04.04.1975
Sameinað þing: 57. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

147. mál, sparnaður í notkun eldsneytis

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég hef fyrir nokkru ásamt öðrum hv. þm. lagt fram till. til þál. um sparnað í eldneytisnotkun. Þessi till. á að sjálfsögðu rætur sínar að rekja til þess sem nefnt hefur verið olíukreppa og þeirra miklu útgjalda fyrir íslenskan þjóðarbúskap sem af þessu hefur leiti. Þetta er einnig með tilvísun til þess að við íslendingar gerðum ekki af opinberri hálfu markvissar ráðstafanir til þess að draga úr eldsneytisnotkun þegar olíukreppan skall á haustið 1973. Aðrar þjóðir gerðu það flestar, a. m. k. nágrannaþjóðir okkar. Að vísu bjuggum við að því leyti betur en margar þessar þjóðir að hér var ekki olíu- eða eldsneytisskortur vegna fastra samninga sem við höfum um kaup á slíku eldsneyti. Annars staðar var þetta að sjálfsögðu verulegur þáttur í kröfum um sparnað í eldsneytisnotkun. Engu að síður er það staðreynd að útgjöld af þessum sökum eru gífurleg hjá okkur íslendingum og eiga mjög verulegan þátt í því ástandi sem nú er í gjaldeyrismálum okkar og er sannarlega ástæða til þess að huga þarna vel að.

Nú er það vissulega svo að nokkuð hefur verið gert og vil ég þá sérstaklega nefna athugun á notkun á svartolíu í skipum. Varðandi það mál hefur starfað n. og skilað mjög athyglisverðu áliti. Er nú unnið að breytingum á vélum skipa í þessu skyni og væntanlega verður nokkurt lánsfjármagn veitt í þessu sambandi. Þarna er vitanlega um athyglisverðan sparnað að ræða. Þó er það eflaust rétt sem komið hefur fram hjá ýmsum fróðum mönnum um þessi mál að þetta er ekki einhlítt. Vélar eru margar hverjar ekki eins vel fyrir svartolíunotkun gerðar og þarf að tryggja betra viðhald og eftirlit með slíkum vélum en þeim sem nota dísilolíu.

Til fróðleiks hef ég tekið saman nokkrar tölur um innflutning frá árinu 1974. Á því ári voru fluttar inn um 356.6 þús. lestir af dísilolíu fyrir 3 milljarða 518 millj. kr. Svartolíuinnflutningurinn nam 110.798 lestum, að verðmæti 692.9 millj. kr., bensín, í fyrsta lagi venjulegt bensín á bifreiðar og þess háttar var 72.296 lestir að verðmæti 898.7 millj. kr., þotueldsneyti var 64.825 lestir, að verðmæti 611.7 millj. kr., flugvélabensin var 1.333 lestir að verðmæti 23.8 millj. kr. Aðrir þættir voru stórum minni, fyrst og fremst alls konar smurolíur og þess háttar, sem ég hef ekki tekið með. En heildarverðmæti í innflutningi þessara þátta, sem hér eru taldir, er nálægt 6 milljörðum kr. Hér er dísilolían langsamlega stærst, eða meira en helmingur af þessu verðmæti, og því eðlilegt að fyrst sé litið til dísilolíunotkunar þegar um sparnaðarhugmyndir er að ræða. Það er einnig athyglisvert að hver lest af svartolíu kostar um 55–60% þess sem lestin af dísilolíu kostar. Og þegar tekið er tillit til þess að svartolían veitir jafnvel enn meiri orku, þá er ljóst að af því er verulegur sparnaður að breyta frá dísilolíu yfir í svartolíu eins og nú er verið að gera á togurunum og ég nefndi áðan, þótt stofnkostnaður í þessu sambandi sé vissulega nokkru meiri.

En ég vil þá fyrst snúa mér að dísilolíunni. Dísilolían skiptist nokkurn veginn þannig að til húsahitunar fara um 42% af dísilolíuinnflutningi og verðmæti þess í innflutningi er um 1 500 millj. kr. Til fiskiskipa fara um 33% af dísilolíuinnflutningi, sem eru að verðmæti um 1160 millj. kr., á dísilbifreiðar um 8.12% að verðmæti 286 millj. kr., annað er 17.2% að verðmæti 666 millj. kr. Stærsti einstaki þátturinn af því er til raforkuframleiðslu. Það er um 7% eða 246 millj. kr. Þarna er því húsahitunin stærsti liðurinn, nálgast það að vera helmingur af dísilolíunotkuninni.

