04.04.1975
Sameinað þing: 57. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

175. mál, skipunartími opinberra starfsmanna

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 345 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka upp þá reglu við skipun háttsettra opinberra starfsmanna að skipunartími þeirra verði miðaður við 4–6 ár í senn. Ríkisstj. beiti sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í samræmi við þessa ákvörðun.“

Það þarf ekki að hafa miklar útskýringar fyrir þessari till. Hún er einföld og að ég tel öllum ljós. Meginregla við ráðningu opinberra starfsmanna er, eins og öllum er kunnugt, sú að skipan þeirra er óuppsegjanleg. Það eru til frávik frá þeirri reglu sem koma fram í l. nr. 38 frá 1954 og þar er um það að ræða að starfið sé lagt niður eða að starfsmenn fullnægi ekki almennum skilyrðum eða brjóti svo af sér í starfi að það sé refsivert og ekki lengur stætt á því að viðkomandi haldi starfinu áfram. Þessi meginregla á vissulega mikinn rétt á sér. Hún felur í sér mikið öryggi og skapar nokkra festu í allri opinberri stjórnsýslu og það er ekki lagt til að frá henni sé horfið sem meginreglu. Hún gildir einnig um æðstu embættismenn ríkisstofnana, opinberra stofnana, manna sem bera mikla ábyrgð og hafa áhrif og ráða miklu um gang mála, starfsemi og þjónustu og móta mjög stefnu og störf viðkomandi stofnana. Það hefur vissulega margvíslega kosti að þessir æðri embættismenn séu líka æviráðnir, skapar festu, öryggi og þeir öðlast reynslu í starfi. En á móti er sá galli að menn geta gerst værukærir og íhaldssamir þegar fram líða tímar og þeir hafa setið mjög lengi í einu og sama starfinu. Þess vegna er eðlilegt að sú krafa hafi komið upp í þjóðfélaginu að slíkir embættismenn tengdust að einhverju leyti aðhaldi utan að frá og væru háðir t. d. afstöðu og vilja almennings og lytu að einhverju leyti lýðræðislegum leikreglum. Það þekkist að embættismenn séu kosnir eins og kjörnir fulltrúar á þjóðþingum og sveitarstjórnum og kemur auðvitað til álita að stiga það skref. Með því er ekki mælt í þessari till. og ég er ekki sjálfur meðmæltur því að það spor sé stigið, a. m. k. ekki að svo stöddu, enda ættu a. m. k. stjórnmálamenn að geta ráðið nokkru um það hvernig embættismenn haga sínum störfum þegar þeir eru kjörnir yfirmenn hinna ýmsu ríkisstofnana sem ráðh. og með pólitísk völd.

Engu að síður, enda þótt það sé ekki gengið alla þá leið að kjósa embættismenn, þykir eðlilegt að einhverjar takmarkanir séu teknar upp við ráðningu æðstu embættismanna. Röksemdir eru allmargar fyrir því. Það mætti nefna þá almennu röksemd að ríkisstofnanir, opinberar stofnanir, hafa mjög vaxið að umfangi og áhrifum í seinni tíð og virðist sú þróun ætla að halda áfram. Það er auðvitað óhjákvæmileg afleiðing af slíkum vexti þessara stofnana að þeir forstjórar eða embættismenn, sem stjórna þeim, fái þá aukin völd í sínar hendur og viss hætta er í því fólgin fyrir lýðræðið og áhrif almennings í landinu. Þess vegna er þetta röksemd fyrir þessari till. því að hún spornar við óeðlilegum áhrífum embættismanna hvað þetta snertir.

Þá má nefna þá röksemd að það er í sjálfu sér óeðlileg regla, að menn séu ráðnir til lífstíðar í eitt eða annað starf. Það hlýtur að vera eðlilegt að keppa að því og hafa þá meginreglu við ráðningar starfsmanna, hvort sem þeir eru opinberir starfsmenn eða hjá frjálsum atvinnufyrirtækjum, að þeir sem ráða hafi nokkra möguleika til þess að segja upp fólki og ráða nýtt fólk ef sá sem ráðinn er reynist ekki sem skyldi. Með slíkri reglu, að binda ráðningar við ákveðinn tíma, skapast vissulega meira svigrúm. Þá ætti að verða nokkur endurnýjun meðal áhrifamikilla embættismanna og það ætti að koma í veg fyrir stöðnun, íhaldsemi og kannske nokkurt ráðríki eins og stundum vill bregða við. Síðast en ekki síst er auðvitað hér um að ræða allverulegt aðhald fyrir þá menn sem ráðnir eru og ég held að það sé þeim sjálfum fyrir bestu.

