08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

32. mál, fjáraukalög 1971

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á næstsíðasta Alþ. var lagt fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1971 en þá tókst ekki að ljúka afgreiðslu þess máls. Því hafði þá verið vísað til hv. fjvn. þegar Alþ. var rofið. Frv. er því endurflutt. En eins og fram kemur í aths. við lagafrv. leggja yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna til að aukafjárveitingar verði veittar fyrir öllum umframgjöldum sem ríkisreikningurinn 1971 sýnir.

Eins og fram kemur er hér um að ræða fjáraukalög upp á rúma 2,5 milljarða, en á því eru eðlilegar skýringar. Eftir að fjárl. 1971 höfðu verið samþ. var samþ. á Alþ. frv. til l. um breyt. á vegal. á þann veg að bensínskattur var að verulegu leyti hækkaður frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárl. þegar þau voru afgr. Sömuleiðis var í fjárl. ekki gert ráð fyrir því að halda niðurgreiðslum þeim, sem ákveðnar voru 1. sept. 1970, nema til 1. sept. 1971, en síðan ákveðið að halda þeim út allt árið 1971. Í þriðja lagi reyndust útflutningsuppbætur allmiklu meiri á árinu 1971 en reiknað hafði verið með. Og í fjórða lagi voru kjarasamningar opinberra starfsmanna nýgerðir þegar afgreiðsla fjárl. fór fram, og ekki hafði verið á fjárl. gert ráð fyrir þeim launahækkunum. Þetta eru þær ástæður sem valda hækkun fjárl. og leitað er staðfestingar með frv. til fjáraukal. nú.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv., en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. og til 2. umr.