21.03.1975
Neðri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., um ráðstafanir í efnahags- og fjármálum, er borið fram af ríkisstj. Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því áðan hvaða breytingar valda því m. a. að þetta frv. er fram komið. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa stórversnað frá því sem reiknað var með þegar fjárlagafrv. var afgr. fyrir síðustu áramót, og fleiri þættir efnahagslífsins hafa einnig gengið okkur gegn.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til þess að reyna að snúast gegn þeim vanda sem skapast hefur, og er einnig afleiðing af þeirri gengisbreytingu sem varð að gera hér af sömu ástæðum.

Fyrsti þáttur þessa frv. fjallar um niðurskurð á útgjöldum ríkisins á fjárlögum, og er þar tekið tillit til þeirrar breytingar sem orðið hefur vegna gengisbreytingarnar, en afleiðing af þeirri breytingu mundi verða allt að 1 milljarði kr., eða 800–900 millj. kr. a. m. k., í auknum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs ef það yrði látið ganga inn í verðlagið óbreytt, eins og fjárlögin eru uppbyggð. Hér er hins vegar stefnt að því, að það skuli ekki gert og hækkuð rekstrarútgjöld bæði rn. og ríkisstofnana, þegar átt er við þá liði sem ekki taka til launa, nái ekki fram að ganga, heldur verði að búa við ekki meiri fjárhæð en gert var ráð fyrir í upphafi. Og í fyrstu lotu er gert ráð fyrir að lækka þessa fjárhæð um 5%. Í þeim fyrirmælum, sem ráðh. hafa gefið einstökum rn. og ríkisstofnunum þar um, er svo fyrir mælt um rekstrar- og viðhaldsliði. Það verður að hafa í huga að sú uppsetning, sem er í frv., er sett upp eftir að búið er að taka tillit til þessa og líka eftir að búið er að taka tillit til þeirra tekna sem af gengisbreytingunni stafa. Það er líka ljóst að þegar fjárlagafrv. var samið, þá var gert ráð fyrir því, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að þjóðarframleiðslan mundi heldur aukast á árinn 1975. En vegna þeirrar rýrnunar á viðskiptakjörum sem nú er, þá er gert ráð fyrir því að þjóðartekjur muni rýrna á næsta ári og það leiði til þess að tekjur ríkissjóðs muni einnig rýrna, m. a. v'egna þeirrar gjaldeyrisstöðu sem nú er hjá þjóðinni. Af þessum ástæðum taldi ríkisstj. sér rétt og skylt að fá heimild til þess að meðhöndla fjárlögin á nýjan leik út frá því sem sýndi sig að reynslu yrði á árinu og þá yrði tekið jafnt tillit til rekstrarliða sem framkvæmdaliða 3 sambandi við þá meðhöndlun. Í því sambandi mun ríkisstj. leggja á það áherslu, eins og hún hefur sérstaklega tekið fram áður, að hún mun hafa það stefnumið að halda áfram byggðastefnunni fullkomlega í huga og einnig að halda hér uppi fullri atvinnu. Með það í huga verður um þessi mál fjallað. Þá er og ákvæði í þessu frv. um það, að um þetta mál þurfi samþykki fjvn. Alþ. til þess að framkvæma það sem ríkisstj. hyggst gera í sambandi við breyt. á fjárlögum,

Ég álít því, að það sé ekki rétt túlkun á þessu ákvæði frv. að eingöngu sé hér um að ræða niðurskurð að því er varðar útgjöld til framkvæmda, heldur getur það og verið til margvíslegra annarra atriða, þar sem hér er um að ræða bæði ákvæði, sem bundin eru í fjárlögum, og einnig þau ákvæði sem bundin eru af öðrum lögum. Á þessu vildi ég vekja athygli. Og ég vil líka vekja athygli á því, að með því að fjvn. Alþ. fjallar um málið, þá eru fullkomin tengsl á milli fjárveitingavalds Alþ. og ríkisstj. um þessa framkvæmd, því að það gefur auga leið að þeir fjvn.-menn, sem að þessu vinna, munu að sjálfsögðu hafa samstarf við þingflokksbræður sína, eins þeir gera þegar þeir eru að afgr. fjárlög hverju sinni. Það mundi enginn þeirra fara að taka á sig það vanþakkláta starf að breyta fjárl. að verulegu marki um framkvæmdir í einstökum kjördæmum án þess að hafa samband við þm. úr þeim kjördæmum. Hér er því algert samband á milli Alþ. og ríkisstj. um þessa breytingu.

