08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

339. mál, framkvæmd vegáætlunar 1974

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 409 er skýrsla samgrh. um framkvæmd vegáætlunar fyrir árið 1974.

Eins og kunnugt er var lögð hér fram á hæstv. Alþ. 1973–1974 till. til endurskoðunar á vegáætlun, sem gilda átti fyrir árin 1974 og 1975. En vegna þess að Alþ. var rofið í maí svo sem kunnugt er, hafði þessi þáltill. ekki hlotið afgr. og varð því að framkvæma vegagerð á árinu 1974 með því að miða við þá tillögu sem lögð var fram í þeirri þáltill., að því leyti að þó var ekki tekið tillit til þeirra tekna, sem átti að afla með tekjuöflunarfrv. sem þá hafði verið lagt fram, nema að því leyti sem það kom til framkvæmda 1. sept., en ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir að það gilti frá 1. maí. Í sambandi við framkvæmd á vegáætlun 1974 varð því vegamálastjóri að hafa samband við þm. viðkomandi kjördæma til þess að ákveða með þeim hvaða framkvæmdir skyldu ganga fyrir á árinu 1914 þar sem ljóst var að vegna verðlækkunar og vegna þess að tekjur voru minni en hugsað hafði verið varð að draga úr slíkum framkvæmdum. Á þann hátt var framkvæmdin í vegamálunum 1974 gerð, og það verður að segjast eins og er að vegamálastjórninni tókst með ágætum að ná samkomulagi um þetta og koma málunum fyrir eins og hagkvæmast gat verið.

Skv. þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir um framkvæmdirnar árið 1974, voru tekjur, sem Vegagerðin hafði á því ári, 3354.6 millj. kr., en þá er tekið tillit til þeirrar aukafjárveitingar sem veitt var með samkomulagi í ríkisstj. á milli fjmrh. og samgrh. til þess að greiða upp halla á vegáætlun frá fyrri árum, 329 millj. kr., svo að framkvæmdir og kostnaður við vegagerðina á árinu varð rúmir 3 milljarðar.

Útgjöld skv. framkvæmdum í vegamálum skiptust í stórum líðum þannig að af framkvæmdafé til vega og brúa var 1830 millj. kr., til viðhalds þjóðvega voru 726 millj. kr., framlag til vega í kaupstöðum og kauptúnum 184 millj. og svo hallinn sem ég greindi frá áðan. Þetta sundurliðast á þennan hátt, að til hraðbrauta gengu 516 millj. kr.

Stærsta framkvæmdin á árinu 1974 var á Austurvegi, þ. e. á Hrunamannaveginum vestur að gatnamótunum við Skeiðaveg, en til þess arna og til þess að ljúka við veginn austur að Selfossi fóru samtals 94 millj. kr.

Þá var haldið áfram við vegagerðina í Kópavogi og nú var gerð sú breyting þar á að framkvæmdin við Kópavogsveginn gegnum kaupstaðinn er nú orðinn ríkisframkvæmd eingöngu. Ekki þótti fært að halda áfram að láta þetta verða sérstakan þjóðveg í Kópavogi, þar sem hér var um svo mikla umferð að ræða í gegnum Kópavogskaupstað að það þótti sanngjarnt að breyta þessu. Var það gert með samkomulagi og reglugerðarbreyt. sem tók gildi í byrjun árs 1974. En til þessa verks fóru alls um 113 millj. kr.

Þá var varið til vegagerðar í Brynjudals- og Botnsvegi um 77 millj. kr., en þar var byggð ný brú yfir Fossá og einnig lagður vegur í Brynjudalnum og meðfram Hvalfirði að sunnanverðu frá Fossá og er sá vegur að ná fyrir Múlafjall að Hvalfirði Botnsdalsmegin.

Þá var og haldið áfram við rannsókn og undirbúning á brúargerð yfir Borgarfjörð. Í því sambandi átti að verja um 70 millj. kr., en það mun ekki hafa verið notað allt á árinu 1974.

Til þjóðbrauta var varið 129 millj. kr. og skiptist það á einstaka vegi eftir ákvörðun þm. í viðkomandi kjördæmum. Til landsbrauta var varið 163 millj. kr., en auk þjóðbrautanna og landsbrautanna var svo sérstök fjárveiting til Austurlandsáætlunar, til þeirra framkvæmda var varið 107 millj. og til Norðurlandsáætlunar 175 millj. kr.

Auk þeirra atriða, sem ég hef hér sérstaklega getið um, var ákveðið að fara í framkvæmdir í Þingvallavegi vegna þjóðhátíðarinnar sem þar var haldin, svo sem kunnugt er, á s. l. sumri. Til þeirrar framkvæmdar á vegum Vegasjóðs var varið 86 millj. kr. Þá voru endurbyggðar gamlar brýr á leiðinni milli Reykjavíkur og Þingvalla og vegurinn lagaður verulega að hluta. Auk þess var svo byggður svokallaður Gjábakkavegur, sem kostaði um 25 millj. kr., en sú framkvæmd var gerð í sambandi við þjóðhátíðarkostnaðinn.

