07.04.1975
Efri deild: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

187. mál, fjölbrautaskóli á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Á þskj. 362 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um fjölbrautaskóla á Norðurlandi vestra.

Með fjölbrautaskóla er, eins og kunnugt er, átt við skóla sem sameinar í skipulagi sínu og samræmir ýmsar tegundir framhaldsskólafræðslu, sem nú er stunduð í ýmsum sérgreindum skólum, t. d. í menntaskólum, verslunarskólum, iðnskólum, vélskólum, fiskvinnsluskólum, húsmæðraskólum, búnaðarskólum og tónlistarskólum eða handíðaskólum. Fordæmi er þegar fengið með l. um fjölbrautaskóla í Reykjavík, l. nr. 14/1973, en eins og fram kemur í heiti laganna eru þau fyrst og fremst miðuð við stofnun tilraunaskóla í Reykjavík. Hins vegar hefur þessi nýja skipan skólamála enn ekki verið útfærð á landsmælikvarða, enda þótt síðar hafi verið sett inn í lögin heimild, nánar tiltekið í 6. gr. fyrrnefndra laga, til að stofna víðar slíka skóla. Ástæðan til þess, að engin hreyfing hefur verið í þá átt, eru vafalaust ákvæði laganna um kostnaðarskiptingu við stofnun og rekstur slíks skóla, en ákvæðin gera ráð fyrir því að ríkið greiði 60% kostnaðar, en heimaaðilar 40%, á sama tíma og ríkið greiðir hins vegar allan kostnað við stofnun og rekstur menntaskóla yfirleitt. Þetta ákvæði er að sjálfsögðu algerlega óraunhæft og veldur því að ekki hefur verið vilji fyrir hendi úti á landi til þess að reyna þessa leið á grundvelli viðkomandi laga.

Ljóst er, að meðan enn hefur ekki verið ráðin bót á þessu atriði og stefna tekin í þá átt að fjölbrautaskólar verði byggðir um land allt, þá er ekki mikil von til þess að skólamál í einu af minni kjördæmum landsins verði skipulögð á þennan veg. En ég vil leggja á það áherslu að flutningur þessa máls verður að skoðast í tengslum við aðrar þáltill. sem ég hef leyft mér að flytja ásamt Helga F. Seljan, en hún gerir einmitt ráð fyrir því að mál þessi verði skoðuð á landsmælikvarða og ríkisstj. falið að semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. að löggjöf um skólaskipan á framhaldsskólastigi og verði megin tilgangur frv. að leggja grundvöll að samræmdum framhaldsskóla o. s. frv. Það er hins vegar tilgangur þessarar till. að minna á að sérstaklega stendur á á Norðurl. v. Ég get leyft mér að fullyrða, að í engu öðru kjördæmi landsins er uppbyggingarstarf fræðslumála á framhaldsskólastigi jafnskammt á veg komið og einmitt á Norðurl. v. Þessari fullyrðingu til sönnunar vil ég leyfa mér að benda á að í öllum öðrum kjördæmum er menntaskólanám ýmist stundað eða a. m. k. í undirbúningi. Í Reykjavík, á Reykjanesi, Suðurlandi, Vestfjörðum og Norðurl. e. eru nú starfandi menntaskólar og á Austfjörðum er í undirbúningi menntaskóli á Egilsstöðum, á Vesturlandi er farið að kenna 3. bekk menntaskóla í gagnfræðadeildinni á Akranesi og einnig er uppi mikil uppbygging í því kjördæmi í Reykholti sem stefnir hugsanlega að því marki að þar verði framhaldsskóli á menntaskólastigi einhvern tíma síðar meir. Er sem sagt, eina kjördæmið á landinu, þar sem ekki er nein hreyfing í þessa átt og enginn menntaskóli til staðar, er Norðurl. v. Í öðru lagi má á það benda, að á fjárl. er veitt fé til iðnskólabyggingar í öllum kjördæmum öðrum en á Norðurl. v. Það er sem sagt tilgangur þessarar till. að minna á það, að enda þótt ekki sé unnt að stunda nám, er leiðir til stúdentsprófs, á Norðurl. v. er full ástæða til að svo verði í framtíðinni. Till. er sem sagt flutt til að vekja athygli skólayfirvalda og heimamanna á nauðsyn þess að unnið sé að þessu markmiði á skipulegan hátt.

