20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þeir sem stjórna, hvort heldur er á þrengra eða víðara sviði, verða oft að taka vandasamar ákvarðanir. Það hefur Alþ. og ríkisstj. þurft að gera á þessu ári og þarf enn að gera. Hef ég þá fyrst í huga hina nýju verðskráningu krónunnar og ákvarðanir sem henni þurfa að fylgja.

Gengislækkun er alltaf að mínum dómi hreint neyðarúrræði. Henni fylgir margvísleg röskun auk ýmiss konar vandamála. En svo getur staðið á, að hún sé óumflýjanleg. Gengislækkunin í s. l. mánuði var að mínu viti ill en óhjákvæmileg nauðsyn. Þau vandamál, sem þurfti að snúa til betri vegar, voru fyrst og fremst aðstaða þjóðarbúsins út á við og afkoma útflutningsatvinnuvega þó að hagur einstakra greina væri þar misjafn. Orsakir þeirra erfiðleika voru öllu öðru framar stórlega versnandi viðskiptakjör á árinu og þau voru í árslok um 30% lakari en í ársbyrjun. Saman fór verðlækkun á nokkrum útflutningsafurðum og stórhækkun á innfluttum vörum og hráefnum og þá auðvitað fyrst og fremst á olíuverðinu. Það þarf enginn að ætla að slík sveifla gangi sporlaust hjá garði. Auðvitað áttu aðstæður innanlands einnig hlut að máli. Kaupgjaldssamningar 1974 fóru í sumum greinum út fyrir skynsamleg mörk. Afl eða vilja skorti til að gera réttar viðnámsaðgerðir í tæka tíð. Upprifjun þeirrar sögu snýr ekki straumi við úr þessu, en geymd er hún en ekki gleymd.

En hvers vegna dugðu ekki þær ráðstafanir, sem núv. stjórn beitti sér fyrir, eftir að hún komst til valda? Ástæðan er fyrst og fremst sú að á síðasta ársfjórðungi versnuðu viðskiptakjörin gagnvart útlöndum mun meira en gert hafði verið ráð fyrir þegar verið var að ganga frá fjárl. eða um nálægt 10%. Enn fremur varð innflutningur og gjaldeyrisnotkun umfram raunverulega getu meiri en nokkurt hóf var á og gert hafði verið ráð fyrir í áætlun. Auk þess má ekki gleyma óviðráðanlegum áföllum af náttúrunnar völdum. Forsendur þjóðhagsspár, sem gerðar voru á síðasta ársfjórðungi, brugðust. Þannig var t. d. viðskiptahallinn þrem milljörðum meiri á síðasta ári en spáð var seint á árinu. Efnahagssérfræðingum getur stundum skjátlast alveg eins og stjörnuspámönnum fyrri alda, en þeir eru jafnnauðsynlegir fyrir því. Veðurspá reynist stundum röng, en engum dettur í hug að leggja veðurfréttir niður fyrir þá sök.

Eftir áramótin blöstu þær staðreyndir við, sem drepið var á, og við þær varð að horfast í augu. Að mestu leyti voru þær óviðráðanlegar þó að vitaskuld megi oft sjá eftir á að einhverju hefði mátt haga á annan veg. En þessum staðreyndum og þeirri atburðarás, sem þeim liggur til grundvallar, verður ekki breytt með innantómu glamri, orðaskaki stjórnarandstöðunnar sem á þessu tímabili hefur aldrei haft neitt jákvætt til mála að leggja, enda hafa þeir stjórnarandstæðingar reynst falsspámenn í hverju atriði, jafnt stóru sem smáu.

Þegar mál lágu ljóst fyrir eftir áramótin var í raun ekki nema um tvo kosti að velja: annars vegar millifærsluleið í hefðbundnum stíl og hins vegar gengislækkun með tilheyrandi hliðarráðráðstöfunum.

