20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

190. mál, varnir gegn óréttmætum verslunarháttum

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 369 að flytja till. til þál., svohljóðandi :

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta sem fyrst fara fram endurskoðun á l. nr. 84 19. júní 1.933, um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum, í því skyni að endurnýja og gera ítarlegri öll ákvæði er varða almennar verslunarauglýsingar. Skal höfuðáhersla lögð á að gera lögin þannig úr garði að þau feli í sér aukna vernd gegn háþróuðum auglýsingaiðnaði nútímans, með því m. a. að gera ákveðnar kröfur til heiðarleika, siðgæðis, sanninda og látleysis auglýsinga.“

Grg. till. segir raunar alla sögu málsins um tildrög hennar, eðli og tilgang. Ég leyfi mér að vitna öðru hvoru í hana beint, en grg. hefst svo:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðari árum hafa orðið miklar breyt. á viðskiptaháttum hér á landi. Hið dæmigerða neysluþjóðfélag blasir við okkur, hvert sem litið er. Þróun þessi hefur verið með ólíkindum hröð hérlendis, jafnvel svo að þeir, sem nú eru á miðjum aldri, muna þjóðfélag fátæktar og skorts.“

Síðar segir: „Flóð auglýsinga vöru og þjónustu er eitt einkenni nútímaviðskiptahátta. Blöð og tímarit, útvarp og sjónvarp flytja viðskiptavinum sínum daglega fjölda þessara auglýsinga í miklu úrvali. Sjónvarp hefur þó algera sérstöðu á þessu sviði sem nýr og einhver áhrifamesti fjölmiðill sem enn er fundinn upp.“

Ég hef fengið Arnmund Backman lögfræðing mér til aðstoðar við samningu þessarar till. og hann hefur farið mjög rækilega yfir þau lög sem gilda og hér er sérstaklega vitnað í, þ.e.a.s. þá gr. þeirra sem snertir þessi mál beint. Má kannske segja svo, að sú lagagr. segi nægilega skýrt til um það hvernig auglýsingar skuli vera, en samt er nú reynslan nokkuð önnur. Það skal hins vegar skýrt tekið fram í upphafi að tilgangurinn er aðeins sá einn sem í till. sjálfri felst og grg. hennar. Það er á engan hátt vegið að auglýsingum yfirleitt. Þær eru nauðsynlegar og sjálfsagðar. En einmitt þess vegna verða kröfurnar að vera meiri og strangari og þá alveg sérstaklega hvað snertir sannindi og heiðarleika, því að íslensk kaupsýslustétt vill gjarnan eigna sér þann eiginleika, og sönnur þessa fáum við að nokkru endurspeglaðan í auglýsingunum — eða afsönnun sem allt eins vill þá verða.

Ekki síður er mikils um hitt vert, að auglýsingar séu ekki forheimskandi. Ég á við það, að firru fullyrðinganna séu ekki svo altækar eins og fyrir kemur, og svo hitt, að lágmarkskröfur séu a. m. k. gerðar til þess að þær séu settar fram á sæmilegum máli. Á hvoru tveggja verður oft mikill misbrestur og alvarlegastur í stærsta eða a. m. k. voldugasta fjölmiðlinum, sjónvarpinu. Ég nefni ekki einstök dæmi, hvorki hér um né annað varðandi till. þessa, því að ég vil engan einstakan taka fyrir þó að auðvelt væri að benda á alla þá galla sem grg. víkur beint að, og taka um þá einstök dæmi. Málið er of kunnugt fólki til þess að á því sé minnsta þörf. Ég veit að mörg okkar kunna utan að æsistílsauglýsingar, uppfullar af ósönnu skrumi, og málbrenglun fjölmargra þeirra hefur sannarlega of látið óþyrmilega illa í eyrum. Ég vil taka fram, að við að taka sjónvarpið sem mælikvarða eins og réttlátt er og leggja það á mig í hálfan mánuð að hlusta a. m. k. á allar auglýsingar að loknum fréttalestri, þá hef ég ótvírætt komist að þeirri niðurstöðu að íslenskar auglýsingar séu þó yfirleitt snöggtum skárri en þær hinar erlendu, þýddu auglýsingar. Í mörgum þeirra íslensku er þó a. m. k. að finna vott af gamansemi sem ég hygg að þegar allt komi til alls hafi jafnvel töluvert auglýsingagildi þegar til lengdar lætur. Þó eru einstaka auglýsingar svo gjörsamlega sambandslausar við raunveruleikann eða það sem auglýsa á að furðu gegnir. Þess konar auglýsingamennska er ekki heldur til fyrirmyndar.

