09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

226. mál, hússtjórnarskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það voru síðustu orð hæstv. menntmrh. að beina þeim tilmælum til hv. menntmn., að hún flýtti fyrir afgreiðslu þessa máls, um leið að hann lagði til að málinu yrði vísað til þeirrar n. Ég er ekki í vafa um að menntmn. tekur þeim tilmælum vel.

Ég stend ekki upp til þess að ræða hér fyrst og fremst um efni frv., heldur að ræða um samskipti menntmrn. og þessarar þd. og vil þá minna á að þetta mál var hér á ferðinni fyrir einu ári. Það kom þá mjög seint fram og þótti mörgum einkennilegt hvað það var seint þá á ferðinni. Menntmn. Ed. tók sig til og afgr. málið eins hratt og mögulegt var og síðan fór það gegnum d. og á því voru gerðar allmargar breytingar. Ég get upplýst að þær voru samtals 9 talsins. Síðan fór málið til Nd. En vegna þess að þingrof bar að með nokkuð skjótum hætti eins og margir minnast, þá dagaði málið uppi í Nd. Nú hefði maður búist við því þegar frv. kæmi á nýjan leik fyrir þingið, að gerðar hefðu verið á því eða skoðaðar þær breytingar sem n. og þessi d. gerður á frv. í fyrravetur. En svo er ekki. Það munu að vísu hafa verið gerðar breytingar á frv. fyrst og fremst milli áranna 1973 og 1974. Mér er ekki alveg ljóst, hvort einhverjar breytingar hafa verið gerðar frá árinu 1974, en í öllu falli engin af þeim sem þessi d. gerði á s. l. vetri. Frv. kemur sem sagt nákvæmlega eins, a. m. k. hvað snertir þau atriði sem d. breytti í fyrra, eins og síðast. Og það sem verra er, frv. kemur einkennilega seint. Það eru aðeins eftir fáar víkur af þingi og því satt að segja býsna þröngt um vik að afgr. frv. úr báðum d. þings á þessum stutta tíma, þó að það sé siður en svo útilokað. Þetta sem sagt finnst mér mjög einkennilegt og ég vek á þessu athygli, ekki vegna þess að þetta sé einsdæmi, heldur virðist þetta vera meginregla.

Ég bendi á frv., sem hér var til umr. næst á undan, það gegnir alveg nákvæmlega sama máli um það. Það kom fram í fyrra, var fjallað um það á mörgum fundum menntmn. Ed. og því síðan breytt og þær breyt. samþykktar hér í d. og það sent til Nd. En það dagaði uppi. Þegar svo frv. kemur hér aftur, þá virðist menntmrn. ekki taka tillit til neins af því sem hafði þó verið fjallað um í fyrra og frv. kemur algjörlega óbreytt hvað þau atriði snertir. Þetta finnst mér óskynsamleg vinnubrögð og ég held að þetta auðveldi ekki afgreiðslu málanna í þinginu, að menntmrn. skuli ekki reyna að kynna sér hvaða breyt. voru gerðar á frv. við meðferð þess hér í d. og hvort rn. geti ekki þá fallist á þær breytingar að einhverju leyti eða kannske að öllu leyti og þá sér frv. lagt fram í þeim búningi. Þá tæki afgreiðsla þess hér í d. miklu skemmri tíma. En þegar fyrir liggur að rn. hefur ekki viljað fallast á þær breyt. sem gerðar voru í fyrra, þá er líklegt að n. þurfi að skoða þær allar að nýju og þetta tæki allt miklu lengri tíma en ella væri.

Ég vek á því athygli að þetta gildir um frv. um heimilisfræðaskóla sem reyndar hét frv. til laga um hússtjórnarskóla, eftir að það fór frá þessari hv. d. í fyrra, og þetta gildir um mörg önnur mál sem koma frá menntmrn. þessa dagana og þessar vikurnar. Ég nefni enn eitt dæmið, þ. e. a. s. frv. um viðskiptamenntun sem við fjölluðum um á fjöldamörgum fundum í menntmn. Ed. í fyrra og breyttum talsvert og síðan voru þær breytingar samþykktar hér í hv. Ed. og frv. sent til Nd., en þar dagaði málið uppi. Á þessum vetri kemur frv. aftur fram og þá algerlega óbreytt frá því sem áður var, í öllum þeim atriðum sem þessi d. hafði breytt. En til þess að flækja málið enn frekar er nú málið flutt í annarri d., þ. e. a. s. í Nd., sem gerir það að verkum að það má búast við að gangur þess í gegnum þingið verði enn torveldari en ella.

Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi sem mér finnst að séu einkennileg í vinnubrögðum menntmrn. og ekki til þess fallin að auðvelda málum að komast í gegnum þingið. Þau eru býsna mörg málin sem hafa verið lögð fram af hálfu menntmrn. á seinustu árum sem hafa dagað uppi í d. og í báðum d. Alþ., reyndar áberandi mörg, og ég held að sökin hljóti að vera að einhverju leyti af því að rn. hefur kannske ekki hagað málum á sem skynsamlegastan hátt og lítið tillit viljað taka til þeirrar meðferðar sem mál hafa fengið hér í þinginu.

Mig langar til að nefna enn eitt dæmi, — ég er þegar búinn að nefna 3 eða 4, — en mig langar til að nefna enn eitt dæmi. Það er þjóðleikhúsmálið, sem kom hér fyrir Alþ. 1972 og var hér fjallað um lengi vel í menntmn. Ed. og síðan tekið til afgreiðslu í þessari d. og því breytt í allmörgum atriðum. Þetta mál dagaði uppi á þinginu 1972, og áttu menn þá von á því að málið hlyti að koma fram á næsta þingi á eftir, þannig að það væri hægt að afgr. það. Það lá á að koma þeim málum betur á hreint. En það hafa liðið núna 3 ár án þess að nokkuð bólaði á þessu frv., og hefur í raun og veru enginn getað skilið hver væri skýringin á þeim langa drætti. En svo loksins þegar þetta frv. birtist hér nú fyrir skömmu, að vísu í annarri d., þ. e. a. s. í Nd., þá sýnist manni fljótt á litið að ekkert tillit — nákvæmlega ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra umr., sem fram fóru um málið á Alþ. á sínum tíma, ellegar þeirra breyt. sem þessi d. þá gerði á frv. Ég er ekki að segja að þeim, sem leggja málin fram af hálfu menntmrn. eða undirbúa þau af hálfu rn., beri nein skylda í sjálfu sér til þess að taka til greina þær breyt. sem gerðar eru á frv. sem síðan ná ekki fram að ganga. Ég er ekki að segja að það sé nein skylda af þeirra hálfu. Ég er ekki að segja að þeir séu ekki í fyllsta rétti til að haga málum með þessum hætti. En ég held að þessi vinnubrögð séu hins vegar óskynsamleg og þau séu ekki til þess fallin að auðvelda málum framgang í gegnum Alþ. Ég er að sjálfsögðu siður en svo að áfellast hæstv. núv. menntmrh. í þessum efnum vegna þess að það, sem ég hef hér tekið til umr., er að sjálfsögðu ekki nema að takmörkuðu leyti á hans ábyrgð. En ég er fyrst og fremst að vekja athygli hans á því, hver gangur þessara mála hefur verið á undanförnum árum og er nú, að það er sem sagt að birtast hér hvert frv. á fætur öðru um menntamál, allt saman mál sem hafa verið til umr. hér á þinginu á undanförnum árum, án þess að í þessum frv. sé nokkurt tillit tekið til þeirra umr. og þeirra brtt. sem beinlínis hafa verið samþ. í annarri hvorri deildinni.