15.04.1975
Sameinað þing: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

199. mál, fjarskipti við Siglufjörð og talsamband milli Reykjavíkur og Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn í tveim liðum til hæstv. samgrh. Fjallar fyrri liðurinn um fjarskipti við Siglufjörð og er svo hljóðandi:

„Hvenær má vænta þess að metrabylgjustöð (VHF tíðnisvið) verði sett upp við loftskeytastöðina í Siglufirði?“

Á undanförnum árum hefur verið komið fyrir svonefndum VHF fjarskiptastöðvum við ýmsar loftskeytastöðvar á landinu. Nefna sjómenn stöðvar þessar örbylgjustöðvar, en réttnefni mun vera metrabylgjustöð. Stöðvar þessar munu nú vera 7 talsins og eru þær í öllum landshlutum nema á Norðurlandi, en sá landshluti hefur verið algjörlega afskiptur í þessu efni. Um nokkurt skeið hefur verið um það rætt að koma upp metrabylgjustöð í Siglufirði, en af framkvæmdum hefur enn ekki orðið. Beinist fsp. að því að fá vitneskju um það hvenær vænta megi framkvæmda, en hér er um að ræða mjög þýðingarmikla þjónustu við skipaflotann.

Síðari hl. fsp. er svo hljóðandi:

„Hvenær má vænta úrbóta á talsambandinu milli Reykjavíkur og Norðurlands?“

Álag á símalínur milli Norðurlands og annarra landshluta er nú orðið mjög mikið og oft svo að ógerlegt reynist að ná símasambandi. Í rauninni má segja að ekki sé um neitt sjálfvirkt símasamband að ræða langtímum saman suma daga því að ekki reynist unnt að komast inn á neina línu. Hefur ástandið farið stöðugt versnandi undanfarin ár vegna aukins álags, enda hefur símanotendum stöðugt farið fjölgandi. Eins og eðlilegt er una menn þessu ástandi illa og þess vegna er brýn þörf úrbóta eins fljótt og við verður komið. Því hafa menn hug á að fá vitneskju um það hvenær úrbóta megi vænta.