Þessu til viðbótar vil ég svo geta þess að verulegar framkvæmdir voru í Djúpvegi eða um 25 millj. kr. og var aflað fjár til þeirra framkvæmda með útgefnum happdrættisskuldabréfum.

111 millj. kr. var varið til brúarbygginga. Ein brú er þó undanskilin þar, Skeiðarárbrúin, en þessar brýr voru stærstar af þeim sem byggðar voru á s. l. ári: Brúin yfir Kerlingardalsá, sem er um 64 m á lengd, Kaldá í Jökulsárhlið, sem er 46 m á lengd, Flókadalsá í Fljótum 46 m og Kvíá í Öræfum, sem er um 39 m.

Í sambandi við þessi mál, sem ég hef hér vikið að, þykir mér rétt að gefa á því nokkrar skýringar hvernig þróunin hefur verið í tekjuöflun í þeim málum á nokkurra ára tímabili.

Ef tekið er yfirlit yfir sölu á bensíni á árunum 1970–1974 kemur í ljós að hækkunin hefur verið frá 70 þús. 1 árið 1970 í 104 þús. 1 árið 1974. Hins vegar varð sú raunin á að bensingjaldið varð heldur hærra á s. l. ári en gert hafði verið ráð fyrir eða 34 millj. kr., en hins vegar varð sú raunin á að þungaskatturinn varð 19 millj. kr. lægri en ráðgert hafði verið, enda sú reglugerðarbreyt., sem þá var gerð, það seint á ferðinni að hún naut sín ekki nema að litlu leyti. Hins vegar reyndist gúmmígjaldið gefa meiri tekjur en ráðgert hafði verið, eða um 15 millj. kr., og stafaði þetta af því að innflutningur á bifreiðum varð verulega mikill á þessu ári svo sem kunnugt er.

Viðhaldskostnaður hefur farið mjög vaxandi á þjóðvegum á síðari árum. Að vísu hefur það verið háð því hvernig tíðarfarið hefur verið, og hlutfallslega, miðað við töluna 100 1968, var hlutfallið um 140 á árinu 1974. Viðhaldskostnaður á þjóðvegum í hinum einstöku kjördæmum er að sjálfsögðu misjafn. Lægsta talan er á Norðurl. v. með 44 millj., en hæst er Reykjanes með 163 millj. kr. Ef tekin er kostnaður á hvern km á vegum í kjördæmum landsins kemur í ljós að hann er 77 þús. kr. á Suðurlandi, 335 þús. kr. í Reykjanesi, 144 þús. á Vesturlandi, 83 þús. á Vestfj., 65 á Norðurl. v., 96 á Norðurl. e. og 103 á Austurlandi. Þessar tölur eru hér teknar til fróðleiks en ekki í öðru skyni, í sambandi við þau mál sem hér hafa verið rakin. Ég vil og geta þess að á árinu 1974 var lánsfé notað til vegagerða 1166 millj. kr.

Um aðrar framkvæmdir á vegum Vegagerðar ríkisins á s. l. ári vil ég geta þess, að 10.6 millj. kr. var varið til byggingu á áhaldahúsum og voru sex áhaldahús byggð. 18 millj. var varið til þess að kaupa vélar og tæki fyrir og voru 15 tæki keypt á þessu ári, en að sjálfsögðu var það miklu minna en þörf hefði verið. Á þessu ári hafði Vegagerðin um 24 millj. kr. til tilraunastarfsemi, en það var m. a. vegna þess að geymd hafði verið frá fyrra ári nokkur fjárveiting í sambandi við þessa tilraunastarfsemi. Hún var á margvíslegan hátt gerð. M. a. voru gerðar tilraunir um vegi byggða í mýri og athuganir á helstu eiginleikum íslenskra jarðvegsefna, athugun á burðarþoli staura, kerfisbundin leit að steinefnagerðum í sambandi við olíumöl. Þá voru gerðar girðingar til að verja vegi fyrir snjó og fortryggt var malarefni, rykbinding og meðferð þess og framkvæmd og athugun á vikri til vegagerðar, og fleiri rannsóknir mætti nefna í þessu sambandi. Þá var og í sambandi við brúargerðina yfir Borgarfjörð varið í það tíma og fjármunum að kynna sér hvaða áhrif brúargerðin gæti haft eða hvort hún hefði áhrif á laxgengd í Borgarfjarðaránum. Enn fremur var á þessu ári gerð í fyrsta sinn módel tilraun með brúargerð. Sú tilraun gaf á margan hátt mjög góða raun og raunverulega er byggð á henni sú ákvörðun sem tekin hefur verið í sambandi við framkvæmd þess verks.

