar lækkað þó að okkur væri ekki sagt frá því. Allar líkur benda til þess að það lækki alveg eins og verð á járni og stáli. Það hefur gert það jafnan áður. Það er að vísu rétt, sem kemur fram í aths. frá Þjóðhagsstofnun, að það er eitt sem mælir kannske með því að verðið haldist uppi, þetta háa verð á járnblendi, en það er að nú sé þessi framleiðsla víðast hvar illa séð og sé verið að loka verksmiðjum víða, þær þoli ekki þær reglur sem gilda um mengunarvarnir víða úti í heimi, og af þeim ástæðum, segir í þessari aths., að svona hagi til, þá kunni að vera að framleiðslan haldist í svona háu verði. M. ö. o.: það er verið að minna okkur á að við séum hér að taka að okkur að leyfa verksmiðju af því tagi sem yfirleitt fáist ekki byggð annars staðar eða aðrir séu beinlínis að reka frá sér.

Ég tel því að það sé mjög vafasamt að ekki sé meira sagt, að við höfum það skattgjald og arð af þessum atvinnurekstri sem reiknað hefur verið með. En þó er það svo að hér er vitanlega ekki um neina stórbreytingu fyrir efnahagalíf okkar að ræða og hefur enga meginþýðingu fyrir okkur. Ef menn vildu breyta þessu í eitthvað af því sem við eigum auðveldast með að skilja, þá er ekki um meiri fjárhæðir að ræða en sem nemur því ef við rækjum 3–4 millistóra togara og ynnum aflann úr þeim sæmilega vel. Það er sú heildarframleiðsla sem hér er nefnd, sem ég reikna þó með að verði í rauninni mun minni í reynd. Það eru því ekki ýkjamikil rök að mínum dómi sem liggja til þess að ráðast í þessa verksmiðjubyggingu til að útvega þar 115 mönnum fasta vinnu og einhverjum þjónustufyrirtækjum möguleika á vissum þjónustustörfum. Ég held að aðstaða sé til þess að veita þessum mönnum aðra vinnu og það tiltölulega mjög auðveldlega, — vinnu sem mundi í rauninni skila okkur meira og væri okkur hagkvæmari. Það er líka, eins og hér hefur verið á minnst, rétt að hafa í huga að þeir útreikningar, sem hafa áður verið lagðir fram um nokkur fyrirtæki hliðstæð þessu, hafa ekki komið út eins og gert var ráð fyrir. Skyldu ekki fleiri en ég muna hvað sagt var um kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn? Þetta þótti einstaklega álitlegt fyrirtæki sem hlaut að græða. Og hver hefur reynslan orðið? Ég veit ekki betur en reynslan hafi orðið sú að fyrirtækið hafi tapað á hverju einasta ári síðan það hóf rekstur, og þó ber þess að gæta, að því hefur verið lagt til fé á beinan og óbeinan hátt frá opinberum aðilum án þess að fyrirtækið þyrfti að skila því fjármagni aftur. Það þótti m. a. á þeim tíma sjálfsagt að leggja í rauninni alveg sérstakan veg á milli Húsavíkur og verksmiðjunnar og kosta þá vegalagningu algerlega úr ríkissjóði. En það var vitanlega meira en gert var við venjuleg innlend fyrirtæki.

Ég hygg, að þessu hafi verið mjög svipað farið með rekstur álversins í Straumsvík. Þar var einnig gert ráð fyrir miklum gróða, en reynslan hefur orðið allt önnur. Fyrirtækið hefur sýnt á reikningum sínum taprekstur flestöll árin, og þegar hefur orðið jákvæður rekstur, þá er um óverulegan hagnað að ræða. Hitt liggur svo aftur fyrir um rekstur álversins, að sá rekstur hefur mætt slíkum erfiðleikum að hefðum við íslendingar átt verksmiðjuna og borið algera ábyrgð á rekstri hennar, þá er enginn vafi á því að við hefðum þurft að stöðva allan rekstur í verksmiðjunni. Við hefðum ekki haft möguleika á því að halda verksmiðjunni í gangi í heilt ár án þess að selja nokkuð af framleiðslu hennar þó að auðhringurinn Alusuisse með öllum sínum heimssamböndum hafi getað haldið framleiðslunni í gangi. Og nú er verðið á áli aftur fallið og aftur fyrirsjáanlegur taprekstur á þeirri verksmiðju.

