08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

336. mál, endurskoðun laga um ljósmæðranám

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Lög um Ljósmæðraskóla Íslands eru frá árinu 1964. Engin ný reglugerð hefur verið sett samkv. þessum 1., en í gildi er reglugerð nr. 82 frá árinu 1932. Eins og raunar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda þar sem hann hefur leiðrétt fyrri spurninguna, þá hefur ekki verið skipuð n. til að endurskoða lög um Ljósmæðraskóla Íslands, heldur var hinn 6. júní s. l. skipuð n. á vegum heilbr.- og trmrn, til að semja nýja reglugerð um skólann. Í þessari n. eiga sæti Ingibjörg Magnúsdóttir hjúkrunarkona, deildarstjóri í heilbrrn., Kristín Tómasdóttir yfirljósmóðir, sem samkv. lögum er jafnframt aðalkennari skólans, og Gunnþóra Snæþórsdóttir sem nú er nemandi í skólanum. Þessi n. hefur starfað síðan og samkv. upplýsingum formannsins er starfi n, ekki lokið enn. N. hefur útvegað sér upplýsingar um mál ljósmæðra erlendis, bæði frá skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kaupmannahöfn og eftir öðrum leiðum og hyggst nota þessi gögn til hliðsjónar við samningu nýrrar reglugerðar. Þess er vænst að n. ljúki störfum á komandi sumri, en á þessu stigi er ekki hægt að segja annað um niðurstöður n. en að hún muni leitast við í till. sínum að færa nám ljósmæðra til þess horfs að það sé sambærilegt við það, sem annars staðar gerist nú, því að í þessu sérnámi eins og öðru eru sífellt vaxandi kröfur gerðar til nemenda.

Í þessu sambandi má sérstaklega geta þess að til umr. hefur verið hvort hjúkrunarnám ætti að vera grunnnám þeirra sem læra ljósmóðurfræði. Verður það vafalaust eitt af þeim atriðum sem til umr. koma þegar ný reglugerð um skólann verður endanlega sett, sem ég vona að verði seinni hluta komandi sumars.