19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það er aðeins eitt einasta atriði vegna þess að hæstv. ráðh. hefur mikla tilhneigingu til þess að lemja höfðinu við steininn. Ég benti á það í báðum mínum ræðum að þeir útreikningar, sem vitnað er til í þessu bréfi, gera ráð fyrir að járnblendiverksmiðjan fái aðeins 260 gwst. þó að samningarnir og allir útreikningar varðandi verksmiðjuna séu upp á 488 gwst. Ef ráðh. vill reikna með því varðandi orkuþörfina sem frv. byggist á, þá kemur út orkuskortur. Þetta hafði ég bent á, ráðh. bara hljóp yfir þetta eins og ekkert væri.

Það er auðvitað hægt að hugsa sér að járnblendiverksmiðjan fái ekki nema 260 gwst. í staðinn fyrir þá skyldu sem á okkur hvílir samkv. samningunum um 488 og möguleika upp í 550 gwst. En þá er líka rekstrargrundvöllurinn brostinn undir verksmiðjunni. Hvað ætlar hæstv. ráðh. þá að reikna með miklum tekjuafgangi hjá verksmiðjunni á eftir? Þetta er vitanlega ekkert annað en að neita staðreyndum.

En það, sem ég átti við varðandi Kröfluvirkjun, var að vonir standa til þess að bæði verði hún komin upp á þessum tíma og það verði hægt að virkja svona mikið. En það hafði alltaf verið gengið út frá því að í Kröflu yrði aðeins um 30 mw. virkjun þótt nú sé nýlega farið að tala um þann möguleika að fara upp í 60 mw. virkjun sem hér er sett inn í dæmið. En auk þess er svo hitt, að það vita auðvitað allir að það er ekkert vit í því að reka okkar raforkukerfi sem heild án þess að hafa þar eitthvert öryggi vegna þess að það eru miklar sveiflur í framleiðslu kerfisins. Þar er vitanlega ekki um neina samfellda orku þannig að ræða að hún sé jöfn alla daga og alla mánuði ársins. Það þarf vitanlega að hafa eitthvað upp á að hlaupa. Því er það eins og ég hef sagt, það er ekki hægt að sinna öllum þeim verkefnum sem hér er gert ráð fyrir. Það verður einhver undan að láta. Og ég þykist vita að það verður húshitunin sem verður látin bíða. Þeir stöðva ekki járnblendiverksmiðjuna eða láta hana ekki ganga á öðrum mótornum eftir að búið er að byggja hana, — það er víst ekki mikil hætta á því, — ekki a. m. k. núv. ráðamenn í ríkisstj. Íslands.