14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. sjútvn. fyrir þá jákvæðu afgreiðslu og afstöðu til þessa máls, sem hér er til umr., að leggja til að frv. verði samþ. Það er svo að þegar þetta mál hefur verið rætt hér í hv. d., — og þetta er í annað sinn sem frv. þetta er borið fram, — þá hafa menn, ég hygg allir sem hafa tekið til máls, verið jákvæðir til þessa frv. Hins vegar er því ekki að leyna að maður hefur orðið var við að það er ekki svo um alla þá aðila sem þetta mál skiptir þó að furðulegt megi heita. Mér virðist vera svo sterk rök fyrir því að frv. þetta verði samþ. að það sé naumast hægt á málefnalegum grundvelli að standa gegn því.

Ég ætla ekki að fara að lengja umr. með því að endurtaka það sem ég hef sagt áður um mikilvægi þess að Fiskveiðasjóður Íslands hafi möguleika til þess að veita lán út á eldri fiskiskip. Við erum sammála um það. En eins og hv. frsm. sjútvn. tók fram hefur verið hreyft þeim athugasemdum í þessu máli að það kynni að íþyngja Fiskveiðasjóði ef frv. yrði samþ. og honum ætlað að lána til eldri fiskiskipa. Ég hef aldrei neitað því að svo kynni að vera. En ég hef jafnan bent á að það þyrfti ekki að vera. Ástandið er þannig þegar litið er til lengri tíma, að þá má halda því fram, að ég tel með fullum rökum, að frv. þetta, ef að lögum verður, muni síður en svo þyngja á Fiskveiðasjóði. Og það er einfaldlega vegna þess að með því að greiða fyrir eðlilegum eignaskiptum á þessum þýðingarmiklu framleiðslutækjum sem fiskiskipin eru, þá eru meiri möguleikar til þess að hagnýta fiskiskipastólinn betur en nú er gert. Ég held því hiklaust fram að hann sé ekki hagnýttur eins vel og skyldi m. a. vegna þess að það er auðveldast fyrir menn, sem þurfa á fiskiskipi að að halda, að láta byggja eða kaupa nýtt skip. Þá hafa þeir fyrirgreiðslu skv. gildandi reglum Fiskveiðasjóðs. En ef þeir ætla að kaupa skip sem eru jafnhagkvæm, jafngóð, kannske hagkvæmari og kannske betri, en eru nokkurra ára gömul þá veigra þeir sér við því og hverfa frá slíkri hugsun í mörgum, kannske flestum tilfellum, vegna þess að þeir fá enga opinbera lánafyrirgreiðslu til að kaupa slík skip.

Það er líka rétt að vekja á því athygli, að það er talið að um þessar mundir sé ástandið þannig að við höfum nægileg fiskiskip og það sé ekki hagkvæmt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að leggja mikla áherslu á byggingu nýrra skipa. Þetta er augljóst ef við höfum í huga yfirlit og athuganir sem Fiskifélag Íslands hefur gert um meðalársafla á Íslandsmíðum á árunum 1958–1973, Á þessum árum var ársmeðaltal þorskaflans á Íslandsmiðum talið 728 þús. lestir og hæst komst aflinn 1970 í 820 þús. lestir. En við íslendingar veiddum ekki af þessum afla nema 52% eða um 380 þús. lestir á ári. Viðfangsefnið nú á næstu árum er að auka hlut okkar íslendinga í aflanum við Íslandsstrendur. Allir eru sammála um að við verðum að sitja einir að þeim afla sem mögulegur er innan 50 mílna fiskveiðimarkanna, og við erum nú í þann mund að færa út í 200 mílur. Það mætti því ætla að nú þyrftum við að leggja áherslu á aukningu fiskiskipaflotans til þess að mæta þessum þörfum. En samkv. athugunum, sem Fiskifélag Íslands hefur gert, er augljóst að það er ekki sérstakt viðfangsefni í dag að auka nýsmíðar og auka fiskiskipaflotann, vegna þess að með þeim flota, sem við eigum nú, getum við auðveldlega, ef almennar aðstæður leyfa, hagnýtt fiskimið okkar þannig að við getum borið að landi ekki einungis okkar hluta sem verið hefur á Íslandsmiðum, heldur það sem framundan er í aukningu. Fyrir þessu liggja tölulegar upplýsingar.

En auðvitað þýðir þetta ekki að við stöðvum nýsmiði. Við verðum að fylgjast með tækniframförum og það verður að vera eðlilegt viðhald á flotanum. En við þurfum núna eins og er einmitt að leggja áherslu á að hagnýta sem best þann flota sem við eigum. Það er einmitt þetta frv. sem miðar að því að skapa frekari skilyrði til þess að svo megi verða.

Ég held að hér sé um svo þýðingarmikið mál að ræða að það hefði verið eðlilegt að samþ. frv. óbreytt, þ. e. a. s. að til eldri fraktskipa megi lán nema helmingi kaupverðs eða matsverðs, eins og frv. gerir ráð fyrir, en ekki 25% eins og brtt. sjútvrn. gerir ráð fyrir. Hins vegar, eins og ég sagði í upphafi máls míns er ég ánægður með þá afstöðu sjútvn., að hún skuli leggja til eð frv. verði samþ. Það er stór sigur í þessu máli þó að það verði samþ. með þeirri breyt. sem n. flytur.

Ég tel að það sé höfuðatriði nú á þessu stigi að fá frv. samþ. Það er auðvitað rétt, sem hv. frsm. sjútvn. sagði, að ef hér reynist ekki nægilega að gert, sem till. sjútvn. gerir ráð fyrir, þá er hægt að betrumbæta í þessu efni þegar reynsla liggur fyrir um framkvæmd ef frv. verður að lögum.

Ég mun því ekki mæla gegn brtt. hv. sjútvn., en ég mun ekki heldur ljá henni stuðning minn.