21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

52. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það er ekki meining mín að spyrna fótum við samþykkt þessa frv. Ég get lýst yfir stuðningi mínum við frv. sem slíkt og tilgang þann sem felst í þeirri lagasetningu sem þetta frv. hefur að geyma. En ég kveð mér hljóðs af því að mér finnst eins og mörgum öðrum þjóðfélagsborgurum satt best að segja orðið yfirþyrmandi tískufyrirbrigði í okkar þjóðfélagi þessi happdrættisstefna, ef svo mætti að orði komast. Það er reynsla okkar a.m.k. þeirra sem búa í þéttbýli, að það er ekki sjaldnar en einu sinni á hverjum einasta sunnudegi, sem hringt er dyrabjöllunni, og þá er verið að bjóða til kaups einhvers konar happdrættismiða.

Nú virðist það vera yfirlýst stefna, sem alltaf er að vinna sér meira og meira fylgi hér í sölum Alþ., að reyna að fjármagna ýmsar framkvæmdir, — ég viðurkenni að það hafa verið nauðsynlegar framkvæmdir sem þar hafa verið á ferðinni, — á þennan máta, að höfða til spilamennskueðlisins, sem er svo ríkt í mönnum, að reyna að fá fljótfenginn happagróða. Ég held að það sé full ástæða til þess af opinberu hálfu að tekið sé til alvarlegrar athugunar að spyrna hér við fótum.

Í framhaldi af þeirri fyrirspurn, sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umræðuefni, hvað væri mikil velta þessara opinberu happdrætta: DAS, SÍBS og háskólans, vil ég bæta við að ég vildi gjarnan óska þess að það yrði upplýst, t.a.m. við 2. umr. þessa máls, hve mikið er komið í umferð af svokölluðum happdrættisskuldabréfum í heild og einnig yrði upplýst hve margir aðilar það eru í þjóðfélaginu, félög og aðrir, sem hafa fengið leyfi til þess að gefa út happdrættisseðla eða afla fjármagns með þeim hætti

Ég endurtek að ég tel að nú sé kominn tími til þess fyrir stjórnvöld að taka til alvarlegrar athugunar hvort ekki eigi nú að sporna við fæti og stöðva þessa þróun. Ef menn eru almennt á því að vera með þessi happdrætti, þá tel ég að það mætti koma fyllilega til greina að færa þetta enn betur út og opna þá hreint og beint alþjóðlegan spilabanka hér. Því skyldum við ekki gera það? Ég veit um ríki, sem hefur stórkostlegar tekjur og mestar sinar tekjuraf því að reka alþjóðlegan spilabanka. Mér finnst það alveg eins geta komið til athugunar, hvort það væri ekki eðlilegt. Við getum boðið ákaflega góð þægindi við það og það gæti verið mjög ábatasöm fjáröflunarleið og mætti þá taka það til athugunar. Það er ekkert árstíðabundið með það, þannig að við gætum þá dreift ferðamannastraumnum betur, þeir gætu komið hingað á haustin og á vetrum og stundað spilamennsku ásamt öðru því, sem þeir kynnu að óska sér til afþreyingar.