Hins vegar verðum við í þessu sem öðru að gera okkur grein fyrir möguleikum þjóðarinnar til athafna á sviði framkvæmda á þessu ári, miðað við þá stöðu sem nú er í gjaldeyrismálum þjóðarinnar og í verðlagi á útflutningsvörum hennar og sölutregðu á ýmsum mörkuðum. Það mun að sjálfsögðu ráða mestu um hvað hér verður að aðhafast.

Annað atriði, sem hér er til meðferðar, er breyting á skattalögum og útsvarslögum. Það er í beinu samhengi við þær umr. sem farið hafa fram að nokkru leyti við aðila vinnumarkaðarins, og það hefur greinilega komið fram að fulltrúar ASÍ í þeim samningamálum hafa mjög kosið að eiga viðræður um skattabreytingar í sambandi við kjaramál.

Nú vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 3. landsk. þm., Magnúsi T. Ólafssyni, í útvarpsumr. í gærkvöld, að það getur orkað mjög tvímælis hversu réttmætt það er að vera með skattamál inni í kjaradeilumálum. Ég held að farsælasta lausnin fyrir þjóðina sé að ljúka endurskoðun á skattamálunum í heild og setja upp kerfi sem til frambúðar geti orðið. Meðan ég fór með þau mál í fjmrn. var unnið mikið starf að endurskoðun á skattamálum. N. vann að því sem skilaði Alþ. skýrslu um heildarúttekt á skattamálum þjóðarinnar og frumhugmyndum að till. til úrbóta. Þessi skýrsla var lögð fram hér á hv. Alþ. í fyrravetur og þeir hv. þm., sem þá sátu hér, eiga hana í fórum sínum. Þar er að finna margvíslegan fróðleik og skýrslan í alla staði vel unnin, enda voru það hinir færustu menn sem þar voru að verki. Í framhaldi af þessu vann svo fyrrv. ráðuneytisstjóri í fjmrn. í tvo mánuði, áður en hann fór í frí frá störfum, að útfærslu á einstökum þáttum í skattamálum og ýmsum hugmyndum sem fram komu í skýrslunni. Þetta afhenti hann fjmrn. áður en hann fór af landi burt og það hefur málið til meðferðar. Þessi þáttur nær bæði til beinna og óbeinna skatta. Eins og hefur komið fram hjá hæstv. núv. fjmrh., verður umnið áfram að því að leysa þessi mál þannig að skattakerfi landsins geti talist til frambúðar að því leyti sem skattamál geta verið. En í meginatriðum þurfa grundvallaratriði skattamála að vera nokkuð formbundin. Það var talið eðlilegt að taka þetta til heildarathugunar þegar tekjuskattur hafði verið í gildi hér á landi í hálfa öld, eins og átti` sér stað 1971. Ég tek því undir þá skoðun að nauðsyn ber til að halda áfram að ljúka þessu verki og gera það sem sjálfstætt verk. Þó það geti verið eins nú og átti sér stað á s. l. ári að einstakir þættir verði til meðferðar í sambandi við kjaramál, þá má það ekki vera nema að takmörkuðu leyti.

Þær höfuðbreytingar, sem gerðar eru í skattamálunum með þessu frv., eru að fella niður frádrátt sem hefur verið gerður áður en skattur hefur verið á lagður. Nú er svo lagt á brúttótekjurnar, en hins vegar gerður frádráttur í skatti eftir að á hefur verið lagt. Hér er að nokkru leyti farið inn á þá hugmynd sem sett er fram í skýrslu þeirrar n. sem ég vitnaði til áðan, hugmyndin um flatan skatt og mismunandi stighækkun eða frádrátt eftir að skattur hafði verið á lagður. Hér er það form upp tekið, og ég hygg að hér muni vera farið inn á leið sem muni í framkvæmd síðar meir verða lögð til grundvallar í sambandi við skattálagningu. Það var mitt mat eða mín tilfinning fyrir þessu, án þess að ég hefði þó grundvallað það svo sem þörf ber til, að þetta mundi reynast happadrýgra, og að því leyti er þetta spor í rétta átt að mínu mati.

