09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Virðulegi forseti. Það er að vísu alllangt liðið síðan fyrsti hluti þessarar umr. fór fram, en ég féllst fyrir mitt leyti á að umr. yrði þá frestað og því frestað að vísa málinu til n., vegna þess að í umr. höfðu komið fram ýmsar fsp., sem þá var beint sérstaklega til hæstv. iðnrh., en hann bundinn við umr. í hv. Ed. Nú sé ég að sama er upp á teningnum, að hann er fjarstaddur. Fsp. voru ekki að vísu frá mér komnar, heldur frá öðrum hv. þm., en þar sem ég tel að mikil nauðsyn sé á að þetta mál fái að ganga til n., vænti ég þess að það mætti fresta umr. og láta málið ganga til n., en hæstv. iðnrh. yrði þá væntanlega við framhaldsumr. sem fram færu um málið þegar það kæmi úr n. En ég á sérstakt erindi hingað vegna þessarar till.

Í umr., sem fram fóru, kom það fram hjá hv. 4. þm. Austurl. að hann gat ekki fellt sig við gerð till., eins og hún er, að því leyti að hann var ekki reiðubúinn til að fallast á það efni hennar sem fjallar um að leitað verði eftir kaupanda raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum.

Ég vil nú til samkomulags fallast á og beini því til þeirrar hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að þessi hluti þáltill, verði dreginn til baka þannig að hún fjalli einvörðungu um að ríkisstj. verði falið að hlutast til um að lokið verði hið fyrsta rannsóknum á byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Þá vænti ég þess að ef till. verður breytt með þessum hætti verði menn sammála um að mál þetta nái fram að ganga.

Það ber mjög brýna nauðsyn til þess, eins og orkumál eru á Austurlandi nú, að hraðað verði rannsóknum á frekari virkjunarmöguleikum. Ég vil minna á það, að fyrir áramótin voru samþ. heimildarlög til virkjunar Bessastaðaár svokallaðrar. Eins og frumrannsóknir virtust benda til er þar vissulega um álitlegan kost að tefla, en nýjar upplýsingar og frekari rannsóknir virðast þó benda til að mjög geti brugðið til beggja vona um þá virkjun. Eins hafa verið uppi fréttir um að horfið sé frá þeirri ætlan, að heimila 150 millj. kr. lántöku til rannsókna á þessari virkjun, því að það hefur spurst að sá líður sé nú orðinn breyttur í nýjum áætlunum, þannig að í stað 150 millj. til lántöku til Bessastaðaárvirkjunar og rannsókna á henni heiti þessi líður nú 100 millj. til virkjanarannsókna á Norðurlandi vestra og Austurlandi. Hefur þá þessi liður tekið allveigamiklum breyt., svo að ekki sé meira sagt, frá því sem ráð var fyrir gert við afgreiðslu fjárl.

Ég vænti þess sem sagt að við þessa breyt., sem ég hér legg til að gerð verði á þáltill., þar sem ég fellst á að draga til baka allt úr henni sem lýtur að stóriðjuhugmyndum og að kaupandi verði fundinn að raforku með stóriðju fyrir augum, náist samstaða um þessa tillögugerð, og beini því til hv. iðnn., sem ég legg til að fái þetta mál til meðferðar, að hraða afgreiðslu till.