09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

226. mál, hússtjórnarskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um heimilisfræðaskóla, en það er raunar nýtt nafn á þeim skólum sem áður hafa verið nefndir húsmæðraskólar. Það er langt síðan tók að gæta hér á landi nokkurra sveiflubreytinga í aðsókn að húsmæðraskólunum. Aðsóknin dvínaði um hríð öðru hvoru, t. d. um 1950, en svo jókst hún aftur. En um nokkurt árabil hefur stöðugt dregið úr aðsókn að þessum skólum. Síðustu árin hafa aðeins tveir 8–9 mánaða skólar, en það er hinn fasti námstími, verið fullsetnir, og í allmörgum skólum hafa fastir nemendur, og þá á ég við þær stúlkur sem hafa numið vetrarlangt, verið engar ellegar þá mjög fáar. Þetta segir hins vegar ekki alla sögu um nýtingu á þessu skólahúsnæði, því þó að hún sé ekki góð víða og langt frá því, þá hafa verið haldin námskeið í breytilegu formi við þessa skóla viðast hvar, og allvíða að því marki að það má segja að nýting húsnæðis og annarrar aðstöðu þar hafi verið þó nokkur.

Með vísun til þessarar þróunar allrar telur menntmrn. skynsamlegt að breyta löggjöfinni í þá stefnu sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Meginbreytingar frv. felast í eftirgreindum atriðum:

Ég nefni þar fyrst, að eins árs nám í heimilisfræðaskóla skal nú veita sömu réttindi til framhaldsnáms og eins árs náms í almennum framhaldsskóla að afloknu skyldunámsstigi. Námsefni skólanna er nokkuð breytt í samræmi við þetta markmið. Þetta er ákaflega mikilsverð breyt., því að áður var það svo með tilliti til framhaldsnáms í skólakerfinu, að það mátti segja að nám við húsmæðraskóla endaði í blindgötu, nemendur voru engu nær um að komast áleiðis í skólakerfinu.

Heiti laganna er breytt í samræmi við breytingu almennra viðhorfa, og nú er gert ráð fyrir að bæði stúlkur og piltar skuli eiga aðgang að þessum skólum.

Hinn almenni starfstími heimilisfræðaskólanna skal vera hinn sami og húsmæðraskólanna nú, en nú er heimilt að víkja frá honum, og er í frv. gert ráð fyrir því að heimilt verði að setja hverjum skóla sérstaka reglugerð og ákveða þannig mismunandi verkefni fyrir þá, t. d. einungis í formi námskeiða með lausráðnu starfsliði við suma, og svo í annan stað að skólarnir taki að sér heimilisfræðakennslu sem fram á að fara í grunnskólum og önnur slík verkefni eftir því sem henta þykir.

Þá er hér sú breyt. gerð að heimilisfræðaskólar skuli vera ríkisskólar og kostaðir af ríkissjóði að fullu. Um gildistöku þessa ákvæðis segir í 19. gr. frv. þannig:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda að því er varðar þá húsmæðraskóla, sem nú eru starfandi, jafnóðum og samið hefur verið um yfirtöku ríkissjóðs á skuldum þeirra og eignum, ef forráðamenn þeirra æskja að skólarnir komi undir ákvæði laga þessara. Þangað til skulu um þá gilda áfram lög nr. 49/1946, um húsmæðrafræðslu, og lög nr. 49/1967 um skólakostnað. Yfirtöku ríkissjóðs á eignum og skuldum skólanna fylgir ekki kvöð um að þeir verði reknir áfram í sama formi, þ. e. a. s. sem húsmæðra- eða heimilisfræðaskólar, nema umsóknir um skólavist fullnægi því lágmarki sem nauðsynlegt telst á hverjum tíma til þess að slíkur skóli verði rekinn.“

Ég vil láta koma hér fram, að þess hefur mjög gætt og í vaxandi mæli að sveitarfélögin vilja losna við rekstur þessara skóla. Til þess liggur m. a. sú ástæða sem hefur verið viðvarandi frá byrjun, að það eru engin lögákveðin skólahéruð utan um þetta samstarf. Það er því tilviljunum háð, hvaða sýslur eða sveitarfélög standa að rekstri húsmæðraskóla yfirleitt og hverjar alls ekki og skólarnir hafa verið sóttir alveg jafnt eða sóttir ekki hvaðanæva, hvort sem viðkomandi sýslu- eða bæjarfélag var aðili að nokkrum slíkum rekstri eða ekki.

Þess skal svo getið að árið 1973 greiddu sveitarfélögin 1/7 af rekstrarkostnaði húsmæðraskólanna eða 6.2 millj. kr. af 42.9 millj. kr. sem heildarkostnaðurinn nam. Þegar þess er enn fremur gætt að með yfirtöku ríkissjóðs ætti að opnast leið til aukinnar hagkvæmni í nýtingu skólanna frá því sem nú á sér stað og það væntanlega í æðiríkum mæli, þá sýnist mér að hér sé naumast um teljandi útgjaldaauka að ræða fyrir ríkissjóð eins og þetta mál allt stendur í dag.

Með frv. þessu, ef að lögum yrði, væri stigið fyrsta skrefið til aukinnar hagkvæmni í rekstri húsmæðraskólanna gömlu og þá um leið að sjálfsögðu fyrsta skrefið út úr því millíbilsástandi sem ríkt hefur í málum þessara skóla nú allmörg missiri og ég tel satt að segja orðið mjög brýnt að breyta. Ég tel að í raun og veru hefði þurft að vera fyrir allnokkru búið að gera gangskör að því að koma slíkum breyt. á. Ég vil þess vegna leyfa mér að fara þess á leit við hv. þn. sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi góðfúslega alla möguleika á því að þetta mál verði afgr. á því þingi sem nú situr.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til hv. menntmn.