19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Frv. til l. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði á sér langan aðdraganda. Saga þess er rakin í aths. og fskj. þeim, sem prentuð eru með frv. Viðræður um málið hófust snemma árs 1971 þegar fjallað var um hvernig hagnýta bæri orku frá Sigölduvirkjun. Það er fróðlegt og nauðsynlegt að kynna sér sögu málsins og allan aðdraganda, því að þetta er viðamikið og margþætt mál, stórmál.

Löngum hefur verið um það rætt að íslendingar þyrftu að taka vatnsaflið í þjónustu sína og hagnýta það á arðvænlegan og hagkvæman hátt. Töldu flestir og telja enn að tengja yrði einhvers konar stóriðju við hin stærri skref sem stigin yrðu í virkjunarmálum. Þannig var álvinnslan í Straumsvík tengd Búrfellsvirkjun í Þjórsá og raunar talin alger forsenda hennar. Haustið 1971 var tekin ákvörðun um virkjun Sigöldu. Þá skipaði iðnrh., Magnús Kjartansson, n., sem kunnugt er til þess að vera til ráðuneytis um viðræður við erlenda aðila sem áhuga hafa á þátttöku í orkufrekum iðnaði ásamt íslendingum. N. þessi var að sjálfsögðu skipuð hinum hæfustu mönnum. Ekki er kunnugt um annað en n. þessi hafi unnið samviskusamlega að verkefnum þeim sem henni voru falin, enda hvött til dáða af áhugasömum ráðh. Verk þessi voru unnin í kyrrþey svo sem eðlilegt má telja á undirbúningsstigi, en haustið 1973 var skipuð þm.nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem kynna skyldi sér öll gögn málsins. Skyldi það m. a. gert til þess að stytta þann tíma sem Alþ. þyrfti til að fjalla um þetta mál.

Það voru óvænt atvik, sem réðu því að frv. til heimildarlaga um verksmiðju þessa var ekki lagt fyrir Alþ. fyrir þingslit vorið 1974, en í maí 1974 ritaði iðnrh. Magnús Kjartansson bréf til Union Carbide þar sem lýst er miklum áhuga á því að verksmiðjan megi verða að veruleika hið fyrsta. Það er óþarft að rekja þessa sögu nánar, hún er öllum alþm. vel kunn frá því að málið kom af undirbúningsstigi fram í dagsljósið. Þess skal þó getið að umrædd n. virðist mjög snemma hafa komist að þeirri niðurstöðu að velja bæri járnblendiiðnað frekar en t. d. aukinn áliðnað og unnið síðan rakleitt og samhent að settu marki.

Nú hafa sem eðlilegt er orðið miklar umr. um þetta mál. Það er komið frá Ed. þar sem það var samþ. með miklum meiri hl. atkv. Iðnn. þeirrar d. hélt 12 fundi um málið og kvaddi marga menn á fundi sína, svo sem segir í nál., m. a. alla oddvita sveitarfélaga við norðanverðan Hvalfjörð sunnan Skarðsheiðar og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar. Málið virðist því hafa fengið ítarlega meðferð í Ed.

Við undirbúning stórmáls af þessu tagi er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa góða samvinnu við heimamenn sem eru væntanlegir nágrannar hinnar fyrirhuguðu verksmiðju. Það er ofureðlilegt að menn séu varfærnir og vilji íhuga vel og vandlega hver verða muni aðstaða þeirra við hlið svo voldugs nágranna. Þarf engan að undra þó að skoðanir séu nokkuð skiptar um slíkt mál meðan það er á umræðu- og undirbúningsstigi. Menn eru yfirleitt ekki ginnkeyptir fyrir snöggum breytingum í nánasta umhverfi sínu. Að því leyti eru menn harla íhaldssamir og vanafastir við búsetu og venjubundna lifnaðarhætti í byggðum landsins og er það oft frekar kostur en löstur. En þegar um svona stórmál er að ræða er eðlilegt, að skoðanir verði nokkuð skiptar í fyrstu. Við munum allir, er við rennum huganum aftur í tímann, þær skiptu skoðanir sem komu í ljós þegar fjallað var um áburðar-, sements- og álverksmiðju. Nú hygg ég að fáir vildu vera án þessara fyrirtækja í landinu.

