14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

8. mál, almannatryggingar

Fram. (Oddur Ólafason) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um breyt. á l. um almannatryggingar. Frv. er flutt af þeim alþm. Helga F. Seljan og Stefáni Jónssyni og efni þess er að finna í 1. gr. frv. er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sjúklingur þarf að leita til sérfræðings að læknisráði um lengri vegu skal greiða honum hluta af ferðakostnaði skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Þurfi sjúklingur að leita sérfræðiþjónustu á reglubundinn hátt, árlega eða oftar, skal greiða honum ferðakostnaðinn að fullu. Greiðsla ferðakostnaðar miðist við vottorð viðkomandi læknis og sérfræðings.“

Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum og leitað um það umsagnar, og með leyfi forseta vil ég gjarnan lesa hér umsögn er kom frá Tryggingastofnun ríkisins og hljóðar svo:

Hv. þn. hefur sent til umsagnar frv. til l. um breyt. á l. nr. 87 1971, um almannatryggingar. Það verður að telja rétt, sem fram kemur í frv. og grg. með því, að full ástæða sé til einhverrar þátttöku í nauðsynlegum ferðalögum sjúklinga til sérfræðinga þegar um löng og dýr ferðalög er að ræða. Það kemur fram í grg. frv. að flm. gera sér fyllilega ljóst að það er nokkurt vandaverk að semja réttlátar og haldgóðar reglur til að ná því markmiði sem að er stefnt, enda hafi endurskoðunarnefnd tryggingalaganna hikað við að leggja fram till. af þeirri ástæðu. Það er hins vegar álitamál, hvort stefna beri að því að leysa þann vanda með reglugerð eða undirbúa nánari lagasetningu. Tryggingaráð telur eðlilegra að undirbúin verði nánari lagasetning.“

Þar sem nú stendur þannig á að heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar fer fram um þessar mundir leggur n. til, þrátt fyrir það að hún viðurkenni nauðsyn þess að setja reglur um greiðslur til þeirra sjúklinga er oft þurfa að leita um langa vegu til læknis, að málinu verði vísað til ríkisstj. Einstakir nm, áskildu sér rétt til að flytja brtt.