20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

Almennar stjórnmálaumræður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Líklega hafa hugsandi menn á Íslandi aldrei fyrr verið jafnuggandi um ástand og horfur í íslenskum efnahags- og stjórnmálum og nú undanfarnar víkur. Ekki er nema rúmt missiri síðan kosningar voru háðar og niðurstaða þeirra leiddi til myndunar nýs þingmeirihl. og nýrrar ríkisstj. Niðurstaða kosninganna sýndi að vaxandi hluti kjósenda var orðinn langþreyttur á ráðleysi og sundurlyndi fyrrv. ríkisstj. Sjálfstfl. var sigurvegari kosninganna. Ekki síst kjósendur hans munu hafa búist við því að í kjölfar kosningasigursins sigldi stefnufastara stjórnarfar, nýjar og heilbrigðari ráðstafanir í efnahagsmálum, aukin aðgæsla og hófsemi. Þeir, sem þannig hafa hugsað, hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þeir hafa þurft að verða vottar þess að bókstaflega ekkert hafi breyst. Ráðleysið og sundurlyndið situr enn í hásæti í stjórnarráðinu. Stefnan í efnahagsmálum er sama kákið og áður. Engin heildarstefna var mótuð við myndun ríkisstj. Ekkert hefur bólað á átaki til sparnaðar og hagsýni,

Bráðabirgðaráðstafanir voru að vísu gerðar í haust, gengi krónunnar var lækkað nýlega, en allir hafa vitað að hvorugt var fullnægjandi heildarlausn á þeim vanda sem við er að etja. Nú eru enn boðaðar ráðstafanir og enn eru þær sama markinu brenndar. Öllum er ljóst, að þær eru ófullnægjandi. Þær skapa ekkert traust á framtíð heilbrigðs atvinnulífs á Íslandi, hvorki hjá launþegum né atvinnurekendum. Landið hefur ekki trausta og samhenta ríkisstj. þótt stór þingmeirihl. sé talinn að baki henni. Ríkisstj. þarf að vera annað og meira en hópur ráðh. sem segjast hafa stuðning svo og svo margra þm. Ríkisstj. þarf að vera fær um að gera það sem gera þarf og er skynsamlegt og réttlátt að gera. Og ekki er nóg að stuðningsmenn á Alþ. séu sagðir ákveðinn fjöldi þm. ef svo og svo margir þeirra segja hverjum sem hafa vill að þeir séu hundóánægðir með ráðleysið, sundurlyndið og sukkið.

Þm., sem eru í stjórnarandstöðu, er oft legið á hálsi fyrir það að þeir láti við það sitja að gagnrýna, en bendi ekki sjálfir á það, hvað þeir vilji láta gera til þess að leysa vandann sem við er að glíma. Auðvitað er mér ljóst, að sérhver ábyrgur stjórnarandstöðuþm. þarf að hafa ákveðnar hugmyndir um hvernig við vandamálinu skuli snúist. Enginn viti borinn maður ber á móti því að íslendingum sé nú vandi á höndum ef koma á í veg fyrir allsherjar ringulreið í íslensku efnahagslífi, ef þjóðin á ekki að sökkva í hyldjúpt skuldafen erlendis og eiga á hættu atvinnuleysi innanlands og glata trausti sínu erlendis. Þess vegna ætla ég í þessum orðum mínum að setja fram nokkrar hugmyndir sem ég tel að gætu leyst þann vanda sem nú er við að etja, þannig að full atvinna sé tryggð, en hagur láglaunafólks bættur, eins og allir viðurkenna í orði að nauðsynlegt sé. Auðvitað er slíkt ekki hægt nema einhverjir beri byrðar í bráð, nema útgjöld einhverra minnki sem því svarar sem láglaunafólkið fær. Þeir, sem það eiga að gera, eru fyrst og fremst ríkissjóður og hinir tekjuháu í þjóðfélaginu. Það, sem nú þarf að gera, þarf að gera þannig og vera gert í þeim anda, að það stuðli að því að samningar takist sem allra fyrst milli launþegasamtaka og vinnuveitenda.

Ég skal nú rekja þær ráðstafanir sem ég tel nauðsynlegar þegar í stað:

1. Ríkisstj. og Seðlabanki lýsi því yfir að gengi krónunnar verði ekki lækkað frekar í fyrirsjáanlegri framtíð.

2. Ríkisstj. skuldbindi sig til þess að auka þá fjárhæð sem gildandi fjárl. ætla til lækkunar tekjuskatts á þessu ári, og nemur 700 millj. kr., í 2 000 millj. kr. Þessi lækkun verði að hluta með 100% hækkun afsláttarfjárhæða frá útsvari til sveitarfélaga sem staðið hafa óbreyttar frá árinu 1972. Í þessu fælist nálægt 700 millj. kr. aukning á framlagi ríkissjóðs til skattalækkunar. Ríkisstj. semji síðan í samráði við stjórnir Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja löggjöf um breytingar á skattalöggjöf og tryggingalöggjöf, sem sameina þætti úr þessari löggjöf í allsherjar tekjuöflunarkerfi sem tryggi að hvorki sé greiddur tekjuskattur né útsvar af tekjum sem teljast mega almennar launatekjur miðað við fjölskyldustærð.

