15.04.1975
Sameinað þing: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

340. mál, rannsókn rækjumiða við Grímsey

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann veitti. Það er augljóst að mikið skortir á að búið sé að rannsaka miðin við Grímsey og á því svæði en það er gott að vita það að nú er ráðgert að Hafþór stundi þessar rannsóknir í sumar.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, aðeins láta í ljós enn einu sinni ánægju mína yfir því að hafa fengið þessi svör og að vita að nú á að fara að vinna að þessu. Ég vil þó segja það, að mér þykir rétt, sem varla er þó kannske þörf á að nefna, að þarna verði að fara með verulegri gát um veiðar á meðan fullnaðarrannsókn hefur ekki farið fram. Eins vil ég að það komi fram að ákvörðun um framtíðarnýtingu þessara rækjumiða verði gerð að vel athuguðu máli og í samráði við þá aðila sem næst búa þessum miðum og hafa því sérstaka hagsmuni af því hvernig þau verða nýtt. Þessu atriði vil ég gjarnan koma á framfæri hér í sambandi við þessa fsp., en endurtek þakkir mínar fyrir þær upplýsingar sem fram komu í svari hæstv. ráðh.