10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka til máls við umr. um þessa þáltill. þar eð ég hafði fyrir skemmstu flutt í Ed. þáltill. um áburðarverksmiðju á Norðausturlandi. Þar sem nú hv. þm. Steingrímur Hermannsson beindi til mín í senn haukfránum sjónum og vingjarnlegum orðum er hann ræddi um stóra ammoníaksverksmiðju, er þyrfti orku Dettifoss, Blöndu og Kröflu, og sagði að ég hefði flutt nýlega þáltill., þar um, þá finn ég mig nú til knúinn að leiðrétta þetta.

Þáltill., sem ég flutti í Ed. um áburðarverksmiðju á Norðausturlandi, gerði ráð fyrir verksmiðju þar á stærð við Gufunesverksmiðjuna, þ. e. a. s. verksmiðju sem nægði til að fullnægja innanlandsþörf fyrir áburð næsta áratug eða svo, og var þá jafnframt reiknað með því að fullnægt yrði þörf fyrir áburð, sem nú er ekki fullnægt, til notkunar á beitilandi. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að kasta hnútum að hv. þm. fyrir það þó að honum væri ekki ljóst að þáltill. mín miðaði að gerð slíkrar verksmiðju, en ekki að gerð verksmiðju sem ætluð væri til framleiðslu á ammoníaki til útflutnings.

Ég vil ekki fara út í samanburð að þessu sinni á hagkvæmni þess að nota raforkuna okkar til framleiðslu á áburði eða á ferrosilíkoni. Það gladdi mig að heyra það að hv. þm. Steingrímur Hermannsson leggur annað mat á hagkvæmnishlið framleiðslu á áburði til innanlandsnotkunar og til útflutnings. Sjálfur gerði ég grein fyrir því við flutning fyrrnefndrar þáltill. í Ed. að okkur bæri að leggja svipaðan mælikvarða á hagkvæmnishlið áburðarframleiðslu til innanlandsnotkunar og við leggjum á framleiðslu landbúnaðarafurðanna sjálfra. Okkur væri nauðsynlegt að vera sjálfum okkur nógir um framleiðslu á tilbúnum áburði og búa það vel að framleiðslunni að við værum ekki í þrotum með þessa vöru, og til þess liggja augljósar ástæður.

Ég vil sem sagt ítreka þetta, af því að málið bar hér á góma, að þáltill. mín flutt í Ed. miðar að því að komið verði upp á Norðausturlandi áburðarverksmiðju með ámóta afköst og áburðarverksmiðjan í Gufunesi. Miðað yrði við innlenda þörf og með þessu yrði stefnt að því að við framleiddum áburð, sem við ætluðum að selja ódýrt á innlendum markaði, að við gætum séð bændum fyrir þeim áburði framleiddum með innlendri orku sem þeir þyrftu, ekki aðeins til að viðhalda óbreyttri framleiðslu á landbúnaðarafurðum, heldur miða við að auka framleiðslu landbúnaðarafurða. Og svo rétt í lokin leyfi ég mér að bera fram hér þá órökstuddu fullyrðingu að dýr megi tilbúinn áburður verða í framleiðslu hér á landi svo að hann verði ekki hagkvæmari en framleiðsla á ferrosilíkoni.