3. Lágmarkstekjutrygging verði hækkuð um 15%, í 295 þús. kr. fyrir einstakling og 560 þús. kr. fyrir hjón. Ellilaun verði hækkuð í 184 þús. kr. fyrir einstakling og 350 þús. kr. fyrir hjón.

4. Fjvn. verði falið að lækka fjárlög yfirstandandi árs um 3 500 millj. kr.

5. Öllum ríkisstofnunum, að bönkum meðtöldum, verði fyrirskipað að lækka rekstrargjöld sín um 5%.

6. Sveitarfélögum verði gert skylt með lagasetningu að lækka rekstrargjöld sín um 5%. Jafnframt verði þeim heimilað að velja milli þess, hvort þau kjósa að bæta tekjumissinn vegna lækkunar útsvara með hækkun aðstöðugjalda eða fasteignagjalds.

7. Löggjöf verði sett um skyldusparnað þeirra sem hafa skattskyldar tekjur umfram visst mark og talist geta háar tekjur, þannig að þeim sé skylt að kaupa spariskírteini fyrir 7% af tekjum sínum umfram visst mark og endurgreiðist þau 1. jan. 1978 með 4% vöxtum frá 1. jan. 1976 og verðtryggingu. Tekjur þær, sem skyldusparnaðarákvæði ná til, skulu vera hinar sömu og gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. Geti skattgreiðandi hins vegar sýnt fram á að tekjur hans séu mun minni á þessu ári en í fyrra skal sparnaðarskyldunni létt af honum samkv. sérstökum reglum.

8. Nái aðilar vinnumarkaðarins ekki samkomulagi um hækkun láglaunabóta frá því, sem nú er, skal ríkissjóði heimilað að lána atvinnurekendum fjárhæð sem geri þeim kleift að hækka láglaunabætur um 5 900 kr. á mánuði, eins og launþegasamtökin hafa farið fram á. Launagreiðendur, sem slík lán fá, skulu endurgreiða þau með árlegum afborgunum fyrir 1. jan. 1978.

9. Á þessu ári skulu ekki leyfðar hærri fyrningar á atvinnutækjum en svarar til raunverulegrar verðmætisrýrnunar á árinu að mati ríkisskattanefndar.

10. Gerðar verði ráðstafanir til einföldunar og sparnaðar í ríkiskerfinu, t. d. með sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka og afnámi lagaákvæða um pólitíska framkvæmdastjóra við Framkvæmdastofnun ríkisins. Jafnframt verði lögum breytt þannig, að kjaradómur ákveði laun, dvalar- og ferðakostnað alþm. í stað þingfararkaupsnefndar.

Spurningin sem eðlilegt er að vakni í sambandi við slíkar till. sem þessar, er annars vegar sú, hvort þær séu líklegar til þess að stuðla að lausn þeirra vinnudeilna, sem nú standa yfir, og hins vegar hvort samræmi sé á milli þeirra tekna, sem þær gera ráð fyrir að afla, og þeirra gjalda, sem þær munu leiða til.

Varðandi fyrra atriðið er þetta að segja:

Ágreiningur milli launþega og atvinnurekenda er fyrst og fremst um þrjú atriði: upphæð skattalækkunarinnar, upphæð láglaunabótanna og hvort greiða skuli þær á dagvinnu einungis eða einnig á eftir- og næturvinnu. Samninganefnd launþegar hefur óskað þess, að ríkissjóður og sveitarfélög leggi fram 2000 millj. kr. til skattalækkunar. Hún hefur látið í ljós að hún mundi sætta sig við að láglaunabætur hækkuðu um 5 900 kr. og verði greiddar á allt kaup ef samningar tækjust án þess að til verkfalla kæmi. Allar þessar óskir eru eðlilegar og er þess vegna í þeim hugmyndum, sem ég hef lýst, miðað við að þær verði samþykktar. Ríkissjóði er ætlað að leggja fram um 700 millj. kr. umfram það, sem fjárlög gera nú ráð fyrir, til skattalækkunarinnar. Atvinnurekendur verða að samþykkja sömu hækkun á eftir- og næturvinnu og dagvinnu enda semst örugglega aldrei að öðrum kosti. Sjálfsagt er að viðurkenna að staða atvinnuveganna er nú eflaust erfið. Ekki má ætla þeim að greiða svo mikla hækkun kaupgjalds að til stöðvunar atvinnurekstrar og atvinnuleysis komi. Á hinn bóginn er vitað að fjölmörg fyrirtæki geta auðveldlega greitt þá hækkun láglaunabóta, sem launþegasamtökin fara fram á, en ýmsum kann að reynast það erfitt í bráð. Þess vegna er gert ráð fyrir því að farið yrði inn á þá braut að veita þeim, sem þannig stendur á fyrir, tímabundin lán. Hins vegar er engin ástæða til annars en að ætla að framleiðni íslenskra atvinnuvega aukist í þeim mæli á næstu árum að þau geti endurgreitt slík lán auk áframhaldandi hækkunar kaups í kjölfar bættra framleiðsluhátta og aukinnar framleiðni.

