09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

225. mál, Hússtjórnarkennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hér verður lagt fram frv. til laga um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, stjfrv. Flutningur þessa frv. er með nokkrum hætti tengdur frv. um heimilisfræðaskóla sem einnig hefur verið lagt fram í þessari hv. d. og er næsta mál hér á dagskránni.

Megintilgangur þessa frv. er raunar sá að samræma ákvæðin um kennslu hússtjórnarkennara ákvæðum í væntanlegum lögum um heimilisfræðaskóla annars vegar og svo hins vegar að aðlaga ákvæði um starf og tilhögun í Hússtjórnarkennaraskóla Íslands þeim breyttu viðhorfum ýmsum til hússtjórnar eða heimilisfræðanáms sem vissulega hafa orðið frá því að lögin um Húsmæðrakennaraskóla Íslands voru sett 1965.

Vinna sú er liggur að baki þessu frv. hefur í stuttu máli verið framkvæmd þannig: Hinn 29. nóv. 1971 skipaði menntmrn. n. til að endurskoða núgildandi lög um húsmæðrafræðslu og lög um Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Í þessa n. voru skipuð: Steinunn Ingimundardóttir skólastjóri, sem var jafnframt skipuð formaður n., Björn Halldórsson skrifstofustjóri, Halldóra Eggertsdóttir formaður Kennarafélagsins Hússtjórnar, Sigríður Haraldsdóttir kennari og Vigdís Jónsdóttir skólastjóri Húsmæðrakennaraskóla Íslands. N. sendi rn. með bréfi 7. mars 1973 tvö lagafrv. um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands og um heimilisfræðaskóla. Frv. þessi voru bæði lögð fyrir Alþ. 1973 í þinglokin til kynningar og svo voru þau á ný lögð fyrir síðasta Alþ. og þá með nokkrum breyt. sem rn. hafði gert. Þetta er því í þriðja skiptið sem bæði þessi frv. eru lögð hér fram og enn þá með nokkrum, en þó fremur litlum breyt. frá fyrri gerð. Þær breyt., sem nú voru gerðar á frv., voru ræddar nokkuð við fyrrv. form. mþn. og við skólastjóra Húsmæðrakennaraskóla Íslands og höfðu þær ekkert við þær að athuga.

Hér skal ég svo aðeins víkja að helstu efnisbreytingunum sem þetta frv. felur í sér, en í sannleika sagt eru þar ekki neinar stórbreytingar á ferðinni.

Í lögum um Húsmæðrakennaraskóla Íslands er heimild til að reka ráðskonudeild, eins og það er kallað í lögunum, auk kennaranámsins sem vitanlega er aðalatriðið. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir að ákveða að þessar tvær deildir starfi við skólana, þ. e. a. s. kennaradeild og deild fyrir matráðsmenn eins og það er nú nefnt.

Í núgildandi lögum er landspróf og nám í húsmæðraskóla megininntökuskilyrðið, þó að þar komi fleira til. En í frv. eru meginskilyrðið stúdentsmenntun og 20 vikna hússtjórnarnám. Með þessu er leitast við að samræma ákvæðin um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands þeim ákvæðum sem nú gilda um inntöku í Kennaraháskóla Íslands, þ. á m. í handavinnudeild hans. Enda þótt nú sé almennt talin þörf stúdentsmenntunar fyrir kennaraefni, þá þótti samt rétt að hafa enn um sinn ákvæði í lögum um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands sem heimili að meta annað nám gilt til að fullnægja inntökuskilyrðum, svo að þetta er ekki alveg bundið við stúdentsmenntun.

Eins og fram kemur í aths. menntmrn. hefur sú spurning vaknað hjá rn.-mönnum og vafalaust víðar, að til þess komi fyrr eða síðar að heppilegt verði talið að sameina Hússtjórnarkennaraskólann Kennaraháskóla Íslands, því að hann er á ýmsan hátt nokkuð hliðstæður handavinnudeild Kennaraháskólans sem nú þegar starfar þar og hefur raunar gert lengi. En eins og málin standa í dag, þá eru engin skilyrði til þessa. Handavinnudeild Kennaraháskóla Íslands býr við allsendis ófullnægjandi húsakost, eins og flestir hv. alþm. áreiðanlega vita. Og það gildir raunar alveg hið sama um Kennaraháskóla Íslands í heild. Í stórum dráttum eru húsnæðismál þeirrar stofnunar þannig, að það var byggð ein álma af þremur sem áformaðar voru á sínum tíma. Nú er í þessari einu álmu kennt ámóta fjölda nemenda og fyrirhugað var að kenna í allri byggingunni eins og hún var áformuð. Af þessu hefur það leitt að hluti kennslunnar fer fram á geymsluloftum sem aldrei voru ætluð til kennslu og eru ekki manngeng nema rétt undir blámæninum. Sannleikurinn er sá að ég hef varla nokkurn tíma séð verri aðstöðu til kennslu, bæði vegna gólfþrengsla og svo vegna þess hversu lofthæð er lítil. Og þó að þarna sé vel um gengið á allan hátt og reynt að „hagræða öllu sem snotrast“, eins og þar stendur, svo sem framast er unnt, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að í þessum skóla ríkir algert ófremdarástand í húsnæðismálum. Það er því tómt mál að tala um að vinda sér í það núna að sameina Hússtjórnarkennaraskólann Kennaraháskóla Íslands.

Ég vil aðeins minna á það hér, að teikningar þær, sem gerðar voru á sínum tíma að Kennaraháskóla Íslands eru nú orðnar að sumu leyti úreltar. Ég held að það séu allir ásáttir um að breyta þeim. Hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess að huga að fyrri plönum, sem þurfa endurskoðunar við. Auðvitað sker svo Alþ. úr um það með fjárlagaafgreiðslu þegar þar að kemur, hvenær hafist verði handa um byggingar við Kennaraháskóla Íslands og hversu hratt þá verði hægt að þoka þeim málum áfram.

Í frv. er svo nokkuð breytt þeim ákvæðum sem gilt hafa um námsefni, og þar er í raun og veru fyrst og fremst um að ræða samræmingu við reynslu s. l. 10 ára. Sama gildir raunar um þá tilrauna- og æfingakennslu sem ævinlega er tengd menntun kennaraefna.

Sama má raunar einnig segja um þær breyt. sem gerðar eru á öðrum ákvæðum laganna um Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Þar er fyrst og fremst um að ræða að aðhæfa starfsemi að nýjum viðhorfum og að vissu marki samræmingu við hliðstæð ákvæði í öðrum lögum.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um einstakar breyt. Ég held að þessi atriði öll liggi nokkuð ljóst fyrir, bæði í frv. sjálfu og svo í þeim aths. sem frv. fylgja, í umsögnum mþn. sem þar eru prentaðar og svo beint frá rn. Ég tel að það væri æskilegt og í sjálfu sér eðlilegt að þessi tvö frv., um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands og heimilisfræðaskóla, sem einnig er hér á dagskrá, gætu fylgst að í afgreiðslu þingsins. En ég vil þó segja að ég tel enn brýnna að hraða afgreiðslu frv. um heimilisfræðaskólana sem ég væntanlega mun gera grein fyrir hér á eftir.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. menntmn.