20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við erum í vanda staddir, íslendingar. Vandamálin, ýmist heimatilbúin eða aðvífandi utan úr heimi, hrannast að eins og óveðursský, og vera má að sortinn eigi enn eftir að dökkna. Lítil huggun er að því að allt umhverfis okkur eiga þjóðir við svipaðar þrengingar að búa og eru reyndar sumar hverjar öllu verr á vegi staddar, þar sem yfir hefur dunið sannkölluð kreppa með tilheyrandi atvinnuleysi meira en þekkst hefur um daga þeirrar kynslóðar sem nú er á miðjum aldri. Undirrót okkar vanda er alþjóðleg hagsveifla á óvenjuhraðri og harkalegri niðurleið. En hrapið hefur bitnað harðar á okkur en ella vegna þess að ekki var brugðið við í tæka tíð þegar sýnt var að hverju fór. Nú er svo komið að skortur ríkir á íslenskum heimilum sem ekki hafa annað fyrir sig að leggja en dagvinnutekjur fyrirvinnu í lágum launaflokkum. Tvær stórfelldar gengislækkanir á ársþriðjungi, samfara almennum verðhækkunum af völdum þeirra og af völdum hækkaðra neysluskatta að auki, hafa ásamt stökkbreytingum þjónustutaxta upp á við skert kjör flestra en valdið lágtekjuhópum þjóðfélagsins óbærilegum búsifjum.

Á síðasta hausti tók við stjórnartaumum ný ríkisstj. sem styðst við flokka sem telja í sínum röðum 2/3 hluta Alþ. og ríflega þó. Hvort sem kjósendur veittu stjórnarflokkunum brautargengi í kosningunum í fyrra eða ekki munu þeir hafa ætlast til verulegra tilþrifa af nýju ríkisstj. Kemur þar bæði til fádæma þingstyrkur stjórnarinnar og málflutningur forustuflokks hennar á síðasta kjörtímabili og þó sér í lagi í kosningabaráttunni s. l. sumar. Óþarfi ætti að vera að rifja upp steigurlæti Sjálfstfl.- forustunnar frá því á útmánuðum í fyrravetur, þegar þingmeirihluti fyrrv. stjórnar brast, allt fram yfir stjórnarmyndunina, þegar settu marki var náð og ríkisstj. undir forsæti formanns Sjálfstfl. tók við völdum. Enginn, sem á annað borð lætur sig stjórnmál nokkru varða, getur verið svo gleyminn að honum séu liðnar úr minni yfirlýsingar málsvara Sjálfstfl. um að frumskilyrði til allra úrræða og lausnar aðsteðjandi vandamála væri að stærsti flokkur þjóðarinnar gripi um stjórnartaumana sinni styrku hendi. Skyldi ekki hér vera að finna skýringuna á því, sem menn furða sig á, að form. Framsfl. skyldi láta sér lynda að mynda stjórn, en láta síðan stjórnarforustuna eftir foringja samstarfsflokksins. Sjálfstfl. hafði stært sig af því í kosningabaráttunni að eiga ráð undir rifi hverju. Flokkurinn varð sigursæll í kosningunum, svo að hvað var eðlilegra en hann fengi forustuna í nýrri ríkisstj. sem hann stóð að.

Nú hefur hinnar styrku handar Sjálfstfl. notið við um nokkurt skeið. Úrræði hans hafa fengið að sýna sig og synd væri að segja að framsóknarmenn, hinn stjórnarflokkurinn, hafi þvælst fyrir eða verið stirðir í taumi það sem af er. Þvert á móti hefur framsókn látið kaffæra sig í hverri leirkeldunni af annarri allt frá gengislækkanahringekjunni til afsetningar útvarpsráðs. En sé framsóknarhryssan farin að kleprast eftir slarksama reið verður forustuhæfileikum og úrræðum Sjálfstfl. helst líkt við skininn hrosshaus á berangri, nöturlegar minjar um agn sem slyngur veiðimaður bar niður fyrir fórnardýr sitt. Bjargráðin frá í haust, sem þá var mest gumað af í Morgunblaðinu, líta ekki björgulega út nú orðið. Gengislækkun með tilheyrandi hliðarráðstöfunum reyndist að 4 mánuðum liðnum haldlaust fálm. Um áramót hafði verulega sigið á ógæfuhliðina, gjaldeyrisvarasjóður uppurinn og útgerð sögð á heljarþröm. Ný úrræði voru óhjákvæmileg og enn var farið í fornu gólfin, skellt á nýrri gengislækkun, enn stærri hinni fyrri, og fylgiráðstafanirnar sáu loks að hluta dagsins ljós rétt áðan, réttum 6 klukkutímum áður en þessar umr. hófust. Þá kom á borð alþm. halarófufrv. sem heitir hvorki meira né minna en „Frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum

og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara“. Fyrirsögn lýkur. Það er tómahljóð í þessu orðskrúði.