Til húsahitunar renna um 150 þús. lestir af dísilolíu. Útsöluverðið er yfir 3 milljarðar kr., eins og dísilolíuverðið er nú. Þarna hefur mjög athyglisverð framkvæmd átt sér stað, þ. e. athugun vélskólanema, sem hefur verið mikið um rætt og er ákaflega lofsverð. Þeir hafa sýnt fram á að með stillingu kynditækja má spara mjög mikið í notkun eldsneytis. Þetta kemur ekki á óvart fyrir þá sem þekkja eitthvað til eftirlits á þessu sviði hjá okkur. Ég leyfi mér að fullyrða að það eftirlit sé ákaflega lítið og þótt olíufélögin veiti þar nokkra þjónustu, þó nær það mjög skammt. Hér er um sérfræðistarf að ræða. Það þarf til þess sérstök tæki og ber að fagna því að af opinberri hálfu hefur, eftir að þetta kom fram hjá vélskólanemum, verið hlaupið undir bagga og þeir aðstoðaðir við útvegun slíkra tækja. Þeir áætla, eins og fram hefur komið, að spara megi í notkun dísilolíu um 300–400 millj. kr. á markaðsverði hér heima í dag og er það ekki lítil upphæð. Þarna er um að ræða allt að 10% af heildarmarkaðsverði. Þetta er stór upphæð og ber að stuðla að því að slíkar stillingar fari sem viðast fram.

Ég vil einnig nefna annan þátt sem ég hygg að sé lítill gaumur gefinn hjá okkur, það er hitastig húsa. Við höfum lesið að Frakklandsforseti hafi lækkað hitastigið hjá sér um 2 eða 3 gráður og klætt sig í peysu í staðinn og sama fréttum við frá Bandaríkjunum og annars staðar. Þetta er ekki að ástæðulausu því að húsahiti, þegar komið er yfir ákveðið stig, krefst í vaxandi mæli olíu með hærra hitastigi. Þannig má áætla að um það bil 1 gráðu hitaauki yfir 20 gráður krefjist um 7% aukinnar olíunotkunar og síðan fer það vaxandi eftir því sem hitastigið verður hærra. Aðeins þannig 1 gráðu hitaauki næmi því um 100 millj. kr. á innflutningsverðmæti s. l. árs eða um 210 millj. á útsöluverði. Ég óttast að víða sé fullur hiti á verslunarhúsnæði og ýmsu öðru yfir helgar og á nóttum. Það eru að vísu takmörk fyrir því hvað það borgar sig að færa hitastigið niður, en nokkur lækkun á hitastigi er tvímælalaust hagkvæm.

Um þetta liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar fyrir almenning og raunar er ekki hægt að áfellast almenning fyrir athugunarleysi á þessu sviði þegar slíkar upplýsingar liggja ekki frammi. Með þessari till. er m. a. ætlunin að vekja athygli opinberra aðila á nauðsyn þess að veita slíkar upplýsingar og leiðbeiningar eins og nú er ætlunin að gera við stillingu tækja, einnig um hagkvæma notkun á olíu almennt með tilliti til hitastigs. Við þetta má bæta að hóflegt hitastig í húsum er stórum heilnæmara eins og m. a. hefur verið undirstrikað í skýrslum sem í Bandaríkjunum hafa birst um þessa þætti, þar sem málin hafa hlotið allítarlega athugun nú vegna olíukreppunnar.

Það hefur oft vakið athygli mína, þegar ég kem í hús á Norðurlöndum, t. d. í Noregi, að hitastig er iðulega 19–20 stig eða jafnvel niður í 18, og ég held að það sé vafalaust að slíkt hitastig er stórum heilnæmara en 24–25 gráður sem er allt of víða í húsum og kostar ótrúlega mikið viðbótareldsneyti. Ég held að þennan þátt þurfi að skoða og koma á framfæri góðum og aðgengilegum upplýsingum.