Þessi regla hefur verið tekin upp varðandi einstakar stöður hér á landi. Það má nefna stöðuveitingar hjá Ríkisútvarpi og ég man eftir í augnablikinu stöðu þjóðleikhússtjóra og sjálfsagt mætti nefna fleiri dæmi þar sem þetta hefur verið tekið upp og ekkert verið fundið athugavert við nema síður væri.

Um það má deila hversu mörg störf skuli falla undir þessa reglu ef hún verður notuð. Það er tekið fram í grg. að hafðir séu í huga embættismenn eins og ráðuneytisstjórar, forstjórar stofnana, deildarstjórar og önnur hliðstæð embætti. Þetta atriði verður að skoða betur og átta sig vel á því hve langt niður stigann skal fara og skal ég ekki fullyrða neitt í því sambandi á þessu stigi málsins.

Enn fremur má líka deila um það hversu langur ráðningartíminn, starfstíminn skal vera. Það eru nefnd í till. 4–6 ár. Þykir það eðlilegur tími til að komast vel inn í starfið og móta það og hafa nokkur áhrif, koma á framfæri í starfinu sem viðkomandi býr yfir, þannig að hann sé búin þeim sjónarmiðum og skoðunum og þeim krafti inn að móta stofnunina eftir sínu höfði á þessum tíma, og þá er komið í ljós hvernig viðkomandi hafi reynst í starfinu.

Ég minni á að það er hugmyndin að enda þótt menn séu ráðnir til svo skamms tíma, 4–6 ára eða lengri tíma eftir atvikum, þá séu möguleikar á því að endurráða viðkomandi. Ekkert er því til fyrirstöðu að þeir séu endurráðnir ef þeir hafa staðið sig vel og reynst nýtir embættismenn. Ég held að það geti reynst hvatning fyrir embættismennina að vita af þessu og hafa það aðhald að starfið sé uppsegjanlegt, þannig að það ætti að koma ekki aðeins þeim sjálfum til góðs og þeim sem ræður viðkomandi heldur líka stofnuninni sjálfri.

Enda þótt till. geri ráð fyrir því, að ríkisstj. sé falið að taka upp þessa reglu við skipun háttsettra opinberra starfsmanna eins og segir í till. þá hygg ég að hér sé ekki um flokkspólitískt mál að ræða. Þetta mál hefur verið nokkuð til umr. í þjóðfélaginu frá einum tíma til annars, og mér hefur sýnst að undir þessa hugmynd hafi tekið menn úr öllum stjórnmálaflokkum og það sé almenn tilhneiging til að hneigjast að þessari reglu. Hins vegar er eðlilegt að ríkisstj. hafi um það forustu og beiti sér fyrir því að breyta lögum í samræmi við þessa reglu ef hún er á annað borð tekin upp.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um þessa till. Eins og ég sagði hér í upphafi, þá er hún ákaflega einföld og tilgangur hennar ljós. Ég er sannfærður um að þetta sé æskilegt og heppilegt fyrir þjóðfélagið, fyrir viðkomandi stofnanir og fyrir embættismenn þá er skipa svo háar stöður. Það má vel vera nauðsynlegt að endurskoða kjör þeirra á sama tíma, enda sjálfsagt mál að greiða þeim mönnum kannske betur fyrir slík störf ef þeir eru ráðnir til skamms tíma, þar sem þeir missa þá öryggið sem felst í því að vera æviráðnir. En ég held að það mundi endurgreiðast margfalt aftur með meiri nýtni og betri starfskröftum þegar til lengdar lætur.

Það ætti að vera óþarft að taka fram að þessi regla er ekki hugsuð á þann hátt að hún nái yfir þá embættismenn, sem nú sitja að störfum. Það verður að taka hana upp smám saman eftir því sem nýjar stöður opnast, enda held ég að það sé óframkvæmanlegt að breyta þeim samningum sem nú þegar eru í gildi gagnvart þeim embættismönnum sem í störfum eru nú.

Ég legg til að lokum, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og að málinu verði vísað til allshn.