Annað meginverkefni Alþ. allt til jóla var að fjalla um hliðarráðstafanir sem fylgdu fyrri gengislækkun ríkisstj., hitt var að afgreiða fjárl. Þótt sjálfsagt sé að viðurkenna að fjmrh., sem kemur til starfa síðla árs, á ekki hægt um vik, sætir fádæmum hve óhönduglega hefur tekist til í þetta skipti. Fjárl., sem afgreidd voru fyrir þrem mánuðum, hafa reynst slíkt hrófatildur að þau eru nú hrunin undan eigin þunga. Veigamestu kaflar nýja frv., með langa nafnið rífa niður nýsett fjárlög endanna á milli og reisa grind að öðrum fjárl., gerólíkum hinum fyrri. Boðaður er niðurskurður fjárlagaútgjalda sem nemur hálfum 4. milljarði kr., og er ljóst að hann mun nær einvörðungu bitna á fyrirhuguðum framkvæmdum. Búnir eru til nýir tekjustofnar og ber þar hæst ferðaskatt, 2500 kr. á nef hvert, þeirra sem bregða sér út fyrir landssteina. Tekjuáætlun gildandi fjárl. er gerbreytt. Ljóst var frá öndverðu að hún var ekki raunhæf, en síðan hafa ýmsar breyt. bæst við þá skekkju. Veigamestar eru þær, að drög eru lögð að því í frv. með langa nafnið og fjalla um margs konar breyt. á skattheimtu.

Markmiðið með þeim breyt. er sagt vera að greiða fyrir lausn kjaradeilunnar sem nú er háð og er komin á það stig að samninganefnd Alþýðusambandsins hefur skorað á verkalýðsfélög að boða verkföll viku af apríl. Orsök kjaradeilunnar er gengislækkun ríkisstj. frá í haust sem verkalýðshreyfingin taldi tilefni til samningsuppsagnar. Er því að svo er í pottinn búið er enn meiri ástæða en ella til að ríkisstj. leggi sig fram um að greiða fyrir samkomulagi samningsaðila og hefði hún mátt hefjast handa fyrr en svo er komið að við er búið að vinnufriður rofni. Alls er líka ósýnt af aths. með frv. að dæma hvort ríkisstj. gerir sér nokkra grein fyrir að till. hennar hafi áhrif á stöðuna í kjarasamningum og því síður hver þau áhrif kynnu að verða. Till. um skattabreyt. eru svo margbrotnar og flóknar að ekki er unnt að ætlast til að nokkur maður átti sig á þeim til fulls, hvað þá taki afstöðu til þeirra á þeim fáu klukkutímum sem við stjórnarandstæðingar höfum haft til umráða en í heild virðast þær ekki vega þungt nema fyrir fjölskyldur af tiltekinni stærð á afmörkuðum tekjubilum.

En það stingur strax í augun að með þessum till. er enn verið að gera breyt. á sömu atriðum skattalaga og breytt var fyrir réttu ári í kjölfar annarra kjarasamninga sem þá voru gerðir. Ég tel það vera umhugsunarefni, bæði fyrir okkur alþm. og þá sem semja um kaup og kjör, hvort það sé heppilegt, að breyt. á skattalögum gerist ár eftir ár með þessum hætti. Er það í rauninni æskilegt verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna að láta kjarasamninga snúast um það öðrum þræði að kaupslaga við ríkisstj. á hverjum tíma um skattheimtureglur fyrir landsmenn alla? Og er það æskilegt fyrir þá, sem annars vegar eiga að setja skattalög og hins vegar framfylgja þeim, að skattkerfið verði samningsatriði hvenær sem uppgjör fer fram á vinnumarkaði? Ég fyrir mitt leyti svara báðum spurningum neitandi. Mér virðist einsýnt að þessi háttur torveldi beinlínis mótun heildarstefnu um skattheimtu sem staðið gæti til nokkurrar frambúðar.