Gagnrýni mín beinist aðallega að þeim þáttum sem sérstaklega er að vikið í síðasta hluta grg. Um þetta einmitt vantar ákveðnari lagaákvæði og strangara eftirlit en nú er, hvað sem þeirri venjulegu fullyrðingu líður að hver velji eftir viti og þörf og frelsið margumtalaða eigi þarna að hafa sem greiðasta leið. Ég held einmitt að íslenskum auglýsendum væri í heild gerður mikill greiði með ákveðinni lagasetningu og skýrum ákvæðum um þetta eins og segir í tillgr.: „að gera ákveðnar kröfur til heiðarleika, siðgæðis, sanninda og látleysis auglýsinga.“ — Ég trúi því a. m. k. varlega að skrumkenndustu og ósönnustu auglýsingarnar borgi sig til lengdar, en þær eru hvimleitt fyrirbæri fyrir alla, hversu mikið mark sem menn annars taka á þeim eða fara eftir þeim. Látlaus, vel gerð auglýsing, sönn og heiðarleg hlýtur að vera keppikefli auglýsenda, þó að ein vitleysan og skrumskælingin bjóði annarri heim, ein ambagan af annarri festist í málinu, máli almennings jafnvel, þegar engar verulegar skorður er að finna.

Hins vegar bendi ég í grg. á eðli og tilgang auglýsinga og þar segir svo, að þær gegni þýðingarmiklu hlutverki, bæði fyrir seljanda og neytanda, en innan hæfilegra marka þó. Við vitum að það er rétt sem segir í grg. að auglýsingaflaumur allsnægtaþjóðfélagsins er kominn út fyrir gagnsemismörkin. Hann grundvallast á þeirri staðreynd að þörfum margra er fullnægt og meira en það. Þess vegna þarf að búa til þarfir einkum þeim til handa sem best hafa kjörin og mesta kaupgetu. Auglýsingar eru því reknar sem háþróuð vísindi, sálfræði, sem hefur það viðfangsefni að vekja hjá mönnum löngun sem þeir fundu ekki fyrir áður. Gamlar kennisetningar um lögmál framboðs og eftirspurnar eru fyrir löngu orðnar marklausar að þessu leyti varðandi fjölda fólks. En það skal líka tekið fram að auglýsingar gegna ákveðnu hlutverki. Þær njóta viðurkenningar og fyrirgreiðslu þjóðfélagsins og þess vegna hvílir á auglýsendum mikil þjóðfélagsleg ábyrgð. Gildi auglýsinga byggist á tiltrú neytenda. Áhrif þeirra eru mikil og þess vegna er nauðsynlegt að vanda til þeirra og koma í veg fyrir allar skaðlegar verkanir og óæskilegan boðskap.

Vissulega er allt yfirfullt í dag af gerviþörfum sem fólk í blindni heldur að séu raunverulegar, sumpart af eigin vilja, af hégómaskap, tildurmennsku eða öðru viðlíka en sumpart einnig af því að því hefur verið talin trú um að hér væri um bráðnauðsynlega hluti að ræða sem það gæti nánast ekki án verið. Um þetta gætum við sjálfsagt öll nefnt ótalin dæmi, a. m. k. hef ég oft spurt fólk, hvers vegna það hafi fengið sér þetta og hitt, og oft orðið fátt um eðlileg svör: Þetta er í tísku. Nágranninn fékk sér svona. Þetta er svo mikið auglýst.

Mín skoðun er sú að full ástæða sé til að setja eðlilegar lágmarksskorður við því á hvern hátt menn auglýsa vörur sínar og annað. Það skal skýrt tekið fram að þetta á við allar auglýsingar, frá hverjum sem er og í hvaða tilgangi sem er, þó að ég víki sérstaklega að verslunarauglýsingum af því að mér sýnast þær einar rúmast innan þeirra laga sem lagt er til að endurskoðun fari fram á. E. t. v. væri full þörf á því að setja sérstök auglýsingalög, og einnig má í þessu sambandi nefna það að almenn lög um neytendaþjónustu gætu falið í sér vissa vernd gegn óeðlilegum auglýsingaháttum, sem væri þáttur í almennri neytendavernd.

