14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

206. mál, verðlagsmál

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Vegna orða, sem féllu hjá hv. flm. í sambandi við það frv., sem hér er til umr., vil ég segja nokkur orð.

Það var rétt hjá hæstv. viðskrh. þegar hann sagði, að flm. hefði farið ómaklega ómildum orðum í garð verslunarinnar, hann hefði tekið nokkuð mikið upp í sig þegar hann lýsti verslunarstéttinni og því hvernig hún starfaði. Ég vil taka undir þessi ummæli ráðh. um að það, sem flm. sagði hér um verslunarstéttina, var mjög ómaklegt. En það virðist því miður vera ær og kýr sumra Alþb.-manna að ráðast jafnan að versluninni með dylgjum og ýmsum vafasömum fullyrðingum. En þetta á ekki aðeins við um afstöðu þessara hv. þm., Alþb.- mannanna, til fólksins í þessari atvinnugrein, heldur á þetta einnig við um þegar þeir tala um að taka afstöðu til athafna fólks úti í atvinnulífinu almennt, og er það miður. Ég þarf ekki að rifja upp þann söng hér. Það nægir að vísa í ræður ýmissa hv. Alþb.- þm. í Alþt. En það er orðið tímabært að þessu sé mætt af fólki sem hefur starfað í þessari atvinnugrein og unnið þar með heiðarlegum hætti eins og fólk gerir yfirleitt úti í atvinnulífinu.

Það hefði fyrir löngu átt að mæta þessum árásum á verslunarstéttina og þeim rógi, sem er hafður um hana með þeim hætti að það væri kveðið niður í eitt skipti fyrir öll að þessi stétt inni störf sín í þágu þjóðarinnar af hendi með ósæmilegum eða óheiðarlegum hætti. Það sæmir ekki Alþ. íslendinga að hér sé verið að fullyrða að ákveðnir hópar eða ákveðinn hópur manna hagnist á erfiðleikum annarra eins og nú hefur átt sér stað, — þegar þjóðin býr við erfið og kröpp kjör, þá skuli hér vera sagt á Alþ. að ákveðnir menn hagnist á því ástandi.

Staðreyndin er — og það þekkjum við sem höfum starfað í verslun og við verslunarstörf — að íslenska verslunarstéttin hefur ekki borið meira úr býtum í góðærum síðustu áratuga heldur en þjóðin almennt. En íslendingar gera stöðugt meiri kröfur til aukinnar þjónustu á öllum sviðum. Á það jafnt við um verslun sem önnur þjónustusvið. Til þess að mæta þessum kröfum þarf í fyrsta lagi mikið vöruúrval, í öðru lagi miklar vörubirgðir, í þriðja lagi gott starfsfólk, í fjórða lagi rúmgóðar og nýtískulegar verslanir, í fimmta lagi fullkomin tæki og í sjötta lagi góð vinnuskilyrði. Verslunin hefur reynt að byggja sig upp með framangreindum hætti og tekist það vel þrátt fyrir skilningsleysi áhrifamikilla aðila.

Verðbólga, þröngar álagningarreglur í sumum þýðingarmiklum verslunargreinum og skilningsleysi yfirvalda á þýðingu t. d. birgðamyndunar í verslun hefur þrengt mjög kosti íslenskrar verslunar og alveg sérstaklega síðustu 3–4 árin.

Varðandi verðlagskerfið vil ég segja þetta: Í stað þess að vera að tala um hvernig hægt sé að keyra verslunina í viðjar og kerfi væri nær að við ræddum um það, hvernig hægt væri að efla samtök neytenda, þannig að neytendur gætu sjálfir skapað æskilegt aðhald í verðmynduninni, í frjálsri verðmyndun, en ekki verðmyndun sem ákveðin er ofan frá með valdboði.

Þá ber að skapa versluninni betri samkeppnisskilyrði með heiðarlegri afstöðu valdamanna til heilbrigðs rekstrargrundvallar fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar atvinnugreinar. Það er ekki sök verslunarinnar að álögur hafa verið þyngdar á landsmönnum undanfarin ár. Hvað segir hv. flm. um hinar auknu og þungu álögur sem hafa verið lagðar á þjóðina vegna ríkisgeirans, sem tekur nú um 35–40% af þjóðartekjunum, í stað þess að á tímum viðreisnarinnar frá 1960 tók ríkisgeirinn til sín um 25%. Mín skoðun er sú að þær álögur, sem þjóðin stynur hvað mest undan í dag, séu hugsanlega þær álögur sem felast í því, hvað ríkisgeirinn, ríki og sveitarfélög, er orðinn fyrirferðarmikill og þurftarfrekur á þjóðartekjurnar. Það er ekki verslunin. Verslunin hefur búið við þröngan kost lengi, það er sífellt gengið á álagningarreglur verslunarinnar og það er sífellt gengið á birgðamyndun hjá versluninni. Þetta er staðreynd sem við þekkjum sem störfum í þessari atvinnugrein. Ég vil svo að lokum vekja athygli á því þegar verið er að tala um verslun og viðskipti á Íslandi að í verslun eru fleiri starfandi en kaupmenn og kaupsýslumenn. Í verslun eru þúsundir starfsmanna og þá alveg sérstaklega konur. Ég get nefnt það sem dæmi að hér í Reykjavík munu um 60–70% af öllum starfandi verslunarmönnum í verslun vera konur. Um 60% af rekstrarútgjöldum verslunarfyrirtækja eru launakostnaður. Ég segi þess vegna, vegna þessa fólks sem þarf að lifa við þessa atvinnugrein og starfa og geta lifað mannsæmandi lífi. Ég krefst þess að sú atvinnugrein, sem það starfar í, fái eðlilegan og heilbrigðan rekstrargrundvöll, og ég krefst þess einnig að hætt sé að líta á þessa atvinnugrein sem einhverja hornreku og einnig að hér sé verið með vafasamar og hæpnar fullyrðingar um að þessi atvinnugrein og það fólk, sem þar starfar, vinni ekki með heiðarlegum hætti. Það starfar í þágu þjóðarinnar, starfar af bestu samvisku og samkv. þeim lögum og reglum sem þjóðin hefur sett varðandi verslun og viðskipti á hverjum tíma.