Hin fyrirhugaða málmblendiverksmiðja verður að meiri hl. í eigu íslendinga og lýtur þeirra umráðum og yfirstjórn í öllum greinum. Svo sjálfsagt sem þetta er hefur það í för með sér að leggja verður fram mjög mikið fé á okkar mælikvarða sem stofnfjárframlag. Upplýst er að það fé muni fáanlegt að láni án þess að það rýri aðstöðu þjóðarinnar til öflunar lánsfjár til annarra viðfangsefna, og hv. 2. þm. Austf., sem hér talaði síðast á undan mér, dró ekki í efa, að þeim í Seðlabankanum mundi takast að útvega þessi lán, eins og hann komst að orði.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt á meðal okkar um nauðsyn þess að renna fleiri stoðum undir íslenska atvinnuvegi og auka fjölbreytni þeirra. Þetta mál er ávöxtur og einn þáttur þeirrar viðleitni. Eitt af því, sem margir hafa óttast, er mengun sú sem fyrirhuguð starfsemi á Grundartanga við Hvalfjörð er talin hafa í för með sér að sumra áliti. Það er eðlilegt að ítrustu varfærni sé gætt í þessum efnum í hinn viðkvæma lífríki íslenskrar náttúru. Á þetta atriði hefur líka verið lögð megináhersla frá upphafi vega af hálfu þeirra sem hafa undirbúið málið. En við skulum líka muna að mengunarvörnum fleygir fram nú á síðari árum, og það eru ekki ýkjamörg ár síðan mengun var fyrst til umr. hér á landi. Allt bendir til þess að mengunarvarnir og aðgæsla í umhverfismálum eigi miklu fylgi að fagna á Íslandi og er það vel.

Þá hefur verið sagt að við ættum að nýta þá umframorku, sem handbær verður við Sigölduvirkjun, til rafhitunar húsa. Þetta mál, sem er einnig stórmál, rafhitun húsa, er að sjálfsögðu ákaflega veigamikið mál og hagsmunamál allra landsmanna. En ég tel að sýnt hafi verið fram á að framkvæmdir við rafhitun húsa hljóti að taka alllangan tíma, a. m. k. nokkur ár. Við ættum því að hafa næga orku til þeirra hluta eftir því sem áfram miðar í virkjunarmálum. Ég er sammála hv. 2. þm. Austf. um að róa beri að því öllum árum að láta varmaveitur og rafhitun leysa af hólmi olíukyndingu húsa svo fljótt sem verða má. En þetta verkefni verður að leysa með jöfnum hraða á næstu árum og þetta frv., ef samþ. verður, á ekki að verða til tafar eða trafala á þeirri leið.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. hafa allmargir þm. talað. Hv. 3. þm. Reykv. flutti einkar fróðlega ræðu og rakti í skýru máli viðhorf sín og afskipti af orkumálum allt frá því að hann stóð lítill drengur við lækinn í Hafnarfirði, sem fyrst var virkjaður fallvatna hér á landi, fram að þeim tíma er hann stóð sem fullþroska maður, æðsti handhafi iðnaðar- og orkumála landsins, og vann að Sigölduvirkjun og málmblendiverksmiðju á Grundartanga. Nú lýsti hann andstöðu sinni við frv. þetta og sagði: Aðstæðurnar hafa breyst, en ekki skoðanir mínar. — Þetta hafa margir sagt á undan honum við svipaðar aðstæður, en á mismunandi trúverðugan hátt.

Hv. 5. þm. Vesturl., félagi Jónas, er allra manna kunnugastur Union Carbide, eins og heyra mátti á hans máli, og hefur gert mjög umfangsmiklar tilraunir til að afla sér upplýsinga um þetta stórveldi og er það að sjálfsögðu mjög virðingarvert. Hv. 5. þm. Vestf. las upp flokkssamþykkt SF í máli þessu. Hv. 3. þm. Norðurl. v. mun hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir því sem heyra mátti af hans máli, að styðja málið til n. hvað sem verður um framhaldið. Hv. 2. þm. Austf. ræddi hér aðallega um drögin að raforkusölusamningnum og taldi að þar hefði ekki allur sannleikurinn verið sagður auk þess sem hann ræddi á við og dreif um hugsanlega Reyðarfjarðarvirkjun o.fl. Aðrir, sem hér hafa talað, virðast hlynntir málinu og meðmæltir, a. m. k. í höfuðatriðum. Málið á sjálfsagt eftir að skýrast við meðferð þess í þessari hv. d. Það er mikilvægt að á það sé litið frá öllum hliðum og séð verði um að það verði skoðað af gaumgæfni, Verði svo gert og vel á málum haldið að öðru leyti tel ég, að það geti orðið okkur ábatavænlegt og hagkvæmt, enda að því stefnt af þeim sem um það hafa fjallað.