Að vandlega athuguðu máli var gengislækkunarleiðin valin, enda þótt öllum væri ljóst að henni fylgdu ýmsir ókostir. Í mínum huga réð þar um mestu að með þeirri leið taldi ég meiri tryggingu fyrir því að hægt væri að halda fast við það höfuðmarkmið stjórnarstefnunnar að koma í veg fyrir atvinnuleysi svo og að með réttum hliðarráðstöfunum væri auðveldara að rétta hlut hinna tekjulægri og verst settu í þjóðfélaginu. Hin leiðin, millifærsluleiðin, var af þeirri stærðargráðu að hún var óframkvæmanleg, auk þess sem henni fylgdu allir þeir ágallar sem slíkri tilfærsluleið jafnan fylgja, þ. á m. kostnaður, skriffinnska og misnotkunarhætta.

Með gengislækkun ásamt nauðsynlegum hliðarráðstöfunum er stefnt að lagfæringu á gjaldeyrisstöðu og bættri afkomu útflutningsgreina. Sá böggull fylgir auðvitað skammrifi að erlendar skuldir og erlendir kostnaðarliðir hækka og dregst þannig nokkuð frá ávinningshliðinni Hitt er og augljóst mál að gengislækkuv fylgir lífskjararýrnun. Markmið hliðarráðstafana er að draga úr þeirri kjararýrnun hjá hinum tekjulægri, sem ekki mega neins í missa, og létta þeirra byrðar.

Það hefur verið gagnrýnt að þessar ráðstafanir og aðrar samræmingaraðgerðir, sem fylgja áttu í kjölfar gengislækkunarinnar, hafi dregist óeðlilega lengi. Það má að vissu leyti til sanns vegar færa. En hér hefur stjórninni verið vandi á höndum. Hún vildi bíða og sjá, hvort samkomulag gæti ekki tekist á milli aðila vinnumarkaðarins. Hún hafði tilbúnar till. um láglaunabætur, en frestaði framlagningu þeirra samkv. ósk beggja deiluaðila. Hún vildi ekki grípa fram fyrir hendur þeirra á meðan nokkur von væri til þess að samkomulag gæti náðst. Æskilegt hefði og verið að slíkt samkomulag lægi fyrir áður en ákvarðanir um aðrar ráðstafanir væru teknar.

En það er ekki hægt að bíða lengur. Nú hefur stjórnin lagt fram frv. um tilteknar efnahagsaðgerðir sem einmitt eiga að miða að því marki, sem ég áðan nefndi, að létta byrðar þeirra sem lakar eru settir, en leggja nokkrar kvaðir á þá sem betur mega. Þar eru þó ekki ákvæði um jafnlaunabætur sem menn með miðlungstekjur eða lægri verða óhjákvæmilega að fá við núverandi aðstæður. Það er enn rétt að bíða og freista þess að ná samkomulagi. Er vonandi að sanngjörnum og góðviljuðum mönnum takist að finna þar leið er menn geta sætt sig við. En í þessu frv. er að finna verulegar skattaívilnanir, bæði í beinum sköttum, þ. e. tekjuskatti og útsvari, og óbeinum sköttum, þ. e. lækkun söluskatts á tilteknum matvælum. Þar eru ákvæði um skyldusparnað þeirra tekjuhærri, ferðaskattur eða flugvallargjald, eins og það er kallað, heimild til lækkunar ríkisútgjalda og lántökuheimildir vegna opinberra framkvæmda og Framkvæmdasjóðs.

Á næsta leiti er svo frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi sem nauðsynlegar eru í kjölfar gengisbreytingarinnar og af öðrum ástæðum. Þá er og á næstunni væntanlegt frv. um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Með því er stefnt að samræmingu reglna um það efni. Markmið þeirra á að vera að hamla nokkuð gegn verðbólgu. Þá hafa og verið settar reglur byggðar á samkomulagi Seðlabankans og viðskiptabankanna um stöðvun útlánaaukningar til maíloka. Gildir þessi útlánatakmörkun um öll lán nema endurkaupanleg afurða- og birgðalán, einkum til sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar, og reglubundin viðbótarlán til þessara greina. Með þessari útlánatakmörkun er stefnt að því að bæta gjaldeyrisstöðuna og lausafjárstöðu bankanna. Þessi ákvörðun er í raun og veru neyðarvörn vegna ástandsins eins og það er. Það má og segja að það sé tímabundin tilraun og um áframhald hennar fer auðvitað eftir fenginni reynslu að reynslutímanum liðnum. Og vitaskuld verður að framkvæma þessar reglur með vakandi auga á atvinnuástandi. Atvinnuvegirnir þurfa að geta gengið. Það er og verður fyrsta boðorðið.