Nei, því fer vitanlega víðs fjarri að það sé gefið mál, þó að um stóriðjurekstur sé að ræða af því tagi sem hér er verið að ræða um að sá rekstur muni alltaf skila rekstrarhagnaði. Við höfum líka séð að þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fyrir okkur um þetta fyrirtæki, eru ekki traustvekjandi. Það er vitanlega ekki traustvekjandi að leggja fyrir okkur kostnaðaráætlun um byggingu þessarar verksmiðju og að byggingarkostnaður skuli hækka meira en um helming, hann skuli tvöfaldast á rúmu einn ári, mælt í erlendum gjaldeyri, mælt í dollurum. Hvers konar áætlanir voru það, sem voru fyrst lagðar fyrir okkur að það skyldi þurfa að hækka þær um meira en helming á einu ári, í dollurum mælt? Þeir, sem lögðu þessar áætlanir fram, verða að játa að þær hafa verið rangar. Á þessum tíma urðu engar þær breytingar í stofnkostnaði, mælt í erlendum gjaldeyri að þær réttlættu þessa miklu stökkbreytingu.

Það er vitanlega mjög barnalegt að líta þannig á þær tölur, sem hafa verið lagðar fyrir okkur varðandi rekstur þessarar verksmiðju, að trúa því að hér sé um einhvern öruggan gróðarekstur að ræða. En þessi verksmiðja hlýtur þó að hafa býsna mikil áhrif í efnahagslífi okkar þótt hún hafi ekki þau áhrif að mínum dómi að hún muni skjóta styrkari stoðum undir efnahagslíf okkar almennt séð. Það fer vitanlega ekki á milli mála, að þegar byggð er verksmiðja sem áætlað er að kosti 9.4 milljarða kr. í stofnkostnaði, miðað við gamla gengið, og síðan leiðir sú verksmiðjubygging það af sér að við verðum að ráðast strax í virkjun Hrauneyjarfoss, eins og allar áætlanirnar eru miðaðar við, og sú virkjun mun kosta samkv. áætlunum, líka miðað við gamla gengið, 10–12 milljarða kr., — þegar sem sagt á að ráðast hér í framkvæmdir á suðvesturhorni landsins sem nema í kringum 25 milljörðum kr. miðað við núverandi verðgildi krónunnar, þá hefur það talsvert að segja.

Ég skil því mætavel að þeir, sem nú vinna mest að því að koma þessu máli í gegn, hafi fundið að þeir mæta nokkurri andstöðu, m. a. frá þeim þm. sem eru fulltrúar kjördæma úti á landi. Þeir eru hreint ekkert ánægðir með þá sérstöku byggðstefnu sem felst í þessum ákvörðunum. En þá hafa þeir líka gripið til þess ráðs að segja: Ja, það er nú ekki alveg víst að það verði Hrauneyjarfossvirkjun sem ráðist verður í. Það gæti alveg eins orðið virkjun fyrir norðan, segja menn. Og hæstv. iðnrh, gengur svo langt hér á Alþ. og víðar á opinberum vettvangi að hann segir að hann lofi því, að það verði ekki tekin ákvörðun um virkjun við Hrauneyjarfoss fyrr en ákvörðun hafi verið tekin um virkjunarstað á Norðurlandi. Allt er þetta svo loðið að hann treystir sér til að smjúga í gegnum þetta þegar til framkvæmdanna kemur enda veit hann mætavel að allar áætlanir, sem þetta frv. byggist á, reikna með allt öðru. Þær reikna með því að það verði ráðist í Hrauneyjarfoss. En málin bara standa þannig að það stendur í þingfulltrúum frá Norðurlandi og víða annars staðar að af landsbyggðinni, það stendur í þeim að samþykkja allar þessar framkvæmdir hér og verða dregnir á framkvæmdum í sínum byggðarlögum, eins og hefur verið lengst af.

