09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

224. mál, tónlistarskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þessu frv. fylgir allítarleg grg., þar sem rakin er saga tónlistarkennslunnar og sérstaklega þeirrar löggjafar sem um hana hefur gilt. Greint er frá tildrögum þessa frv. og efni þess skýrt í einstökum greinum. Ég tei því ástæðulaust að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Ég vil þó í fyrsta lagi taka þetta fram um forsögu þess:

Hinn 27. maí 1960 samþ. Alþ. þáltill. frá Magnúsi Jónssyni o. fl. um að skora á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um tónlistarfræðslu, m. a. væru þar sett ákvæði um aðild ríkisins að þessari fræðslu. Þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, tók síðan málið upp í okt. 1962 og lét í framhaldi af þál. undirbúa lagafrv. um stuðning við tónlistarskólana. Þetta frv. var svo lagt fyrir Alþ. og það var afgr. sem lög 20. apríl 1963. Löggjöf þessi var þá tvímælalaust þýðingarmikið spor í rétta átt, og hefur reynslan sýnt að hún hefur orðið til mikillar eflingar tónlistarstarfsemi víðs vegar um landið. Meginstefna laganna var og er — því að þau eru enn í gildi — að tónlistarskólarnir yrðu áfram einkaskólar er nytu stuðnings frá ríkissjóði og hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Fyrrv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, skipaði svo n. í apríl 1973 til að endurskoða núgildandi lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þessi n. var þannig skipuð að Kristinn Hallsson fulltrúi í menntmrn. var form. hennar. Auk hans voru skipaðir í n. Ólafur Vignir Albertsson skólastjóri Tónlistarskólans í Mosfellssveit og Bjarni Einarsson bæjarstjóri, Akureyri, en hann var skipaður skv. tilnefningu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þetta fannst mér rétt að kæmi hér fram varðandi forsögu þessa m áls.

Ég mun svo láta nægja að minna á eftirfarandi:

Á öllu landinu starfa nú nálegt 44 tónlistarskólar. Starfsemi þessara skóla þykir hvarvetna hafa orðið til hins mesta menningarauka, það er alveg óhætt að segja það. Þessir skólar eru, eins og ég áðan gat um, einkaskólar, og auk þess sem ríki og sveitarfélög styðja þá, þá eru þeir yfirleitt studdir af öflugu áhugamannaliði.

Það er á allra vitorði að eins og nú er háttað hrekkur stuðningur hins opinbera ekki til þess að tryggja skólunum öruggan starfsgrundvöll. Ég held að þetta fari ekki á milli mála. Það hefur ekki verið unnt að fastráða kennara skólanna og veita þeim lífeyrissjóðsréttindi. Sveitarfélögin hafa sums staðar orðið að leggja á sig meiri útgjöld en talið er líklegt að þau geti risið undir til langframa. Skólagjöld nemenda eru nú viða orðin það há, að menn óttast beinlínis að upphæð skólagjaldanna kunni að leiða til þess að tónlistarmenntunin verði eins konar forréttindi þess fólks sem rýmst hefur fjárráð. Frv. er sem sagt ætlað að ráða hér nokkra bót á.

Í 2. gr. frv. segir svo: „Tónlistarskólar, sem fullnægja framangreindum skilyrðum, skulu fá styrk frá ríkissjóði og frá viðkomandi sveitarfélagi er nemi launagreiðslum til kennara skólanna. Sveitarfélagið skal sjá um launagreiðslur, en ríkisstyrkurinn nemi 50% launakostnaðar og verði greiddur sveitarfélaginu, enda séu laun greidd samkvæmt gildandi kjarasamningum á hverjum tíma.“ — Með þessum hætti verða kennarar tónlistarskólanna beinlínis ráðnir af sveitarfélögunum og þá ætti að vera auðvelt að veita þeim sömu réttindi og öðrum kennurum, þ. e. a. s. aðgang að lífeyrissjóðum o. s. frv.

Í 6. gr. frv. eru ákvæði um það að styrkur skuli veittur til hljóðfærakaupa eftir því sem fé er veitt til á fjárl. Menntmrn. skipti styrknum með hliðsjón af þörf skólanna og má ekki vera hærri en 1/3 af andvirði hljóðfæra.

Í 7. gr. er svo ákvæði um að heimilt sé að veita styrk til tónlistarkennslu á þeim stöðum sem ekki hafa hin almennu skilyrði sem sett eru um fullgilda tónlistarskóla. Annars er, eins augljóst er af frv. eins og það liggur hér fyrir, aðeins gert ráð fyrir fremur fáorðri rammalöggjöf sem menntmrn. geti síðan útfært nánar í reglugerð.

Ég vil geta þess hér, að það fór fram athugun á því þegar þetta frv. var undirbúið fyrr í vetur hvað mikið mundi kosta ríkissjóð sú breyting sem frv. felur í sér. Þá var metið að kostnaðurinn næmi 10–11 millj. kr. samtals. Þessar tölur hafa vitanlega hækkað eitthvað. Þarna er þó ekki um mjög stórar fjárfúlgur að ræða, miðað við það hvað þessi starfsemi er orðin umfangsmikil og stendur föstum fótum víða um land.

Menntmrn. og n. sú, er undirbjó þetta frv., eru á einn máli um að stefna beri að sem nánustum tengslum tónlistarfræðslunnar við skólakerfi landsins. Frv. þetta má því, a. m. k. af hálfu menntmrn., skoða sem till. um bráðabirgðabreytingar frá gildandi lögum um fjárhagsstuðning við tónlistarskóla og sem eins konar áfanga að því marki að fella tónlistarnámið að hinum almenna fræðslukerfi. Má því segja að þetta frv. miði fyrst og fremst að því að tryggja grundvöll tónlistarfræðslunnar í landinu í svipuðu formi og hún er nú og koma í veg fyrir að tónlistarkennsla verði forréttindi fyrir hina efnameiri í þjóðfélaginu. En eins og ég sagði áðan, þá er nú svo málum komið að tónlistarskólarnir hafa mjög ótraustan grundvöll fjárhagslega til þess að byggja starfsemi sína á til frambúðar og skólagjöld eru orðin mjög há.

Ég lít svo á að það beri brýna nauðsyn til þess að afgr. þetta frv. á því þingi sem nú situr. Ég tel það. Og ég álít að að lögfestum þeim ákvæðum, sem þetta frv. inniheldur, mundu tónlistarskólarnir fá aftur fast land undir fótum og ákveðna von um aukna fyrirgreiðslu við afgreiðslu fjárl. fyrir komandi ár. Ég vil því leyfa mér að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. þn., sem fær málið til meðferðar, að hún geri sitt til að flýta því að frv. fái nauðsynlega þinglega skoðun svo að það gæti orðið afgr. fyrir lok þessa þings.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari 1. umr.