Þá vil ég geta þess að eins og kunnugt er hefur Sverrir Runólfsson haldið hér uppi nokkrum frásögnum um það að hann hefði möguleika til að gera vegagerð með ódýrari hætti, en þó jafntrausta og Vegagerð ríkisins gerði. Það varð því að ráði að leyfa honum að sýna það hvernig hann gæti framkvæmt þessa aðferð sína um ódýra vegagerð með því að byggja frá grunni um 1200 m langan vegakefla á Vesturlandsvegi milli Ártúnsár og Tíðaskarðs. Fyrirheit um slíkan tilraunakafla var gefið í apríl 1972 og Sverrir valdi ofangreindan kafla af þremur, sem honum var gefinn kostur á í ágúst 1973. Viðhlítandi verklýsingu lagði Sverrir ekki fram fyrr en 22. júlí 1974 og var gerður við hann verksamningur í ágúst s. l., en hann hófst handa skömmu síðar. Heildarkostnaður samkvæmt áætlunum Sverris átti að vera 8.4 millj. kr. að slitlagi meðtöldu. Sverrir vann síðan að gerð kaflans fram á vetur. Undirbyggingu var að mestu lokið og upprótað land næst vinnusvæðinu fært í það horf að ekki stafaði af því lífshætta fyrir menn né skepnur. En þá var kostnaðurinn orðinn 12.8 millj. kr. Búast má við því að það kosti 5–7 millj. kr. að ljúka þessu verki og verður það gert.

Þetta þykir mér rétt að komi fram til að skýra það, sem oft hefur verið til umr. í sambandi við hugsanlega framkvæmd þessa vegagerðarmanns á ódýrari hátt en Vegagerð ríkisins gæti gert. En eins og margir eða einhverjir hafa verið til í að trúa því, að svo gæti verið, hafa hinir líka verið margir sem ekki hafa viljað trúa. En staðreyndin fer nú að liggja fyrir.

Áður en ég lýk þessu máli mínu vil ég gefa hér að lokum yfirlit yfir framkvæmdir í vegáætlun 1974 í þeim köflum nýbygginga, sem hér eru eins og þeir eru sundurgreindir í okkar vegalögum.

Þar er þá fyrst að ræða um hraðbrautir. Fullnaðarfrágangur á undirbyggingar var gerður í hraðbrautum á 14.3 km. Lagning malarslitlags var 7.6 km. Lagning bundins slitlags var 8.1 km. Brýr 10 m og lengri voru fjórar, þar voru 58 m og smábrú var ein og hún var 8 m löng. Í þjóðbrautum voru undirbyggðir vegir 80 km, lagt slitlag og burðarlag á 89 km. Brýr, sem voru 10 m og lengri, voru 7 alls eða 278 m og smábrýr fimm, 23 m. Í landsbrautum voru undirbyggðir vegir 78 km, lagt slitlag og burðarlag á 85 km. Brýr, sem voru 10 m og lengri, voru 7, 526 m, og smábrýr fjórar, 22 m. Á sýsluvegum voru brýr, sem voru 10 m eða lengri, ein, 14 m, og smábrýr 21 m, en þrjár talsins.

Merkasti atburður í vegagerð á árinu 1974 og raunar í vegagerð íslendinga frá upphafi vega, er opnun hringvegarins með því að ljúka byggingu brúarinnar yfir Skeiðará. Þar var byggð lengsta brú landsins, sem er á milli 9 og 10 hundruð metrar, og það var sögulegur atburður sem þjóðin öll veitti athygli með mikilli ánægju, og allt, sem hefur skeð í vegaumferð síðan þessi brú var byggð á s. l. sumri, sýndi geysilega aukningu á umferð á þessum hluta landsins sem um brúna var farið. Aukningin á leiðinni austur var meiri en nokkru sinni fyrr og mjög margir íslendingar hafa sér til mikillar ánægju farið hringveginn og sérstaklega austur yfir brúna á Skeiðarársandi.

Það orkar ekki tvímælis að þessi atburður var einn af þessum atburðum sem árið 1974 mun geyma í sögunni, enda var hann líka tengdur því ári og fór vel á því að það tókst til með þeim hætti að hægt var að ljúka þessu verki svo sem til var ætlast. Vil ég við þetta tækifæri, um leið og ég lýk máli mínu, færa vegagerðarmönnum, bæði yfirstjórn vegamálanna, vegamálastjóra, verkfræðingum og öðrum slíkum starfsmönnum, brúarsmiðum og öðrum þeim, sem að þessum málum unnu, þakkir fyrir það, svo og þeim ráðherrum sem fóru með vegamál á þeim tíma sem þessi framkvæmd var gerð.

Meðferð þessa máls er á þessu þingi. En þar er aðeins um umr. að ræða, en ekki meðferð í n., svo að ég læt máli mínu lokið.