Ég er þeirrar skoðunar að skólastarf á framhaldsskólastigi eigi að færast heim í héruðin í miklu ríkari mæli en nú er. Fyrir Norðurl. v. þar sem hvort eð er þarf að byrja svo að segja frá grunni, liggur beinast við að ekki verði um að ræða menntaskólanám með hefðbundnu sniði, heldur verði stefnt að alhliða fjölbrautanámi sem verði skipulagt á svæðinu öllu sem einni heild.

Í till. er ráð fyrir því gert, að skólastarfið verði byggt upp í 3 fjölmennustu þéttbýlisstöðum kjördæmisins, í Siglufirði, á Sauðárkróki og Blönduósi. Eins og þar segir skal að því stefnt, að flestar námsbrautir framhaldsskólastigsins verði stundaðar á a. m. k. einum af þessum þremur stöðum. Eins og hér kemur fram, er í þessari till. gert ráð fyrir mikilli verkaskiptingu milli þessara þriggja skólastaða. Í till. er gert ráð fyrir 5 námsbautum: 1) Bóknámsbraut. 2) Iðn- og tæknibraut. 3) Viðskipta- og verslunarbraut. 4) Námsbraut í heimilisfræðum, bústjórn og búfræði. 5) Námsbraut á sviði lista. Gert er ráð fyrir því að yfirleitt séu þessar námsbrautir ekki stundaðar nema á tveimur af þessum þremur stöðum, en þó er gert ráð fyrir því að ákveðnir undirstöðuþættir bóknáms verði á öllum þremur stöðunum. Iðn- og tæknibraut skiptist hins vegar milli skólastaða eftir því sem hagkvæmast þykir, og er þá gert ráð fyrir því að sjómennska, matvælatækni, vélstjóranám og annað það iðn- og tækninám, sem tengdast er siglfirsku atvinnulífi, hafi aðsetur þar, en flestir aðrir þættir iðnfræðslunnar verði á Sauðárkróki eins og þegar hefur verið ákveðið. Er gert ráð fyrir því, að aðeins á einum staðnum verði fullkomið viðskipta- og verslunarnám, þ. e. a. s. fjögurra ára nám, en að slíkt nám verði þó hugsanlega á öðrum stað til tveggja ára. Undirbúningur að námsbrautum i. heimilisfræðum, hússtjórn og búfræði gæti farið fram á öllum stöðunum, en að öðru leyti er gert ráð fyrir að námið fari fram í búnaðar- og hússtjórnarskólum að Hólum í Hjaltadal, Löngumýri og á Blönduósi, og er sérstaklega bent á það, að þessar námsbrautir verði ekki lengur sem einangraðar blindgötur í skólakerfinu, heldur verði séð til þess að nemendur geti haldið áfram námi á framhaldsskólastiginu að þessum áfanga loknum.

