14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2903 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

193. mál, almannatryggingar

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 383 frv. til l. um breyt. á almannatryggingalöggjöf þeirri, sem nú er í gildi. Frv. þetta gerir ráð fyrir breytingu á 19. gr. gildandi laga um almannatryggingar sem fjallar fyrst og fremst um það að elli- og örorkulífeyrisþegar geta haft nokkrar tekjur umfram bætur almannatrygginga án þess að hin svokallaða tekjutrygging þeirra sé skert.

Meðal þeirra breyt., sem gerðar voru á l. um almannatryggingar á síðasta Alþ., var einmitt sú breyt. sem nú er í 19. gr. þeirra l. að viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþegi mátti hafa tekjur sem námu þá 37 500 kr. án þess að tekjutrygging væri skert. Nú er það svo í okkar þjóðfélagi að tiltölulega stór hópur einstaklinga sem njóta almannatryggingabóta, stundar jafnframt einhverja vinnu á hinum almenna vinnumarkaði, að vísu mismunandi mikla, en auk þess er nokkur hópur sem fengið hefur og fær tiltölulega smávægilegar greiðslur úr hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna, sem eru tiltölulega nýjar stofnanir. En þegar þetta hámark á þeim tekjum, sem þessir einstaklingar máttu innvinna sér án þess að þessi skerðing kæmi til, var sett, þá var allt annað viðhorf ríkjandi í launamálum og efnahagsmálum en nú er. Það lágmark, sem þarna var ákveðið, 37 500 kr., er nú komið í 41300 kr. og er öllum ljóst að það er allt of lágt miðað við þá verðbólguþróun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu síðan þetta var ákvarðað.

Sú breyting, sem ég vil á þessu gera, er þess efnis að þetta hámark, sem nú er 41 300 kr., verði 96 þús. kr., þ. e. a. s. sem svarar um 8000 kr. á mánuði, sem viðkomandi einstaklingar mega þá hafa í tekjur án þess að til skerðingar komi á tekjutryggingu úr almannatryggingakerfinu. Þar sem ég þekki til er það ótrúlega stór hópur launþega sem vinnur mismunandi langan tíma, t. d. í fiskiðnaði í frystihúsunum, en hefur þó bætur almannatrygginga eigi að síður eða er komið á þann aldur. Ég tel að það sé nauðsyn að stjórnvöld hagi þessum málum með þeim hætti að þetta fólk, sem innir af höndum störf í þágu þjóðarinnar allrar, sjái sér ekki hag í því að hætta þessari þjónustu, heldur verði svo um hnúta búið, að það geti haldið áfram þessari þjónustu, en þó verði ekki skert sú tekjutrygging sem það á kost á að fá úr almannatryggingakerfinu. Hér er sem sagt um þá einu breytingu að ræða að hækka þetta tekjumark frá því að vera 41 300 upp í 96 þús. kr. og viðkomandi einstaklingar njóti áfram tekjutryggingar ef þeir ekki hafa tekjur umfram það mark.

Ég þarf ekki, held ég, öllu fleiri orð um þetta að hafa. Hér er svo einföld og skýr breyt. sem lagt er til að gerð verði og að mínu áliti svo sjálfsögð allra hluta vegna, að ég vænti þess að hv. Alþ. sjái sér fært að verða við að samþykkja þessa breytingu. Ég vænti þess, þó að nokkuð sé áliðið þings, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, flýti störfum þannig að þessi breyting geti verið lögfest á yfirstandandi þingi. Ég á ekki von á því að þetta mæti andstöðu þm. eða stjórnvalda. Það var fyrir ári viss viðurkenning sem veitt var þessu fólki með því að heimila því að hafa tekjur að ákveðnu tekjumarki, en sú upphæð, eins og ég áður sagði, er orðin allt of lág og því ber brýna nauðsyn að mínu áliti til að hækka hana. Ég sem sagt vona og beini því til þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar, að hún hraði störfum þannig að málið geti komið hér til umr. og afgreiðslu áður en yfirstandandi þing lýkur störfum.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.