14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

206. mál, verðlagsmál

Dómsmrh, (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég tel að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt þótt það komi fram óskir eða till. um endurskoðun á lögum um verðlagsmál. Þau hafa verið að kalla má óbreytt nokkuð lengi og það er ekki nema eðlilegt að það geti komið fram ástæður sem kalla á breyt. á þeim og geri eðlilegt að þau séu tekin til endurskoðunar.

Ég vil í tilefni af því frv., sem hér er fram komið, minna á að í málefnasamningi núv. ríkisstj. er einmitt ákvæði um að ný löggjöf skuli sett um verðlagsmál, um viðskiptahætti, verðgæslu og verðmyndun, eins og þar segir. Í því felst auðvitað að sú löggjöf, sem nú er fyrir hendi, verður þar með tekin til endurskoðunar og breytinga. Er að sjálfsögðu eðlilegt að í sambandi við þá endurskoðun verði teknar til athugunar þær ábendingar sem í frv. þessu felast.

Það er annars svo að verðlagslögin veita í mörgum tilfellum allrúmar heimildir og er þess vegna að talsverðu leyti undir framkvæmdinni komið hvernig þeim er beitt. Ég get fallist á að það hafi að undanförnu og miklu lengur en í tíð núv. stjórnar ekki verið nægilega skilvirkt eftirlit með verðlaginu. Teknar hafa verið ákvarðanir bæði um álagningu og staðfestir reikningar og um hámarksverð og annað því um líkt, en sjálft eftirlitið hefur tæpast verið nægilega skipulega unnið. — Nú hafa komið ungir menn til starfa í forstöðu verðlagseftirlitsins, þrír ungir menn, og er ætlunin að einn þeirra veiti sérstaka forstöðu þessu eftirliti. Ég vona að það geti leitt til þess að það komist í skipulegra horf en áður.

Ég skal ekki fara langt út í þær greinar sem hér liggja fyrir, því að eins og ég sagði tel ég eðlilegt að þær séu teknar til athugunar í sambandi við þá endurskoðun sem fram fer á þessari löggjöf. Ég tel að sumar þeirra geti verið til bóta, eins og t. d. að herða á ákvæðum um verðmerkingu á vörum. Það tel ég sjálfsagt.

Hv. flm. gaf skýringu á 1. gr. og ég skal þess vegna ekki fara að elta ólar við hana, en eins og hún er orðuð mundi hún helst gefa bendingu um að það væri ætlast til þess að verðlagsnefnd tæki alltaf til endurskoðunar hámarksverð það sem hún hefur sett þegar gengisbreyting hefur orðið. Það hefur ekki þurft til þessa að hvetja aðila, sem hér eiga hlut að máli, til þess að koma á framfæri óskum sínum um endurskoðun, og gefur auga leið að allar þess háttar óskir, sem fram koma eftir gengislækkun, eru til hækkunar. En ég tek þó góða og gilda skýringu hv. flm. á því að það er að sjálfsögðu ekki þetta sem fyrir honum hefur vakað, heldur hitt, að það er miklu fremur átt við álagningu. Þar hefur nú gilt sú regla í sambandi við gengislækkanir sem oftast nær hefur verið fylgt, þ. á m. bæði í tíð núv. og fyrrv. stjórnar, hin svokallaða 30% regla sem hér er vikið að. Ég held að sú regla sé engin heilög kýr, en ég vil leyfa mér að efast um að ef farið er að eiga við hana leiði það til lækkunar. Miklu fremur mætti segja mér að það leiddi til hækkunar. Eitt er víst, að innflytjendur hafa kvartað geysilega yfir þessari reglu og telja hana ákaflega rangláta. Hún er ekki fundin af mér, heldur er hún miklu eldri en svo. Hún er fundin upp af öðrum mönnum. En eins og ég sagði áðan, þá álít ég hana ekkert heilaga og hana megi skoða, og það hefur einmitt verið gerð samþykkt um það í verðlagsnefnd að fela Þjóðhagsstofnunni að taka þessa reglu til endurskoðunar upp á framtíðina, ekki af því að við séum að gera því skóna að komi til neinnar gengisbreytingar á næstunni, heldur hinu, að það er eðlilegt að þetta mál sé kannað.