Enn fremur er hér farið inn á það að sameina fjölskyldubætur og frádrátt með börnum þeirra foreldra sem hafa börn á framfæri. Ég álít að það sé líka til að gera þetta kerfi einfaldara. Allt, sem gengur í þá átt að gera framkvæmd og álagningu skatta einfaldara, er að minni hyggju heppileg leið og farsæl. Ég tel því að í frv. sé að finna spor sem ganga í rétta átt. Mér er það hins vegar alveg ljóst, að á svo stuttum tíma sem hér hefur verið til meðferðar er ekki hægt að ná nema að takmörkuðu leyti inn á skattamálin, svo flókin eru þau.

Eitt atriði, sem upp var tekið við skattkerfisbreytinguna í fyrra, var endurgreiðsla á skatti til að koma til skila því sem ekki var hægt að skila aftur til þeirra sem skattlausir voru. Það var kerfi sem ég þá óttaðist mjög að gæti verið hæpið og mundi leiða til þess að svindl eða óréttmæt skattframkvæmd ætti sér stað. Hins vegar var það svo þá, að þarna var bæði um byrjunaratriði að ræða og líka gert í sambandi við lausn á kjaramálum og því ekki hægt að vinna að þessum málum sem skyldi. Þess vegna var ekki lögð í það sú vinna sem þurfti til að prófa þetta þá. Hins vegar sýnist mér að með þeim breytingum, sem nú eru gerðar, séu vankantarnir sniðnir af þessu, svo að minni hætta sé á að það komi ranglátlega niður, eins og ég tel að það hafi gert með þeirri breytingu sem gerð var í fyrra, og reyndar óttuðumst við sem að þessu unnum, að svo mundi fara. Nú hefur hins vegar komið á þetta nokkur reynsla sem ég tel að sé hægt að hagnýta sér og hafi verið hagnýtt við þessa skattalagabreytingu. Ég vil því endurtaka það, að ég tel að hér sé betur að unnið, enda nú betri tími til og reynsla fengin til að taka af þá vankanta sem fram hafa komið.

Það er alveg ljóst að það er afskaplega erfitt að koma skattalækkun til þeirra eða láta þá njóta í sem enga skatta greiða. Og ég verð að játa að mér finnst að í sumum tilfellum sé of mikið upp úr þessu lagt í sambandi við kjaramálin, því að þeir lægst launuðu njóti þar ekki af sem skyldi. En þó er úr þessu bætt með þessu endurgreiðslufyrirkomulagi, svo langt sem það nær. Með því, sem nú er upp tekið, að taka útsvörin inn í þetta dæmi líka, þá er það nær því að ná til þeirra sem lægstar tekjur hafa því að flestir greiða þeir útsvör sem nú mundu lækka verulega við þessa breytingu. Þess vegna finnst mér að það sé náð nokkuð til þeirra með þeim hætti sem hér er sagt til.

Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv. um 2 milljarða kr. afslátt í sambandi við skattamálin, eins og hann talaði um að væri krafa stéttarfélaganna í sambandi við kjaradeiluna, þá sé ég ekki betur en að með þessu frv. sé hægt að ná þessu marki. Það er gert ráð fyrir því að með þessu frv. lækki beinir skattar ríkisins um 800–850 millj. kr., í öðru lagi að útsvörin lækki um 350 millj. eða jafnvel meira í sambandi við þá breytingu sem þar er gert ráð fyrir, og enn fremur er gert ráð fyrir því að óbeinir skattar geti lækkað um 800 millj., og þá sýnist mér talan 2 000 millj. kr. vera komin. Ég fæ því ekki skilið þann útreikning að frv., ef notaðar eru þær heimildir sem þar eru tiltækar, geti ekki náð þessu marki, ef ríkisstj. treystir sér til að nota heimildirnar sem hún óskar eftir að fá með þessu lagafrv. Það hlýtur því að vera á misskilningi byggt að ekki sé hægt að ná þessari tölu, því að rými frv. er innan þeirra marka.

