19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Forseti. Varðandi afgangsorkuna skal ég ekki fara út í þær tölur hér frekar. Hv. 2. þm. Austf. segist hafa gengið í skóla. Ég veit að hann hefur lært töluvert í þeim skóla, það er auðheyrt á ræðu hans, en sumt hefur hann misskilið, þó ekki eins herfilega og formaður flokksins, Ragnar Arnalds, gerði og kom fram í ræðum hans. En ég vil taka fram að að sjálfsögðu hef ég gengið í skóla líka og það sem ég sagði hér um þetta mál, er haft beint eftir þeim verkfræðingi Landsvirkjunar sem mest hefur um þetta fjallað. En þetta er sjálfsagt að skoða nánar og ræða nánar í n. þegar málið kemur þangað.

Varðandi hitt atriðið, hvort járnblendiverksmiðjan mundi koma í veg fyrir húshitun með rafmagni, þá er rétt að ég lesi hér það bréf allt, sem ég vitnaði í frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Það er frá 26. febr. Til skýringar á því skal ég taka fram að þarna er gert ráð fyrir tveimur möguleikum: annars vegar að rafhitun húsa sé lokið í árslok 1980 eða henni sé lokið í árslok 1981. Varðandi það hvenær þessu ætti að vera lokið, vil ég í fyrsta lagi benda á að í þáltill. fyrrv. ríkisstj. um nýtingu innlendra orkugjafa, sem lögð var fram á Alþ. í apríl s. l., segir: „Verði að því stefnt að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum geti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981.“ Það var mark fyrrv. ríkisstj., þar með þessa hv. þm., að þessu yrði lokið, að sem flestir gætu fengið húshitun með rafmagni fyrir árslok 1981. Það var byggt á þeirri áætlun sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens hafði þá gert að í árslok 1980 hefðu 80% af þessu fólki fengið fulla húshitun, en 100% ekki fyrr en í árslok 1981. Á þessu byggist svo þetta nýja bréf 26. febr. frá þessari sömu Verkfræðistofu. Þar segir:

„Hér með fylgir tafla um raforkuþörf alls landsins við mismunandi vöxt húshitunar, annars vegar full húshitun árið 1980 og hins vegar 80% af fullri húshitun 1980. Eins og fram kemur af töflunni er ónotuð orka í kerfinu árið 1980 160 gwst., þegar um 80% hitun er að ræða. Þegar um 100% hitun er að ræða, þ. e. a. s. flýta þessu um eitt ár frá því sem till. vinstri stjórnarinnar gerði ráð fyrir, þá vantar 72 gwst. til að fullnægja þörfinni.“

Hins vegar segir:

„Við útreikning á orkuþörfinni er gert ráð fyrir að Akureyri sé öll rafhituð eins og reiknað var með í skýrslu okkar til iðnrh. í mars 1974. Ef hins vegar er gert ráð fyrir að Akureyri fái jarðvarmahitun minnkar orkuþörfin til hitunar um ca. 90 gwst.“

Nú geng ég út frá því og ég held að við hljótum öll að vera sammála um að allar líkur séu til þess að Akureyri verði búin að fá hitaveitu fyrir þennan tíma. Ef það verður væri nægileg orka þrátt fyrir járnblendiverksmiðjuna til 100% rafhitunar í árslok 1980, sem sagt ári áður en till. vinstri stjórnarinnar gerði ráð fyrir að henni yrði lokið.

Niðurlag þessa bréfs er á þessa lund:

„Af þessu er ljóst að við þann rafhitunarvöxt, sem við teljum að geti orðið, útilokar sala raforku til málmblendiverksmiðju ekki sölu raforku til húshitunar.“

Þetta liggur alveg ljóst fyrir, ekki aðeins af áætlunum þessarar Verkfræðistofu, heldur annarra sérfræðinga líka, að það er ekki rétt að stofnun járnblendiverksmiðjunnar verði til þess að tefja eða draga úr möguleikum á húshitun.

Það er hægt að halda áfram með fullum hraða húshitunarfyrirætlunum, það er hægt að halda áfram með meiri hraða en fyrrv. ríkisstj. gerði ráð fyrir, og orka er til. Að vísu geta menn náttúrlega gert sér alls konar forsendur og fyrirvara. T. d. segir hv. þm.: Kröfluvirkjun — það er ólíklegt að þar verði 60 mw. á þessum tíma. — Ég veit ekki hvað hv. þm. hefur fyrir sér í því. Ég held að honum ætti að vera kunnugt um að árangurinn af tilraunum til að hraða Kröfluvirkjun er sá að möguleikar eru á að hún komist í notkun í árslok 1976, ef ekkert alveg óvænt kemur fyrir, þá verði fyrri vélasamstæða, 30 mw. komin í notkun og sú síðari komi þá árið eftir. Það er því ljóst af öllu, að þessi meginforsenda og grundvallaratriði í ræðum þeirra Alþb.-manna á móti járnblendiverksmiðjunni, þessi meginforsenda, að ekki verði þá til rafmagn til húshitunar, er algerlega röng.