Nú kann einhver að efast um að á Norðurl. v. séu nógu margir nemendur til að standa undir margbreytilegu námi fjölbrautaskólans. Þá er því til að svara, að aldursárgangar barna á Norðurl. v. eru svipaðir að stærð og á Vestfjörðum og Austurlandi, en í báðum þessum kjördæmum verða menntaskólar starfandi skv. ákvörðun Alþ. Með því hefur Alþ. viðurkennt í reynd að sífelld samþjöppun framhaldsnáms á höfuðborgarsvæðinu sé óæskileg og í stað þess verði að byggja upp menntunaraðstöðu á framhaldsskólastigi í öllum kjördæmum landsins. Á s. l. skólaári voru að meðaltali um 218 börn í hverjum aldursárgangi barnaskólanna á Norðurl. v. Sett hefur verið fram spá um skólasókn unglinga að loknum grunnskóla og er þar um að ræða hámarksspá, sem vafalaust verður ekki að veruleika úti um land fyrr en að nokkrum árum liðnum. Miðað við þessa spá yrði nemendafjöldi á Norðurl. v. samtals á framhaldsskólastigi 556. Að öðru leyti vísa ég til grg. með till., þar sem ítarlegar og nánar er farið út í útreikninga á hugsanlegum nemendafjölda. En ég vil hins vegar benda á að þessi nemendafjöldi, sem ég hef nú nefnt, þ. e. a. s. 556 nemendur, er rétt um 64% af fjórum aldursárgöngum á barnaskólastigi kjördæmisins.

Til þess að átta sig betur á því hvort fyrrnefnd spá er raunhæf má geta þess, að á síðasta skólaári var nemendafjöldi á öllu landinu í skólum, sem samsvara munu væntanlegu framhaldsskólastigi þegar grunnskólalögin eru komin í framkvæmd, tæp 64% af fjórum aldursárgöngum barnaskólanna. Þá er að vísu meðtalið nám sem ekki getur orðið í fjölbrautaskólum úti um land, t. d. kennaranám, hjúkrunarnám eða efri bekkir tækniskóla, en að þessum skólum frádregnum er samsvarandi hlutfall tæp 57%. Má af því sjá að ekki virðist óraunhæft að með auknu framhaldsskólastarfi heima í héruðum muni 64% af 16–19 ára unglingum sækja þar skóla. Það verður að sjálfsögðu mikil breyting frá því sem nú er þegar 64% eða tæpir 2/3 unglinga í hverjum aldursárgangi sækja skóla í kjördæminu. Til samanburðar má nefna að málin standa þannig nú, að miðað við fjóra aldursárganga barnaskólanna sækir rúmlega fjórðungur nemenda eða 26% skóla á Norðurl. v. á hliðstæðu stigi og væntanlegur framhaldsskóli verður. Stærsti hópurinn er í 4. bekk gagnfræðaskólanna í kjördæminu, en 4. bekkur gagnfræðaskólanna á að hverfa eftir tilkomu grunnskólalaganna eins og kunnugt er og skapast af því einu allmikið vandamál að tryggja það að menn, sem vilja gjarnan sækja skóla einu ári lengur en grunnskólanum nemur, geti sótt þá skóla og væri að sjálfsögðu fráleitt að hrekja allt þetta fólk út úr kjördæminu, en það mundi vera ef hugmyndir af því tagi, sem hér er verið að reifa, yrðu ekki að veruleika. Í öðru lagi má nefna iðnskólann á Sauðárkróki, en þar eru um 70 nemendur, í deild vélskólans á Siglufirði eru 15, í húsmæðraskólanum á Löngumýri og á Blönduósi um 25 og í bændaskólanum að Hólum 36 nemendur eða alls 226 nemendur.

Þess má að lokum geta, að fyrir tveimur árum samþ. Alþ. þál. um stofnun fiskvinnsluskóla í Siglufirði, en hún hefur þó enn ekki komið til framkvæmda af einhverjum dularfullum ástæðum.

Eins og ég gat um áðan er nemendafjöldi á Vestfjörðum svipaður og á Norðurl. v., þ. e. a. s. 225 nemendur. En þar hefur nú þegar verið stofnaður menntaskóli og nemendur hans eru 150. Því til viðbótar kemur svo iðnskóli, deild vélskólans og deild tækniskólans auk 4. bekkjar og húsmæðraskólans á staðnum, en samtals eru þetta 311 nemendur.