Þegar hæstv. iðnrh. hefur fundið að hann væri kannske búinn að segja nokkuð mikið í þessum efnum, að það yrði ekki tekin nein ákvörðun um Hrauneyjarfossvirkjun fyrr en væri búið að ákveða virkjunarstað á Norðurlandi, og hefur eflaust fengið áminningu frá einhverjum hér sunnanfjalla út af þessu, hvað væri nú að gerast, þá er hann ekki í vandræðum með að komast út úr þeim vanda. Þá segir hann bara opinskátt í Morgunblaðinu: Ég er ekkert viss um að það þurfi að velja á milli stórvirkjunar fyrir norðan o, stórvirkjunar fyrir sunnan, — því ekki báðar stórvirkjanirnar? Það var síðasta loforðið, sem gefið var í þessum efnum: Hví ekki báðar stórvirkjanirnar? (Iðnrh.: Er hv. þm. nokkuð andvígur því?) Nei, en ég hef ekki mikla trú á því, þótt svona loforðum sé sveiflað, að það liggi nokkur alvara þar á bak við. Ég þekki vel, að það sem hér hefur verið ákveðið, þ. e. bygging þessarar verksmiðju og ný virkjun við Hrauneyjarfoss, það er það sem á að koma. Það kann að vera að það verði sagt um svipað leyti við þá norðlendinga: Jú, það verður virkjað fyrir norðan, en virkjunartíminn bíður og verður til athugunar áfram.

Ég held að þessar stórkostlegu framkvæmdir komi til með að hafa mjög örlagarík áhrif, t. d. í byggðamálum í landinu og um atvinnuþróun í landinu. Í mínum augum skiptir hér engu máli þó að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að auka við fjárráð Byggðasjóðs um 440 millj. Eins og allir sjá er það smápeningur borið saman við þær fjárhæðir sem við erum hér að tala um, og verður þó enn þá minna virði þegar það er svo á næsta leiti að ríkisstj. leggi fram frv. um að hún megi skera niður áætlaðar framkvæmdir á fjárl. um 3500 millj., sem auðvitað verður niðurskurður fyrst og fremst á framkvæmdum úti á landi, á því leikur enginn vafi.

En svo að einnig í þessu sambandi sé komið að öðru merkilegu atriði varðandi þetta mál, þá er það hin peningalega hlið sem snýr beint að okkur sjálfum. Það er gert ráð fyrir í þessu frv. að hlutafé okkar í þessu verksmiðjufyrirtæki eigi að nema um 2 000 millj. kr. og menn bæta því við: 2000 millj., þetta verður tekið að láni. — Síðan kemur einnig fram í frv. að til viðbótar við þessar 2 000 millj. kemur í okkar hlut að leggja fram 5100 millj. af stofnkostnaði fyrirtækisins. Það á einnig að taka að láni. Síðan eigum við að byggja höfn fyrir verksmiðjuna og leggja þar vegi, og áætlanir eru upp á 500 millj. kr. Þetta jafngildir 7 600 millj. kr., hvorki meira né minna, og þetta eigum við að fá að láni. Því er bætt við að við getum auðveldlega fengið þetta að láni. Það eru til jafnvel í hópi þm. svo trúgjarnir menn, að þeir segja: Þetta eru mikil lán að vísu, en þó er hægt að ganga svo frá þessum lánum að þetta hafi ekki áhrif á aðra lánsmöguleika okkar. Formaður Alþfl. sagði hér í umr.: Það hafa verið gefnar yfirlýsingar um að þessi miklu lán verði ekki látin hafa áhrif á lánsmöguleika okkar á öðrum sviðum. — Hann var nú greinilega svolítið hikandi að trúa þessu, en ætlaði þó að trúa því, að mér skildist. M. ö. o.: þó að við tökum lán upp á 500 millj. kr. til þess að byggja höfn, aukahöfn þarna uppi í Hvalfirði, þá halda menn að það hafi engin áhrif á okkar almennu hafnarframkvæmdir í landinu, engin áhrif á möguleika okkar til þess að útvega lán til annarra hafnarframkvæmda. Og þó að við förum á alþjóðlegan peningamarkað og tökum þar lán upp á yfir 7 000 millj. kr., þá halda menn að það hafi engin áhrif. Þetta er vitanlega hægt að segja börnum, en ekki þeim sem þekkja eitthvað til peningamála.