Í grg. till. koma fram, eins og ég sagði áðan, helstu röksemdirnar og eins þær hættur sem ég bendi sérstaklega á og ný lög ættu að fyrirbyggja eins vel og mögulegt væri, um leið og ég bendi á að lagaákvæði í dag eru allfullkomin og skýr sumpart, þó að þeim hafi verið illa fylgt eftir. Það segir beint í 1. gr. að þess skuli gætt að þær séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem satt er og rétt í öllum greinum. Það er kannske erfitt að finna nokkrar lagagr. sem tæki öllu sterkari afstöðu en þarna er, en það verður þá að koma betur og skýrar í ljós, hvað við er átt með þessu. Ég bendi einmitt á nokkur þessara atriða sem ég held að sé rétt að komi beint inn í lögin. Auðvitað verða auglýsingar að vera þannig að þær brjóti aldrei gegn almennu siðgæði, en ég bendi á nokkur atriði sérstaklega: „Auglýsingar eiga aldrei að vera þess eðlis að þær færi sér í nyt reynsluleysi eða kunnáttuleysi þeirra, sem þeim er beint til. Auglýsingar eiga aldrei að höfða til hjátrúar og því síður til ótta. Auglýsingar eiga aldrei að bera með sér staðhæfingar sem eru til þess fallnar að villa um fyrir fólki eða vekja upp hugboð sem er villandi um ástand eða eiginleika. Auglýsingar ættu aldrei að sýna eða lýsa atvikum sem brjóta almennar varúðarreglur eða gætu ýtt undir vanrækslu í þeim efnum, t. d. hvað viðvíkur meðferð á rafmagni, vatni eða eldi eða umferðarreglum og fyrirmælum stjórnvalda. Auglýsingum ætti aldrei að beina til barna eða unglinga. Og ekki ættu þær að bera með sér staðhæfingar eða myndir sem gætu reynst börnum og unglingum skaðlegar sálrænt og siðferðilega eða hefðu skaðleg áhrif á uppeldi þeirra og afstöðu til uppalenda þeirra. Aldrei ættu auglýsingar að færa sér í nyt eðlilega trúgirni barna eða reynsluleysi.“ — Og að lokum: „Auglýsingar ættu aldrei að færa sér í nyt vonir þeirra, sem haldnir eru sjúkdómum, eða færa sér í nyt dómgreindarleysi sjúkra og þjáðra með loforðum um lækningu. Varast ætti allar auglýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á þá sem haldnir eru spila- og veðmálafíkn.“

Þetta mundi sennilega vera eitt það hæpnasta í þessu öllu saman, þegar til kasta löggjafans kæmi, eða vandasamast. En því minni ég t. d. á umferðarreglurnar í þessu efni, þó að ég vilji engan sérstakan taka þar fyrir frekar en annars staðar, að sumar auglýsingarnar, þar sem við sjáum bifreiðarnar okkar á ferðinni, eru nú ekki beint uppbyggjandi hvað snertir almennar umferðarreglur.

Í upptalningu, sem síðast var að vikið og hvergi nærri er tæmandi, er bent á ýmis grundvallaratriði, sem virða ber, sem verða að vera fólgin í lögum. Hér kann að vera að sumum þyki að frelsi þrengt. En álit mitt er alveg gagnstætt. Eðlileg takmörk hljóta að vera í hag öllum þeim sem vilja stunda sín viðskipti á eðlilegan og æsingalausan máta og kynna vörur sínar þannig að þær séu í engu oflofaðar eða auglýsingar jafnvel svo heimskulega orðaðar að þær veki beina andúð allra heilbrigðra viðskiptavina. Ég hef ákveðið að nefna hér engin nöfn, því að hér eru ekki til staðar þeir sem fyrir ættu að svara, en dæmin, sem snerta framtalin atriði, eru mýmörg og menn þekkja þau áreiðanlega.

Af öllu skaðlegu í okkar auglýsingaflóði tel ég þó tvennt verst: Annars vegar auglýsingar sem höfða til barna og unglinga á óeðlilegan hátt, gefa þeim beinlínis rangar hugmyndir um vörur og ýmis gæði lífsins, sem m. a. endurspeglast svo í rangsnúnu lífsgæðamati eða óeðlilegu andófi gegn öllu og öllum, án þess að ég sé að hafa á móti eðlilegum uppreisnaranda ungs fólks gegn ýmsum stöðnuðum venjum okkar hinna eldri. Enn skaðlegri eru þó þær auglýsingar sem vekja sjúklingum óeðlilegar vonir, gefa villandi hugmynd um möguleika á lækningu. Fátt veit ég ógeðugra en slíkar auglýsingar, sem og reyndar þær auglýsingar sem beinlínis eru til þess fallnar að höfða til einfeldni og fáfræði, sem því miður er enn til og mun eflaust fylgja mannskepnunni lengstum.

Ég held að óþarfi sé að hafa hér um fleiri orð. Nánari lagasetning er nauðsyn, að mörgu þarf að hyggja og ekki er það mín meining að að neinu sé hér rasað um ráð fram. Óeðlileg bönn og höft í þessu efni eru jafnóæskileg og frelsi til hvers eins sem í hreina öfga leiðir. Eðlileg vörukynning, eðlileg kynning félagslífs, happdrætta og þjónustu er sjálfsögð, en skynsamleg mörk þarf að setja.

Ég lýk þessari framsögu með tilvitnun í lok grg., en þar segir:

„Segja má, að hver velji og hafni eftir viti og þörfum, því sé öll frekari takmörkun óþörf. En hér er ekki öll sagan sögð. Auk þess bendir margt til þess í auglýsingum okkar, að þær séu blátt áfram forheimskandi og til viðbótar við gróðasjónarmið, án allra takmarkana og siðgæðis, ætti það að nægja til þess að taka málið í heild fastari tökum.“

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.