21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um samræmingu milli vinnslu sjávarafla og veiða, sem eru háðar sérstökum leyfum, er þess efnis að sjútvrn. geti sett almennar og svæðisbundnar reglur sem stuðla að samræmingu milli veiðiheimilda samkv. sérstökum leyfum rn. til rækju- og skelfisksveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, m.a. með skiptingu afla eða þeirra báta, sem veiðileyfi hljóta, milli vinnslustöðva.

Veiðar á ýmsum tegundum sjávarafurða eru, eins og kunnugt er, háðar sérstökum leyfum sjútvrn. og hefur ásókn í slík leyfi, einkum skelfisks- og alveg sérstaklega rækjuveiðileyfi, á mörgum veiðisvæðum verið mun meiri en æskilegt hefur verið. Rn. hefur því oft á undanförnum árum þurft að ákveða reglur til takmörkunar, bæði á afla og sókn í þessar veiðar. Í því sambandi má benda á ýmis skilyrði sem rn. hefur sett til þess að menn geti fengið þessi veiðileyfi á ákveðnum svæðum, svo sem kröfur um að eigendur og skipstjórnarmenn hafi verið búsettir á viðkomandi svæði í eitt ár, báturinn sé þar skrásettur og jafnvel að báturinn megi ekki vera undir eða yfir ákveðinni stærð.

Þykir rétt að sá aðili, sem ákveður aflamagnið á viðkomandi svæði, hafi einnig hönd í bagga með þeirri alhliða þróun sem átt hefur sér stað. Og þá liggja sömu rök til þess að á ákveðnum sviðum, þar sem sjútvrn. getur takmarkað veiðarnar með útgáfu sérstakra leyfa eða synjun á útgáfu þeirra, skuli það sama rn. einnig hafa heimild til takmörkunar á aukningu á afkastagetu vinnslustöðva fyrir sömu afurðir.

Ég held að með þessu frv. sé verið að koma á samræmingu á milli veiða og vinnslu, þar sem veiðar eru háðar leyfum stjórnvalda á hverjum tíma. Ég held að það, sem hefur verið gildandi á undanförnum árum og það um alllangt skeið, geti engan veginn gengið lengur, vegna þess að það hefur sífellt fjölgað bátum sem sækjast í þessar veiðar, jafnhliða því að mikið kapp hefur verið á milli staða bæði um að reisa nýjar vinnslustöðvar og auka stórlega afkastagetu þeirra vinnslustöðva sem fyrir eru. Þó að megi segja að lánastofnanir geti haft nokkurt aðhald í þessum efnum, hefur það ekki reynst vera. Þess vegna hefur sjútvrn. talið eðlilegt að flytja frv. með þetta fyrir augum, að samræma vinnslu sjávarafla og veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum, en einskorðað eingöngu við þessar svæðisbundnu veiðar, sem sé á skelfiski og rækju sem unnin er í þessum sérstöku vinnslustöðvum. Ég tel ekki ástæðu til þess að svo stöddu að orðlengja frekar um gagnsemi þessa frv., en legg til, forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.