Ég mun ekki ræða þær efnahagsaðgerðir nánar, sem í frv. þessu felast, í einstökum atriðum, enda hefur það þegar verið gert af hæstv. forsrh. Ég vil aðeins undirstrika að markmið þeirra er það, sem fram kemur í heiti frv., að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara.

Að sjálfsögðu er þetta frv. að sumu leyti byggt á málamiðlun, eins og jafnan er um þess konar frv. samsteypustjórna, en endurspeglar ekki algerlega þá stefnu sem hvor flokkur fyrir sig mundi helst kjósa ef hann mætti einn ráða. Ég bendi þó á að í þessu frv. er að finna sum þeirra atriða er voru í efnahagsmálafrv. því, sem ég beitti mér fyrir s. l. vor, en þá hlaut ekki fylgi.

Ég vona, að þessar aðgerðir beri tilætlaðan árangur. Við erum að sumu leyti í efnahagslegri lægð þótt að öðru leyti séum við betur á vegi staddir en margar þjóðir þar sem atvinnuleysi er orðið tilfinnanlegt, en hér er ekki enn hægt að tala um það. Ég er ekki í vafa um, að efnahagslægðin mun ganga yfir, enda höfum við oft átt við meiri erfiðleika að etja þótt sveiflan sé stór frá því sem best var. Með góðum vilja og samstilltu átaki munum við sigrast á þeim erfiðleikum sem nú er við að fást. Það má þó ekki búast við of snöggum umskiptum. Það verður að gæta viss meðalhófs í öllum efnahagsaðgerðum, annars getur slegið í baksegl. Annars vegar er nokkur samdráttur nauðsynlegur um sinn, en á hinn bóginn þarf að gæta þess að hann verði ekki svo mikill að hann leiði til atvinnuleysis eða stofni viðurkenndri byggðastefnu í nokkra tvísýnu. Þetta meðalhóf getur verið vandþætt. Við skulum ekki heldur gleyma því, sem reynslan hefur kennt okkur, að við erum mjög háðir efnahagsframvindunni í umheiminum. Og það lögmál má heldur aldrei gleymast að þjóðfélagið í heild getur ekki til lengdar eytt meiru en það aflar.

Því skal ekki neitað að tími ríkisstj. til þessa hefur farið í það að sinna aðsteðjandi efnahagsmálum. Það hefur því verið minni tími en skyldi til að sinna hinum stóru framtíðarmálum. Þó hefur verið unnið að landhelgismálinu af fullum krafti og munu þar raunar allir vera sammála að meginstefnu til.

Uppbygging og efling atvinnulífsins er meginmarkmið núv. stjórnar. Þar hefur svo sannarlega góður grundvöllur verið lagður: Ný og góð skip á nær því hverri höfn. Fiskvinnslustöðvar víðs vegar byggðar og bættar. Afkomuskilyrði fólks í sjávarplássum allt í kringum landið víðast hvar gerbreytt frá því sem áður var. Á þessum grundvelli verður áfram að byggja.

Framfarir í landbúnaði á sviði ræktunar, vélvæðingar og húsagerðar hafa verið örar og stórstígar. Vinnslustöðvar landbúnaðar hafa verið og eru víða í endurnýjun og uppbyggingu. Gegna þær tvöföldu hlutverki: breyta afurðunum í verðmætari vörur og veita mikla atvinnu. Hér þarf að halda áfram á sömu braut. Hjáróma úrtöluraddir eru eins og nátttröll á glugga við dagsbrún.