Ég efast að vísu ekkert um að þeim í Seðlabankanum mun takast að útvega þessi erlendu lán. Þeir geta útvegað þau og eflaust meira, af því að þeir vilja koma þessu fyrirtæki upp. En þegar menn hafa verið að nefna það að undanförnu að taka lán til að hraða hitaveituframkvæmdum eða raforkuframkvæmdum sem gætu stuðlað að því að við gætum dreift orkunni til meiri húshitunar í landinu en nú er, þá er alltaf borið við peningaleysi, þá er alltaf því borið við að það verði erfitt að útvega lán. Hér er ekki um það að ræða að það sé erfiðara að útvega lán til slíkra framkvæmda heldur en til þessarar verksmiðjubyggingar, heldur er spurningin um það, hvort menn vilja frekar ráðast í að hita upp hús sín í landinu með raforku og jarðvarma eða leggja peningana í að byggja járnblendiverksmiðju.

Eins og ég sagði, þá fer auðvitað að dómi hæstv. núv. ríkisstj. einkar vel á því, að á sama tíma sem hún segist geta fengið nóg lán upp á yfir 7 milljarða kr. í þessu skyni, þá segir hún: Við verðum að skera niður nauðsynlegar verklegar framkvæmdir upp á 3 500 millj. kr. Við verðum að skera þær niður. Við verðum að stöðva nýjar lánveitingar úr Fiskveiðasjóði. Við verðum að stórdraga úr lánum til landbúnaðarins. Við verðum að stórauka lán til íslensks iðnaðar. Við verðum að fara þessa leið af því að við höfum orðið fyrir efnahagslegum áföllum. — Það fer heldur vel á því að syngja þennan söng um leið og menn halda því fram að þeir geti auðveldlega fengið þessar fjárhæðir að láni til að leggja í járnblendiverksmiðju.

Í sambandi við þessa verksmiðjubyggingu hljóta menn að leiða hugann að því hvert við raunverulega stefnum í þróun okkar atvinnumála. Stefnum við að því að koma upp mörgum stóriðjufyrirtækjum í landinu? Stefnum við að því eins og t. d. hefur komið fram í umr. á Alþ., að byggð yrði t. d. á Reyðarfirði á Austurlandi ein álverksmiðja á borð við þá sem nú er rekin í Straumsvík. Hún þarf í kringum 500 menn í vinnu. Ég spyr, hvaða fólk á Austurlandi á að taka að sér vinnu í þessari verksmiðju? Það er enginn möguleiki að fá vinnuafl í þessa verksmiðju þar án þess að taka þá þetta vinnuafl frá þeim landbúnaðarrekstri, sem þar á sér stað nú, eða frá þeim sjávarútvegi sem þar er rekinn nú. Það er auðvitað til sú leið að flytja menn annars staðar frá austur til þess að vinna við þessa verksmiðju. En hvaðan á að flytja þá? Á að flytja þá úr Rangárvallasýslu? Ég hygg, að einhver mundi neita því. Á að flytja þá frá einhverjum öðrum stað? Það væri fróðlegt að vita, hvaðan á að flytja þá.

Nei, hér er um þá spurningu að ræða, hvert við stefnum í okkar atvinnuþróun. Eigum við að koma upp mörgum slíkum stóriðjufyrirtækjum? Er það markmiðið, að vinnuafl okkar eigi að starfa í slíkum verksmiðjum, eða eigum við að beita vinnuafli okkar að öðrum störfum. Og þá kemur líka sú spurning: Eru þessi önnur störf til? Eru þau til? Í þeim efnum vil ég m. a. minnast á það, að við höfum öll barist hart fyrir því að íslendingar fengju full einkayfirráð yfir öllum fiskimiðunum í kringum landið. Við vonum að það verðu stutt eftir því að bíða að við fáum fullkominn yfirráðarétt yfir þessum auðlindum. Opinberar skýrslur, sem liggja fyrir um fiskafla þann sem tekinn hefur verið á Íslandsmiðum um langan tíma, — við höfum skýrslur í meira en 20 ár, — þær sýna að t. d. bolfiskaflinn, sem tekinn hefur verið á Íslandsmiðum, hefur verið á milli 700 og 800 þús. tonn að meðaltali á ári. Við höfum hins vegar ekki tekið nema á milli 300 og 400 þús. tonn eða helming af þessum afla. Hvað er meiningin að gera þegar við erum búnir að fá undir okkar yfirráð þessar miklu auðlindir? Er ekki meiningin að nýta þessar auðlindir eða eigum við kannske að selja þær á leigu, virkja þær á á þennan sama hátt og menn ræða nú um vatnsorkuna? Ég efast ekkert um það að þó að við beitum allri þeirri tækni sem við þekkjum til nú, þá standa slík verkefni fyrir okkur varðandi okkar sjávarútveg á komandi árum og áratugum að við þurfum ekki aðeins í sambandi við veiðarnar, heldur fyrst og fremst við úrvinnsluna og öll þau störf, sem tengjast okkar fiskiðnaði, á miklum mun fleiri mönnum að halda til þess að nýta þessa auðlind en við höfum við þessi störf í dag, miklum mun fleiri. Hér er um gífurlega stórt verkefni að ræða. Spurningin er sú: Ætlum við okkur að vinna að þessu verkefni eða ætlum við að hverfa frá því og gerast verksmiðjukarlar hjá útlendingum?