Það var líka á misskilningi byggt hjá hv. 9. þm. Reykv. að söluskattur á húshitumarolíu ætti að koma inn í þetta því að söluskattur á húshitunarolíu hefur ekki verið til síðan 1971, þá var hann felldur niður. Það er auðvitað ekki hægt að fella tvisvar niður sama söluskattinn, því að hann er ekki til. Sú breyting var gerð eftir að vinstri stjórnin kom til valda sumarið 1971, og því er ekki hægt að nota þetta að öðru sinni.

Mér sýnist, að með þessu frv. mætti ná því sem að er stefnt í þessum efnum og þurfi því ekki að breyta þar um nema hvað menn treysta sér til að framkvæma í þeim efnum. En auðvitað er þetta sett inn í frv. í þeirri von að hægt sé að framkvæma það og líka sé hægt að ná þeim tilgangi sem að er stefnt til þess að ná saman kjarasamningum, að því leyti sem ríkissjóður eða ríkisstj. getur komið inn í það dæmi.

Ég vil segja það, að ég tel að það sé alveg eins hagkvæmt fyrir heimilin og að mörgu leyti miklu betra að fá þessar kjarabætur með því að lækka vöruverð á neysluvörum, sem allir nota, eins og að fá það í beinum sköttum sem ekki yrðu þó endurgreiddir nema að takmörkuðu leyti. Ég skil ekki heldur að það séu eingöngu beinir skattar sem hér koma að gagni, því að það finnst mér að muni fyrst og fremst koma þeim til góða sem hafa meðaltekjur og í hærri flokkum. Ég lít því svo á að frv. taki fullkomlega tillit til þess arna ef verður hægt að framkvæma það. Skoðun mín er að heppilegri leið sé að fella niður söluskatt af einstökum vörum. T. d. í kjötvörunum væri hægt að hugsa sér að fella niður söluskattinn að öllu leyti, en draga þá að einhverju leyti úr niðurgreiðslunum og ná sama árangri með því að taka fleiri vörutegundir inn í þetta dæmi. Ég álít að hægt sé að gera það. T. d. í kjötvörunum mundi þetta gera það að verkum að meira úrval yrði, því að þá mundi það ná til þeirra kjötvara sem ekki eru niðurgreiddar, eins og nautakjöts, fuglakjöts og svínakjöts, sem neytendur vilja njóta ekki síður en annars. En að minni hyggju er betra að fella söluskatt að öllu leyti niður af þeirri vörutegund, sem valin er, heldur en að lækka hann, þó að heimild sé til hvors tveggja. En þá miða ég við það sem talið er af þeim, sem best þekkja til að komi í veg fyrir svindl.

Ég skal ekki orðlengja þetta öllu frekar. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það, að til viðbótar því, sem ég hef hér nefnt, er gert ráð fyrir skyldusparnaði hjá þeim tekjuhæstu til þess að þeir leggi það af mörkum að sínu leyti umfram aðra. Hinir fá skattalækkun sem þeir með hærri tekjur fá ekki því að breytingin á persónufrádrætti og skattalækkun upphefur þann mismun sem þar er að finna. Hér er því um að ræða sama skatt á þeim tekjuhæstu og áður hefur verið, vegna þess að með vísitölubreytingu í skatti núna hefði að sjálfsögðu þeirra persónufrádráttur hækkað og skattstiginn einnig breyst eftir reglu skattvísitölunnar. Hins vegar fá þeir tekjulægstu ívilnun með þessu móti og á þann hátt sem er þeim happadrýgri en kauphækkun, að þeir greiða ekki skatt af þessari lækkun. Miðlungstekjumenn fá líka verulegar bætur, en hinir tekjuhæstu eru aftur látnir bera þetta uppi.

Út af því, sem snýr að lánaframkvæmdum í sambandi við þetta frv., þá er hér reynt að stilla í hóf. En eins og fram hefur komið í umr. bæði í dag og eins í gærkvöld, þá mun ríkisstj. fyrst og fremst keppa að því að halda hér fullri atvinnu. Aðgerðir hennar í fjármálum munu miðast við það tvennt að reyna að efla gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar út á við, en þó halda fullri atvinnu í landinu. Ég tók fram hér í gærkvöld að ég vissi að þetta er erfitt verk en þetta er það verk sem ríkisstj. ætlar sér að leysa og ég trúi því að henni muni takast að finna leið til þess.