Það er þó ekki hvað síst í iðnaðinum sem mikilvæg framtíðarverkefni bíða. Þess vegna eru orkumálin ofarlega á blaði í stefnuskrá stjórnarflokkanna. Í þeim efnum þarf að gera sérstök átök til virkjunar fallvatna og jarðvarma. Það er undirstaða iðnaðar, hvort heldur er í stærri eða smærri stíl, og húshitun með slíkum innlendum varmagjafa þarf að leysa olíuna af hólmi. Hér er mikið verk að vinna.

Framleiðsluatvinnuvegirnir eru og verða undirstaða þjóðarbúsins. Þær undirstöður verður auðvitað að treysta á allan hátt. Á þeim hornsteinum hvílir flest annað í þjóðfélaginu. En margs konar þjónustustarfsemi er einnig mikilvæg og þá ekki hvað síst verslunin. Við Íslendingar erum flestum þjóðum fremur háðir viðskiptum við önnur lönd. Innflutningsverslun, hvort heldur er heildsala eða smásala, er mikilvæg og skiptir miklu að hún sé rekin af hagsýni og á heilbrigðan hátt. Vitaskuld þarf hún að búa við eðlileg starfsskilyrði en jafnframt þarf að veita henni nauðsynlegt aðhald, bæði frá neytendum og opinberri hálfu, því að um hennar hendur fer feiknamikið fjármagn sem þýðingarmikið er frá fjárhagslegu sjónarmiði hvernig á er haldið. Í samræmi við málefnasamning ríkisstj. verður undirbúin löggjöf um viðskiptahætti, verðmyndun og verðgæslu. Það þarf að finna leiðir til þess að láta þá, sem góð innkaup gera, njóta þess.

Útflutningsverslunin og markaðsmálin eru þó ekki síður mikilvæg. Ég held að þeim málum þurfi að sinna með vaxandi skilningi. Við eigum mikið undir dugnaði og árvekni þeirra manna sem við þau fást. Þjóðfélagið hlýtur að láta sig þau mál miklu varða, t, d. leit nýrra markaða. Athugandi er hvort ekki þarf að skipuleggja utanríkisþjónustuna með þau mál meira í huga en hingað til hefur verið gert.. E. t. v. ætti að stofna hér útflutningsráð, svo sem sums staðar þekkist, skipað fulltrúum útflutningsatvinnuveganna, sem væri ráðunautur viðskrn. og hefði frumkvæði um markaðsleit og fleira.

Það eru þessi mál, að ógleymdum heilbrigðismálum, félagsmálum og menvingarmálum, sem eru hin stóru framtíðarverkefni stjórnvalda. Á öll þau þarf að líta með byggðastefnu í huga, og þá má síst af öllu gleyma samgöngumálunum. Það þurfa sem flestir að taka höndum saman um að sækja fram á þessum sviðum. Það skiptir þjóðarhag mestu. Það held ég að mikill meiri hluti þjóðarinnar hljóti að skilja og láta sér fátt um finnast sundrungariðju stjórnarandstöðunnar. Ég trúi ekki öðru en menn hafi veitt því athygli hvernig stjórnarandstæðingar hafa snúist í hverju málinu á fætur öðru eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. En það er þeirra mál og ástæðulaust að vera að fást um slíkt eða fjölyrða.

En það er eining, en ekki sundrung, sem þjóðin þarf nú á að halda. Vitaskuld hlýtur ýmiss konar hagsmunaárekstur að eiga sér stað. Auðvitað deila menn um tekjuskiptingu og önnur kjaramál í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Slíkt er ekki nema sjálfsagt. En verkföll verða alltaf neyðarúrræði og valda óumræðilegu tjóni, jafnt fyrir atvinnurekendur og launþega. Vinnufrið verður því umfram allt að tryggja. Það má ekki gleymast að endir verður að vera allrar þrætu. Og enn er hið forna boðorð í fullu gildi að „með lögum skal land byggja, en með álögum eyða: — Góða nótt.