Spurningin er auðvitað einnig sams konar varðandi landbúnað okkar. Ef við ætlum okkur að halda því áfram að framleiða landbúnaðarafurðir þær sem við þurfum á að halda og getum framleitt í okkar landi, ef við ætlum að halda því áfram að framleiða þær í okkar landi og gera það sjálfir fyrir sívaxandi þjóð, þá verðum við líka að hafa til þess fleiri menn en við höfum í dag. Ég álít því, að okkur skorti ekki verkefni. Og við höfum líka iðnað beint í okkar höndum sem hefur mikla möguleika á mörgum sviðum. Þar vitum við um ótal stórt verkefni sem við eigum eftir að leysa. Þegar við hugleiðum það að hvaða marki við stefnum í þróun atvinnumála okkar, þá verðum við að svara þessum spurningum: Stefnum við að því að ráðstafa vinnuafli okkar í verksmiðjur af þessu tagi í stórum stíl, virkja fallvötn okkar á þann hátt að við getum selt raforkuna við framleiðslukostnaðarverði til útlendinga en fengið vinnu hjá þeim í staðinn. Er það það sem er keppikeflið? Ég tel að það sé alröng stefna og af þeim ástæðum m. a. er ég alveg á móti því, að þetta frv. verði samþ. og ráðist verði í byggingu þessarar verksmiðju. Ég vil einnig vekja athygli á því að með þessu frv. er verið að ætla þessum verksmiðjurekstri mikil fríðindi fram yfir það sem íslenskir atvinnuvegir almennt eiga við að búa. Í 9. gr. frv. segir orðrétt á þessa leið:

„Innflutningur af hálfu hlutafélagsins á byggingarefni, vélum og búnaði og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum til verksmiðjufélagsins og rekstrar hennar og tengdra mannvirkja skal undanþeginn aðflutningsgjöldum og söluskatti á innflutning.“

Hér er auðvitað um stórkostleg fríðindi að ræða umfram það sem okkar atvinnuvegir verða að búa við. Þegar svo standa sakir að við þurfum að byggja hér t.d. fiskiðnaðarverksmiðju, jafnvel þótt menn hafi orðið fyrir miklum áföllum, að slík fyrirtæki hafi eyðilagst og njóti opinbers stuðnings til þess að reyna að endurreisa þetta, þá verður að greiða tolla á tolla ofan, söluskatt á söluskatt ofan af öllum þeim vélum og tækjum og öllum þeim efnivið sem fer í að byggja upp slík fiskiðnaðarfyrirtæki aftur. Hér er því verið að veita þessari stóriðju allt önnur réttindi en við veitum nú hinum almennu iðnfyrirtækjum landsmanna og við veitum bæði landbúnaði og sjávarútvegi. En það er ekki aðeins á þessu sviði, heldur er það einnig varðandi almenn skattamál. Þó að mikið sé um það talað að þetta fyrirtæki eigi að vera að meiri hl. í eigu landsmanna og eigi að lúta íslenskum lögum, þá eiga að verða þar frávik frá því að það er verið að ætla þessu félagi ýmis sérstök réttindi varðandi skattameðferð sem þýða veruleg fríðindi umfram það sem önnur fyrirtæki njóta. Af hverju mátti þetta fyrirtæki ekki búa við sams konar lög og önnur fyrirtæki í landinu og vera háð því að borga skatta samkv. gildandi skattalögum eins og þau eru á hverjum tíma? En það getur vitanlega haft sínar afleiðingar ef við tökum fyrirtæki af þessari gerð, seljum þeim raforku á framleiðslukostnaðarverði eða jafnvel undir framleiðslukostnaðarverði, langtum ódýrari en öllum öðrum, veitum þeim viss skattaréttindi umfram aðra og síðan tollafríðindi og sleppum þeim við að greiða söluskatt sem aðrir verða að greiða í stórum stíl, þá er vitanlega hægt að skapa þessum fyrirtækjum allt aðra rekstraraðstöðu á mörgum sviðum.

