14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

8. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég undirritaði þetta nál. með fyrirvara. Það er auðskilið mál, ég er annar flm. þessa lagafrv. og auðvitað mundum við flm. helst kjósa að fá frv. samþ., sér í lagi vegna þess að að nokkru er þetta frv. í heimildarformi. Ég vil hins vegar þakka heilbr.- og trn. og öðrum fulltrúum þar fyrir mjög jákvætt nál., þar er tekin mjög jákvæð afstaða til þessa máls í heild, og einnig ítreka ég það, að mér þótti vænt um að sjá hina jákvæðu afstöðu forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, Sigurðar Ingimundarsonar, til þessa máls einnig. Það er rétt sem hv. frsm. n. sagði hér áðan að enn eru almannatryggingalögin í endurskoðun — nú í heildarendurskoðun. Það er að vísu einn sérfræðingur sem þar er til kvaddur því að endurskoðunarnefnd sú, sem allir flokkar áttu aðild að, hefur verið lögð niður, að því er ég best veit, og endurskoðunin falin einum sérfræðingi sem ég vanmet á engan hátt en játa þó að ekki hef ég meiri trú á því að komi jákvætt álit frá honum en þeirri n. sem vann að þessu mjög ítarlega og samviskusamlega áður og í áttu sæti fulltrúar allra flokka.

Ég get hins vegar ekki staðið á móti því með tilliti til frv., sem áður hafa hér komið fram og ég hef staðið að að yrði vísað til ríkisstj. í krafti heildarendurskoðunar, að svo yrði um þetta frv. og hef því undirritað nál. með fyrirvara. Ég játa að ég reyndi að koma þessu að áður við endurskoðunarnefnd tryggingalaganna og við stjórn, sem ég studdi og kom þessu máli ekki fram, en ég kom því ekki fram. Þar var það þessi misnotkunarhætta sem kom í veg fyrir það aðallega eins og bent er á reyndar í áliti forstjóra Tryggingastofnunarinnar. Sú misnotkunarhætta sem kom í veg fyrir þetta, ég er hræddur um að hún komi enn í veg fyrir að þetta komist í framkvæmd fyrst um sinn. En ég vil benda á það mjög skýrt, eins og ég gerði hér í framsögu fyrir frv. okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar, að þarna er misnotkunarhætta síst meiri — hún er síst meiri sú hætta en víða annars staðar í okkar tryggingalöggjöf. Ég veit að það hafa verið gerðar margar brýnar breyt. á tryggingalöggjöf okkar að undanförnu og þær breyt. margar hverjar hafa e. t. v. verið brýnni. Ég er þó á því að það sé fyllilega komið að þessum þætti sérstaklega. Þörfin er svo ótvíræð og svo knýjandi að ég held að við séum, eins og reyndar kemur fram í nál., allir sammála um að að þessu sé hreinlega komið. Hins vegar get ég vitanlega ekki treyst hæstv. núv. ríkisstj. út af fyrir sig betur til þessarar málsmeðferðar en þeirri ríkisstj., sem ég hafði reynt áður að koma þessu máli fram við, en kom ekki, og mun því sitja hjá við atkvgr. um að vísa þessu máli til ríkisstj. Ég virði þó þá jákvæðu afstöðu sem þarna er tekin, en vissulega boða ég það að komi ekkert út úr þessari endurskoðun til hagsbóta fyrir þann mikla fjölda sjúklinga úti á landsbyggðinni sem þarna á hlut að máli, þá munum við flm. að sjálfsögðu endurflytja þetta frv. á næsta þingi.