Endurskoðun skattheimtu ríkisins hefur lengi verið á döfinni og er allra mál að verkefnið sé brýnt, en árangurinn lætur enn á sér standa. Skattheimta jafnharðan og tekjur falla til er hagsmunamál skattgreiðenda jafnt og hins opinbera, en framkvæmdin vefst enn fyrir mönnum. Söluskattur er rokinn upp í 20 stig. Miklir kostir væru því samfara að breyta honum í virðisaukaskatt, en allt situr við sama ár eftir ár. Afskrifta- og fyrningarreglur, sem nú gilda, og reglur um endursölugróða gera fyrirtæki tekjuskattslaus þótt hagur þeirra standi í raun og veru með blóma, en þyngir að sama skapi skattgjöld á launafólki. Þar á ofan er þetta fyrirkomulag öflugur hvati til verðbólgubrasks. Till. um úrbætur bíða heildarendurskoðunar skattkerfisins sem dregst og dregst. Málgögn beggja stjórnarflokka, Morgunblaðið og Tíminn, hafa í þessari viku vakið í forustugreinum máls á því hróplega misrétti sem komist hefur inn í skattkerfið með sérfrádrætti af atvinnutekjum giftra kvenna og orðið hefur til þess að heimili, þar sem fyrirvinnur eru tvær, búa við stórum léttari skattbyrði en heimili þar sem fyrirvinnan er ein eða einhleypir skattgreiðendur. Hefði nú mátt ætla að samhljóða skrif helstu stjórnarblaðanna um þetta mál yrðu til þess að á því yrði tekið þegar ríkisstj. setur fram till. um skattalagabreytingar. En það er nú eitthvað annað. Í frv. með langa nafnið er þessu atriði engin skil gerð.

Skal þá látið útrætt um þau ákvæði frv., sem tekjuskatt varða, en vikið að kafla sem fjallar um söluskattinn.

Þar er sá galli á gjöf Njarðar að ekki er um að ræða skýlausa ákvörðun um afléttingu þessa háa neysluskatts í nokkurri grein. Það er á valdi fjmrh. hvort og að hve miklu leyti söluskatti verður létt af einstökum matvörum eða matvöruflokkum og virðist af aths. að þar komi einkum til greina kornvörur og brauð, kjöt og kjötvörur, grænmeti og feitmeti.

En þá er eftir rúsínan í pylsuendanum. Ríkisstj. óskar eftir að Alþ. veiti heimild til að fella niður tolla af nokkrum ávaxtategundum, sem upp eru taldar í 18. gr. frv., en síðan kemur undarleg romsa. Ríkisstj. er nefnilega líka umhugað um að fjmrh. verði heimilað að afnema tolla af svínafeiti og alifuglafeiti, og tekið er fram að það skuli gilda einu hvort heldur slíkt feitmeti er brætt eða pressað. En þetta er bara byrjunin. Síðan fylgir upptalning sem of langt yrði að rekja. Þar bregður fyrir mörgum fáséðum varningi, svo sem geitafeiti, sem vera má hvort heldur óbrædd, brædd eða pressuð, ellegar í einhverri mynd, sem ekkert heiti hefur á íslensku, en ber alþjóðaheitið „premier jus“. Ekki nóg með þetta því að nú tekur við svínafeitisterín, óleósterín, svínafeitiolía og tólgarolía sem má þó hvorki vera jafnblönduð, blönduð né unnin á annan hátt til þess að ríkisstj. sækist eftir að fella niður tolla af henni. En meiri tólg er enn óstungin. Næst víkur sögunni að ullarfeiti, lanólíni, beinafeiti, klaufafeiti og úrgangsefnafeiti. Þetta er orðin löng skrá, en þó er a. m. k. annað eins ónefnt.

Þarna eru úrræði ríkisstj. lifandi komin. Þegar hún loks hefst handa og lætur frá sér heyra, svo að um munar, vegna þeirrar dýrtíðarholskeflu sem gerðir hennar, jafnt og aðgerðaleysi, hafa steypt yfir þjóðina, þegar vinnufriður hangir á bláþræði fyrir hennar sjálfrar tilverknað og samningaumleitanir á vinnumarkaði eru á viðkvæmu stigi, hyggst ríkisstj. bæta fyrir sér með því að afla heimildar til að sjá landslýð fyrir tollfrjálsri geitatólg, klaufafeiti og úrgangsefnafeiti, ef vel liggur á henni. Það er grátlegt að sjá ríkisstj. Íslands fást við svo fánýta iðju á alvörutímum. Það, sem þjóðin þarfnast, er ekki tollfrjáls ullarfeiti, olívuolía, sólrósarolía, rapsolía, colzolía né mustarðsolía, svo að enn sé gripið niður í 18. gr. frv. til 1. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara. Þessi varningur er vafalaust allur saman þarflegur til sinna nota, en að bjóða hann fram, þótt tollfrjáls sé, í frv. undir því yfirlætislega nafni sem ég var að hafa yfir er að rétta fólki steina fyrir brauð.

Menn ætlast til þess af ríkisstj. að hún beri fram markaða stefnu, bendi á færa leið úr vanda sem að höndum ber. Það hefur núv. ríkisstj. ekki tekist enn sem komið er. Verk hennar hafa mikinn part reynst fum og fálm, því miður, og mér er alvara þegar ég segi því miður. Hvort sem menn styðja þessa stjórn eða ekki er meira í húfi en svo að meinfýsi eigi nokkurn rétt á sér.