20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

120. mál, fiskvinnsluverksmiðja á Snæfellsnesi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur þegar verið gerð glögg og ítarleg grein fyrir þessari till. og mikilvægi hennar svo að ég þarf þar raunar sáralitlu við að bæta. En ég bendi á og ítreka að flm. þessarar till. eru allir þm. Vesturl., enn fremur það, sem komið hefur fram, að á svæðinu frá Akranesi til Patreksfjarðar er engin fiskmjölsverksmiðja sem getur unnið feitan fisk eða fiskúrgang, síld, loðnu og karfa. Það eru að vísu til gamlar verksmiðjur í Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsvík og á Hellissandi, en þessar verksmiðjur eiga aðeins eitt sameiginlegt, að þær eru að syngja sitt síðasta vers og er óhjákvæmilegt að hefjast handa um uppbyggingu þeirra hið allra bráðasta. Það getur hver maður séð sem hugsar út í þetta mál, að það er þjóðhagsleg nauðsyn að byggð sé verksmiðja sem getur unnið feitan fisk og fiskúrgang á Snæfellsnesi og tekið á móti loðnu, þar sem eitt af bestu loðnuveiðisvæðunum er rétt úti fyrir Snæfellsnesi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mörg, aðeins ítreka þetta, sem hér hefur verið sagt, og benda á í lokin að ég mun hlutast til um að n. þeirri, sem fær þetta mál til meðferðar eða þessa till., verði send ítarleg grg. um þetta mál og þá miklu almannahagsmuni sem í húfi eru ef úrbætur fást ekki innan tíðar.