03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

95. mál, vegalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja nema örfá orð, þar sem ég á sæti í þeirri n. sem fjallar um þetta frv.

Það var vakin athygli á því á síðasta Alþ. að nauðsyn bæri til að endurskoða ákvæði laga um sýsluvegasjóði, m. a. vegna þess að þá voru nokkrir þéttbýlisstaðir gerðir að kaupstöðum, en þessir staðir höfðu fram að þeim tíma borið uppi viðkomandi sýsluvegasjóði. Ég hef ekki athugað nákvæmlega að hve miklu leyti þetta sjónarmið hefur verið haft í huga við samningu frv. sem hér um ræðir, en vissulega er þetta veigamikið atriði.

Það er enginn vafi á því að það eru full rök til þess að endurskoða þessi ákvæði sem ég nefndi, m. a. eins og getið er í aths., að það beri nauðsyn til að efla sýsluvegasjóðina vegna breyttrar tækni við mjólkurflutninga, styrkja gerð þjóðvega í þéttbýli og ná betra samhengi í samgöngukerfið. Það er einnig vafalaust að þetta frv. hreyfir ýmsum breyt. til bóta. En það er að sjálfsögðu ekki nægjanlegt að ákvæðum laganna sé breytt heldur þarf einnig fjármagn til að þær breyt. njóti sín. Ég tel t. d. tvímælalaust rétt og til bóta að ákvæði V. kafla laganna verði látin ná till þéttbýlis þar sem eingöngu eru 200 íbúar, þar sem áður stóð að miða skyldi við 300 íbúa.

Hér hefur mest verið rætt um 11. gr. frv. og mætti margt um hana segja og þær hugleiðingar sem hér hafa komið fram af hálfu ýmissa aðila, en ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma á þessu stigi, en aðeins taka undir með hv. 1. þm. Sunnl., að ég hygg að þessi gr., eins og hún er komin frá Ed. og eins og hún raunar var í frv. upphaflegra, þurfi nákvæmrar skoðunar við áður en samþ. verður.