14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Svava Jakobsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n. sem fær frv. til meðferðar mun ég ekki gerast margorð um frv. við þessa 1. umr. Ég vil aðeins lýsa því yfir vegna þeirra tilmæla hæstv. ráðh., að n. hraði störfum við afgreiðslu frv. að það mun ekki standa á mér að vinna að því að unnt verði að afgreiða það á þessu þingi því að við vitum að leikhúsfólk og leiklistarnemendur hafa beðið með óþreyju eftir að löggjöf verði sett um ríkisleiklistarskóla.

Aðalerindi mitt í ræðustól var að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns. Það virðist ljóst að þeir nemendur eða þeir aðilar, sem hafa lagt það á sig á undanförnum árum að reka leiklistarskóla meðan ríkið sjálft vanrækti það hlutverk sitt, hafa ekki næga tryggingu fyrir áframhaldi á sínu námi. Í aths. við lagafrv. er talað um að gert sé ráð fyrir, — það er að vísu ekki nákvæm athugun, en það er gert ráð fyrir að þeir nemendur, sem stundað geti skólann samtals ef hann verður fullsetinn, verði 24–36. Hins vegar kemur fram að nemendur í þessum tveim einkaskólum, sem nú starfa, eru samtals 55. Það er því afar eðlilegt að einkaskólarnir, sem nú starfa, séu nokkuð uggandi um framtíð sína þegar það er komið inn í ákvæði til bráðabirgða, að þeir skuli ekki eiga kost á inngöngu í Leiklistarskóla Íslands nema að undangenginni hæfnikönnun. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að þetta tel ég fráleita takmörkun með tilliti til þess starfs sem þetta fólk hefur þegar innt af hendi. Við eigum áreiðanlega eftir að njóta ávaxtanna af starfi þessa fólks og væri illa gert að stöðva það á þessu stigi og láta það gjalda þess, að frv. til laga um Leiklistarskóla Íslands hefur ekki komið fram fyrr en nú.