14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

206. mál, verðlagsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra þau orð af vörum hæstv. viðskrh. að málefnum neytenda væri og hefði verið of lítið sinnt hér á landi. Undir þetta vil ég taka. Það er fullkomlega rétt að neytendamálum, neytendavernd hefur verið sinnt minna hér á Íslandi heldur en í nálægum löndum og er það mjög miður.

Síðasta árið sem ég gegndi starfi viðskrh. lét viðskrn. semja vandaða löggjöf um neytendavernd sem fyrst og fremst var sniðin eftir slíkri löggjöf á Norðurlöndum. Frv. var svo seint tilbúið á vetrinum 1970–1971, þ. e. a. s. síðasta starfstíma eða starfsþingi kjörtímabilsins, að ríkisstj. taldi ekki fært að leggja frv. fram fyrir þetta síðasta þing fyrir kosningar, enda er hér um viðamikið mál að ræða þar sem vissulega getur ýmislegt orkað tvímælis þó að enginn vafi sé á heildarnauðsyn á því að almenn löggjöf um vernd neytenda sé sett. Á síðasta kjörtímabili innti ég fyrrv. hæstv. viðskrh. nokkrum sinnum eftir því hvort hann vildi ekki flytja þetta frv. eða hvers vegna hann flytti það ekki. Svör urðu aldrei önnur en þau að málið væri í athugun, en kjörtímabilinu lauk þannig að frv. var ekki flutt af hálfu þáv. ríkisstj.

Þegar ég heyri nú hæstv. núv. viðskrh. tala vinsamlega um nauðsyn þess að sinna málefnum neytenda meir en gert hefur verið, og ég gleðst yfir þeim orðum ráðh., þá vil ég nota tækifærið til þess að minna á að í viðskrn. er til fullbúið frv., mjög vandað og ítarlegt frv., um neytendavernd. Ég vil mjög mælast til þess við hæstv. ráðh. að hann kynni sér og kynni ríkisstj. þetta frv. og láti Alþ. síðan fjalla um það.