14.04.1975
Sameinað þing: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

Rannsókn kjörbréfa

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Mér hafa borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 11. apríl 1975.

Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda til að sitja hafréttarráðstefnuna í Genf og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Austurlandskjördæmi, Sigurður Blöndal, skógarvörður, taki sæti á Alþ. í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd.

Kjörbréf Sigurðar Blöndals liggur hér fyrir.

Þá hefur borist annað bréf :

„Reykjavík, 11. apríl 1975.

Halldór E. Sigurðsson, f. h. þingflokks framsóknarmanna, hefur í dag ritað mér á þessa leið.

„Mér hefur tjáð Þórarinn Sigurjónsson, 2. þm. Sunnl., að hann geti ekki vegna persónulegra ástæðna sótt þingfundi á næstunni. Því er þess óskað með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþ. að 1. varam. Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, taki sæti Þórarins á Alþ. meðan hann er fjarverandi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd.

Kjörbréf Guðmundar G. Þórarinssonar liggur hér fyrir.

Vil ég leyfa mér að biðja kjörbréfanefnd að taka bæði þessi kjörbréf til rannsóknar og verður veitt rúmlega 10 mín. fundarhlé á meðan, þannig að fundi verður frestað þar til klukkan er 20 mín. gengin í þrjú. — [Fundarhlé.]