Ég hef hér í mínu máli aðallega rætt um þessa verksmiðju út frá efnahagslegu sjónarmiði, en það er fyrst og fremst út frá því sjónarmiði sem frv. um þessa verksmiðju er hér flutt. Aðrir hafa rætt hér um margvíslegar hættur sem munu fylgja rekstri verksmiðju af þessu tagi, eins og varðandi mengun. Ég hef engu við það að bæta sem þar hefur verið sagt. Mér er ljóst að verksmiðju eins og þessari hljóta að fylgja miklar hættur á því sviði og mér sýnist líka allt benda til þess að sá aðili, sem hér á að vera okkar samningsaðili eða meðeigandi að þessari verksmiðju, sé ekki traustvekjandi á því sviði. En rök hæstv. ríkisstj. fyrir því að leggja út í þessa verksmiðjubyggingu eru öll varðandi hagkvæmnina á að selja raforku til verksmiðjunnar sem ég hef sýnt fram á að fær ekki staðist, því að raforkusölusamningurinn er óhagkvæmur og ráðstöfun á raforkunni á þennan hátt er mjög óhyggileg. Ég hef einnig bent á það hvaða afleiðingar þessi gífurlega mikla fjárfesting hlýtur að hafa í þróun byggðamála og þróun atvinnulífsins í landinu. Ég held að samþykkt þessa frv. muni í reynd fresta enn um allmörg ár nauðsynlegum framkvæmdum okkar varðandi húsahitun með rafmagni. Menn munu halda áfram að bera því við að það skorti fjármagn til þess að styrkja dreifikerfi rafveitnanna í landinu sem auðvitað er ekkert nema fyrirsláttur því að þar er ekki um stærra verkefni en svo að ræða að það ætti að vera auðvelt að leysa það jafnóðum. Ég hef nokkuð bent á það hvað hér virðist vera mikil oftrú á stóriðju og sérstaklega stóriðju í félagsskap við útlendinga. Það virðist vera mikil oftrú á hana. Öðrum sýnist alltaf, að þegar um hana er að ræða hljóti þar að vera um stórgróða að ræða og engin rekstrarleg vandamál þó að reynslan hafi átt að kenna okkur að slík stóriðja mætir sínum rekstrarvanda ekki síður en okkar almennu atvinnuvegir.

Það er miklu fleira varðandi þetta mál sem væri eflaust ástæða til að ræða hér um, eins og samningagerðina að öðru leyti. Það er t. d. alveg furðulegt að mínum dómi að það skuli vera samið við hið erlenda stórfyrirtæki á þeim grundvelli að meta þessa tækniþekkingu þeirra á 3.2 millj. dollara strax í upphafi og telja það sem framlag þeirra að þeirra hluta í stofnkostnaði verksmiðjunnar. Þarna er um gífurlega háa fjárhæð að ræða og mun hærri, eins og bent hefur verið á í þessum umr., en fyrirtækið var búið fyrr í umr. um málið að samþykkja. Því er heldur ekki að neita að áframhaldandi greiðsla til fyrirtækisins, sem nemur 3% á ári af framleiðsluverðmætinu, allt vegna þessarar þekkingar á þessum rekstri, er líka mikið gjald. Og til viðbótar við þetta allt saman kemur svo það að Union Carbide á að fá einkasöluaðstöðu á allri framleiðslunni. Það á að fá aðstöðu til þess að hafa eitt með að gera sölu á allri framleiðslu verksmiðjunnar og á heldur betur að fá söluþóknun, eða á milli 3 og 5%. Ég hélt að við hefðum í rauninni verið búnir að læra nóg í þessum efnum af samningagerðinni sem gerð var varðandi kísilgúrverksmiðjuna, þar sem við veittum hinum erlenda aðila einkarétt á sölu framleiðslunnar og gáfum honum þar með kost á því að græða hvernig sem allt veltist, þó að við sætum eftir með taprekstur, þá var hans hag alltaf borgið, og eins verður það vitanlega með þennan rekstur, að Union Carbide verður efnahagslega séð alltaf ofan á þó að við förum þar slyppir frá borði.