Varðandi það, sem hv. flm. sagði um álagningu, þá er auðvitað rétt að eftir því sem innflutningsverð vöru hækkar gefur það hærri krónutölu. Hins vegar held ég að álagning yfirleitt sé nú í því lágmarki sem hægt er að gera ráð fyrir vegna þess að t. d. við tvennar gengisfellingar með stuttu millibili hefur álagning verið mjög verulega lækkuð einmitt vegna þessarar 30% reglu. Það stendur vitaskuld ekki á umkvörtunum af hálfu verslunarinnar yfir því að þessi álagning sé lág. Og ég verð að segja það sem mína persónulegu skoðun, að ég held að hún sé í sumum tilfellum komin niður fyrir það sem nokkur sanngirni er í og verði þess vegna ekki komist hjá því að taka hana til endurskoðunar eins og margt annað.

Ég held, eins og nú háttar og verðlagsþróunin er, að óhjákvæmilegt sé að halda uppi verðlagseftirliti. Hins vegar verða alltaf skoðanir skiptar um hversu árangursríkt það sé. Og það er alveg víst að þó að það séu ágætir menn sem sitja í verðlagsnefnd og starfa á verðlagsskrifstofu, þá verður erfitt fyrir þá að fylgjast með þessum efnum og gæta þess að hvergi sé pottur brotinn ef verðskyn almennings er ekki vakandi. Það er einmitt það sem er eitt höfuðatriðið ef hægt væri að virkja neytendur meir til eftirlits í þessum efnum en verið hefur og að þeir, ef þeir telja að um rangt verð sé að ræða, sendi kærur og kvartanir til verðlagsskrifstofunnar. Ég hef lagt drög að því að þeim kvörtunum, sem þannig berast, verði tafarlaust sinnt og þær athugaðar. Það er þetta sem þarf að gerast að almenningur reyni að átta sig á þessu og fylgjast með.

Það getur, eins og hv. flm. drap á, átt sér alveg eðlilegar skýringar að verðlag sé mismunandi á sama tíma í ýmsum búðum, t. d. á sykri. Það er ekki hægt að komast hjá því af því að innkaupin eru misjöfn. Sum þau stóru fyrirtæki, sem fást við innflutning á sykri, kaupa inn miklar birgðir í einu,, hafa kannske verið svo óheppin þá að lenda á háu verði. Svo getur aftur heildsali sem kannske flytur inn tiltölulega lítið magn af þessum vörum, einhvern slatta, hitt á að fá eftir tiltölulega skamman tíma hagstæðara verð, sem þá á auðvitað að koma hér fram og kemur fram sjálfsagt hjá þeim sem hafa verið svo heppnir að ná í hluta af þeirri sendingu. Þetta getur verið eðlilegt að því leyti til að þarna þarf ekki að vera um nein brot að ræða. En hitt skiptir, eins og ég sagði, höfuðmáli, að neytendur fylgist þá vel með og athugi verðið og fari eftir fordæmi hv. flm. og gangi á milli fleiri búða og geri ekki innkaupin fyrr en þeir eru búnir að finna lægsta verðið. Ef neytendur fylgdu þeirri reglu í talsvert ríkum mæli þá er ég ekki í vafa um að það mundi verða hvatning fyrir þá, sem geta gert hin bestu innkaup og boðið vöru á sem hagstæðustu verði, að kappkosta að gera það.

Ég legg því enn og aftur áherslu á að það er eitt allra nauðsynlegasta í þessu efni að fá neytendur til að vinna með í þessum efnum. Ég held að við verðum því miður að játa að við höfum ekki sinnt málefnum neytenda eins og skyldi. Það eru hér neytendasamtök, en þeim hefur tæpast verið veittur sá stuðningur og þau hafa tæpast mætt þeim skilningi sem verðugt væri. Ég held að í þessu efni þyrfti að verða á breyting og það gæti e. t. v. ýmsu góðu komið til leiðar.

Annars vil ég segja það, án þess að ég ætli að fara að elta ólar við það sem í grg. segir og eins það sem flaut hjá hv. flm. í garð ríkisstj., að það er ekki beint trúlegt að halda því fram að ríkisstj. hafi óskaplega mikinn áhuga á því eins og hann vildi vera láta, að allar vörur hækkuðu og þær yrðu sem dýrastar. Ég held að það verði að segjast eins og er og vita hvort menn trúa því eða trúa ekki.

