21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

53. mál, vátryggingasamningar

Axel Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. er þetta fylgifiskur frv. um meðferð einkamála, sem er flutt vegna þáltill. sem var samþykkt 8. febr. 1972 og ég var 1. flm. að. Ég vil því strax nú við 1. umr. þakka það, að þetta kemur fram, og lýsa ánægju minni yfir því að rn. vill gera sitt til þess að hægt sé í fyrsta lagi að flýta skaðabótum til þeirra, sem verða fyrir verulegu tjóni, án þess að endanlegur dómur gangi í málinu.

Ég gat þess í framsögu fyrir umræddri þáltill. að það væru dæmi til þess að það tæki allt upp í áratug að fá niðurstöður í skaðabótamáli. Öllum hlýtur að vera ljóst að erfiðleikarnir eru mestir fyrst eftir að slys verður og fyrst gert er ráð fyrir því, að um sé að ræða bætur, þá sé nauðsynlegt og þær komi fyrst og fremst að gagni séu þær greiddar hið fyrsta eftir að slíkt á sér stað. Þegar kannske áratugur er liðinn er þetta miklu minna virði heldur en ef sem skemmstur tími getur liðið frá því að slys á sér stað og þar til bótaþegi fær bætur vegna þess.

Þetta var grundvallarástæðan fyrir þáltill. okkar flm. Við bentum þar á nokkur dæmi, það væri hægt að taka mýmörg dæmi í því efni. Ég rifja það ekki upp, herra forseti, en lýk máli mínu með því að fagna því að þetta er komið fram.