Þá er komið að hinni spurningunni: Standast gjöld og tekjur á? Heildarlækkun ríkisútgjaldanna næmi 3 500 millj. kr. Ríkisstj. sjálf telur slíka lækkun útgjalda framkvæmanlega í till. sínum svo að ekki ætti að vera hægt að segja að hér sé um óraunhæfar áætlanir að ræða. Samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja, ættu tekjur af skyldusparnaði þeim, sem um er rætt, að gefa 350 millj. kr. Þá hefur ríkið til ráðstöfunar þar 3850 millj. kr. Gjöldin yrðu þessi: Aukin skattalækkun kostar ríkissjóð 700 millj. Hækkun tekjutryggingar og hækkun ellilauna mundi kosta um 860 millj. kr. Gera má ráð fyrir að laun ríkisstarfsmanna hækki um 800 millj. kr. Afgangs yrðu þá tæplega 1500 millj. kr., sem hægt yrði að lána launagreiðendum til þess að gera þeim kleift að greiða nauðsynlega hækkun láglaunabóta. Mundi lauslega áætlað kosta 1400–1500 millj. kr.að brúa það bil, sem nú er milli tilboðs atvinnurekenda og krafna launþega, sé miðað við dagvinnuna. Það er því augljóst að unnt yrði að ná endum saman með þessum hætti. Þessar tölur allar eru miðaðar við heilt ár og yrðu því lægri á þessu ári.

Þeim atriðum hugmyndanna, sem lúta að sparnaði hjá ríkisfyrirtækjum og sveitarfélögum, einföldun í opinberum rekstri, lækkun fyrningarheimilda hjá fyrirtækjum og því að láta hlutlausan aðila ákveða launakjör alþm., er fyrst og fremst ætlað að vera tákn viðurkenningar þess að á erfiðum tímum á hið opinbera ekki aðeins að segja við borgarana: Nú verðið þið að herða að ykkur ólina, heldur ganga sjálft á undan með góðu fordæmi og draga saman seglin. Sömuleiðis á ríkisvaldið að knýja fyrirtækin til aukinnar hagræðingar og hagsýni. Fyrsta atriðið um að ríkisstj. og Seðlabanki lýsi því yfir að gengi krónunnar skuli nú haldast stöðugt um fyrirsjáanlega framtíð, er nauðsynlegt til þess að það traust skapist í viðskiptum sem er undirstaða þess að um varanlegar framfarir geti orðið að ræða.

Þessar hugmyndir eru settar hér fram til þess að sýna að það er unnt að stuðla að samningum og koma í veg fyrir þá þjóðarógæfu sem almenn verkföll hlytu nú að teljast. Öllum mönnum, sem gjörla þekkja til. hlýtur að vera ljóst að tillögur þær, sem felast í frv. því sem ríkisstj. lagði fram í dag, eru algerlega ófullnægjandi til þess að stuðla að lausn vinnudeilunnar. En það er hægt að gera það sem þarf til þess að jafna ágreininginn. Þessar hugmyndir eru settar fram í því skyni að benda á færar leiðir að því marki.

Alveg á næstunni verður að fást úr því skorið, hvort launþegar og vinnuveitendur geta náð samkomulagi. Takist það ekki verður Alþ. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að úr því ranglæti verði bætt sem láglaunafólk hefur orðið fyrir með óbærilegri kjaraskerðingu og áframhaldandi atvinna og vinnufriður verði tryggð.

Ég tel mig, herra forseti, hafa sýnt fram á, að þetta er hægt. Þjóðarheildin á mikið undir því að þeir, sem völdin hafa hér á Alþ., reynist nú vanda sínum vaxnir. Þeir hafa heill almennings í hendi sér. Nú er nauðsyn á fullum skilningi á því að undanfarið hafa stórir hópar launafólks orðið fyrir órétti. Þörf er þeirrar stjórnfestu og þess góðvilja sem nauðsynlegur er til þess að bæta úr. Síðustu orð mín skulu vera ósk um að samningar takist á vinnumarkaðnum, að kjör láglaunafólks batni og full atvinna haldist öllum íslendingum til góðs og heilla. — Góða nótt.