19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Ég skal ekki deila frekar við hv. þm., enda hefur hann nú notað sinn ræðutíma. Ég vil aðeins bæta því hér við, sem þm. er náttúrlega kunnugt af grg. þeirri sem fylgir frv., að ein af ástæðunum til þess, að einmitt járnblendiiðnaður var valinn nú, er sú að sá iðnaður getur miklu betur en bæði áliðnaður og margvíslegur annar efnaiðnaður notað afgangsorku. Nú er það þannig hjá okkur á Íslandi að langsamlega mest orkuþörf er að sjálfsögðu að vetrinum til, ekki minnkar sú vetrarþörf þegar rafhitun kemur í stærri stíl en nú er, og auk þess er mest notkunin á vissum tímum sólarhrings. Þess vegna er það þannig við allar rafstöðvar hér að þær hafa meira og minna af orku sem ekki er nýtt, bæði að sumarlagi og að næturlagi.

Sem sagt, einn meginkosturinn við járnblendiverksmiðju í sambandi við raforkuframleiðslu er að járnblendiverksmiðjan getur í ríkum mæli notað einmitt afgangsorkuna og þessi starfsemi fellur einnig vel að húshitun vegna þess að rafmagnsþörf vegna húshitunar er auðvitað miklu minni að sumrinu heldur en vetrinum og m. a. þá gæti járnblendiverksmiðjan fengið töluvert af afgangsorku til sinna nota.

Varðandi þær fullyrðingar, sem hv. þm. endurtekur hér, virðist hann vita um allt þetta betur en sérfræðingar. Ég veit að hann þykist hafa í fullu tré við sérfræðinga á ýmsum sviðum. En varðandi bæði forgangsorku og afgangsorku og hvernig þetta í heild kemur út, þá verð ég að segja það að ég treysti þar betur verkfræðingum Landsvirkjunar og verkfræðingum á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens sem ber fyllilega saman um þetta. Ég verð að treysta þeim betur en hv. þm. í þessum efnum.