En það er nú svo að það er ekki aðeins ríkisstj. sem hér er til eftirlits. Sú breyt. var gerð á lögunum um verðlagsnefnd, - hvort sem það var til góðs eða ills, ég læt það liggja á milli hluta, — fyrir nokkrum árum að nú er hún skipuð fulltrúum vissra samtaka og þar eiga t. d. sæti fulltrúi Alþýðusambands og fulltrúi BSRB svo að einhverjir séu nefndir. Hún er sem sagt skipuð nýjum mönnum, 4 sem eiga að koma frá — við getum sagt neytenda- eða launþegahópi, og 4 sem eiga að koma frá versluninni, atvinnurekendahópi, og svo oddamanni sem er frá viðskrn. Þessi skipan hefur staðið um nokkurt skeið, a. m. k. í tíð þriggja viðskrh. ef ég tel sjálfan mig með, án þess að gerð hafi verið nokkur tilraun til að breyta þessari skipan. Ef ég man nú rétt, þá held ég að hún hafi komist á í sambandi við kjarasamninga á sínum tíma og að launþegar hafi talið sér búbót að fá aðild að verðlagsn., og sjálfsagt hafa þeir sýnt aðgát í þessu efni. Það er því ekki um neina einhliða hagsmuni beint að ræða að baki þeirra ákvarðana sem teknar eru í verðlagsn., heldur eru málin rædd þar af þessum aðilum. Stundum verða þeir ekki sammála, stundum skiptast þeir kannske í þessar blokkir og þá verður sá oddamaður, sem á að vera hlutlaus, sem tilnefndur er af viðskrh. að skera úr. En oft, mjög oft, jafnvel þótt um hækkanir sé að tefla, eru allir þessir fulltrúar, sem í verðlagsn. sitja, sammála.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram og þá fyrst og fremst að þessi lög verða skoðuð og þá er sjálfsagt að líta á þær bendingar sem í þessu frv. felast. Ég álít að það sé þörf á því að reyna að koma reglum um það efni í skynsamlegasta horf sem hægt er og á þann veg að þær þjóni þeim tilgangi sem ætlað er, að þess sé gætt að vöruverð sé svo lágt sem kostur er en jafnframt sé hins gætt, sem verður að líta á með fullri sanngirni, að þeir, sem við þessa atvinnu fást, vörudreifinguna, verða auðvitað að bera úr býtum sanngjarna þóknun fyrir sína þjónustu. Og þá verður líka að taka tillit til þess að það eru framfarir í versluninni, umgengninni, umbúnaði, sem neytendur óska eftir og vilja gjarnan fá. Auðvitað kostar þetta eitthvað. Menn verða líka að vera reiðubúnir að borga fyrir það. Sumt af því getur reyndar verið þannig að það horfi til hagræðingar og geti kannske stuðlað að lækkuðu vöruverði.

En ég held að þær — ég vil ekki segja getsakir, en þau ómildu orð, sem hv. flm. lét falla í garð verslunarinnar, séu ekki makleg, Við höfum hér bæði kaupmannaverslun og samvinnuverslun, samvinnuhreyfingu sem er sterk, og verðsamanburður hjá þessum aðilum getur auðvitað sagt nokkuð til um það hvort um óeðlilegt verðlag er að ræða. Hitt er eðlilegt, að menn séu mjög vakandi og viðkvæmir fyrir þessu, í þeim tímum þar sem er ómótmælanleg staðreynd að verð á innfluttri vöru hefur hækkað með eindæmum að undanförnu. Það er ekki hér á landi aðeins, heldur er það alls staðar, þessi hækkunaralda gengur yfir. Þetta veldur okkur auðvitað mjög miklum erfiðleikum og á drýgsta þáttinn í þeirri öru verðbólgu sem hér hefur verið að undanförnu. Þó að olía hafi þar metið eru margar aðrar nauðsynjavörur sem hafa hækkað alveg óskaplega, eins og timbur, járn, sykur o. fl., o. fl. sem lengi mætti telja. Það hefur verið von manna að náð væri hámarki í þessum hækkunum og eitthvað færi e. t. v. að lækka, en hvort svo verður er eftir að sjá.

Ég tel sjálfsagt að þetta frv. fari til n. og fái þar athugun, en vænti þess að n. hafi það í huga sem ég hef hér sagt, að þessi mál eru í allsherjarathugun.