08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

178. mál, skattfrjáls framlög í varasjóði

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Samkv. lögum um tekju- og eignarskatt er hlutafélögum, samvinnufélögum, vinnufélögum, sameignarfélögum og fleiri aðilum heimilað að leggja í varasjóð upphæð sem undanþegin er tekjuskatti og skal koma til frádráttar við ákvörðun skattskyldra tekna. Þessi upphæð má nema allt að 1/4 hluta af hreinum tekjum félags. Mér leikur nokkur hugur á að vita í hve ríkum mæli þessi heimild í tekjuskattslögum hefur verið notuð á undanförnum árum og því ber ég fram á þskj. 350 fsp. til hæstv. fjmrh. um þetta efni, Fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hve háa fjárhæð hafa fyrirtæki fengið dregna frá tekjum við álagningu skatta vegna ráðstöfunar hluta tekjuafgangs í varasjóði s. l. 7 ár?“

Hæstv. fjmrh. hefur nú rétt fyrir byrjun þessa fundar afhent tölulegar upplýsingar úr svari sínu við fsp. En ég hef ekki í hyggju að gera svar hans að umræðuefni nú, enda tel ég að fsp: tímar séu ekki ætlaðir til umr. Flyt ég því hæstv. ráðh. þakkir fyrir það ítarlega svar sem ég hef séð, en hann mun væntanlega flytja hv. þingi að loknum þessum orðum mínum.