Um einangrun húsa hefur oft verið rætt og ég hef kynnt mér þau mál nokkuð. Þar eru í gildi ákveðnir staðlar sem gera ráð fyrir ákveðnu hitafalli í gegnum útveggi. Þetta jafnast nokkurn veginn á við tveggja tommu eða 5 cm góða einangrun og þó að þarna sé viða pottur brotinn og vafalaust mætti úr bæta, þá er líklega staðreyndin sú að hitatap er meira vegna þess að hús eru óþétt og það eru takmörk fyrir því hvað hagkvæmt er að auka einangrunina sjálfa á meðan svo er. Sérfræðingar munu því telja að þetta sé sú einangrun sem eðlileg sé án verulegs átaks í þéttingu húsa. Líklega er þétting húsa mikilvægari en aukin einangrun sem slík. En ég tel, að þennan þátt þyrfti jafnframt að skoða. Þetta er um húsahitunina sem, eins og ég sagði áðan, er stærsti þátturinn í stærsta flokki þessa innflutnings, dísilolíunni.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að með þessu móti er á engan máta verið að draga úr mikilvægi þess að hraða notkun íslenskra orkugjafa til húsahitunar, fyrst og fremst notkun jarðhitans. Á það ber að leggja höfuðáherslu. Ég fagna því sem gert er á því sviði nú, en ég held að við þurfum að gera enn meira. Ég vil sömuleiðis leggja áherslu á það að rafhitun verði skoðuð vandlega og framkvæmdum hraðað. Ég lít hins vegar svo á, að það sé fyrir utan svið þessarar þáltill. Þó vil ég geta þess að þar er mikið verkefni ókannað, fyrst og fremst á hvern máta nota á raforkuna. Raforka notuð til upphitunar er ekki sérstaklega hagkvæm, þegar tekið er tillit til þess mikla kostnaðar sem felst í löngum dreifilínum og einnig tekið tillit til þess að álagstími raforkuhitunar er tiltölulega mjög óhagkvæmur, um 4000 stundir á ári, og fellur þar að auki mest á þeim tíma ársins, þegar raforkan frá vatnsaflsstöðvum er fremur af skornum skammti, þ. e. a. s. á veturna. Því ber að leggja áherslu á að kanna þarna nýjar leiðir, eins og t. d. nú er ætlunin að gera í Vestmannaeyjum, þar sem afgangsorka er notuð, en toppar og álagstími bættir upp með notkun svartolíukyndingar. Þannig getur verið stórum hagkvæmara að sameina þetta tvennt, notkun raforkunnar á þeim tíma sem best hentar fyrir vatnsaflsstöðvarnar og svartolíu á topptíma álagsins. Við megum ekki einblína um of á það að losna við olíuna, hún á áreiðanlega rétt á sér í einstökum tilfellum, jafnvel til upphitunar. Einnig er um að ræða nýjar leiðir sem ég vil geta um þó að það sé nokkuð utan við það sem við ætlum þeim sérfæðingum, sem um þessi mál fjalla, skv. þessari till. Ég vil nefna hitadæluna, sem vafalaust getur fjölgað verulega þeim stöðum sem geta nýtt lágan jarðvarma til upphitunar. Kostir hennar eru fyrst og fremst þeir að hún getur náð úr lágum hita miklu varmamagni. Nokkur aukinn stofnkostnaður er við slík tæki, en miðað við hið háa olíuverð sem er orðið, og miðað við mikinn kostnað í dreifilínum o. fl. er ég sannfærður um að hitadælan á aukinn rétt á sér og þetta þarf að athuga. Einnig þarf að skoða hvort rétt er í dreifbýlisstöðum að híta beint með rafmagni í einstökum íbúðarhúsum eða frá kyndistöðvum. Kyndistöðvarnar hafa þann kostinn að þar má nota svartolíu á álagstoppum en eins og ég sagði áðan er það mjög mikilvægt atriði. Unnið er að þessum athugunum nokkuð, en á því þarf að herða. Þótt við séum að leggja til athugun á sparnaði á eldsneytisnotkun þeirri sem nú er og þeirri sem verður og eigum þar fyrst og fremst við olíuna sem slíka vil ég leggja áherslu á mikilvægi þessara þátta. Úr því er á engan máta dregið með þessum tillöguflutningi.

Eins og ég sagði fer um 33% dísilolíunnar til fiskiskipa og það er að innflutningsverðmæti á síðasta ári um 1160 millj. Þarna er því stór þáttur. Og ég vil geta þess að á árinu 1973 gerði Fiskifélag Íslands mjög athyglisverða úttekt á þessum þætti. Skýrsla frá Fiskifélaginu liggur fyrir og ég hef fengið eintak af henni. Þar kennir margra grasa og verð ég að stikla á stóru.