Ég hef lýst afstöðu minni til þessa frv. Ég er því algerlega andvígur. Ég hef skýrt frá því áður í umr. að ég var því í rauninni alltaf andvígur á meðan ég var í fyrrv. ríkisstj. Ég dró enga dul á það við samráðh. mína né heldur þá samninganefnd sem fjallaði um þessi mál að ég væri andvígur samningagerð af þessu tagi og teldi að við ættum að standa öðruvísi að okkar raforkusölumálum en á þann hátt sem yrði með uppkomu verksmiðju eins og þessarar. En ég óttast alveg sérstaklega þá stefnu sem ég þykist sjá og heyra hjá núv. hæstv. iðnrh. og núv. ríkisstj. varðandi þessi stóriðjumál. Það er ekki búið að samþykkja þetta frv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði þegar strax er farið að skrifa um það, að stækka hana eða byggja aðra. Og það er farið að ræða um stækkun á álverinu í Straumsvík og auk þess er svo farið að ræða um ýmsar stórvirkjanir sem eiga að byggjast á erlendri stóriðju.

Það er sérstaklega þessi stefna sem ég óttast. Mér sýnist að hún muni leiða til þess að atvinnulíf okkar íslendinga gerbreytist ef eftir þessari stefnu verður farið, það gerbreytist á stuttum tíma og við verðum efnahagslega háðir erlendum auðhringum. Ég vil ekki trúa því að þeir, sem berjast fyrir þessari stefnu, séu annarrar skoðunar en ég varðandi það að reyna að treysta efnahag þjóðarinnar, heldur vil ég trúa hinn að þeir séu í rauninni alveg blindaðir af oftrú á erlenda stóriðju. Þeir halda að hún muni færa okkur þau verðmæti sem hún mun ekki færa okkur. Svo er hitt, sem ég reyndar mátti vita, að margir þessara manna, sem mest berjast fyrir þessari nýju stefnu, hafa alltaf haft harla litla trú á möguleikum okkar gömlu og þjóðlegu atvinnuvega sem nefndir hafa verið. Því er það að í hvert skipti, sem eitthvað hefur bjátað á í okkar efnahagslífi ef upp hafa komið einhver vandamál, þá hefur þessi nýja stefna venjulega rokið upp. Þá er það svo að efnahagserfiðleikarnir stafa af því að sjávarútvegur okkar er svo einhæfur og hann er svo fallvaltur, það eru svo miklar sveiflur í honum, eða þá öll ólukkan stafar af landbúnaðinum, að það þarf að borga svo mikið í útflutningsuppbætur eða eitthvað þess háttar. Þá hvarflar hugur þessara manna alltaf að því: Er ekki ráðið út úr þessu öllu saman erlend stóriðja? Eitthvað stöðugt, eitthvað sem lætur ekki undan. En í þessum efnum er það það sem raunverulega er hið rétta að þarna á við hið fornkveðna, ef svo mætti segja: „Árinni kennir illur ræðari.“ Menn hafa verið fljótir að grípa til þess að kenna árinni um ef illa er á haldið, þá er sjálfsagt að kenna sjávarútveginum um eða landbúnaðinum eða íslenskum iðnaði. En það er ábyggilegt að það er hægt að róa miklu betur en gert er með þessari ár. Það er enginn vafi á því að vandinn í okkar efnahagsmálum liggur ekki í því að atvinnuvegir okkar geti ekki dugað jafnvel og erlend stóriðja. Og ég efast auðvitað ekkert um að raunverulega munu þeir duga okkur margfalt betur en stóriðja útlendinganna kemur til með að gera.