Á Austfjörðum er í undirbúningi menntaskóli á Egilsstöðum, eins og ég hef áður nefnt, sem væntanlega verður hluti af fjölbrautaskóla á Austurlandi. Það er rétt að nefna það einnig, að á s. l. skólaári var nemendafjöldi á Austurlandi ekki fjarri því sem er í því kjördæmi sem hér er til umr., þ. e. a. s. um 250 nemendur, og nú er stefnt að því að stofna í þessu kjördæmi fjölbrautaskóla með nemendafjölda í kringum 638 manns og þar af yrðu um 390 í Neskaupstað, en 248 á Egilsstöðum. Vísa ég að öðru leyti til grg., þar sem ítarlegar er fjallað um þessi atriði.

Með hliðsjón af þessum tölulegu staðreyndum, sem ég hef hér nefnt virðist mér að það sé fullkomlega raunhæft, að slíkur skóli verði stofnaður í þessu kjördæmi einnig og að náminu verði skipt milli þriggja aðalskólastaða, sem yrðu á Siglufirði, Sauðárkróki og Blönduósi, en auk þess yrðu 50–60 nemendur við verklegt nám á Hólum og Löngumýri. Að sjálfsögðu segir það sig sjálft, að til þess að þessi tilhögun geti orðið að veruleika þarf verkaskipting að vera í góðu lagi og það þarf einnig góða skipulagningu. En á það er einmitt minnt í till., að því aðeins sé þessi dreifing á marga skólastaði möguleg, að kennslan verði ekki bundin í viðjar hefðbundinnar bekkjaskiptingar, heldur verði námstilhögun eins sveigjanleg og kostur er og byggð á áfangakerfi og stuttum námskeiðum.

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur það verið ríkjandi tilhneiging í skólakerfi íslendinga að stefna að því að hafa skólana sem fæsta og þá um leið sem stærsta. Þetta hefur verið gert af sparnaðar- og hagkvæmnisástæðum. Mér er engin launung á því, að þessari till. er beinlínis stefnt gegn þessum hugsunarhætti. Fyrir því færi ég margþætt rök. Í fyrsta lagi eru uppeldisfræðilegir og félagslegir ókostir þess að safna saman mestöllu framhaldsskólanámi á örfáa staði í landinu svo augljósir að ekki þarf um að deila. Frá sjónarmiði byggðastefnu er mjög mikilvægt að reyna að halda unga fólkinu sem lengst í grennd við heimahéruð, í því að reynslan sýnir að því yngri sem unglingarnir neyðast til að hverfa að heiman til náms í öðrum landshlutum, þeim mun meiri eru líkurnar á því að þeir aðlagist endanlega nýju umhverfi og slitni úr tengslum við heimabyggð sína.

Í öðru lagi eru hin fjárhagslegu rök orðin allt önnur en áður var. Því valda gjörbreyttar samgöngur á síðari árum. Því færri sem skólarnir eru, þeim mun fleiri verða að búa í heimavist. En stofnkostnaður heimavista og rekstur þeirra er ríkissjóði mjög þung byrði, eins og kunnugt er. Með því að fjölga framhaldsskólum verulega, skipuleggja verkaskiptingu þeirra í milli og með því að leggja aukna áherslu á ferðir sendikennara, sem héldu námskeið í einum skólanum af öðrum á sínu sérsviði, er vafalaust unnt að tryggja jafngóða kennslu og nú er veitt. En það, sem ynnist til viðbótar, er að þeim nemendum mundi fjölga stórlega sem geta sótt skóla gangandi eða akandi að heiman og það er ekki svo lítill ávinningur. Með því fæst hvoru tveggja, að tengsl nemenda við heimaslóðir eru ekki rofin strax að loknum grunnskóla, heldur haldast þau eins lengi og ástæður leyfa, og í öðru lagi, eins og áður er tekið fram, er stuðlað að stórfelldum sparnaði í skólastarfinu.

Herra forseti. Ég orðlengi ekki frekar ama þessa till., en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði henni vísað til hv. menntmrn.