09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Herra forseti. Ég þarf víst ekki miklu við þetta að bæta þar sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson tók að sér að fínkemba ræðu hv. 2. þm. Austf. og svara flestum þeim mótbárum sem þar komu fram gegn þessu frv. Ég vil þó aðeins svara atriði, sem hv. 2. þm. Austf. beinlínis spurði mig um. Það var varðandi það, hvort ætti að skilja það svo að samtökin sjálf gætu lagt fjárhagsskuldbindingar á einstök sveitarfélög.

Ef við lítum á hlutverk landshlutasamtakanna eins og þau eru talin upp í frv., þá svarar sú grein, raunverulega þessari spurningu. Þar er gert ráð fyrir að þau vinni að sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga og héraða í umdæmi sínu og landshlutanum öllum, að þau vinni að áætlunargerð varðandi landshlutana í samráði við Framkvæmdastofnun ríkisins, vinni að öðrum verkefnum, sem þeim eru falin að lögum og að framkvæmdum og samþykktum aðalfundar samtakanna og annist almennt ráðgjafarstarf í þeirra þágu. Og hvað skyldi þetta nú tákna, hvaða fjárhagsskuldbindingar skyldi vera hægt að leggja á einstök sveitarfélög í þessu sambandi?

Það er vitanlega ekki hægt að leggja á einstök sveitarfélög aðrar fjárhagsskuldbindingar en þær sem sveitarfélögin sjálf samþykkja að taka á sig. Og þarna erum við komnir að meginatriðinu í sambandi við þetta frv., að hér er um samtök sveitarstjórnanna sjálfra að ræða sem ákveða sjálfar hvaða verkefni þau takast á við. Og ég er sannfærður um að í framkvæmd verður þessu svo háttað að landshlutasamtökin sjálf koma ekki til með að leggja fjárhagsskuldbindingar eða áhættufé á herðar einstakra sveitarfélaga umfram þá þjónustu sem viðkomandi sveitarfélag á að fá. Við getum tekið t. d. dæmi þar sem landshlutasamtök eða fjórðungssamtök hafa staðið fyrir gatnagerð. Þeim dettur ekki í hug að leita fjárhagsskuldbindinga út fyrir þau sveitarfélög sem eiga beina aðild að þeim framkvæmdum. Þau geta þannig innan vébanda sinna virkjað saman einstök sveitarfélög, færri eða fleiri, til átaks, en ekki lagt kvaðir á aðra. Þarna komum við að þeim meginmun sem felst í því hvernig samtökin eru byggð upp, hvort þetta eru bein samtök sveitarstjórnarmanna sjálfra og sveitarstjórnanna eða hvort kosið verður til þessara samtaka í almennum kosningum og þess vegna rofin þau tengsl sem þarna eru á milli.

Hv. 2. þm. Austf. undraðist líka að hér væri verið að tala um að marka landshlutasamtökum stöðu í stjórnsýslukerfinu. Það kann að vera að þau hafi ekki stöðu í stjórnsýslukerfinu í dag, en ég hef nú litið svo á að í sveitarstjórnarlögum sé mörkuð staða sýslufélaganna í stjórnsýslukerfinu, þar sé mörkuð staða sveitarstjórnanna sjálfra, minni eða stærri, í stjórnsýslukerfinu, og ef þetta frv. verður að lögum, þá sé mörkuð ákveðin staða landshlutasamtakanna í stjórnsýslukerfinu, vegna þess að þetta er borið fram sem frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum.

Það er talað um að sveitarstjórnarlögin séu í endurskoðun. N. sú, sem starfar að endurskoðun sveitarstjórnarlaganna varðandi fylkjaskipulag náði ekki samstöðu um það mál, og ég hef raunar ekki séð þá sameiginlegu niðurstöðu þessarar n. varðandi hugmyndina um fylkjaskipulagið og hvernig því yrði fyrir komið.

Það hefur verið talað um að sveitarstjórnarmenn greini mjög á um hvort eigi að lögfesta þetta frv. eða ekki. Hver skyldi nú þessi ágreiningur vera? Í fáum tilvikum hygg ég að það sé hægt að ná samstöðu svo stórs hóps sem sveitarstjórnarmenn á Íslandi eru. En ef við lítum á, hver hefur verið ósk þeirra, hver hefur verið ósk fulltrúa sveitarstjórnanna á þingum landshlutasamtakanna, hver hefur verið sú ósk sem stjórnir landshlutasamtakanna í umboði þeirra hafa þess vegna borið fram, þá held ég að það sé óvíða jafnmikla samstöðu að finna og einmitt í þessu máli. Og það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að landshlutasamtökin sjálf hafa knúið á um að fá þessa ákveðnu stöðu. Það er rétt.

Ég get tekið undir flest sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði í sinni ræðu áðan. Og ég vil vekja athygli á því, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að ég tel að þegar þetta kemur til heildarendurskoðunar, — en ég tel að við sjáum ekki fyrir endann á því og við getum ekki spáð hversu langan tíma sé að bíða þar, — þá tel ég að það sé spurning um það hvaða kerfi verði valið. Ég sagði að mér væri ekkert aðalatriði hvort þar kæmi upp endurskipulagðar sýslunefndir, fjórðungssambönd eða fylki. Og ég geri mér grein fyrir því að fjórðungssamböndin í núv. formi óbreyttu geta ekki tekið við því hlutverki sem sýslunefndirnar hafa í dag. Landshlutasamtökin eða fjórðungssamtökin, sem taka yfir heil kjördæmi, eiga erfiðara með að sinna ýmsum svæðisbundnum verkefnum, og þess vegna hefur sú hugmynd komið fram að ef fjórðungssamböndin í einhverju svipuðu formi og því, sem þau starfa í núna, yrðu framtíðarlausnin, þá yrðu starfandi innan þeirra sérstakar héraðsnefndir eða einingar sem tækju að sér málefni einstakra þrengri byggðarlaga. En hins vegar ef sýslunefndarform yrði í framtíðinni, þá þyrfti að útvíkka það til miklu breiðari starfsemi eða eitthvað á svipaðan hátt og nú er hjá fjórðungssamböndunum. Varðandi fylkjafyrirkomulagið sjálft vil ég ekki ræða mikið að svo komnu máli. Það er raunar allt önnur hugmynd sem þar kemur fram, allt önnur hugmynd um samsetningu fylkjanna, þar sem kosið væri til þeirra eftir hreinum pólitískum leiðum, en þó með mismunandi kjörgengi, — þó með því kjörgengi að þar eru í sumum sveitarfélögum aðeins sveitarstjórnarfulltrúar kjörgengir, en í öðrum sveitarfélögum allir íbúar sem hafa náð kosningaaldri og kjörgengi.

Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs G, Einarssonar um það að ruglingur í umdæmaskipun landsins er slíkur að ég sé ekki annað en það sé knýjandi þörf að endurskipuleggja umdæmaskipunina ef svo má segja. Við höfum þar fyrir augum að það eru til sýslufélög sem eru ekki megnug að gegna þeim skyldum sem þeim í raun og veru eru lagðar á herðar.

Ég held svo, herra forseti, að ég að þessu sinni segi ekki meira um þetta mál.