Það er í fyrsta lagi staðreynd að minni siglingarhraði sparar mjög verulega olíu. T. d. ef siglingarhraði er lækkaður um 5%, þá er sparnaðurinn í olíunotkun um það bil 10% og það þýðir hvorki meira né minna en rúmlega 100 millj. kr. 10% lækkun á siglingarhraða sparar um 12–15% eða um 300 millj. kr. á innkaupsverði olíunnar. En þess ber hins vegar að gæta að um slíka lækkun á hraða er ekki að ræða í allri útgerðinni. T. d. er ekki um lækkun á hraða að ræða þegar togað er. Raunar er fyrst og fremst um að ræða lækkun á hraða á siglingum til og frá veiðistöð og til heimahafnar eða þegar farið er með afla til annarra landa. En þess ber þá jafnframt að gæta að gera má ráð fyrir því að minni tími fáist til veiðanna ef hraði er lækkaður og þá má með nokkrum rétti áreiðanlega gera ráð fyrir því að minni afli fáist. Hins vegar er e. t. v. hugsanlegt að minni hraði geti unnist upp með styttri dvöl í heimahöfn, en á því geta að sjálfsögðu oft verið, eins og allir gera sér grein fyrir, ýmsar takmarkanir. Þetta er því ekki einfalt dæmi. Ef lækkaður hraði í siglingu frá veiðisvæði og heim leiðir fyrst og fremst til minni tíma við veiðar, þá kemst Fiskifélag Íslands að þeirri niðurstöðu að slíkt sé ekki hagkvæmt, þegar reiknað er með eðlilegum hraða. Þeir áætla að meira muni tapast í aflaverðmæti heldur en vinnst í olíusparnaði með þessu móti. En á þessu eru fjölmargir varnaglar og að mínu viti er alveg nauðsynlegt að upplýsingar sem þessar komist á framfæri við útgerðarmenn og sjómenn, þannig að þeir geti sjálfir metið við hinar ýmsu aðstæður hvort sparnaður yrði í olíunotkun. Þess má geta að þetta er ekki lítill þáttur fyrir hið opinbera. Hið opinbera eða við allir að sjálfsögðu þegnar þessa lands greiðum nú verulegan hluta af olíukostnaði fiskiskipaflotans. Það dregur e. t. v. eitthvað úr skilningi sumra á nauðsyn þess að spara. Þó vil ég ekki ætla mönnum það almennt, en slík niðurgreiðsla er ávallt nokkuð varhugaverð þegar um hvatningar til sparnaðar er að ræða. Því held ég að við gerum okkur öll grein fyrir, og ég held að það þurfi að brýna þetta mjög fyrir mönnum og kynna þessar niðurstöður.

En það er fleira sem þarna er athyglisvert, t. d. með stærð vélar og hraða. Ég ætla að leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa hér stuttan kafla úr þessari skýrslu. Þar segir: „Eftirfarandi dæmi sýna aflþörf við mismunandi hraða fyrir ákveðinn bát, 260 rúmlestir að stærð. Báturinn er með 800 hestafla vél, hámarksgangur er um 11 sjómílur á klukkustund.“ Síðan segir: „Hraði 8 mílur, þá er nauðsynleg aflþörf aðeins 150 hestöfl, 9 mílur 244 hestöfl, 10 mílur 390 hestöfl, 11 mílur 700 hestöfl, 12 mílur 1200 hestöfl.“ Og síðan segir í niðurstöðum: „Samkvæmt þessum tölum þarf þessi bátur 7-falt aflmeiri vél til að komast á 12 mílna ferð en á 8 mílur. Hjá minni bátum er þetta fall neðar og aukinnar aflþarfar gætir fyrr, þ. e. a. s. við minni hraða. Ef yfirstærð af vélum eru settar um borð í skip segir sig sjálft að óskynsamlegt er að keyra út hestöfl umfram það sem nauðsynlegt er til að ná viðunandi ferð. Setjum svo að 10 mílna ferð sé viðunandi í framangreindu dæmi. Þá kostar aukning í ferð upp í 11 mílur eða 10% aukning í olíunotkun rúm 63%.“

Ég er ansi hræddur um að sums staðar þar sem of stórar vélar hafa verið settar í báta okkar sé mönnum ekki ljóst hve gífurlegur kostnaður er við slíka keyrslu báta eins og kannske stundum tíðkast. Ég les þennan kafla fyrst og fremst til að leggja áherslu á að slíkum upplýsingum sé komið á framfæri við útgerðarmenn okkar og sjómenn. Og raunar sýnist mér ljóst og það kemur fram í þessari skýrslu að úr þessu þarf að vinna frekar. En ég vil lýsa ánægju minni með það starf sem Fiskifélagið hefur unnið.

