14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Leiklistarskóla Íslands. Ákvæði um leiklistarskóla voru á sínum tíma tekin inn í frv. til þjóðleikhúslaga, en við athugun þótti réttara að hafa ákvæði utan leiklistarskóla Íslands í sérstökum lögum enda kemur hann vissulega til með að starfa fyrir fleiri aðila en Þjóðleikhúsið eitt.

Mergur þessa máls er sá að ekki er unnt að halda uppi eðlilegri leiklistarstarfsemi í þessu landi nema ungt fólk eigi kost á að mennta sig innanlands. Þetta gildir auðvitað alveg jafnt um atvinnuleikhús, sem þarf á æfðum starfskröftum að halda, og áhugaleikhús, sem þurfa þjálfara og leiðbeinendur með leiklistarmenntun.

Að undanförnu hafa starfað tveir leiklistarskólar og notið nokkurs stuðnings frá ríkinu. Það eru veittar í þessu skyni 2.3 millj. kr. í fjárlögum ársins 1975. Þessi fjárveiting mun þó vart nægja skólunum til framdráttar, þ. e. ásamt skólagjöldum og öðrum tekjum þeirra, nema rétt út þennan vetur. Það mun viðurkennt af öllum að óheppilegt sé og óeðlilegt og raunar ofrausn af þjóðfélaginu að styðja — já, og e. t. v. allt að því halda úti tveimur leiklistarskólum samtímis. Aðstandendur hinna tveggja skóla, sem starfað hafa að undanförnu, hafa rætt þessi mál sín á milli og þeir eru í öllum meginatriðum sammála þessari afstöðu sem ég áðan lýsti.

Í þessu frv. er ráð fyrir því gert að samstarf verði milli Leiklistarskólans, Þjóðleikhússins og annarra leikhúsa í landinu og svo Ríkisútvarpsins, bæði hljóðvarps og sjónvarps, að svo miklu leyti sem þessar stofnanir geta stutt hver aðra á þessu sviði. Ekki er gert ráð fyrir því að Leiklistarskóli Íslands verði fjölmenn stofnun. Skólastjórinn einn yrði t. d. fastur starfsmaður, en að öðru leyti mundu stundakennarar sjá um kennsluna. Það er ekki hægt fyrir fram að fullyrða eða segja nákvæmlega til um nemendafjölda, en talið er ekki fráleitt að gera ráð fyrir 8–10 nemendum á ári og þá 28–30 nemendum samtals ef skólinn væri fullsetinn. Í Leiklistarskóla leikhúsanna eru í vetur 12 nemendur og í Leiklistarskóla Samtaka áhugamanna um leiklist eru 43 nemendur.

Þetta frv. ætti ekki að hafa í för með sér nein teljandi útgjöld fyrir ríkissjóð í fyrstu þótt samþykkt verði. Ég held að það detti engum í hug að það sé unnt að leggja niður kennslu í leiklist né heldur að hætt yrði við að styðja hana þó að hún færi fram á vegum einstaklinga eða félagasamtaka. Með frv., ef að lögum verður, yrði tvímælalaust komið heillegri skipan á leiklistarkennsluna en nú á sér stað án þess þó að kosta til verulega hærri fjárhæð en ætla mætti að fram yrði lögð af hálfu hins opinbera við þá skipan sem nú ríkir, og ég leyfi mér að efast um að hún yrði nokkuð hærri.

Þetta frv. er það einfalt í sniðum og málið er svo eðlilegt í sjálfu sér að dómi menntmrh. og ég vil segja aðkallandi vegna þess skipulagsleysis, sem ég var að lýsa og nú ríkir, að ég vil leyfa mér að vænta þess að hv. d. athugi í vinsemd alla möguleika á því að greiða fyrir þessu máli þannig að það geti hlotið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi ef ekki koma fram einhverjir sérstakir meinbugir sem ég á ekki von á.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. menntmn. að 1. umr. lokinni.