08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2765 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

189. mál, menntun í hjúkrunarfræðum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Í kjölfar nýrra laga um heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu þarf að mörgu að hyggja. Fjölmargar brýnar framkvæmdir kalla að, ekki síst úti um landsbyggðina, og vonandi verður þar ekki slakað á. En bætt heilbrigðisþjónusta í heild og enn víðar en verið hefur kallar ekki síður á starfslið, meira starfslið og betra, búið fjölþættari þekkingu í samræmi við hina hröðu framvindu læknavísindanna almennt.

Menntun heilbrigðisstétta hefur því mjög verið til umr. Fjölbreyttari og fleiri leiðir að því marki að hafa nægilega mikið af góðu starfsfólki hafa verið kannaðar. Menntunarþátturinn er hér mikilvægastur, Ef við landsbyggðarfólk eigum að gera áætlun laganna um heilsugæslustöðvar og sjúkrahús okkar að öðru og meira en bókstafnum, þá þarf svo sannarlega að sinna menntunarþætti heilbrigðisstétta almennt mjög vel og, eins og ég tók fram áðan varðandi aðra fsp., samtengja þær menntabrautir, sem þar eru, svo vel sem unnt er um leið og nýrra leiða er leitað.

S. l. ár hefur skortur á hjúkrunarliði yfirleitt verið mjög áberandi og með tilliti til þess mikilvæga hlutverks, sem það fólk hefur gegnt og gegnir nú enn frekar, finnst mér ekki úr vegi að vita nánari deili á því, hvernig til hefur tekist um Nýja hjúkrunarskólann svonefnda, hve miklu hann hefur skilað okkur af starfsfólki og hve miklar líkur eru á því að hann gegni framtíðarhlutverki sínu svo sem til var ætlast. Er þá um leið komið að því hvernig að þessari ungu stofnun hefur verið búið og hvað þar er á döfinni. Beint og tölulega er spurt um ákveðin atriði sem eiga að segja hér af nokkra sögu og hver þróunin muni verða. Um leið þykir mér rétt að spyrja hæstv, ráðh. nokkru nánar um þróun þessarar menntabrautar, hvernig aðstaða er nýtt, hvort eftirspurn um skólavist eða menntabrautina hjúkrunarnám almennt sé fullnægt og um leið hvernig að málinu er unnið í heild. Því er spurt svo orðrétt:

„1. Hvað hafa margir nemendur innritast í Nýja hjúkrunarskólann: a) 1972, b) 1973, c) 1974?

2. Hvernig er áætlað að starfsemi skólans verði háttað næsta skólaár?

3. Fullnægir Hjúkrunarskóli Íslands eftirspurn um hjúkrunarnám og ef svo er ekki, er nýi hjúkrunarskólinn nýttur sem skyldi?“