Í sambandi við fiskiskipin held ég að öllum hljóti að vera ljóst að stilling véla þar er ekki síður nauðsynleg en kynditækja í heimahúsum. Grunur minn er sá að þar sé víða pottur brotinn og væri hægt að koma við verulegum sparnaði með eðlilegri og nauðsynlegri stillingu aflvéla. Þess má geta að víðast hvar, ekki síst t. d. í nýju togurunum eru sérstakar vélar notaðar til upphitunar, en þar er mikill hiti afgangs frá aflvélum og vafalaust mætti koma þar við nokkurri hagkvæmni. Það skal hins vegar viðurkennt að þetta er ekki nema lítið brot af heildar olíu- og eldsneytisnotkun þessara aflmiklu og stóru fiskiskipa. Engu að síður eru þar þættir sem sjálfsagt er að skoða betur eins og neyðin ætti að kenna okkur með okkar skort á gjaldeyri.

Þarna hygg ég því að sé annar þáttur sem vert er að skoða betur.

Þá koma bifreiðar. Eftir því hefur verið tekið að viða erlendis er lögð mikil áhersla á sparnað á þessu sviði með því að lækka ökuhraða. Enginn vafi er á því að þarna er hægt að fá nokkurn sparnað. Hins er þó að gæta, að ökuhraði hér er tiltölulega lágur og miklu lægri en almennt er á hraðbrautum og fullkomnum vegum erlendis. Jafnframt eru nútímavélar í bifreiðum gerðar fyrir það mikinn hraða að þeir menn, sem ég hef rætt við um þetta atriði, hafa efast um að til verulegs sparnaðar yrði að lækka hér ökuhraða frá því sem hann er, þ. e. leyfilegan ökuhraða. Hann er tiltölulega lágur. Þó er þetta vissulega atriði sem vert er að skoða.

Ég hef nú rakið þá meginþætti sem hér er um að ræða. Nefna mætti fjölmarga smærri þætti og rétt er að margt smátt gerir eitt stórt. En ég vona að mér hafi tekist með því, sem ég hef nefnt að sýna fram á að um mjög verulegan sparnað getur orðið að ræða með skynsamlegri notkun eldsneytis með bættri stillingu, bæði hitatækja og véla, með réttri notkun kraftmikilla véla í fiskiskipum okkar, með réttri og eðlilegri upphitun húsnæðis og fleira hef ég talið. Hér er ekki um að ræða sparnað sem nemur nokkrum tugum millj., heldur um sparnað sem nemur hundruðum millj. og raunar sparnað, ef við leggjum saman hina ýmsu þætti, sem getur numið um eða yfir 1000 millj. kr. Hér er því um mjög mikilvægt mál að ræða.

Við flm. leggjum til að sérfræðingar verði fengnir til að skoða þetta mál. Þetta er sérfræðilegs eðlis og við eigum prýðissérfræðinga á þessu sviði. Þeir eru þegar farnir að fjalla um þessi mál og við leggjum til að ríkisstj. fái slíka menn til að hugleiða það mál og leggja fyrir ríkisstj. hið fyrsta till. um sparnað. Við teljum að svo mikil vitneskja sé fyrir hendi um marga þessa þætti að þetta starf þurfi ekki að vera langvinnt og viðamikið og geti niðurstöður a. m. k. um ýmsa þætti legið fyrir mjög fljótlega. Það eru ekki hugmyndir okkar að hér eigi að fylgja lagaboð, t. d. að menn skuli ekki hita hús sín nema í ákveðna gráðu, heldur fyrst og fremst að þetta eigi að vera upplýsingar fyrir almenning að breyta síðan eftir. Við teljum að það sé og hafi sýnt sig að það sé mikill vilji til þess að breyta rétt og stuðla að sparnaði á þessu sviði, enda er þetta orðinn ákaflega stór þáttur í kostnaði hverrar fjölskyldu, ekki síst á landsbyggðinni þar sem ekki nýtur upphitunar frá jarðhitasvæðum.

Að þessu mæltu vil ég, herra forseti, leggja til að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.